Nú þegar Íslendingar eru afar uppteknir af tengslum sínum við Norðmenn er ákaflega viðeigandi að fá bók sem bæði lýsir fjölskyldu sem flytur til ársdvalar þar í landi og ræðir samskipti þjóðanna frá fyrri tímum. Þau samskipti eru auðvitað frá miðöldum og því kannski nokkuð fjarri ætluðum lesendum bókarinnar, frá tíu ára aldri, en hér eru þau sett í samhengi við málefni dagsins í dag.
Bók Kristínar Steinsdóttur, Hetjur, fjallar því að hluta til um hetjur og hetjudáðir fornritanna. Það eru aðallega þeir Snorri Sturluson og Ólafur konungur Tryggvason sem eru í brennidepli, því fjölskyldan dvelur í Þrándheimi og þar trónir kóngsi uppi á gífurlega háum stalli. Sagan er sögð frá sjónarhorni tólf ára stráks sem heitir því erfiða nafni Þórhallur Þórðarson. Hann er ekki allskostar sáttur við flutningana, er svolítið lítill í sér og kvíðir fyrir því að fara í nýjan skóla fjarri vinunum heima. Enda reynist skólavistin í fyrstu fremur ömurleg, hann er einmana og á erfitt með að ná tökum á því að vera útlendingur sem hvorki skilur málið né talar það. Og hann hugsar til Múkka, stráks frá Sri Lanka sem komið hafði í bekkinn hans á Íslandi og alltaf verið einn og útundan.
Í skólanum er kennarinn upptekinn af þessum Íslendingi og fjasar stöðugt um Snorra Sturluson og þannig flækist Heimskringla inn í málið, pabbi Þórhalls fer svo að segja honum sögur af Ólafi Tryggvasyni og hetjudáðum hans. Loks eignast strákurinn vin, Erlend, sem einnig er upptekinn af þeim félögum Snorra og Ólafi og leiðir Þórhall enn frekar inn í heim miðalda.
Það er hér sem Kristín kemur fram með nýja og áhugaverða hlið á fornsagnaarfinum, en sá hefur verið nokkuð áberandi í íslenskri nútímamenningu undanfarin ár. Í stað þess að hrífast af hetjudáðum hins norska konungs og sagnaritara hans fær Þórhallur ógeð á þessu öllu saman og finnst lítið til koma. Honum ofbýður grimmdin og sér lítinn tilgang í því að upphefja dráp og stríð. Þetta er síðan speglað í stríðsátökum í miðausturlöndum, en yngri systir hans á vinkonu þaðan sem missir ættingja í sprengjuárás.
Þannig skín boðskapur sögunnar vel í gegn, næstum of vel, en auk gagnrýni á hetjudáðir er einnig verið að minna á stöðu innflytjenda og aðkomufólks. Að þessu leyti er saga Kristínar kannski helst til hefðbundin og dálítið gamaldags í tóntegund, en á hinn bóginn má einnig benda á að það er heldur ekki verið að reyna að ná til lesendahópsins með einhverjum tungumála-stælum og æsingi sem svo auðveldlega getur virkað tilgerðarlegur.
Kristín kryddar svo söguna með ýmsum hálf-yfirnáttúrulegum atburðum sem ýta undir dálítið dularfullt andrúmsloft, en þetta blandast ágætlega þeim vangaveltum um fortíðina sem liggja til grundvallar sögunni og mynda andstæðu við hið ofurhversdagslega líf fjölskyldunnar. Það eru þó tökin á fornsagnaarfinum sem standa uppúr hér og eru mikilvægt mótvægi við næstum barnslegu sýn Íslendinga á hetjur Íslendingasagnanna sem riðu um héröð og hjuggu mann og annan, í sama knérunn og af því þeir lágu svo vel við höggi. Eigi skal höggva sagði Snorri víst, en átti þar við sjálfan sig en ekki aðra. Það segir kannski sitt um þau viðhorf sem Kristín er að gagnrýna í Hetjum.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2009