Beint í efni

Hvítfeld – fjölskyldusaga

Hvítfeld – fjölskyldusaga
Höfundur
Kristín Eiríksdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Hvítfeld – fjölskyldusaga er fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur. Hún er þó engin byrjendasaga, heldur þaulhugsuð og metnaðarfull skáldsaga sem nýtir sér meðvitað eiginleika skáldsöguformsins og leikur sér jafnvel að þeim. Kristín er í yngri deild íslenskra rithöfunda, oft tengd við grasrótarhreyfinguna Nýhil, og vakti athygli fyrir ljóðabækur sínar Kjötbærinn og Annarskonar sæla. Ljóðagerð hennar einkennist af súrrealískum stílbrigðum, óhugnaði og ókennileika. Eins og smásagnasafnið Doris Deyr frá árinu 2010, hefur Hvítfeld að geyma ókennileika í mun raunsærra formi en ljóð Kristínar, sem kemur fyrir vikið sérlega óþægilega við lesandann. 

Jenna Hvítfeld er aðalpersóna sögunnar. Sem unglingur er Jenna afburða persóna, hún er fimleikastjarna og henni gengur vel í skólanum. Á fullorðinsárum hefur hún alið manninn í Texas í Bandaríkjunum og í gegnum íslenska slúðurpressu berast fréttir af afrekum hennar; hún er ekki einungis afburða falleg heldur einnig afburða klár, úrvalsnemandi í eðlisfræði sem stundar geimþjálfun til að undirbúa sig fyrir geimferðir, og þekkir allt fræga og fína fólkið í Hollywood. Þegar systir hennar deyr neyðist hún til að fara aftur til Íslands, ásamt dóttur sinni Jackie, og mæta fjölskyldu sinni og vandamálum hennar. Það fær Jennu til að horfast í augu við sjálfa sig og að afhjúpa fjölskylduleyndarmálin sem hafa haft meiri áhrif á persónu hennar en hún gerði sér grein fyrir.

Þó að söguþráðurinn geti hljómað á þennan veg segir það alls ekki alla sögu Hvítfeld. Inn í fléttast mjög sérstæð bygging og form sem stöðugt grefur undan söguþræðinum og sögunni sem aðalpersónan Jenna segir. Hér er um að ræða nokkurs konar afhjúpunarform; lesandi fær sögu, sem við nánari skoðun er ef til vill dálítið yfirborðskennd, en hann fattar það ekki fyrr en söguhöfundurinn gerir honum grein fyrir blekkingunni. Flett er ofan af Jennu og fjölskyldu hennar í gegnum úthugsaða og hnitmiðaða byggingu; sagan fer fram og aftur í tíma og rúmi og við komum stundum aftur að sama augnablikinu en frá mismunandi sjónarhornum – sem undirstrikar margröddun sögunnar og ólíka afstöðu persónanna. Þá gefur blekkingaleikurinn söguhöfundinum ákveðið tækifæri til að leika sér með ýmis atriði sem hún þarf svo ekki að afgreiða til enda öðruvísi en að segja að sé uppspuni. En rétt eins og ein persóna sögunnar bendir á hafa lygar líka merkingu: „Laufey segir að lygar séu ekki merkingalausar frekar en skáldskapur eða draumar. Í rauninni séu þær búnar til úr sama efni.“ (257)

Sem dæmi um uppspuna, sem hefur mikil áhrif á söguna, og ekki síst lestur hennar, má nefna gægjusýninguna, eða „peep-show“, sem Jenna segir að hún hafi unnið við og lýsir í smáatriðum. Smáatriðin sem lýst er í textanum beina athyglinni að lesandanum sem verður sjálfur að gægi við lesturinn; eins og sveittu karlarnir á búllunni fylgist hann eða hún einnig með Jennu fækka fötum og fróa sér. Gægjusýningin undirstrikar hlutgervingu sögupersónunnar og gerir um leið lesandann að þátttakanda í þeirri samfélagslegu firringu sem sagan reynir að endurspegla. Þannig býr söguhöfundur til kjörnar aðstæður fyrir gagnrýni sem sérstaklega er beint til lesandans; hún bendir ekki einungis á tvískinnungshátt, lygar og þöggun samfélagsins, heldur bendlar um leið lesandann við þessa þætti sem þátttakanda í þessu samfélagi. Firringin er ekki einungis undirstrikuð með klámsýningu Jennu, heldur einnig í fjölskyldulífinu, sem einkennist af skrítnum eða nánast engum samskiptum, einmanaleika, kulda og lygum. Og á einum stað er þessi lygasýki tengd mjög bersýnilega við lygavefi, afneitun og sýndarveruleika sem að lokum leiða til hruns heils hagkerfis og samfélags. Það er því augljóst að Hvítfeld er að vissu leyti skrifuð sem viðbragð við vissu samfélagsástandi í samtímanum.  

Gægjusýning í bókmenntum er atriði sem oft er notað til að stuða lesandann, einmitt til að benda honum á þátttöku hans sjálfs í firringu sem sagan reynir á gagnrýnin hátt að undirstrika og jafnvel uppræta. Í Píanókennaranum eftir Efriede Jelinek er að finna einhverja eftirminnilegustu frásögn af gægjusýningu sem tekst nákvæmlega þetta. Jelinek er höfundur sem vakið hefur athygli fyrir róttæka gagnrýni á samfélag feðraveldis, hún er afar umdeild en hlaut samt sem áður nóbelinn árið 2004. Að líkja Hvítfeld Kristínar við Píanókennarann eftir Elfriede Jelinek tengir verk Kristínar við ákveðna bókmenntategund sem notar grótesku og grimmd til að gagnrýna ákveðna þætti samfélagsins. Það er mikið fagnaðarefni að slíkur höfundur finnist á Íslandi; höfundur sem gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að takast á við samfélagið, sem hann er sprottinn úr, og vandamál þess á skapandi og gagnrýnan hátt.

Í Hvítfeld beinist samfélagsgagnrýnin að tvískinnungshætti kláms, kvenímyndum og samfélagi sem, með þöggun sinni, samþykkir kynbundið ofbeldi. Langflestar kvenpersónur sögunnar eru beittar kynferðislegu ofbeldi og ganga yfirleitt í kjölfarið í gegnum erfitt ferli þar sem þær álasa sjálfum sér fyrir að hafa „lent“ í því – eins og það sé þeim að kenna að þeim hafi verið nauðgað. Mikil umræða hefur verið á Íslandi um þessi mál og mikilvægi þess að ábyrgðin eigi heima á réttum stað – hjá þeim sem nauðgar. Þessi gagnrýni á þöggun er undirstrikuð þegar einn karakter sögunnar, ungur drengur, verður vitni að kynferðisofbeldi og segir pabba sínum frá því. Pabbinn biður hann að geyma það með sjálfum sér og segir: „Svona er þetta bara stundum. Svona eru strákar bara. Hafa alltaf verið. Svona er þetta bara.“ (207) Þá beinir höfundur einnig sjónum að geðsjúkdómum og fordómum gagnvart þeim sem koma oft í veg fyrir að geðsjúkir leiti sér hjálpar og fái rétta meðhöndlun við veikindum sínum. Hvítfeld sýnir hvernig geðsjúkdómar hafa áhrif á fjölskyldulíf og hvernig áhrifin verða beinlínis hættuleg ef ekki er talað opinskátt um sjúkdóminn og um afleiðingar hans.

Stílbrigði eins og þau, sem skapast fyrir tilstilli gægjusýningarinnar og gera söguna óþægilega aflestrar, tengjast því sem ég í upphafi þessa pistils kallaði ókennileika. Það einkenni hefur fylgt skáldskap Kristínar frá upphafi og skapar henni ef til vill ákveðna sérstöðu í meginstraumi íslenskra bókmennta þó að aðrir höfundar, og margir á meðal Nýhilliða, nýti sér það einnig. Hugtakið „uncanny“ eða „unheimlich“ er komið frá Freud og lýsir óhugnaði sem verður til við endurkomu. Í stuttu og einföldu máli er það þegar eitthvað, sem telst kunnuglegt,  jafnvel heimilislegt, snýr aftur og verður við þann viðsnúning að einhverju ókunnuglegu eða ókennilegu. Dauðir líkamar, t.d. dúkkur, sem lifna við lýsa ókennileika ef til vill best en þó segir Freud í grein sinni um hið ókennilega að það, að vera grafinn lifandi, þyki fólki ókennilegast af öllu. Þó að atburðarásin gangi aldrei svo langt – Hvítfeld er ekki hryllingssaga, til þess er hún of raunsæ – er Kristín mjög leikin í að skapa áhrif ókennileika. Meðal annars í gegnum smáatriði sem virðast ekki koma söguþræðinum við en gera það ef til vill síðar. Þetta eru atriði sem birtast í formi innskota sem stinga dálítið í stúf við textann, minna jafnvel á innsetningar eða videóverk á samtímalistasafni, skapa þrúgandi andrúmsloft og gefa til kynna að ekki sé allt með felldu. Söfnunarárátta móðurforeldra Jennu, sem breytir heimilinu í hálfgerðan ruslahaug, er til að mynda gott dæmi um ókennilegt smáatriði sem í farvegi sögunnar öðlast skýrari merkingu.

Þó að mér hafi fundist oft erfitt að lesa Hvítfeld og beinlínis farið í fýlu eftir lestur sumra kafla, er hún dæmi um sögu sem situr í lesandanum löngu eftir að lestrinum er lokið, jafnvel saga sem lesandinn þarf að fá að ræða um við aðra, melta og meta í nokkra daga eða vikur.  Hvítfeld er því hiklaust ein af forvitnilegri skáldsögum sem komu út á síðasta ári. Þá er vert að taka það fram að hún er afar vel skrifuð og stíluð; textinn er áreynslulaus og lesturinn liðast mjúklega áfram – þó að efni sögunnar valdi því að lesandann reki á stundum hressilega í rogastans.

Vera Knútsdóttir, febrúar 2013