Beint í efni

Hið fullkomna landslag

Hið fullkomna landslag
Höfundur
Ragna Sigurðardóttir
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Hið fullkomna landslag er fjórða skáldsaga Rögnu Sigurðardóttur en sú fyrsta, Borg, kom út 1993, Skot kom 1997 og Strengir árið 2000, en auk þeirra hefur Ragna skrifað ljóð og smásögur.

Í Hinu fullkomna landslagi segir frá listfræðingnum Hönnu sem kemur heim til Íslands til að taka við deildarstjórastöðu á listasafni borgarinnar eftir margra ára búsetu í Amsterdam.  Á safninu kynnist hún forverðinum Steini, sem trúir henni fyrir því að hann telji verk sem nýlega var gefið safninu falsað. Gefandinn er vinkona safnstjórans og málverkið er talið eftir eina af fremstu listakonum þjóðarinnar.  Það er því ekki auðsótt mál að fá að hreinsa verkið og sjá hvað leynist á bak við myndina.  Í sögunni vísar höfundur til fölsunarmála sem skóku íslenskt lista- og menningarlíf fyrir  ekki svo mörgum árum síðan. Steinn rifjar það mál upp fyrir Hönnu, og þar með lesendum, en hún var ekki á landinu þegar það komst í hámæli. En það eru ekki einungis málverkin sem geta veri fölsuð, svikin leynast einnig meðal samstarfsmanna og þeirra sem Hanna telur vini sína og kollega. Í Amsterdam skilur hún eftir eiginmann og unglingsdóttur og í hjónabandinu þarf hún einnig að takast á við svik og óheiðarleika.  Í sögunni er tekist á við þessa þætti í samskiptum fólks, ásamt vináttu, ást og trausti. Það á bæði við um mannfólkið og myndlistina að yfirborðið segir ekki allan sannleikann um innihaldið og það getur reynst dýrkeypt að dæma eftir útlitinu einu saman.  Hið fullkomna landslag er kannski ekki fullkomið þegar betur er að gáð. Inn í söguna blandast einnig saga unglingspiltsins Kára, veggjakrotara með mikla listræna hæfileika, sem Hönnu langar til að hann læri að virkja á réttan hátt.   

Ragna dregur upp nákvæmar myndir af umhverfi og persónum og stíllinn nýtur sín einkar vel í lýsingum á málverkum horfinna meistara, en ýmislegt í umhverfinu minnir Hönnu á gömul listaverk sem hún þekkir. Myndrænn textinn gera það einnig að verkum að lesendur sjá persónur og atburði ljóslifandi fyrir sér. Í þessu samhengi verður að minnast á kápuna, frábær hugmynd og myndin af verki Þorra Hringssonar segir allt sem segja þarf um verkið sem málið snýst um.

Hið fullkomna landslag er bók sem vekur til umhugsunar um mál sem ótrúlega fljótt hefur fyrnst yfir. Forvörðurinn Steinn, sem höfundur notar til að fræða Hönnu um atburði sem átt hafa sér stað meðan hún dvaldi erlendis, segir að mikill hluti þeirra verka sem sérfræðingar álitu fölsuð hafi farið aftur í umferð og hangi nú á veggjum landsmanna, ranglega merkt látnum meisturum.  Það þarf hins vegar kjark til að takast á við þetta efni, kjark sem safnstjórinn yfirmaður þeirra hefur ekki, enda stundum auðveldast að láta sem ekkert sé. 

Ragna Sigurðardóttir er myndlistarmenntuð og auk þess að starfa við myndlist og ritstörf skrifar hún myndlistargagnrýni í Morgunblaðið. Hér er hún því á heimaslóðum, að skrifa um efni sem hún gjörþekkir. Við lesendur njótum þess, sagan sat alla vega í mér löngu eftir að lestri lauk og nú bíð ég bara eftir að vinir og kollegar klári hana líka svo ég geti farið að ræða efnið við þau.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2009