Einfaldasta útgáfa íslenskrar bókmenntasögu gerir ráð fyrir ákveðnum vatnaskilum í lok áttunda áratugarins. Samfélagsmeðvituð og pólitísk drifin skáldsagnaritun sem oft er kennd við „nýraunsæi“ víkur fyrir innhverfari efnistökum, lausbeislaðra formi og leik með tungumálið í höndum „fyndnu kynslóðarinnar“. Guðlaugur Arason, Ása Sólveig og Ólafur Haukur Símonarson eru fulltrúar hins gamla skóla, en jafnaldrar þeirra, Pétur Gunnarsson, Einar Kárason og Steinunn Sigurðardóttir standa fyrir það sem koma skal.
Skilin eru eftir því sem sagan greinir frá nokkuð skörp: Einkamál Stefaníu og Vatn á myllu kölska eru í sama jólabókaflóði og Ég um mig frá mér til mín. En auðvitað eru þau ekki eins nákvæm og þægilegt er að hafa fyrir satt í söguyfirlitum, og kannski ekki einu sinni svo mikil skil yfirhöfuð. Það er svo sannarlega óstírlátur húmor í bókum Ólafs Hauks, og erfitt að láta sér sjást yfir samfélagsmeðvitundina í Andrabálki Péturs eða Eyjabókum Einars Kárasonar.
Og kannski ekki síst: á hvorn básinn á að teyma Auði Haralds? Umtalaðasta bók næsta flóðs eftir útkomu fyrrnefndra bóka Ásu, Ólafs og Péturs er Hvunndagshetjan (1979), sem svo sannarlega er hægt að lesa sem innlegg í umræðu um samfélagslegt óréttlæti og þrúgandi gildismat, innsýn í óásættanleg lífskjör og tregðu kerfisins til að létta fólki lífið. En hún hefur líka, kannski aðallega, orðsporið að vera ýkjukennd, ósvífin og umfram allt meinfyndin.
Fyrir vikið er staða Auðar Haralds í bókmenntasögunni nokkuð óviss. Þar spilar líka inn í hvaða stefnu ferill hennar tók. Hún fylgdi Hvunndagshetjunni eftir með annarri bók með sterkum sjálfsævisögulegum blæ og heldur áfram að deila á lífsaðstæður almennings, og þó sérstaklega einstæðra mæðra, og glímu við ómanneskjuleg og sjálfselsk opinber kerfi. Læknamafían (1980) varð ekki sami smellur og forverinn, en ekki er hægt að fullyrða að það hafi orðið til þess að Auður skiptir um kúrs, sem hún þó sannarlega gerði.
Í næstu tveimur bókum fyrir fullorðna, Hlustið þér á Mozart? (1982) og Ung, há, feig og ljóshærð (1987) fangar lífslygi og veruleikaflótti afþreyingarbókmenntanna athygli skáldkonunnar og takmarkanir þeirrar hefðar verður skotmark hennar. Hægt er að líta á nýjustu bók Auðar, Hvað er Drottinn að drolla? (2022) sem hluta af þeirri rannsókn, þó þar sé varla að finna neina íróníska meðferð á reyfarakenndu efninu. Sú bók er reyndar áratugum eldri en útgáfuárið gefur til kynna, birtist fyrst sem framhaldssaga á vefritinu Strik.is um árþúsundamótin síðustu.
Einn morguninn þegar Guðbjörg vaknar upp er hún ekki lengur reykvísk skrifstofukona í nútímanum, heldur í líkama Elísabetar, ungrar konu af betra standi í Miðlöndum Englands á fjórtándu öld. Í hönd fer hörð barátta við að ná tökum á hinum nýja veruleika, sem og að verja sig og helst líka „sína nánustu“ fyrir yfirvofandi hættu af Svarta dauða, sem enginn í kringum hana hefur neinn skilning á. Elísabet stendur aukinheldur höllum fæti í valdastrúktúr fjölskyldunnar og hrekst á endanum í burtu, vænd um galdur. Við tekur flótti um óbyggðir, við harðan kost, og eins og gjarnan í sögum af þessu tagi er Elísabet/Guðbjörg fljótlega komin með förunauta; bjarndýr og barn:
Þá sit ég uppi með hana. Lítinn, málgefin flóaböggul sem þarf að fá að borða í matarlausu landi. Hún opnar dyrnar, stígur út og neglir niður. Bruno situr fet frá henni og bíður.
„Perla,“ segi ég, „þetta er Bruno. Bruno, þetta er Perla. Hún ætlar að koma með okkur.“
„Þekkirðu hann?“ spyr barnið og stendur rígfast.
„Já, og hann er góður. Hann gætir okkar. Komdu og leyfðu honum að þefa af þér.“ (241)
Það má vel hugsa sér meinlegar athugasemdirnar sem hefðu fylgt þessum samskiptum í fyrri bókum höfundar, en hér er Auður greinilega búin að sætta sig við fantasíuna og ævintýraminnin.
Segja má að í Hvað er Drottinn að drolla? taki Auður hefðir afþreyingarbókmenntanna í þjónustu sína, og þann afslátt sem þar er gefinn af trúverðugleika. Það örlar ekki á kaldhæðinni afstöðu til allra þeirra furðuatburða sem hér er sagt frá. Og þó hálfsystir Elísabetar sé kunnuglega sjálfselsk og illkvittin persóna sem hefði auðveldlega sómt sér Hvunndagshetjunni er faðir hennar á hinn bógin einhver best teiknaða velviljaða persóna í höfundaverki Auðar, fyrir utan að vera einstaklega viljugur að sætta sig við hina furðulegu breytingu sem orðin er á dóttur hans:
„Haltu vöku þinni,“ segir hann. Gráu augun hans horfa í gráu augun mín og ég finn að hann á aldrei von á að sjá mig aftur.
„Komdu aftur,“ segir hann. „Þú eða Elizabeth.“ Svo opnar hann dyrnar snöggt og gengur hratt út án þess að kveðja konurnar.“ (160)
Valdataflið og atburðarásin á Kinthorpe-heimilinu er spennandi og sannfærandi. Og þó flóttakaflinn verði ansi reyfarakenndur truflar jafnvel hinn auðtamdi björn Bruno ekki trúverðugleikann að neinu marki. Sama má segja um þá staðreynd að íslensk nútímakona, með félagsráðgjafamenntun frá Danmörku, skilji og geri sig vandræðalaust skiljanlega á mið-ensku. Það þarf engar gæsalappir eða athugasemdir við þessa bók og engar afsakanir fyrir að njóta hennar.
Fyndni er oftast talin fyrst þegar kostir Auðar Haralds sem höfundar eru tíundaðir, og af henni er ómælt í bókum hennar. En oftast er líka skýrt erindi rekið: hræsni afhjúpuð, valdakerfum ögrað, vanahugsun og klisjur fordæmdar, lestir hæddir, níðstangir reistar.
Þorgeir Tryggvason, september 2022