Beint í efni

Hyldýpi

Hyldýpi
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Tíu ára strákur sekkur í hyldjúpt og kyrrt vatnið og sér þar sýn; stelpu á aldur við hann sjálfan sem réttir honum eitthvað. Tíu árum síðar verður strákurinn fyrir árás og finnst nakinn í skurði. Hann man ekkert eftir aðdraganda árásarinnar en fréttir svo að sama dag hvarf ung stúlka, sem hann er sannfærður um að sé sú sama og hann sá í vatninu. Hann er einnig sannfærður um að hvarf hennar tengist sínu á einhvern hátt og sé glæpsamlegt og reynir að rannsaka málið í trássi við allt og alla, en stúlkan hafði verið nokkuð þekkt fyrir lauslæti og því er hvarf hennar ekki tekið mjög alvarlega. Grunur hans beinist að samstarfsmönnum sínum á fasteignasölunni, frændanum Bergi og bræðrum sem eru vinir hans. Þeir þrír voru einmitt með honum úti á báti á vatninu þegar hann sökk ofaní djúpið. Þeir stunda ekki aðeins vafasöm viðskipti heldur virðast þeir hafa tileinkað sér einskonar heimspeki illskunnar. Inn í málið blandast svo misnotkun í æsku, en allir voru strákarnir misnotaðir af sama manninum, föður Bergs, en hann rekur einmitt fasteignasöluna sem þeir vinna allir hjá.

Þrátt fyrir að þetta sé nokkuð magnað upplegg þá vantar aðeins sterkari tök í þessa nýjustu sögu Stefáns Mána, Hyldýpi. Bókin er vissulega áhugaverð og nokkuð öflug, en þó er eins og höfundur hafi stytt sér leið hér og þar með notkun á staðalímyndum og klisjum, sem ná ekki að öðlast nægilegt líf. Ný tök á kunnuglegum karakterum og klisjum hafa einmitt oft einkennt verk Stefáns Mána, ekki síst eftir að hann tók til við að leika sér með form spennusögunnar. Fram að því hafði hann sent frá sér hæfilega táknsæar skáldsögur um unga týnda menn, en með Svartur á leik (2004) hefur spennusagan verið mest áberandi. Það var þó með Skipinu (2006) sem Stefán Máni sýndi flottustu taktana og er hún ein af betri spennusögum síðustu ára.

Hyldýpi er einskonar blanda af þessum tveimur meginþráðum höfundarverksins, að hluta til spennusaga, en að hluta til könnun á persónu ungs manns, aðalsöguhetjunnar sem heitir því fallega nafni Sölvi Helgason. Tilvísunin er augljós, Sölvi greyið er tvítugt rekald sem veit ekki vel hvað hann vill með líf sitt, eða hvort hann vill nokkuð með það yfirleitt. Að þessu leyti minnir hann á fyrri sögupersónur í verkum Stefáns Mána, eins og til dæmis ungu mennina í Hótel Kalifornía, Ísrael og Svartur á leik, sem allir eru á einhvern hátt leiksoppar annarra, iðulega kvenna og vonlausra ásta, en einnig vafasamra manna. Stundum reynast þeir ofurlítið vafasamir sjálfir, eins og Stefán í Svartur á leik.

Sem mótvægi við þessi reköld teflir Stefán Máni svo fram sterkum körlum, sterabúntum sem láta sér ekkert fyrir brjósti brenna, en félagar Sölva eru einmitt af því taginu; hér eru þeir augljóslega táknmynd fyrir þann her ungra verðbréfa-gutta sem svo ötullega stuðluðu að fjármálakreppunni, menn sem svífast einskis í viðskiptum, hvort sem það er með fasteignir eða konur.

Allt er þetta vissulega áhugavert, en virkar á stundum eins og hraðskrift, svona næstum því naglasúpulegt. Á hinn bóginn eru einnig sterkir bógar í sögunni. Þeir birtast hvað mest í þeim hálfmystísku töktum sem svo oft einkenna verk Stefáns Mána, lýsingin á vatninu og atburðunum þar er glæsileg og víða sýnir höfundur virkilega flotta takta í að framkalla svimandi andrúmsloft spennu og óhugnaðar.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2009