Þorsteinn frá Hamri er eitt okkar kunnustu og virtustu ljóðskálda en þó leyfi ég mér að efast um að hann sé almennt mikið lesinn; orðspor hans er byggt á löngum og farsælum ferli fremur en almennum vinsældum. Ljóð hans eru enda ekkert alltaf árennileg og lesandi þarf að leggja töluvert á sig til að ná á þeim taki. Slík nálgun á ljóðformið getur vissulega skilað miklu og ánægjan margfaldast þegar lesandi upplifir sýn inn í gegnum hið á stundum myrka gler Þorsteins, en stundum verður ógagnsæið ljóðunum til trafala.
Allt frá bernsku hef ég alist upp við það að skilningur á bókmenntum aukist í réttu hlutfalli við þær samræður sem lesandi á við aðra lesendur og enn á ný sannaðist þetta á nýrri ljóðabók Þorsteins, Hvert orð er atvik. Á ferð minni um norðurland, með bókina í veganesti, átti ég ákaflega upplýsandi og afhjúpandi samræður um hana við annan lesanda, en sá er kunnugri ljóðum Þorsteins en ég og ég komst að því, ekki í fyrsta sinn, hversu ánægjulegt það er að skyggnast inn í bækur með augum annarra og hversu vel góðar bækur ljá sig ólíkum lestri.
Dæmi um þetta er að finna í ljóðinu sem vitnað er til í fyrirsögn, en það nefnist „Mýrin”. Þar er teiknuð upp sterkum dráttum mýri, sem blundar græn og „fenjaglöð” og full af smádýrum. „Suma daga / safnar líf hennar skuggum.” Svo ákallar ljóðmælandi lesanda: „Vertu ásamt / mér þessi mýri. / Um hana leggur enginn / fullkomlega / færan veg.” Þetta fallega ljóð sá ég í samhengi við ljóðmál Þorsteins og tók sem kenningu hans um ljóð almennt, eitthvað sem ekki er hægt að leggja fullkomlega færan veg í gegnum. Viðmælandi minn benti mér hinsvegar á að Þorsteinn hefði löngum fjallað um manninn sjálfan og huga hans í ljóðum sínum, og að hér væri að finna tilvísun til hins margslungna - og á tíðum ófæra - fyrirbæris sem mannshugurinn er. Og svo var mér bent á fleiri dæmi um þetta í ljóðunum, eins og til dæmis í „Blikið”, en þar bregður fyrir bliki, „örsnöggt” og „hverfur svo ... Hve oft / hef ég reynt að fanga það, / fjötra í orð?” Bæði ljóðin má hinsvegar skoða sem kenningar um ljóð, fullt eins og manninn, könnun skáldsins á því hvernig hugur mannsins er ógagnsær, ófær og margræður, alveg eins og ljóðið.
Það þarf svo sem ekki bókmenntafræðing til að benda á að ljóð hafa fleiri en eina merkingu og tilvísun, en á hinn bóginn er ljóst að þessar samræður breyttu mjög sýn minni á ljóð Þorsteins og opnuðu nýjar leiðir í nálgun. Samskonar skilningur opnaðist í ljóðum sem kallast á við íslenskar fornbókmenntir, allt frá ljóðinu „Nánd” sem fjallar um Guðmund góða til tveggja ljóða um konung nokkurn, sem í skýringum aftast í bókinni er sagt að vísi til Sighvats skálds. Ljóðið „Konungsfylgd” las ég í fyrstu sem lýsingu á vetrinum, gráum á ferð í mjallroki, „prýddur safala” og sópar skaflana. Þó hér sé sagt frá Ólafi Haraldssyni kemur það ekki í veg fyrir að vetur konungur slæðist inn. „Á tali við tímann” segir einnig frá konungi, „Konung minn / kalla ég þig stundum”, en hver er þessi ‘þú’? Sjálfsagt Ólafur aftur, en þó aðallega tíminn, en um hann er einnig fjallað í öðrum ljóðum eins og „Trúarljóði um tímann” og upphafsljóðinu „Hér, í kvöldinu”. Yrkingar Þorsteins spanna einmitt víðóma tíma í átökum hans við miðaldaskáld og skapa ljóðunum margvíslegar raddir sem, eins og fyrr er sagt, getur verið býsna krefjandi að greina.
Hér hafa verið nefnd nokkur hæfilega torræð ljóð og þau rædd í samhengi samleiðar tveggja lesenda. Ónefnd eru ljóð sem hvorugum lesanda tókst að fá botn í, en á stundum gengur skáldið að mínu mati óþarflega langt í því að takmarka aðgengi lesanda. Slík ljóð virka í raun veikari en þau sem hægt er að ná tangarhaldi á og skapa ákveðið ójafnvægi innan bókarinnar. Inni á milli eru síðan líka falleg tær ljóð sem gleðja óspart, eins og fyrrnefnt upphafsljóð, „Hér, í kvöldinu” sem grípa andartakið sérlega fimlega. Annað dæmi er „Fyrirburðir”, en þar kallast Þorsteinn á við íslenskan þjóðsagnaarf eins og oft áður í ljóðum sínum. Ljóðið um Sigríði Guðmundsdóttur frá Illugastöðum býr sömuleiðis yfir kyrrlátum krafti, bæði án skýringar og með, en það lýsir aleigu stúlku sem blandaðist í morðið á Natani Ketilssyni og dó í fangelsi í Kaupmannahöfn. Hér sýnir skáldið mátt skáldskaparins til að sigrast á tímanum og vekja til lífsins gleymda sögu, þó ekki væri nema í eitt augnablik.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2008