Æviágrip
Þorsteinn (Jónsson) frá Hamri var fæddur 15. mars 1938 að Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði. Hann lauk gagnfræðaprófi og landsprófi frá Reykholtsskóla 1954 og stundaði síðan nám í Kennaraskóla Íslands 1955 til 1957. Þorsteinn vann sem aðstoðarbókavörður á Bókasafni Kópavogs frá 1961 til ársins 1967, en frá þeim tíma hafði hann ritstörf að aðalstarfi. Þorsteinn vann jafnframt að gerð útvarpsþátta, prófarkalestri og þýðingum.
Þorsteinn var ritari í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1966 til 1968 og varamaður í stjórn Rithöfundasambands Íslands 1984 til 1986. Hann var ennfremur meðstjórnandi í stjórn Rithöfundasambands Íslands 1986 til 1988. Hann var gerður að heiðursfélaga sambandsins árið 2006.
Fyrsta ljóðabók Þorsteins, Í svörtum kufli, kom út árið 1958. Þorsteinn var afkastamikið ljóðskáld en ritaði einnig skáldsögur og þætti. Fyrsta skáldsaga hans, Himinbjargarsaga eða Skógardraumur, ævintýri kom út 1969. Hann var einnig ötull þýðandi og þýddi m.a. fjölmargar barnabækur. Síðasta útgefna ljóðabók Þorsteins bar titilinn Núna og kom út árið 2016.
Þorsteinn hlaut fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín, meðal þeirra má nefna Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi, riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf árið 1996, heiðurslaun Alþingis árið 2001 og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2009.
Þorsteinn frá Hamri lést á heimili sínu í Reykjavík sunnudaginn 28. janúar 2018.
Mynd af höfundi: Skapti Hallgrímsson.
Frá höfundi
Frá Þorsteini frá Hamri
Það listaverk mun vandfundið sem ekki er í snertingu við málefni eða að minnsta kosti í einhverju málefnalegu samfloti. Framan af ritferli mínum hneigðist ég nokkuð til félagslegrar gagnrýni öðrum þræði, en hef yfirleitt hvorki litið á mig sem boðbera eins eða neins, hvað þá vegvísi, né tileinkað mér vísvitandi neitt hlutverk annað en þess manns sem er að setja saman þennan skáldskap hverju sinni. Ég reyni að vanda verk mitt eins og ég hef getu til, og væntanlega fara ljóð mín ekki varhluta af viðhorfum mínum til eins og annars; öll mannleg reynsla, ytra sem innra, er málefni í sjálfu sér. Ég hef stundum vitnað til orða suður-afríska skáldsins Breytenbach sem eitt sinn sagði í viðtali: „Öll sköpun er í sjálfu sér pólitísk. Með því að víkka vitund samborgara sinna leggur rithöfundurinn sitt af mörkum til betra mannlífs“.
Menn semja einfaldlega verk í samræmi við það hvernig þeim líður og hvert hugurinn stefnir, og verkið velur sér form við hæfi. Með vissu má fullyrða að hvers konar hughrif orki á sköpunarþörf manna, og í ljósi þess leyfi ég mér í þessu efni að álykta fremur almennt – út frá því sem ég þykist hafa sannreynt sjálfur.
Önnur staðhæfing kann hinsvegar að þykja einkalegri, og á þó vafalaust sammerkt við flesta sem fást við skáldskap: að öll sköpun sé eins konar brúarsmíð – milli hugtaka, milli tímaskeiða, milli manna, þar sem merkingar eru jafnframt útvíkkaðar ýmislega. Ljóð um tré fjallar ef til vill ekki fyrst og fremst um tré ef betur er að gáð, heldur þá spegilmynd sem það öðlast í hug þess sem virðir það fyrir sér og yrkir um það. Lækurinn sem við lékum okkur hjá forðum tíð kann að vera horfinn fyrir löngu, en hann streymir um hugann og minnið, og ummyndast, ef svo ber undir, í óvænt tákn nýrrar merkingar – nýjan læk sem enginn veit eftir hvaða farvegum kann að kvíslast síðar meir í mennskum hugum.
Þorsteinn frá Hamri, 2002
Um höfund
Þys álfa og galdur fugla — Um verk Þorsteins frá Hamri
„Fylgdi honum þys álfa og galdur fugla“ segir í fyrsta ljóði fyrstu bókar Þorsteins frá Hamri. Þau orð má heimfæra á skáldskap Þorsteins í heild sinni, einsog Njörður P. Njarðvík bendir á í „Orð séu von mín og vald“, ritgerð sinni og inngangi að Ritsafni Þorsteins frá Hamri sem út kom hjá bókaforlaginu Iðunni fyrir fáeinum árum. Í Ritsafni eru birtar allar ljóðabækur Þorsteins, skáldsögur hans sem eru þrjár að tölu og söguþáttur um Hallgrím smala og húsfreyjuna á Bjargi.
„…þys álfa og galdur fugla“; Þjóðtrú og alþýðumenning eru einn ríkasti þátturinn í skáldskap Þorsteins. Yrkisefnin eru sótt í íslenska alþýðuhefð, unnið er úr íslenskum bragarháttum. Á hinn bóginn er í ljóðagerð Þorsteins unnið úr nýjungum módernismans: hinn sundraði nútímamaður er yrkisefni og nútíminn með sinn „kjarnorkuskelk“ sem Þorsteinn nefnir svo í viðtalsbókinni Stríð og söngur þar sem Matthías Viðar Sæmundsson ræðir við skáldið. „Það hefur alltaf búið í mér uggur eins og sjá má af ljóðum mínum“, segir Þorsteinn þar.
Í svörtum kufli nefnist fyrsta ljóðabók Þorsteins; hún kom út 1958 og dregur nafn sitt af einu ljóðinu, „Að haustnóttum“, þar sem ljóðmælandi fer í svörtum kufli „um sali haustsins bleika, friðlaus andi“. Helstu höfundareinkennin eru fram komin í bókinni, skýrast kannski í ljóðinu „Sigurður Breiðfjörð“ en rímnaskáldið Breiðfjörð hefur verið Þorsteini hugleikið í gegnum tíðina: „Þú sem varst tákn hins tíu alda ljóðs“.
Næsta bók Þorsteins, Tannfé handa nýjum heimi, kom út 1960. Tónninn hafði slípast mjög á milli bóka: Þessi er heilsteyptari, markvissari, beittari. Titillinn vísar til ljóðsins „Eignar“: „ómettuð höfuð liðinna tíða“ segir þar og freistandi að líta svo á að tannféð sé ekki aðeins ljóðin sjálf heldur menningararfurinn, fortíðin og hefðin. Tannfé er einsog kunnugt er gjöf sem börnum er gefin þegar þau taka fyrstu tennur og er sú hefð notuð hér í táknrænum skilningi.
Víkingaraddir blandast saman við götuys nútímans í ljóðinu „Gestir“:
Týndir dagar hafa vitjað mín
í hús núverunnar
komið til móts við daga sem bíða mínRaddir Jómsvíkinga og ys götunnar
mætastSjálfur hlusta ég
og stari í reyktákn
Ádeilan er brýnd í Lifandi manna landi sem kom út 1962. „Mörg og hávær eru ósannindin/þar sem þau hrannast upp á leitinu“ segir í öðrum hluta þess magnaða ljóðabálks „Birtu“. Í ljóðinu „Lofsöngur“ birtist hugsjón: „Á hendur fel þú honum!“ eru lokaorð þess; vísunin í sálminn er skýr en það er dagur sem hér um ræðir, „Komi sá dagur“ en á þeim degi er horfst er í augu við „meinsemdir orðanna“ og ábyrgð á glæpum mannkynssögunnar. En Lifandi manna land er þó um margt innhverfari bók en þær fyrri, jafnvel í ljóðum einsog „Gesturinn“ sem er næstum kumpánlegt í tóni: „Ég hnippi í þig kunningi“. Von er á gesti sem við vitum ekki hver er og ljóðmælandi segir: „hann gerir aðeins einfaldar og sanngjarnar kröfur“. Lesanda grunar að gesturinn sé dauðinn.
Langnætti á Kaldadal heldur áfram með sömu þróun, opnari kannski, svo sem í ljóðinu „Í teignum“ sem fjallar um holbakka ár sem bráðum mun „hrynja í strauminn“. Ljóðmælandi mælist til þess að „við“ bændur gerum eitthvað því „ánni má brjóta nýjan farveg...“. Aftur og aftur má sjá í ljóðum Þorsteins litlar, hversdagslegar senur: samkvæmi, menn að stíga upp í bifreið, samtal; alltaf marar eitthvað undir yfirborðinu. Titilljóð Jórvíkur, næstu bókar skáldsins, er dæmigert fyrir andblæ þess verks. „Oss frændum“ er „varnað höfuðlausnar“ og þeir frændur svara jafnan ef spurt er um kvæði: „að ekki er ort“. „Vermalandsferðir vorar/ eru að sönnu heldur rislitlar“, þeir hafa verið „friðmenn hér á götunum“. Yrkisefni ljóðsins er ekki Egill Skallagrímsson heldur nútímamaðurinn — en orðunum „við“ og „vér“ bregður ekki síst fyrir í skáldskap Þorsteins þegar hvað fastast er deilt á þjóðina, á nútímamanninn, einsog Njörður P. Njarðvík bendir á í áðurnefndri ritgerð. Þó eru þeir frændur skáld, þeir leggja stund á „marklítið drykkjuraus“ uns „blóðöx“ bindur enda á það; sú virðist vera smíðuð úr orðum og hljóðar svo: „Hið bezta var kvæðið flutt“: líkt og eggjun til lesanda sem gerir sig ánægðan með kvæði sem „ekki er ort“ eða líf sem varla er lifað. Doði, hræsni, kuldi, þægileg og huglaus makindi: þetta eru yrkisefni Jórvíkur; „svo við rífum úr okkur hjörtun,/ hengjum þau utan á okkur/ eins og heiðursmerki“ er ort í ljóðinu „Liðsinni“. Ljóðabálkurinn „Til fundar við skýlausan trúnað“ hverfist um þessi dáðlausu þægindi: „Tvímælalaust ætla þeir á aukin þægindi“ segir í fyrsta hluta og þessir „þeir“ hætta ekki á neitt fyrir sannleikann sem þeim virðist „ófrýnilegri en svo“, hætta ekki einu sinni á „óheppilega nafngift“. Þó líður að þeirri stund að við öskrum, einsog segir í ljóðinu „Dul“.
Svo lýkur samdrykkjum —
fólk reikar heim misviturt og glatt.Viðhöfum dansaðmeð—
hví skyldum við hafna samfylgdinni heim?Þó kjósum við oft að dvelja eftir
þegjandi eða með uppgerðarhlátrum —
hver sönn kennd okkar föst í fjötrum.Við drögum dul
á sárustu reiði okkar ástir og óskir
en sú stund kemur að við öskrum þetta upp.
Þorsteinn fór snemma að fást við líklega íslenskasta formið: sagnaþætti, en Þorsteinn og Hannes Pétursson hafa báðir lagt rækt við þetta form. Þáttasafnið Skuldaskil kom út 1963 og frá 1987 er Ætternisstapi og átján vermenn, bæði söfn ómissandi hluti af heildarverki Þorsteins.
Skáldsögur Þorsteins hafa að undanförnu verið að koma fram í dagsljósið í endurmati. Sú fyrsta, Himinbjargarsaga eða Skógardraumur, kom út 1969 og er óreiðukenndust, tilraunakenndust skáldsagnanna þriggja í formi og frásagnaraðferð, flippuðust, skulum við segja. Hún er öðrum þræði ævintýri en skartar söguhöfundi, meðvituðum höfundi sem spinnur upp söguna, yrkir í eyður í myndmáli gamals leirkers. Sagan gerist á nokkrum plönum. Í forgrunni er ævintýrið um Sigurð (sem er fremur hugtak en nafn) sem hyggst bjarga Himinbjörgu sem rænt hefur verið af jarli nokkrum. Ýmislegt í heimi þessa ævintýris er í ætt við þjóðfélagslega allegoríu en Himinbjargarsaga á heilmikið sameiginlegt með skáldskap dagsins í dag, einkum að formgerð, og kann það að skýra að þessar þrjár skáldsögur féllu í skuggann; voru þær ekki einfaldlega langt á undan sínum tíma? Þó er í þeim gamall andblær, og í þeirri fyrstu, ef mér skjátlast ekki illa, þráður frá Benedikt Gröndal sem ekki hefur mikið verið tekinn upp í íslenskum bókmenntum. En helsta einkenni sagnanna er blöndun gamals tíma og nýs og einstaklega kjarnyrt og fallegt íslenskt mál. Möttull konungur eða Caterpillar er samfelldari skáldsaga en sú fyrsta þótt höfundur segist reyndar í áðurnefndri viðtalsbók „grauta“ í Möttli konungi „saman ýmsum endurminningabrotum, fornum sögum og alls konar draumórum“. Verkið er einræða draugs aftan úr forneskju, mælt við skurðgröfumann sem vinnur við að ræsa fram mýrar. Sá leggur ekki meira en svo við hlustir. Draugurinn gæðir landið sögu og lífi, líkt og hann sé að messa ekki aðeins yfir skurðgröfumanninum heldur um leið framfarahyggju nútímans og skeytingarleysi. Margir telja þessa besta af skáldsögum Þorsteins.
Íslensk launkímni eða jafnvel bölmóður í bestu merkingu þess orðs er einkenni Hausts í Skírisskógi. Þessi saga er ekki raunsæismynd af neinni Reykjavík árið þetta eða hitt í heimild eða á minningarskífu“ segir skáldsagan um sjálfa sig. En Haust í Skírisskógi gerist þó ekki í útlagaskóginum fræga heldur í hliðstæðu og andstæðu hans í íslenskum samtíma. Átrúnaðargoð söguhetjanna er að finna í vörumerki Robin Hood hveitisins og jafnvel í barna- og unglingabók um frjálsræðishetjurnar fræknu. Söguhetjurnar bera sömu nöfn og viðurnefni og kempur skógarins og hittast gjarnan á gildaskála sem nefnist „Eikin“. Þetta eru engir broddborgarar. Samlíðan þeirra með Hróa Hetti og hinum kátu köppum hans er „Hamsúnsk flækingarómantík“, ástæðan „sambandslaust sveitamannaþunglyndi“ einsog segir í verkinu í sjálfsírónískri tóntegund. Ef til vill er Haust í Skírisskógi aðgengilegasta skáldsaga Þorsteins og góður kostur að hefja lesturinn þar.
Hallgrímur smali og húsfreyjan á bjargi, undirtitillinn Söguþáttur úr Borgarfirði er ekki síðri byrjunarreitur. Þetta er söguþáttur samkvæmt hefðinni, þjóðleg fræði einsog þau gerast best; hér segir frá álfaraunum Hallgríms smala og síðan stórmennsku Kristrúnar Hallgrímsdóttur sem bjó á bænum Bjargi í Borgarfirði við knappan kost. Viðskipti hennar við ótuktarlegan hreppstjóra eru til umfjöllunar. Verkið verður ekki borið saman við skáldsögurnar; það er sumpart aðgengilegra og hrein skyldulesning fyrir alla aðdáendur þjóðlegra fræða.
Á milli skáldsagnanna þriggja komu ljóðabækurnar Veðrahjálmur og Fiðrið úr sæng daladrottningar. Þetta eru magnaðar bækur og sameina margt af því besta úr fyrri bókum. Kaldhæðni er orðin ríkur þáttur í ljóðunum en einnig hugsjón, svo sem í ljóðinu „Mannsblóð“ úr fyrrnefndu bókinni.
Um alkyrr svæfandi dægur
býður oss annað veifið í grun
að um æðar vorar renni blóð
og af þessu fáum vér bakþanka:
maðurEn til allrar lukku
er blóði einungis úthellt í fréttum —
og aðeins í svefnrofunum
vaknar hugboð um að gildin séu tvö:
maður og maður.
Ég er ekki einn um dálæti á Fiðrinu úr sæng Daladrottningar. Það er einsog eitthvað opnist í þeirri bók og flæði fram af miklum krafti sem á sér ekki alveg hliðstæðu í ljóðagerð Þorsteins; eða kannski er þetta aðeins tilfinningin sem fyrsta ljóðið í verkinu gefur, ljóðið „Ísland“:
Ég vil líkjast þér, land
en sætti mig samt
við mannsgerviðog mannshugannog víst kvíslast blóðrás mín og kenndir
í líkingu lækja þinna.Hvað um vor þín
Með vatnagangi og skriðuföllum:hitti þá einhver á æð eða kviku?
Spjótalög á spegil kom út 1982 og kápa frumútgáfunnar sló sterkan tón: ljósmynd á forsíðu sýnir brotinn spegil, andlit skáldsins í brotunum á baksíðu. Titillinn er úr örstuttu ljóði sem nefnist „Samviska“: „Samviska —/sál mín herðir/spjótalög á spegil.“ Sterk sjálfsglíma á sér stað í þessari bók, „Vér lifum og nögum/ljóðkjúkuna“ segir í „Rúnaristu“ fyrsta ljóði bókarinnar. Og við krossfestum hvert annað; yrkisefni ljóðsins „Golgata“ er, að mér finnst, „gildin tvö“: maður og maður.
Þú kaupir þér ekki nagla
til að krossfesta sálir —
þú þarft einungis
að hnykkja rétt á orðunum.Hafðu ekki áhyggjur
af handvömm á ytra borði.
Það er jarðveginum að kenna
ef krossarnir hallast,og ekki nema mátulegt
á þögul vitni
Síðari bækur Þorsteins hafa tekið nýja stefnu, eru persónulegri, nálægari, leita gjarnan á bernskuslóðir. Þetta má sjá alveg frá Nýjum ljóðum en þó einkum Urðargaldri sem kom út 1987; með þeirri bók hefst nýtt tímabil. Síðan komu Vatns götur og blóðs 1989. Sama stefna, bara sterkari. Ég vil þó ekki heldur ýkja breytinguna, ýmislegt er í kunnuglegum anda, svo sem þemað (eða senan) í ljóðinu „Heiðursgestir“: „Umburðarlyndir, / nánast utangátta / hlýddu þeir á þakkarávörpin / lofið /um ljósbera andans“.
„Hilling“ er reyndar ekki alveg dæmigert ljóð fyrir Vatns götur og blóðs, óvænt mynd af ljóni á Mýrdalssandi. Raunsæisleg áferð á myndinni, líkt og geispandi ljón sé eðlileg íslensk náttúrumynd. Ljónið liggur þarna ennþá að loknum fyrstu ljóðlínum þótt skipt sé yfir í þátíð í framhaldinu og ljóðmælandi sé kominn á Klaustur. Hvaða ljón er þetta? Hvaðan slapp það? Hver er heimur þess? Og hver er eigandinn? Hugsi hver fyrir sig;
Á Mýrdalssandi liggur ljón við veginn
og lætur sem það hafi gleymt hver á það
en sefur þarna satt og eitt og fagurt!Vonandi ratar eigandinn aldrei þangað.
Óskaplega fannst mér gaman að sjá það
blunda í grjótinu, gult, sloppið úr helsi!Það geispaði, vakið til hálfs, móti sól í austri
líkt og það vildi mæla við mann og annan:
Heimur minn sé háttvirtri sál yðar nægur...Ég hugsaði um það dögum saman á Klaustri
Sæfarinn sofandi er ljóðabók sem seint verður oflofuð. Á eftir henni kom Það talar í trjánum. Jafnsterkar bækur, með þeim bestu, og maður hefur tilhneygingu til að flokka þær saman. Hér eru dulmögn og náttúruhyggja orðin ríkjandi, það sem ekki er hægt að segja, það sem hangir á „álagaþræðinum, svo veikum/ að hann hrekkur í tvennt/ ef talað er um hann“ einsog segir í eldri bók. „Mér er í mun að setja heiminn saman“ er ort í eru Sæfaranum sofandi. Titilljóðið hljóðar svo:
Ég lá í vari
lengur en minnið nær.
Vopn færðu mér karlar,
konurnar lífstein.
Allt fór að reglu.
Sandur. Sól. Blær.Hver hjó á festar í myrkrinu
meðan ég svaf?
Hver er ég
og hvar er mín gjöfula fjara?
Nær sem utar óreiða.
Blóðugt haf!Maðksjór.
Tóm til að spyrja.Um seinan að svara.
Að heyra Þorstein sjálfan lesa ljóðin á geisladisk, sem er hægt að fá lánaðan á Borgarbókasafninu, varpar ljósi á ýmislegt enda eiga þau rætur í munnlegri hefð; ég minni á Sigurð Breiðfjörð. Naum en mikilsverð áhersluþögn kemur á undan orðinu „bað“ og lætur það kallast á við titil ljóðsins „Skógaraltarið“ sem er fyrsta ljóðið í „Það talar í trjánum“:
Ég bað að mér yrði gefið að hugsa af gnægð,
án tvíveðrungs, án látaláta,að allar sífellur og samfellur
í tilhaldssemi orðs og æðis
léttu sér upp af lund minni —já, jafnt hin ábúðarfulla launung
sem allir sýndarhimnarnir...Ó, taktbundna yfirskin!
Og tunglið óð í skýjum,ungan náttfara næddi
undir ofur véfréttalegu
tré allra tíða
við ys frá gestum í grenndþar sem öllum setningum
virtist saman skipað af guðum ...
Freistandi er að kalla þessa bæn fagurfræði Þorsteins í hnotskurn, allavega í síðari verkum hans.
Nýjasta bók Þorsteins, Vetrarmyndin, heldur áfram á sömu braut og bækurnar tvær á undan en bætir kannski ekki miklu nýju við. Vetrarmyndin hefur ekki kallað jafn sterkt á lesendur Þorsteins og margar fyrri bækur. Þó eru þarna ljóð sem jafnast fyllilega á við það besta sem Þorsteinn hefur ort, svo sem „Rökkurhelgin“:
Rökkurhelgin
fáskiptin, frægðarlaus:ekkert
stendur til,
enginn
undirbýr neitt
ekkert hefur gerzt
nema einhver
hafði kannski
dagaskipti við drottinog svo
gerast undrin
án þess að vera sérstaklega
hringd inn:
hvarvetna kvikna
óvænt
litlar, ljóðkynja hátíðir…Og mistök verða.
En fyrir margt er bætt
af svo yfirlætislausri auðlegt
að fyrir ber að við flýjum
á náðir álfa og englaþegar hugsanir okkar og orð
hrökkva naumast
fyrir ögn af því
sem vitranir okkar eiga skást skilið.
© Hermann Stefánsson, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Anton Helgi Jónsson: „Í skógi sem ekki er til: nokkur orð um Þorstein frá Hamri og ljóð hans“
Tímarit Máls og menningar, 77. árg. 4. tbl. 2016, s. 36-42
Atli Harðarson: „Hin sjálfbirgu svör og efahyggja Þorsteins frá Hamri“
Són 2014, 12. árg., bls. 141-148.
Ástráður Eysteinsson: „Til móts við lífsreynsluna: skyggnst í nýjustu ljóðabækur Matthíasar Johannessen og Þorsteins frá Hamri“
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 4. tbl. bls. 76-85.
Böðvar Guðmundsson: „Norrænufræðingur hlustar og spyr Þorstein frá Hamri“
Skírnir 142. árg. 1968, s. 112-126
Jón Sigurðsson: „Minn trúnaður er ykkar trúnaður. Athugasemdir um kveðskap Þorsteins frá Hamri“
Tímarit Máls og menningar, 30. árg., 3. – 4. h. 1969, s. 132-162, 300-326
Matthías Viðar Sæmundsson: „Það er seigt í þessu kvikindi“ [Viðtal við Þorstein frá Hamri]
Stríð og söngur. Reykjavík: Forlagið, 1985, s. 167-196
Pjetur Hafstein Lárusson: „... hjartað í okkur sjálfum ...“
Hluti viðtals sem birtist í Café Existens
Ljóðormur, 8. tbl. 1988, s. 58-61
Sævar Ingi Jónsson: „Bíðið meðan hann syngur: nokkur orð um rithöfundaferil Þorsteins frá Hamri“
Borgfirðingabók 2008, 9. árg., bls. 201-4.
Um einstök verk
Allt kom það nær
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Enn er ég hægt og seint að verða til“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2011, 6. árg., 3. tbl. bls. 124-9.
Dyr að draumi
Böðvar Guðmundsson: „... hjá okkur hér“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 1. tbl. 2006, s. 86-88
Fiðrið úr sæng Daladrottningar
Silja Aðalsteinsdóttir: „Fiðrið úr sæng Daladrottningar“
Tímarit Máls og menningar, 39. árg., 2. h. 1978, s. 209-212
Hallgrímur smali og húsfreyjan á Bjargi. Söguþáttur úr Borgarfirði
Matthías Viðar Sæmundsson: „Hungurveröld hreppstjórans“
Teningur, [7. árg.], 10. h. 1991, s. 45-47
Himinbjargarsaga eða Skógardraumur. Ævintýri
Gunnar Benediktsson: „Með táknum og stórmerkjum“
Tímarit Máls og menningar, 31. árg., 1. h. 1970, s. 77-90
Ólafur Jónsson: Himinn á herðum 3. „Himinbjargarsaga eða Skógardraumur“
Líka líf, s. 62-66
Sverrir Hólmarsson: „Himinbjargarsaga eða Skógardraumur“
Skírnir, 144. árg. 1970, s. 231-232
Hvert orð er atvik
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2009, 4. árg., 1. tbl. bls. 85-98.
Í svörtum kufli
Ari Jósepsson: „Í svörtum kufli“
Forspil, 1. árg., 1. tbl. 1958, s. 4
Jóhann Hjálmarsson: „Í svörtum kufli“
Birtingur – Reykjavík, 4. árg., 3. – 4. h. 1958, s. 63
Jórvík
Baldur Ragnarsson: „Jórvík“
Tímarit Máls og menningar, 29. árg., 2. h. 1968, s. 200-203
Ólafur Jónsson: Himinn á herðum 2. „Jórvík“
Líka líf, s. 60-62
Lángnætti á Kaldadal
Kristinn Jóhannesson: „Lángnætti á Kaldadal“
Mímir 4. árg., 1. tbl. 1965, s. 52-53
Ólafur Jónsson: Himinn á herðum 1. „Lángnætti á Kaldadal“
Líka líf, s. 56-59
Lifandi manna land
Þorsteinn Þorsteinsson: „Tannfé handa nýjum heimi, Lifandi manna land“
Tímarit Máls og menningar, 24. árg., 1. h. 1963, s. 81-84
Þóroddur Guðmundsson: „Lifandi manna land“
Skírnir, 136. árg. 1962, s. 244-246
Meðan þú vaktir
Guðbjörn Sigurmundsson: „Kvöldstef næturgalans“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 1. h. 2000, s. 110-113
Möttull konungur eða Caterpillar. Saga úr sveitinni
Siglaugur Brynleifsson: „Eilífðarvera þjóðsögunnar“
Tímarit Máls og menningar, 36. árg., 1. h. 1975, s. 110-112
Núna
Þorleifur Hauksson: „Andartök: ígildi heims sem var heill“
Tímarit Máls og menningar, 78. árg., 3. tbl. 2017, s. 107-110
Ný ljóð
Páll Valsson: „Ný ljóð“
Skírnir, 160. árg. 1986, s. 372-375
Vésteinn Ólason: „Ný ljóð“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 2. h. 1986, s. 258-260
Skessukatlar
Guðbjörn Sigurmundsson: „Maðurinn og jörðin“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 3. tbl. bls. 133-5.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „„Lífsmark liðinnar stundar““
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Spjótalög á spegil
Helgi Grímsson: „Spjótalög á spegil“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 5. h. 1983, s. 571-579
Sæfarinn sofandi
Kristján Árnason: „Svefnrof sæfarans“
Skírnir, 167. ár, 1993, s. 521-530
Páll Valsson: „Hljóðlát rýni tímanna“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 1. h. 1993, s. 98-102
Tannfé handa nýjum heimi
Jóhannes úr Kötlum: „Flett tveim nýjum bókum“
Tímarit Máls og menningar, 21. árg., 3. h. 1960, s. 225-231
Leiðréttingar [við grein Jóhannesar úr Kötlum: „Flett tveim nýjum bókum“]
Tímarit Máls og menningar, 21. árg., 4. h. 1960, s. 272
Sigurður Jónsson frá Brún: „Tannfé handa nýjum heimi“
Eimreiðin, 66. ár, 1. h. 1960, s. 92-94
Þorsteinn Þorsteinsson: „Tannfé handa nýjum heimi, Lifandi manna land“
Tímarit Máls og menningar, 24. árg., 1. h. 1963, s. 81-84
Urðargaldur
Þórir Óskarsson. „Urðargaldur“
Skírnir, 161. ár, haust 1987, s. 407-411
Vatns götur og blóðs
Silja Aðalsteinsdóttir: „Tvíleikur“
Tímarit Máls og menningar, 50. árg., 4. h. 1989, s. 516-518
Veðrahjálmur
Jón Sigurðsson: „Finnist þér lagt í rústir“
Tímarit Máls og menningar, 33. árg., 3.-4. h. 1972, s. 310-312
Rannveig G. Ágústsdóttir: „Veðrahjálmur eftir Þorstein frá Hamri. Listræn og hugmyndaleg megineinkenni“
Mímir, 16. árg., 1. tbl. 1977, s. 6-20
Það talar í trjánum
Silja Aðalsteinsdóttir: „Játningar minningasafnara“
Tímarit Máls og menningar, 57. árg., 2. h. 1996, s. 125-129
Verðlaun
2015 – Menningarverðlaun DV, heiðursverðlaun
2009 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu
2006 – Heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands
2004 – Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar
2004 – Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta, verðlaun veitt af Félagi starfsfólks bókaverslana
2001 – Heiðurslaun Alþingis
1997 – Heiðursstyrkur úr Menningar- og styrktarsjóði SPRON
1996 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf
1992 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sæfarinn sofandi
1991 – Stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar
1981 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Haust í Skírisskógi
1981 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Gestir í gamla trénu (fyrir þýðingu)
1968 – Viðurkenning úr Minningarsjóði Ara Jósefssonar
1962 – Rithöfundsjóður Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
2015 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Skessukatlar
2013 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Skessukatlar
1999 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Meðan þú vaktir
1995 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Það talar í trjánum
1992 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Vatns götur og blóðs
1984 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Spjótalög á spegil
1979 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Fiðrið úr sæng Daladrottningar
1972 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Himinbjargarsaga eða Skógardraumur
Kvæði og sögur
Lesa meiraMyndarlegt úrval af kvæðum og sögum þessa brautryðjanda vestrænna nútímabókmennta, sannkölluð stórbók með þýðingum frá fyrri tíð, en líka glænýjum þýðingum eftir marga kunna þýðendur. Meðal eldri þýðinga eru Svarti kötturinn og Hjartslátturinn í þýðingu Þórbergs Þórðarsonar, Hrafninn í rómuðum þýðingum Einars Benediktssonar og Þorsteins frá Hamri, Í röstinni í þýðingu Málfríðar Einarsdóttur og Draumaland í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Nýir þýðendur kvæða og sagna eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Ástráður Eysteinsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir, Jón Karl Helgason, Rúnar Helgi Vignisson og Sjón.Höfuðljóð
Lesa meiraNúna
Lesa meiraLjóð í leiðinni: skáld um Reykjavík
Lesa meiraSkessukatlar
Lesa meiraOp steengrond en in wouden / Í klungrum og myrkviði
Lesa meiraAllt kom það nær
Lesa meiraJarðarteikn – Erdzeich
Lesa meiraHvert orð er atvik
Lesa meira