Æviágrip
Auður Haralds er fædd í Reykjavík 11. desember 1947 og bjó þar allar götur síðan, utan átta ára á Ítalíu. Hún lagði stund á ballettnám á yngri árum og er einnig menntuð í leiklist og framsögn.
Auður vakti mikla athygli fyrir fyrstu skáldsögu sína, Hvunndagshetjuna, sem kom út árið 1979. Síðan sendi hún sent frá sér skáldsögur, barnabækur, leikrit og unglingabók, auk þess að birta þrjú ljóð í Lesbók Morgunblaðsins.
Auk ritstarfa var Auður blaðamaður, þýðandi, útvarpskona og pistlahöfundur, jafnframt því að sinna ýmsum öðrum störfum á sviði verslunar og útburðar á auglýsingaruslpósti á Ítalíu, svo örfá dæmi séu tekin.
Auður lést 2. janúar 2024.
Um höfund
Ástir, örlög, andóf og uppbrot
– nokkur orð um bækur Auðar Haralds
Einfaldasta útgáfa íslenskrar bókmenntasögu gerir ráð fyrir ákveðnum vatnaskilum í lok áttunda áratugarins. Samfélagsmeðvituð og pólitísk drifin skáldsagnaritun sem oft er kennd við „nýraunsæi“ víkur fyrir innhverfari efnistökum, lausbeislaðra formi og leik með tungumálið í höndum „fyndnu kynslóðarinnar“. Guðlaugur Arason, Ása Sólveig og Ólafur Haukur Símonarson eru fulltrúar hins gamla skóla, en jafnaldrar þeirra, Pétur Gunnarsson, Einar Kárason og Steinunn Sigurðardóttir standa fyrir það sem koma skal.
Skilin eru eftir því sem sagan greinir frá nokkuð skörp: Einkamál Stefaníu og Vatn á myllu kölska eru í sama jólabókaflóði og Ég um mig frá mér til mín. En auðvitað eru þau ekki eins nákvæm og þægilegt er að hafa fyrir satt í söguyfirlitum, og kannski ekki einu sinni svo mikil skil yfirhöfuð. Það er svo sannarlega óstírlátur húmor í bókum Ólafs Hauks, og erfitt að láta sér sjást yfir samfélagsmeðvitundina í Andrabálki Péturs eða Eyjabókum Einars Kárasonar.
Og kannski ekki síst: á hvorn básinn á að teyma Auði Haralds? Umtalaðasta bók næsta flóðs eftir útkomu fyrrnefndra bóka Ásu, Ólafs og Péturs er Hvunndagshetjan (1979), sem svo sannarlega er hægt að lesa sem innlegg í umræðu um samfélagslegt óréttlæti og þrúgandi gildismat, innsýn í óásættanleg lífskjör og tregðu kerfisins til að létta fólki lífið. En hún hefur líka, kannski aðallega, orðsporið að vera ýkjukennd, ósvífin og umfram allt meinfyndin.
Fyrir vikið er staða Auðar Haralds í bókmenntasögunni nokkuð óviss. Þar spilar líka inn í hvaða stefnu ferill hennar tók. Hún fylgdi Hvunndagshetjunni eftir með annarri bók með sterkum sjálfsævisögulegum blæ og heldur áfram að deila á lífsaðstæður almennings, og þó sérstaklega einstæðra mæðra, og glímu við ómanneskjuleg og sjálfselsk opinber kerfi. Læknamafían (1980) varð ekki sami smellur og forverinn, en ekki er hægt að fullyrða að það hafi orðið til þess að Auður skiptir um kúrs, sem hún þó sannarlega gerði.
Í næstu tveimur bókum fyrir fullorðna, Hlustið þér á Mozart? (1982) og Ung, há, feig og ljóshærð (1987) fangar lífslygi og veruleikaflótti afþreyingarbókmenntanna athygli skáldkonunnar og takmarkanir þeirrar hefðar verður skotmark hennar. Hægt er að líta á nýjustu bók Auðar, Hvað er Drottinn að drolla? (2022) sem hluta af þeirri rannsókn, þó þar sé varla að finna neina íróníska meðferð á reyfarakenndu efninu. Sú bók er reyndar áratugum eldri en útgáfuárið gefur til kynna, birtist fyrst sem framhaldssaga á vefritinu Strik.is um árþúsundamótin síðustu.
Í nánari skoðun á verkum Auðar Haralds hér á eftir hyggst ég skipta þeim í þrjá flokka. Í þeim fyrsta eru „sjálfsævisögulegu“ raunsæisbækurnar sem hún kveður sér hljóðs með, að viðbættri unglingbókinni Baneitrað samband á Njálsgötunni (1985) sem hefur líkt og Hvunndagshetjan og Læknamafían fyrstu persónu frásögn með sterkan raunsæisblæ þó sögumaðurinn sé þar annar en hin einstæða móðir fyrri bókanna. Því næst mun ég taka fyrir „reyfarabækurnar“ þrjár: Hlustið þér á Mozart?, Ung, há feig og ljóshærð og Hvað er Drottinn að drolla? Að lokum mun ég gera grein fyrir barnabókum Auðar, einkum bókaflokknum um Elías (1983–1987) en einnig smáheftinu Litla rauðhærða stúlkan (2007).
Litlar penar baráttusögur
…hlutskipti hinnar ógiftu móður er nú og hér með greinilega viðtekið í okkar þjóðfélagi og er að nálgast að hætta að vera feimnismál. (Hvunndagshetjan, 11)
Með þremur tilvitnunum á titilsíðu Hvunndagshetjunnar setur Auður Haralds sanngildi sögu sinnar á dagskrá á hæfilega óljósan og mótsagnakenndan hátt. Oscar Wilde ráðleggur andlausum höfundum að þykjast hafa skáldað það sem þeir hafa neyðst til að sækja til raunveruleikans af andlegri fátækt sinni. Giovanni Guareschi játar að hafa ekki ímyndunarafl til að sjá út fyrir sínar persónulegu aðstæður og Auður sjálf dregur í efa að neinn muni standa upp og koma upp um sig sem fyrirmynd einhverra hinna lítilsigldu persóna sem fylla líf sögukonunnar og -hetjunnar.
Það má til sanns vegar færa að persónugalleríið er ekki til fyrirmyndar. Eitt af höfuðeinkennum Hvunndagshetjunnar er hin vægðarlausa lýsing fólksins í kringum sögukonuna, sem flest er með eindæmum lítilsiglt, tillitslaust, þröngsýnt og grimmt í mismunandi hlutföllum. Hin ráðríka stóra systir, aðskiljanlegir hrokagikkir kerfisins, kostulega tilætlunarsamur og sjálfselskur faðir og gráðug efriárakærasta hans fá harða útreið.
Lýsing móðurinnar er ekki minnst sláandi, sérstaklega þegar hún hverfur úr sögunni snemma bókar:
Þarna var hún dáin og mér fannst skyndilega að ég hefði aldrei þekkt hana. Sautján ár höfðu þyrlast fram hjá, full af má-ekki og gerir ekki, …
Ég reyndi að muna eftir henni.
Tuskuþræll, þvottaþræll. Skrúbbuþræll. Pottaþræll. Saumaþræll. Sneplaþræll. Ryksuguþræll.
En ekki kona, manneskja. móðir.
Bara lík. Sjötíu kíló af kjöti sem voru að byrja að skemmast … (60–61)
Það má líta á Hvunndagshetjuna sem sögu af baráttu þeirrar sem segir söguna til að verða ekki þessi kona.
Undirtitillinn, „þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn“, beinir athygli lesandans einarðlega að samskiptum söguhetjunnar við hitt kynið almennt og barnsfeðurna sérstaklega. Fyrst hinn lata, lygna og sjálfselska Spánverja, síðan smákrimmann og ofbeldishrottann Gunnar og að lokum nafnlausan, barnungan ofurelskhuga. Einn af fyndnari þráðum sögunnar er bið söguhetjunnar eftir kynlífsreynslu sem jafnast á við rósrauðar og skáldlegar lýsingar ástarsagnanna á kynferðislegri fullnægingu, og mikil gleði þegar:
Ég sentist niður flúðir og fossa og hrapaði fyrir björgin, skallaði byggingarefni í fjörutíu sumarbústaði … Séð og lifað hafði ekki logið neinu. (253)
Fyrirferðarmesti hluti bókarinnar er þó sambandið við Gunnar og barátta söguhetjunnar við að losna við hann úr lífi sínu. Hún er fljót að átta sig á ágöllum mannsins, en lengi að sjá að þeir verða ekki lagfærðir og séu raunverulega hættulegir;
Lengst af lifði búskapurinn á bókstafstrú minni sem átti rætur í kristilegu og góðu uppeldinu. Eins og frelsarinn bjóst ég við að vera elskuð fyrir það góða sem ég gerði, eins konar býttiverslun með kærleika, ef ég elska þig þá elskar þú mig fyrir að ég skuli elska þig og umbera ýmislegt sem ég hefði hengt aðra upp á pungnum yfir hægum eldi fyrir. (157)
Þó kaldhæðin, bersögul og ýkjukennd sagnagleði einkenni almennt frásagnarhátt Hvunndagshetjunnar þá víkur gleðin fyrir raunsærri og „kaldari“ greiningu kringumstæðna og áhrifana sem þær hafa á sálarlífið þegr líður að lokum sögunnar af Gunnari og hervirkjunum sem hann vinnur í lífi söguhetjunnar:
Með tímanum eignast maður lífskenningu, ef maður vonar ekki, verður maður ekki fyrir vonbrigðum, ef maður verður samt fyrir vonbrigðum á maður að segja „issss, mér er alveg sama.“ Maður setur sig út fyrir þetta allt, horfir kuldalega á það úr annarri vídd og segir sér að það snerti mann ekki. ... Og veit ekki að það er af því að maður er dálítið dáinn að innan. (166-167)
Önnur fyrirferðarmikil, nánast kafkaísk, baráttusaga felst í tilraunum söguhetjunnar til að fá kerfið til að viðurkenna tilvist fyrsta barnsins, þar sem faðernið fæst ekki staðfest og barnið því ekki til fyrir hinu opinbera. Einnig þar víkur kaldhæðið sjónarhorn fyrir tilfinningaþrunginni og réttlátri bræði. Sem birtist bæði í því hvernig því er lýst, og í samskiptunum sjálfum. Það er ekki fyrr en söguhetjan sleppir tilfinningum sínum lausum sem tekst að fá hið opinbera til að hegða sér á mannlegan hátt:
„Við eigum ekki að borða, ég hef ... ég ...“ og ég orgaði af öllum lífs og lungna kröftum, kastaði mér niður á borðið hans, emjaði og rótaði í áríðandi málunum sem hann hafði verið fjóra mánuði að raða, dreifði nasaraka og átárum yfir allt saman og reyndi um leið að hníga niður vegna áberandi næringarskorts og taugastreitu.
Hann stökk upp, „óþarfi að gráta.“ (196)
Það er kannski óþarfi, en verður þó til þess að skriður kemst á málið og mæðralaun og meðlag skilar sér loksins.
Fyndnin er aftur í fyrirrúmi þegar fólk sem stendur söguhetju nær er skotspónninn. Ósvífin og ísmeygileg framkoma föðurins og ekki síður eftirmálin: þegar kærasta hans, vinir og ættingjar sækja að söguhetjunni þegar karlinn fellur frá til að tryggja sér skerf úr dánarbúinu.
Glíman við kerfið er í forgrunni í næstu bók Auðar, Læknamafíunni. Einnig hún hefur sterk sjálfsævisöguleg einkenni og söguhetjan líkt og í Hvunndagshetjunni einstæð, kjaftfor og einbeitt þriggja barna móðir. Þegar hún veikist og greinir sjálfa sig með gallsteina hefst viðureign hennar við heilbrigðiskerfið, sem streytist lengi vel mjög við að gera nokkuð í málunum, hvað þá að fallast á sjúkdómsgreiningu hennar. Við tekur langt, kvalafullt en bráðfyndið ferli:
Bárði finnst ég sniðug. Bárði finnst ég hafa laumast inn á deildina hans á fölskum forsendum tilað fá skemmtilega sviðsetningu fyrir uppákomur mínar. Bárður heldur, og er farinn að gefa í skyn milli lína, að það sé í raun ekkert að mér. Tilraunir mínar til að koma á málefnalegum samræðum um gallsteina enda í þetta sinn á meiraprófi á hjólbörur og kveðjuathugasemd um rauða hárið mitt.
Ég er á móti ofbeldi. Því geðjast mér illa að þessum ólgandi tilfinningum sem fá mig til að langa brjálæðislega til að berja honum utan í vegginn. (78–79)
Sjónarhornið er þrengra og atburðarásin afmarkaðri en í fyrri bókinni, og Læknamafíuna má auðveldlega skoða sem viðauka við Hvunndagshetjuna. Og þó afmennskandi viðhorf og framkoma kerfisins sé aðalviðfangsefnið er Auður hér líkt og í fyrri bókinni athugul um ólíkar leiðir fólks – kvenna – til að lifa lífi sínu og laga sig að að aðstæðum. Það birist t.d. í smámyndum af konunum þremur sem hún deilir með sjúkrastofu, hinni hávaðsömu frekju Sigríði, hinni lítilþægu og hljóðlátu Guðrúnu og Elínu, sem söguhetjan metur á endanum sem þá verstu:
Elín krækir lækninn til sín, bindur hann við akkeri og hvíslast á við hann. Hún heldur uppi einkalífi á sjö manna stofu. Vel af sér vikið og hefst aðeins með taumlausri frekju og tillitsleysi við aðra sjúklinga. (58)
Að sjálfsögðu eru þessar bækur, eins og önnur sjálfsævisöguleg verk, í og með verðmætar sem heimilidir um tíðaranda. Sjálfstæðisbarátta hvunndagshetjunnar gegn kvenfjandsamlegum viðhorfum og mannfjandsamlegu kerfi er að nokkru marki saga sigurvegarans: viðhorfin breyttust og kerfið skánaði – að minnsta kosti að einhverju leyti.
Þriðja bókin sem hefur á sér það yfirbragð að vera byggð á eigin reynslu höfundar er sömu leiðis til vitnis um viðhorf og menningu liðinna tíma með önnur viðfangsefni en okkar, og sem slík sérlega áhugaverð og lestursins virði. Fyrir utan að vera skörp og skopleg mynd af umróti unglingsáranna og hina eilífu togstreitu þeirra sem vaxa úr grasi og hinna sem fara með völdin.
Baneitrað samband á Njálsgötunni segir frá stirðri sambúð unglingsins Konráðs og móður hans á blómatíma Hallærisplansins á níunda áratugnum. Konráð segir söguna og ber móður sinni vægast sagt illa söguna; hún er ósanngjörn, þrúgandi, hæðin, nísk og – sem er hennar versti ljóður í augum Konráðs – algerlega ómeðvituð um þær ógnir sem steðja að heiminum í formi mengunar og þó fyrst og fremst vígbúnaðarkapphlaupsins.
Ég beygði inn á planið. Suðið breyttist í glym. Skvaldrið var skrykkjótt og hvellt. Það var spenna í loftinu eins og liðið ætti von á að varpað yrði niður karamellum og þúsundköllum úr rauðum, gulum og grænum loftbelgjum.
Það var kalt. (75)
Voru þetta einhver lífsskilyrði?
Fyrir utan smáræði eins og að þeir gátu eytt heiminum áttatíu sinnum. Bara með kjarnorkuvopnunum sínum. Geggjaður uppgjafakábboj í Hvíta húsinu og fárveikt gamalmenni með óteljandi öldrunarsjúkdóma í Moskvu.
...
Kannski yrðu þeir á undan í Venezúela. Skógareyðing auðvaldssinna var langt komin með lofthjúpinn. (7)
Þar kemur sögu að móðurinni ofbýður framgangur drengsins og framkoma við sig og við tekur nokkurskonar kalt stríð á heimilinu, sem á endanum hefur tilætluð áhrif og færir mæðginin nær hvort öðru, enda líkari persónur en þau kæra sig lengi vel um að viðurkenna. Friðarumleitanirnar eru dyggilega studdar af stúlkunni sem Konráð er skotinn í, og er nógu skörp og vel gerð til að sjá mömmu hans og hennar hlið mála í gegnum unglingaangist og reiði kærastans.
Ólíkt Hvunndagshetjunni og Læknamafíunni er það ekki einstæða móðirin sem segir söguna, heldur hennar erkióvinur – og tvífari – Konráð. Hin ýkjukennda fyndni birtist hér ekki síst í hans lýsingum á móður sinni og heimilislífinu, en líka í samskiptum við vinina, unglingalífið og næturgöltrið á planinu.
Bókin er, líkt og Læknamafían, tileinkuð Símoni, syni Auðar, og honum er þakkað í bókarlok:
Hér er við hæfi að þakka Símoni framlag hans til efnis bókarinnar.
Við munum skipta ritlaununum eins og við höfum alltaf skipt banana.
Hann fær hýðið og ég bananann.
Móðir hans (126)
Réttindabarátta rómansins
Þér kann að koma það annarlega fyrir sjónir, Óskar, að tímarnir hafa breyst svo, að fólk sem er á samningi við að ljúga að neytendum sínum má eiginlega ekki vera uppvíst að því að ljúga. Það er að segja, ljúga eigum við, en við eigum að gæta þess að sögupersónur okkar verði svo flatar og dúðaðar hversdagsleika að lesandanum detti hvergi í hug að um skáldskap sé að ræða. (Ung, há, feig og ljóshærð, 93)
Eftir tvær raunsæislegar, og að því er virðist sjálfsævisögulegar, bækur kveður róttækt við annan tón í þriðju skáldsögu Auðar Haralds. Umfjöllunarefnið hefur þó verið reifað áður: hlutskipti kvenna í samfélagi hönnuðu með hagsmuni karla í huga. Söguhetja Hvunndagshetjunnar gerir uppreisn, en heildsalafrúin Lovísa, aðalsöguhetja Hlustið þér á Mozart?, leitar annarra leiða til að sættast við og bæta hlutskipti sitt.
Hlutskipti Lovísu gæti vel virkað eins og draumur. Hún er vel stæð og áhyggjulaus. „Nóg af öllu, alltaf frí“ eins og söguhetjan í „Tangó“ eftir Bubba Morthens. En líkt og hjá henni er hamingjan fjarlægur draumur. Lagningar, hand- og fótsnyrtingar, endurbætur á heimilinu og endalaus námskeið duga ekki til. Ekki einu sinni langsótt og seinvirk tilraun hennar til að ráða eiginmanninn leiðinlega af dögum með því að láta hann borða sig í hel þegar hann heldur að hann sé í megrun, dugar til að fylla daga Lovísu tilgangi, þó kostuleg sé:
Í hægri síðu hans klýfur lifrin kólesterólið tza-hvapptza eins og landkönnuður regnskóga. Rúgurinn ryðst um þarmana og þjónar Þorsteini eins og ánamaðkar móður jörð. Sólblómaolían þrýstir E-fjörefni inn í hverja frumu og hann kitlar í beinmerginn af A og D. Osturinn fylkir sér um tennurnar, járnið þýtur um æðarnar, kolvetnið niðar í vefjunum, nýrun starfa sía vinda skilja, í görnunum er brotið og breytt og nýtt og safnað … safnað … safnað … (67)
Hlustið þér á Mozart? er ákaflega lausbeisluð bók, full af furðum, óvæntum vendingum og lausum endum, þó allt hverfist um hið snauða ytra líf og þeim mun ríkulegra innra líf Lovísu. Einn hluti hennar er helgaður lestri heildsalafrúarinnar á skoplega frumstæðri ástarsögu sem hún leikur sér að því að tæta niður. Þann þráð spinnur Auður áfram í Ung, há, feig og ljóshærð, næstu skáldsögu sinni sem ætluð er fullorðnum.
Uss, það er enginn vandi að skrifa ástarsögu. Maður notar:
1 unga fagra saklausa stúlku.
1 ungan dökkhærðan mann, illa innrættan.
1 ungan ljóshærðan mann, vel innrættan.
3–7 aukapersónur með ógreinilegt innræti sem má láta bregðast til beggja vona eftir þörfum og framvindu.
1 plott.
(15)
Það líða fimm ár milli Hlustið þér á Mozart? og Ung, há, feig og ljóshærð, og þó örlagasaga Önnu Deisíar sé brotin upp á kaflaskilum með athugasemdum – sumum meinlegum – um fáfengileika afþreyingarbókmennta, er afraksturinn langt í frá hreinræktuð skopstæling.
Aðdáendur Sidney Sheldon ættu að kannast vel við sig í þessu viðburðaríka og spennandi ævintýri þar sem aðalsöguhetjan er sífellt í lífshættu á spennandi og litríkum stöðum víða um heiminn, og ekki skýrist fyrr en undir lokin hvernig allt gengur upp. Sem það gerir eftir lögmálum skemmtisagna af þessu tagi. En það glittir í hinn kaldhæðna rýni, ekki bara í milliköflunum heldur t.d. í samskiptum hinnar hjartahreinu og úrræðagóðu Önnu Deisí við hið opinbera á Ítalíu, sem minna ekki lítið á viðureignir söguhetju Hvunndagshetjunnar við starfssystkin þeirra á Íslandi.
„Afsakið, þér getið víst ekki lánað mér penna?“
„Þetta er engin pennalánastofnun,“ svarar brúngráa konan. „Fólk stingur á sig pennum. Fólk sem þarf að nota penna gengur með penna á sér.“ (96)
Og þó höfundi millikaflanna finnist frásagnarhefðir afþreyingarbókmenntanna vissulega ómerkilegar er hann líka efins um að raunveruleikinn taki honum fram:
Ég sit á klósettinu og sem bréf til höfundar lífs míns:
Kæri höfundur,
Við höfum lesið handritið sem þér senduð okkur. Því miður verðum við að fella þann dóm, að byrjunin er þokukennd og auðgleymd, þá tekur við stuttur kafli sem einhver stígandi er í en allur síðasti hluti bókarinnar er öskugrá flatneskja.
… Handritið er ekki hæft til útgáfu … (138)
Þrettán árum eftir að Auður sendi frá sér söguna af Önnu Deisí, árið 2000, birtist framhaldssaga eftir hana á vefritinu Skrik.is. 22 árum síðar rataði Hvað er Drottinn að drolla? loks á prent.
Einn morguninn þegar Guðbjörg vaknar upp er hún ekki lengur reykvísk skrifstofukona í nútímanum, heldur í líkama Elísabetar, ungrar konu af betra standi í Miðlöndum Englands á fjórtándu öld. Í hönd fer hörð barátta við að ná tökum á hinum nýja veruleika, sem og að verja sig og helst líka „sína nánustu“ fyrir yfirvofandi hættu af Svarta dauða, sem enginn í kringum hana hefur neinn skilning á. Elísabet stendur aukinheldur höllum fæti í valdastrúktúr fjölskyldunnar og hrekst á endanum í burtu, vænd um galdur. Við tekur flótti um óbyggðir, við harðan kost, og eins og gjarnan í sögum af þessu tagi er Elísabet/Guðbjörg fljótlega komin með förunauta; bjarndýr og barn:
Þá sit ég uppi með hana. Lítinn, málgefin flóaböggul sem þarf að fá að borða í matarlausu landi. Hún opnar dyrnar, stígur út og neglir niður. Bruno situr fet frá henni og bíður.
„Perla,“ segi ég, „þetta er Bruno. Bruno, þetta er Perla. Hún ætlar að koma með okkur."
„Þekkirðu hann?“ spyr barnið og stendur rígfast.
„Já, og hann er góður. Hann gætir okkar. Komdu og leyfðu honum að þefa af þér.“ (241)
Það má vel hugsa sér meinlegar athugasemdirnar sem hefðu fylgt þessum samskiptum í Ung, há, feig og ljóshærð, en hér er Auður greinilega búin að sætta sig við fantasíuna og ævintýraminnin.
Segja má að í Hvað er Drottinn að drolla? taki Auður hefðir afþreyingarbókmenntanna í þjónustu sína, og þann afslátt sem þar er gefinn af trúverðugleika. Það örlar ekki á kaldhæðinni afstöðu til allra þeirra furðuatburða sem hér er sagt frá. Og þó hálfsystir Elísabetar sé kunnuglega sjálfselsk og illkvittin persóna sem hefði auðveldlega sómt sér Hvunndagshetjunni er faðir hennar á hinn bógin einhver best teiknaða velviljaða persóna í höfundaverki Auðar, fyrir utan að vera einstaklega viljugur að sætta sig við hina furðulegu breytingu sem orðin er á dóttur hans:
„Haltu vöku þinni,“ segir hann. Gráu augun hans horfa í gráu augun mín og ég finn að hann á aldrei von á að sjá mig aftur.
„Komdu aftur,“ segir hann. „Þú eða Elizabeth.“ Svo opnar hann dyrnar snöggt og gengur hratt út án þess að kveðja konurnar.“ (160)
Valdataflið og atburðarásin á Kinthorpe-heimilinu er spennandi og sannfærandi. Og þó flóttakaflinn verði ansi reyfarakenndur truflar jafnvel hinn auðtamdi björn Bruno ekki trúverðugleikann að neinu marki. Sama má segja um þá staðreynd að íslensk nútímakona, með félagsráðgjafamenntun frá Danmörku, skilji og geri sig vandræðalaust skiljanlega á mið-ensku. Það þarf engar gæsalappir eða athugasemdir við þessa bók og engar afsakanir fyrir að njóta hennar.
Foreldravandamálið
Elías, fyrirmynd annarra barna í góðum siðum, er persóna í innslögum sem Auður og Valdís Óskarsdóttir Skrifuðu fyrir Stundina okkar snemma á níunda áratugnum. Eins og auðséð er á teikningum Brians Pilkington í bókunum um Elías fór Sigurður Sigurjónsson með hlutverk Elíasar. Fyrsta bókin um Elías er samnefnd aðalpersónunni, samvinnuverkefni Auðar og Valdísar, og kom út 1983. Síðari bækurnar eru verk Auðar einnar; Elías í Kanada (1984), Elías á fullri ferð (1985), Elías, Magga og ræningjarnir (1986) og Elías kemur heim (1987).
Bækurnar segja nokkuð samfellda sögu. Í þeirri fyrstu búa Elías og foreldrar hans sig undir að flytja til Kanada, þar sem pabbi hans hefur fengið spennandi brúarsmíðaverkefni. Í þeirri næstu koma þau sér fyrir í nýju landi, Elías kynnist indjánadrengnum Jóni og lærir að veiða snáka og Magga móðursystir kemur í afdrifaríka heimsókn, kynnist og fellur fyrir hinum rússneskættaða og skrautlega nágranna, Misja. Í Elías á fullri ferð glímir fjölskyldan við vægast sagt erfiða gesti, sem minna mest á sumar aukapersónur Hvunndagshetjunnar í tillitsleysi sínu og frekju. Þau lenda síðan í miklum útileguævintýrum þegar Misja laðar að sér bjarndýr sem fær nafnið Bruno líkt og bangsinn í Hvað er Drottinn að drolla? Í Elías, Magga og ræningjarnir víkur sögunni til Sikileyjar þar sem pabbinn hefur fengið nýtt verkefni. Í lok þeirrar bókar kemur í ljós að Elías á von á litlu systkini sem færir fjölskylduna aftur heim og undirbúningur undir það verkefni hefst af fullum krafti í Elías kemur heim.
Fyrir utan ævintýraleg atvik og skrautlegar aukapersónur er það fyrst og fremst staða Elíasar í heimilislífinu sem drífur bækurnar um hann áfram. Það er gert með því að snúa upp á hlutverkin: Elías er fulltrúi skynsemi og forsjálni, sá sem leysir úr flóknum samskiptaverkefnum sem foreldrar hans hafa annað hvort ekki sinnu til að ganga í eða treysta honum einfaldlega betur í. Meginefni allra bókanna eru samskipti Elíasar við allt vanhæfa og skrítna fullorðna fólkið í kringum sig. Þetta eru ekki uppátækjasögur þar sem Elías og vinir hans koma sér í vandræði eða fremja strákapör, heldur miklu fremur skopmynd af ógöngunum sem fullorðið fólk kemur sér einatt í. Það verður að teljast verðugur endir á bálkinum að Elías sækir sér í laumi þjálfun í meðferð ungbarna, vitandi það að ummönnun nýjasta fjölskyldumeðlimsins mun að miklu leyti lenda á hans herðum:
„[…] Þau þarna“, hugsaði ég og benti með augunum á mömmu og pabba, „þau eru dáldið erfið. Þú sérð það um leið og þú kemur heim. Það fyrsta sem þau gera verður að týna snuðinu þínu. Og þá benda þau ofan í vögguna þína og segja: „HÚN týndi því.“ Þó allir geti séð að þú ert svo aggalítil að þú getur ekki týnt neinu sjálf. En þú skalt ekki hafa neinar áhyggjur af því, því ég á varasnuð handa þér. Sem ég er búin að fela fyrir ÞEIM.“ (Elías kemur heim, 116)
Smábókin Litla rauðhærða stúlkan, sem Auður skrifaði og Vigdís Hlíf Sigurðardóttir myndskreytti, er annað tilbrigði við stefið um vanhæfa foreldra. Parið sem eignast stúlkuna í titlinum á í mestu vandræðum með verkefnið. Furðar sig á að hún sé hár- og tannlaus, en fyllast síðan skelfingu þegar birtist tönn og síðan rautt hár. Það kemur í hlut stúlkunnar að hjálpa þeim að venjast foreldrahlutverkinu og þegar tvö börn hafa bæst við eru þau orðin „ágætir foreldrar“.
Stúlkunni fannst hún vera stúlkan með járnhárið. Henni fannst járnið í hárinu gera hana sterka, úthaldsgóða og skynsama. Hún hélt kannski, að maður yrði ekki endilega skynsamur af að vera sterkur, en hún var örugg um að maður yrði sterkur af að vera skynsamur. (30)
Fyndni er oftast talin fyrst þegar kostir Auðar Haralds sem höfundar eru tíundaðir, og af henni er ómælt í bókum hennar. En oftast er líka skýrt erindi rekið: hræsni afhjúpuð, valdakerfum ögrað, vanahugsun og klisjur fordæmdar, lestir hæddir, níðstangir reistar.
Stúlkan sem skrifaði Hvunndagshetjunna, og vakti með því lesendur til meðvitundar um ýmis mein og ranghugmyndirnar sem nærðu þau í íslensku samfélagi, hefur svo sannarlega þurft að sýna bæði styrk og skynsemi á ferli sínumi, hvort sem hún hefur sótt þann styrk í járnið í hári sínu eða eitthvað annað.
Þorgeir Tryggvason, september 2022
Hvað er drottinn að drolla?
Lesa meiraMiðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld.Litla rauðhærða stúlkan
Lesa meiraHér er stutt saga af lítilli rauðhærðri stúlku sem skrifuð var af Auði Haralds í samstarfi við Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur sem er höfundur myndefnis.Elías kemur heim
Lesa meiraElías, mamma hans og pabbi eru komin heim til Íslands aftur. Það hefði átt að vera mjög friðsamlegt, því Magga móðursystir mömmu varð eftir í útlöndum. En það er enginn friður. Pabbi Elíasar sér fyrir því. Elías veit ekki hvort hann er orðinn svona gamall eða hvort hann varð svona af að lenda í Fílnum. Eða, eins og Simbi segir: "Enginn með viti þrasar við fíl.". .Elías, Magga og ræningjarnir
Lesa meiraBankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.Elías á fullri ferð
Lesa meiraFyrst skellur yfir þau gestaplága svo skæð, að mamma og pabbi eru að hugsa um að flýja að heiman. Elíasi tekst að hrekja gestapláguna burtu, að vísu með nokkuð grófum ráðum.Baneitrað samband á Njálsgötunni
Lesa meiraMætir Konráð skilningi hjá móður sinni? Nei. Hann finnur það nú bara bezt þegar hún rífur græjurnar hans úr sambandi á næturnar.Elías í Kanada
Lesa meiraÁ veggjunum í ganginum og eldhúsinu mjökuðstu sniglarnir mínir upp og niður og þreifuðu fyrir sér með fálmurunum. Alveg hafði ég steingleymt þeim þegar ég kom heim kvöldið áður. Um nóttina höfðu þeir svo skriðið upp úr bakpokanum og voru ennþá að leita að góðum steini til að búa á.Elías
Lesa meiraHún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.