Æviágrip
Ragna Sigurðardóttir (Ragnheiður Sigurðardóttir) er fædd í Reykjavík 10. ágúst 1962. Hún lærði myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hélt síðan eftir útskrift í framhaldsnám til Hollands. Um skeið bjó hún einnig í Danmörku en er nú flutt til Íslands þar sem hún starfar sem rithöfundur og myndlistarmaður.
Ragna gaf út kverið Stefnumót árið 1987. Tveimur árum síðar kom út önnur bók, Fallegri en flugeldar og aftur liðu tvö ár fram að þriðju bók hennar, 27 herbergi. Í tveimur þessara þriggja bóka eru einnig myndverk eftir höfund. Árið 1993 kom út skáldsagan Borg og vakti hún talsverða athygli. Hún var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Síðan hefur Ragna sent frá sér fimm skáldsögur, síðast Vinkonur árið 2016. Þremur árum síðar kom út bók hennar Vetrargulrætur: sögur. Ragna hefur einnig ritað greinar í blöð og tímarit og þýtt fjölda skáldsagna, mest úr hollensku, en einnig ensku og dönsku.
Ragna býr í Bessastaðahreppi.
Forlag: Mál og menning.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Um höfund
„Dásamlegt haust í borginni minni.“ Um verk Rögnu Sigurðardóttur
Djúpt ofaní moldinni finnur konan í einu ljóða Rögnu Sigurðardóttur appelsínur: „sætar og safaríkar appelsínur.“ Um morguninn hafði hún greitt sér og strokið höndinni yfir gróðurinn: „Finnur blóm springa út undir fingurgómunum. Sóleyjar og baldursbrár.“ Svo fer hún út í garðinn og „rótar og grefur með berum höndum“ með fyrrgreindum afleiðingum.
Ljóðið, sem er ótitlað, er þriðja ljóðið í bókinni Fallegri en flugeldar (1989) og er lýsandi fyrir nálgun Rögnu, textinn er ákaflega myndrænn, stíllinn einkennist af öguðu og sláandi myndmáli og er dálítið upphafinn án þess að vera tilgerðarlegur og fantasían er látlaus og sjálfsögð. Ragna Sigurðardóttir er menntuð myndlistarkona en hefur jafnframt starfað sem rithöfundur. Fyrsta bók hennar var safn smásagna/prósaljóða sem nefnist Stefnumót (1987), en sameiginlegt einkenni prósanna er að þeir ganga í hringi, og eiga því einskonar stefnumót við upphaf sitt. Textar Rögnu eiga líka stöðug stefnumót sín á milli: í lokaljóði bókarinnar Fallegri en flugeldar segir bláklæddi verndarengillinn: „Herbergin eru tuttuguogsjö. Þú verður að byrja á byrjuninni“ en ein bók Rögnu heitir einmitt 27 herbergi (1991). Upphafsljóð hennar kallast svo á við skáldsöguna Borg (1993) en þar segir að göturnar séu eins og djúpar gjár, en þannig er götum borgarinnar einmitt lýst.
Eins og áður sagði eru textar Rögnu mjög myndrænir, næstum áþreyfanlega svo og það eru þessar myndir sem kallast á hver við aðra milli blaðsíðna og bóka. Þessi myndaheimur er hálfsúrrealískur þarsem veruleiki og ímyndun verða afstæð, skartgripir lifna í myndmáli sögunnar „á vetrarmorgni“ þarsem „snákar gæla við hálsinn og upphandleggina“ því „á henni er gullið lifandi.“ Draumar renna inn í veruleika í sögunni „Í flæðarmálinu“, en þar dreymir sögukonuna hafmeyjar. „Hún vaknaði nakin. Teygði úr sér á blautri klöppinni og fann fyrir hreistruðum líkömum allt í kringum sig. Svo breytast draumarnir: „þar var hún tvífætt með mjúka húð og heitt blóð“, og þegar hún vaknar með andfælum strýkur hún líkama sinn: „Gamalkunnig snertingin við hreistrið róaði hana.“ Í 27 herbergjum ríkir einskonar ofurveruleiki sem verður súrrealískur í einfaldleik sínum og þokukenndu umhverfi hótelherbergjanna 67 sem myndskreyta bókina og kallast á við titil hennar. Ekki einungis eru herbergin mun fleiri en titillinn gefur til kynna heldur eru ljóðin sjálf 28, þannig er jafnvæginu raskað, hlutirnir eru aldrei það sem þeir sýnast eða gefa sig út fyrir að vera, enda segir í upphafsljóðinu: „Þegar ég fer segist ég aldrei munu koma aftur en ég er alltaf hér.“
Þessar fyrstu ljóða/prósa bækur Rögnu, Stefnumót og Fallegri en flugeldar einkennast allar af líkamlegu myndmáli sem oftar en ekki hefur sterka erótíska tóna. Áherslan er mjög líkamleg, konur elskast, skipta hömum, drepa og eru drepnar og litast blóði, eigin og annarra. 27 herbergi mætti næstum lesa eins og minningabók, eða myndaalbúm hugans, ljóðin eru smámyndir úr daglegu lífi:
Ég var hjá tannlækninum. Hallaði mér aftur í stólnum. Stúlka aðstoðaði hann. Þau voru bæði með grænar grímur. Allt í einu tók ég eftir því að þau höfðu bæði sérstaklega falleg augu, hans voru brún, hennar græn. Eitt andartak varð ég mjög glöð.
Textinn einkennist af meiri fjarlægð en er í fyrri bókunum tveimur, og er það í stíl við fjarrænan einfaldleik hótelherbergjanna. Saman mynda herbergin 27 á sinn hátt ókennilega mynd borgar eða jafnvel ferðalags milli borga og mörg ljóðanna vísa til borgarmyndar, gata sem er full af gulli og gyðingum, götur sem eru hálar af ís og snjó, neðanjarðarlestarferðir og ástarfundir:
Þegar ég hitti þig fyrst varð ég prinsessa. Þú varst prinsinn minn og sendir mér pappírskossa úr símskeytum þá morgna sem þú varst í burtu. Þetta var dásamlegt haust í borginni minni, hún hafði aldrei verið eins falleg.
Í skáldsögunni Borg finnur ungi auglýsingahönnuðurinn Logi ferðabækling sem lýsir borg. Eftir smá tíma áttar Logi sig á að þessi borg er sú sem hann býr í jafnframt því að vera annað og meira, því texti bæklingsins hefst svo: „Borgin er allar borgir. Hún er alheimsborg. Hvert smáatriði innan hennar er tákn allra annarra í öllum öðrum borgum“ (19). Þetta er svo ítrekað síðar í sögunni þegar málvísindakonan og þýðandinn Vaka fer í þýðingarleik með borgina, hún „les sig eftir eftir ímynduðu korti eins og blaðsíðu í bók, frá vinstri til hægri“ og ber borgina saman við aðrar borgir: „Í New York væri Laugavegurinn Broadway, í Amsterdam Kalverstraat, í Kaupmannahöfn Strikið“ (92). Þannig er borgin ekki aðeins allar borgir heldur einnig sjálf bókin, Borg, eins og reyndar verður ljóst þegar textabrot úr ferðabæklingnum taka að birtast í texta skáldsögunnar, sem eðlilegur hluti af frásögninni. Á endanum birtist svo borgin sjálf í texta bókarinnar, gerir þar næstum áþreyfanlega innrás í tveimur köflum þarsem lýst er torginu sem er ekki til á neinu korti, samkvæmt ferðabæklingnum. Fljótlega kemur kafli sem lýsir eftirmiðdegi á slíku torgi. Kaflinn sker sig úr frásögninni að því leyti að sjónarhornið er óþekkt, en annars er skáldsagan skrifuð frá sjónarhorni þriggja persóna hennar, Úllu, Vöku og Loga. Síðar í skáldsögunni birtist kaflinn svo aftur, nema nú er torgið séð að morgni og atburðirnir eru örlítið frábrugðnir. Í þriðja sinn kemur kafli um torgið, samhljóða þeim fyrsta, nema nú sést hann varla, heldur kemur fyrir sjónir eins og dauf eftirmynd af sjálfum sér, prentaður gráu letri utan smáorðin sem eru svartletruð. Að lokum hittum við torgið fyrir á miðnætti, aftur lítillega frábrugðið fyrsta kaflanum. Með þessu móti ítrekar borgin nærveru sína í textanum.
Skáldsagan Borg er með eftirminnilegri og markverðari skáldsögum tíunda áratugarins, hún hefur ákveðna sérstöðu í íslenskri bókmenntasögu og getur hiklaust kallast bókmenntalegur viðburður. Sagan segir frá þremur ungmennum í borg sem minnir um margt á Reykjavík en er henni þó stórlega frábrugðin. Úlla er sú persóna sem er nátengdust borginni sem er lýst sem lifandi líkama „sem Úlla skynjar út í fingurgóma“ og „andar í takt við þennan líkama.“ Úlla vinnur í álverinu sem er staðsett utan borgarinnar og í skemmtilega óvenjulegu myndmáli er tengslum hennar við borgina lýst sem náttúrulegum: „Hún er náttúrubarn, í beinum tengslum við borgina, göturnar, sólina, hitann, bílana, stelpuna sem dillar rassinum fyrir framan hana á gangstéttinni“ (32). Logi er einnig borgarbarn en á ólíkan hátt en Úlla. Hann vinnur við auglýsingagerð sem hann tók til við frekar en að semja ljóð: „Form auglýsinganna er hnitmiðað, áhrifamikið, sjónrænt, beint í æð“ (62) segir hann, að því er virðist í ómeðvitaðri samlíkingu við form ljóða. Þriðja persónan er tungumálaneminn og þýðandinn Vaka, sem lítur á sjálfa sig sem sendiboða orða, hún „sækir orð og ber með sér heim, lagar þau að sínu eigin svæði eins og landkönnuður sem flytur með sér framandi vörur; innan skamms verða þær hluti af samfélagi hans“ (34). Milli þessara þriggja myndast einskonar undarlegur ástarþríhyrningur, en óljós og erfið ástarsambönd, eða ástarsambönd sem enda skyndilega eru algengt stef í skáldsögum Rögnu, líkt og reyndar einnig í prósunum í 27 herbergjum.
Fyrst og fremst er skáldsagan þó einskonar hugmyndafræðileg úttekt á fyrirbærinu/hugtakinu borg, en vel heppnuð hugmyndafræðileg úttekt af þessu tagi er sannlega sjaldséður hvítur hrafn í íslensku bókmenntalandslagi. Eins og áður sagði minnir borgin um margt á Reykjavík og vísar klárlega til Íslands. Þó er þetta ekki sá veruleiki sem borgarbúar þekkja, heldur birtist í sögunni einskonar kunnuglegur framandleiki, eða eins og segir í lýsingunni á ferðabæklingnum sem Logi skoðar: „Myndirnar eru kunnuglegar en hann er ekki viss um hvar þær eru teknar. Sjónarhornin sem þær sýna eru honum framandi“ (19).
Þessi framandlegi kunnugleiki er í takt við kenningar um borgir og borgarmenningu, og hugmyndir um hvernig borgin mótast í vitund borgarbúa. Chris Jenks segir í grein sinni um að skoða borgir að hin reglulega en þó óreglulega ferð sem borgin sér okkur fyrir, og sem hún byggir á, býður upp á stöðugar og óendanlegar klippimyndir af ímyndum og er því uppspretta (repository) fyrir ferska beitingu ímyndunaraflsins. Chris Jenks, „Watching Your Step: The history and practice of the flâneur„, í Visual Culture, ritstj. Chris Jenks, London og New York: Routledge, 1995, bls. 155.
Eitt af einkennismerkjum borgarinnar er það neyslusamfélag sem býr hana til og mótar ásýnd hennar. Í Borg spila auglýsingar mikið hlutverk og gefa skáldsögunni á köflum „kvikmyndalegt“ yfirbragð, að því leyti sem þær birtast okkur sem einskonar „kvikmyndahandrit“. Logi er upptekinn af auglýsingum sem fyrir hann er leið til að njóta lífsins til fulls, fá aðeins það besta, og Úlla svarar Vöku oft í auglýsingafrösum sem hún grípur upp af fjölmörgum auglýsingaskiltum utan og innan borgarinnar. Á stundum renna margir auglýsingatextar saman eins og þegar Úlla situr í rútunni frá álverinu á leið til borgarinnar:
FALLEG MYNSTUR SKAPAST Á MILLJÓNUM ÁRA GÖFUGAR HUGSANIR EKKERT ENDIST LENGUR EKKERT FER HRAÐAR BÓKMENNTIR LÍFRÆNIR ÞÆTTIR EINBEITA SÉR AÐ FRAMKOMU ÞAÐ ER UM SVO MARGA LITI AÐ VELJA VAL UM ENDALOK NÍTJÁN MÖGULEIKAR SEM ERU ÞÉR AÐ SKAPI NOKRAR MÍNÚTUR Á DAG GERT FYRIR ALLAR HÚÐTEGUNDIR (11)
Á sama hátt rennur landslag borgarinnar saman í einn graut því erfitt er að skilja milli hverfa (sem þó eru skýrt aðskilin): „Gengið er yfir eina götu, og skyndilega er vegfarandinn staddur í öðrum heimi“ (27) segir í ferðabæklingnum og svo má ekki gleyma torginu sem ekki finnst á neinu korti, en þaðan liggur leiðin að því er virðist óhjákvæmilega „út á stórt hvítt torg umkringt kirkjum og opinberum byggingum. Hringinn í kringum torgið eru útikaffihúsin iðandi af lífi og á sólríkum sumardögum gengur kliður líflegra samræðna í bylgjum yfir heitt torgið“. Þegar hingað er komið sögu hættir Logi að lesa og uppgötvar að hann er staddur á miðju því torgi og „andartak hikar hann, í undrun sinni yfir því að lesa um andartakið og upplifa það um leið“ (26).
Þetta flæði eins í annað, milli auglýsinga, gatna og lýsinga og veruleika minnir á lýsingu Michels de Certeau á þeim sem stundar borgina, „en líkamar þeirra fylgja „texta“ borgarinnar gegnum þykkt og þunnt, texta sem þeir skrifa án þess að geta lesið hann.“ Þeir nota sér rými sem eru í raun ósýnileg og stígarnir sem þeir fara eru ósamþykkt ljóð þarsem hver líkami er undirritaður af fjölda annarra til að forðast löggildingu. „Þéttriðið net þessara hreyfanlegu skrifa sem renna sundur og saman, semja marglaga sögu sem á sér hvorki höfund né áhorfanda, mótuð úr brotum slóða (trajectories) og breytinga á rými: í tengslum við framsetningarmáta, er hún daglega og óendanlega önnur/ólík.“ Tilvitnun fengin úr grein Chis Jenks, „Watching Your Step: The history and practice of the flâneur„, í Visual Culture, ritstj. Chris Jenks, London og New York: Routledge, 1995, bls. 156.
Jón Karl Helgason bendir á í grein sinni „Og borgin tekur mig“ að „einstök atriði í frásögn Rögnu vísa til hliðstæðra lýsinga í öðrum íslenskum skáldsögum með svo skýrum hætti að vart er um tilviljun að ræða.“ Jón Karl Helgason, „Og borgin tekur mig“. Borgarkort fjögurra sagnaskálda“, í Skírni, haust 1999, bls. 483. Að þessu leyti staðsetji skáldsagan sig klárlega í ákveðnum anga af íslensku bókmenntalandslagi. Þetta landslag myndi þó flestum almennum lesendum þykja fremur framandi, en hér er um að ræða tvær næsta óþekktar skáldsögur Jóhamars og Jóns Gnarr, Bygginguna (1988) og Miðnætursólborgina (1989), og eina nokkuð þekktari, Stálnótt Sjóns (1987). Allar einkennast þessar borgarsögur af framtíðarsýn, sem er bæði ógnvænleg og ævintýraleg og sækir fyrirmyndir í vísindaskáldsögur og vísindamyndir eins og Jón Karl bendir á.
Í næstu skáldsögu sinni, Skot (1997) er Ragna enn á slóðum borgar, nema nú er það samtíma landslag Rotterdam sem er sögusviðið. Frásögnin tekur til tveggja ólíkra menningarheima sem spunnir eru saman í eina heild. Annarsvegar er hinn útlendi og nútímalegi heimur sakamálasögu og hinsvegar hinn aldni íslenski þjóðsagnaheimur, sem birtist í fuglsfylgjunni Bokka. Enn er Ragna ófeimin við að gera tilraunir með efni og form. Skáldsagan Skot hefur heilmikinn sjarma og er um margt bæði skemmtileg og áhugaverð, þó ekki sé hún eins óvenjuleg og Borg. Sagan segir frá Margréti sem búsett er í Rotterdam í Hollandi og fylgju hennar Bokka. Einn daginn rekst hún á hinn fríða og sjarmerandi Arno í bókabúð, tekur hann heim og flekar hann, en þegar hún fylgir honum út á götu er hann skotinn niður fyrir framan hana. Bæði heilluð og skelkuð leggur Maggan út í leit að morðingja, leit sem er um leið leit að einskonar mynd af manninum sem er faðir ófædds barns hennar, því hún er ólétt eftir fyrsta skot. Þannig er frásögnin að einhverju leyti ávarp til þessa barns. Textinn er tálgaður, frásögnin öguð og einkennist af fjölda innskota og myndskota. Það er greinilegt að bygging verksins er undir áhrifum frá kvikmyndum, og koma þar til áðurnefnd skot, þarsem klippt er hratt milli sviða. Þetta er stílbragð sem virkar vel og á ríkan þátt í því að skapa andrúmsloft og spennu innan sögunnar. Dæmi um kvikmyndaáhrif eru kaflarnir sem lýsa sjálfu skotinu, „Hringsjá“ og „Plast.“ Í upphafsorðunum að „Hringsjá“ ræðir söguhöfundur beinlínis þessa tækni:
Ef við trúum því að hægt sé að líkja augum okkar og heila við ljósmyndavél og filmu og að heilar okkar nemi umhugsunarlaust allt það sem fyrir augu okkar ber og greypi það óafturkallanlega í minni okkar, væri eftirfarandi kafli marktæk lýsing á því sem greypt er í minni Arnos á því augnabliki þegar hann hnígur niður við enda Lage Erfbrug með byssukúlu í hjartanu, þann 27. apríl 1997, klukkan 17:12. (23)
Inn í söguna blandast lögreglumaðurinn Eiríkur og ljósmyndari nokkur, sem er ekki allur þar sem hann er séður, auk vinkvenna Möggunnar.
Á undanförnum árum hafa rithöfundar hérlendis sem erlendis nýtt sér í æ ríkari mæli form og tækni afþreyingarbókmennta og kvikmynda. Kemur þar tvennt til; annarsvegar einkennist tíðardraugurinn af ákveðnu afturhvarfi til frásögunnar og hinsvegar hefur bilið á milli fagurbókmennta og afþreyingarbókmennta verið að minnka, samfara breyttri nálgun á gildis- og gæðamat þarsem viðmiðunin er ekki lengur ein og algild, heldur er gefið svigrúm til þess að meta verk á breiðari grunni forsenda. Sakamálasagan hefur verið vinsælasta endurnýtta formið, enda má á vissan hátt líkja öllum skáldsagnalestri við spennusögu þarsem lesturinn er keyrður áfram af lönguninni eftir endinum og úrlausninni.
Þó væri erfitt að halda því fram að Skot Rögnu sé hefðbundin sakamálasaga, því hún nýtir sér sakamálasöguformið á sjálfstæðan og markvissan hátt, án þess endilega að halda við það fullri tryggð. Þetta kemur meðal annars fram í því að inn í hið háraunsæa form sakamálasögunnar fléttar Ragna ævintýralegt þjóðsagnaminni, sem birtist í fylgjunni Bokka og er það samspil hiklaust eitt af því best heppnaða við Skot. Fylgjan í íslensku þjóðsögunni er bæði einskonar verndarengill og einskonar annað sjálf, eða tvífari þess sem fylgt er. Sem slík þarf fylgjan að eiga sjálfstæðan leik, enda kemur það fljótt í ljós að hlutur Bokka í sögunni er meiri en bara sá að fylgja Möggu. Ragna kýs þá leið að gera fylgjuna sýnilega öllum sem vilja sjá, og eykur þetta enn á vægi Bokka, jafnframt því að fantasían fær hérna á sig slaufu, fylgja sem er sýnileg er ekki sama fyrirbæri og sú sem er hulin, og því fær Bokki á sig yfirbragð raunsæis um leið og hann er skýrt skilgreindur sem yfirnáttúruleg vera.
Í skáldsögu Rögnu er fylgjan eðlilegur hluti af daglegu lífi Íslendingsins, ekki ólíkt heimi fylgjanna í þríleik Philip Pullmanns, Gyllti áttavitinn, Lúmski hnífurinn og Rafgula njósnaglerið (tvær fyrri bækurnar hafa komu út í íslenskum þýðingum 2002 – 2001 og sú þriðja er væntanleg). Maggan er bara stelpa þegar hún sér fylgju sína í fyrsta sinn og áttar sig ekki strax á því, „ég vissi ekki þá að fylgjur eru oft í fuglslíki“ (33). Henni er lýst sem samblandi af hrafni og uglu og Möggunni líst ekki nema mátulega á hana: „Hvað gerirðu, annað en að banka á dyr á undan mér?“ Bokki móðgast við þetta og bendir henni á að hann passi upp á hana, auðvitað, „Þetta bank er meira gamall vani“ (34). Og þrátt fyrir að Bokki líti óvenjulega út undrast fólk það furðu lítið að talandi ugla sé á staðnum. Sumir verða þó forvitnir og þá verður Maggan að „segja þeim allt um íslenskar fylgjur“, sem auðvitað eru „ekki alltaf eins og fuglar, heldur oftast ósýnilegar og sumir segja þær séu ekki til“ (36). Þannig spilar Ragna með þjóðsöguna jafnt og sakamálasöguna og skapar úr þessum formum fléttu sem er bæði vel skrifuð og forvitnileg.
Eins og áður sagði liggja greinilegir strengir milli fyrstu ljóðabóka Rögnu og yfir í skáldsöguna Borg. Þrátt fyrir áframhaldandi áherslu á myndræna sýn og agað tungumál er Skot mjög ólík þessum verkum og það sama má segja um Strengi, þriðju skáldsögu Rögnu sem var gefin út árið 2000. Strengir er ástarsaga sem segir frá Maríu og Boga sem hittast þegar þau eru um tvítugt og verða ákaflega ástfangin. Þau fara að búa saman og eilíf hamingja virðist tryggð. En svo koma brestir í sambandið og leiðir skilja, bókstaflega þegar María tekur skyndiákvörðun um að fara út úr bænum eitt sumar og vinna og Bogi tekur álíka skyndilega ákvörðun um að fara til Kaupmannahafnar að leita að afvegaleiddum vini sínum. Tíu árum síðar hittast þau aftur og eiga ýmislegt óuppgert. María er þá einstæð móðir en Bogi giftur með tvö börn, og áður en veit af blossar ástin upp aftur og þau taka upp samband.
Eins og fyrr er helsti styrkur Rögnu heillandi stíll og sérstök sýn á umhverfið. Þarna er á ferðinni fremur hefðbundin og kunnugleg ástarsaga, með tilheyrandi þríhyrningsformum og umræðum um ást, svik og trúnað, sem Ragna gæðir lífi með ágætri persónusköpun og sérstæðri beitingu tungumáls þarsem nýtur sín vel myndræn þjálfun skáldkonunnar. Eitt af því skemmtilegasta við bókina er ramminn utanum aðalsöguna og þá sérstaklega ramminn um aðalpersónuna Maríu. María er dóttir einstæðrar móður og þegar hún segir Boga frá fjölskyldu sinni nefnir hún bara konur. „Hvað með karlmennina í ættinni“ spyr hann og fær það svar að þeir séu engir, að aldrei sé talað um neina karlmenn og þannig samanstandi ættin af einstæðum mæðrum í margar kynslóðir. Þarna er verið að byggja upp sérstaka fjölskyldusýn, sýn sem síðan varpar ljósi á samskipti Maríu við Boga síðar í sögunni. Ættmæðrahefðin er síðan undirstrikuð með reglulegum innskotum einhverrar furðuveru sem virðist kvenkyns, kallar sig náttúruvætt en gæti allt eins verið einhverskonar skotta. Þessi þjóðsagnalega vísun er síðan ítrekuð með nafni Maríu, en hún heitir einnig Myrká, og er nafnið komið frá formóður hennar sem drekkja átti í ánni Myrká, en var bjargað af Æra Tobba. Þessi skemmtilega forsaga kallast á við hina sjálfstæðu fylgju Bokka í Skoti, því að skottan, sem hefur verið einskonar verndarvættur kvennanna, grípur einu sinni inn í atburðarásina á örlagastundu. Eins og í fyrri skáldsögum og ljóðum Rögnu eru þessir fantastísku þræðir tilgerðarlausir en jafnframt áhrifamiklir og gefa textunum sérstakt yfirbragð. Það er í köflum sem þessum sem frásagnarlist Rögnu nýtur sín best og þeir sýna að hún er án efa ein af okkar áhugaverðari höfundum.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Jón Yngvi Jóhannsson: „Billedkunstnerne kommmer. Er islandsk litteratur en happening eller en installation? = The coming of the visual artists. Is Icelandic literature a happening or an istallation?“ Oversat fra islandsk af Mette Fanø, translated by Sverrir Hómarsson
Nordisk litteratur, 2001, s. 72-75
Kristín Ómarsdóttir: „Ég gæti aldrei valið eitt orð“ (viðtal)
Tímarit Máls og menningar, 77., 1. tbl. 2016, s. 17-31
Um einstök verk
Borg
Ingi Björn Guðnason: „Ef ég væri borgin: myndhvörf í skáldsögunni Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur“
Ritið, 6. árg., 2. tbl. 2006, s. 55-74
Jón Karl Helgason: „„Og borgin tekur mig.“ Borgarkort fjögurra sagnaskálda“
Skírnir, 173. ár, haust 1999, s. 481-493
Kristján B. Jónasson: „Borg úr lofti“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 4. h. 1994, s. 124-127
Bónusstelpan
Atli Bollason: „Sögusagnir“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 2. tbl. bls. 134-7.
Hið fullkomna landslag
Auður Aðalsteinsdóttir: „Veggjakrot: er áberandi í bókinni Hið fullkomna landslag eftir Rögnu Sigurðardóttur þar sem listneysla af ýmsu tagi er meginþemað“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg., haust, bls. 18.
Erna Erlingsdóttir: „Ekki er allt sem sýnist“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 2. tbl. bls. 140-3.
Skot
Sigríður Albertsdóttir: „Töfraraunsæi í íslenskum samtímaskáldsögum“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 1. h. 2000, s 81-100
Súsanna Svavarsdóttir: „Tvær svarthvítar sögur“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 3. h. 1998, s. 147-149
Vetrargulrætur
Auður Aðalsteinsdóttir: „Undir vetrarakri"
Tímarit Máls og menningar, 2019, 80. árg., 4.h. bls. 137-139
Verðlaun
2016 - Ísnálin, þýðandi bestu þýddu glæpasögunnar á íslensku: Konan í myrkrinu
Tilnefningar
1993 - Íslensku bókmenntaverðlaunin, í flokki fagurbókmennta: Borg
Þetta rauða, það er ástin
Lesa meiraÞetta rauða, það er ástin er skáldsaga um unga konu sem berst fyrir því að láta drauma sína rætastVetrargulrætur
Lesa meiraVinkonur
Lesa meiraThe perfect landscape
Lesa meiraBónusstelpan
Lesa meiraDaði : Ódysseifur
Lesa meiraHið fullkomna landslag
Lesa meiraMöguleikar myndlistarinnar
Lesa meiraStrengir
Lesa meira
Að hálfu horfin
Lesa meiraAð hálfu horfin er saga þriggja kynslóða litaðra kvenna í Bandaríkjunum, saga af lygum, leyndarmálum og því að tileinka sér sjálfsmynd annars kynþáttar í leit að betra lífi.Dóttir mýrarkóngsins
Lesa meiraÞar sem ekkert ógnar þér
Lesa meiraKastaníumaðurinn
Lesa meiraEngin málamiðlun
Lesa meiraKonan í myrkrinu
Lesa meiraLítil tilraun til betra lífs: Leynileg dagbók Hendriks Groen, 83 1/4 ára
Lesa meiraÞorsti
Lesa meiraBonita Avenue
Lesa meira