Beint í efni

Jarðnæði

Jarðnæði
Höfundur
Oddný Eir Ævarsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Emma Kennedy, breskur grínisti, leikkona og öflugur twittari, lét byggja fyrir sig skúr um daginn – við enda bakgarðsins, þar sem hún hefði ró og næði til sköpunar og skrifta. Hún lýsti fjálglega gleðinni, frelsinu, næðinu sem þessu fylgdi (og ánægjunni með smiðinn sem batt um skúrinn svona fínan borða):

[[{"fid":"5686","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Garðskúr með borða","field_file_image_title_text[is][0][value]":false,"external_url":""},"type":"media","field_deltas":{"2":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Garðskúr með borða","field_file_image_title_text[is][0][value]":false,"external_url":""}},"attributes":{"alt":"Garðskúr með borða","class":"media-element file-default","data-delta":"2"}}]]

Garðskúrar hafa reyndar mjög mikilvæga menningarlega stöðu í Bretlandi, en í gegnum tíðina þó verið fyrst og fremst afdrepi karlmannsins þar sem hann fékk frið fyrir áreiti fjölskyldunnar, húsverka, kvenlegra krafna og fékk að karlmennast í friði. Nýlega varð svo mikið uppþot þegar safn í suður Englandi hóf fjársöfnun til að gera upp skúrinn sem Roald Dahl hafði í sínum garði og notaði til skrifta. Safnið sagðist þurfa 500.000 pund til verksins og þótti mörgum nóg um í miðri kreppu.

[[{"fid":"5685","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Skúr Roald Dahl","field_file_image_title_text[is][0][value]":false,"external_url":""},"type":"media","field_deltas":{"1":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Skúr Roald Dahl","field_file_image_title_text[is][0][value]":false,"external_url":""}},"attributes":{"alt":"Skúr Roald Dahl","class":"media-element file-default","data-delta":"1"}}]]

Skúrinn í huga bresks almennings virðist þá mögulega geta hýst listsköpun en er ekki list.

Í raun væri hægt að skrifa sögu herbergjabókmennta, þar sem kæmi til dæmis við sögu fólk sem lokast inn í herbergjum og þar bæri hæst Hamskipti Kafka og fólk sem væri að leita sér að herbergi eða svæði og væri þá Sérherbergi Virginu Woolf þar fremst í flokki, fólk sem skrifaði stórvirki í smáum herbergjum, eins og Marcel Proust, og svo bækur um herbergi og háaloft þar sem leynist bæld fortíð eins og hjá spænska höfundinum Carmen Martín Gaite í Bakherberginu. Nú hefur Oddný Eir Ævarsdóttir bæst í fríðan flokk höfunda með nýjasta verki sínu Jarðnæði, sem er ein þeirra bóka sem tilnefndar eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár.

Eins og í fyrri verkum eru sjálfsævisögulegir þættir hér áberandi og að þessu sinni í formi eins konar dagbókar, en rauði þráðurinn í gegnum verkið er leit sögumanns að plássi fyrir sig; herbergi, húsi, helli, jörð, sambúðarformi, sem rúmar bæði nánd og næði. Leitin að næðinu í hversdagslífinu er gjarnan bundin ákveðnum flótta frá hefðbundnu fjölskyldulífi. Oft er vitnað til orða gagnrýnandans Cyril Connolly þegar slíkt ber á góma: "There is no more sombre enemy of good art than the pram in the hall." Þessa dapurlegu afstöðu til fjölskyldulífs er þó ekki að finna hér, heldur fremur leit að formi sem geti rúmað þetta allt.

Það má sjá merki fleiri forma en dagbókarinnar í verkinu og þá ekki síst vegasögunnar, því dagbókin er skrifuð víða um land og lönd. Þó er hér ekki á ferð söguhetja sem tekur sig upp og yfirgefur hversdaginn í leit að sjálfri sér og ævintýrum, hér er dæminu snúið við; sögumaðurinn hefur sagt skilið við flakkið og leitar nú að samastað – næði, jarðnæði. Þessi leit er svo fléttuð saman við almennar hugmyndir um samband manns og umhverfis, nýtingu og náttúruverndar.

Glímt er við mörk af ýmsu tagi í verkinu: mörk lífs og listar, veruleika og bókmennta, sjálfs og annars, mörk bókmenntaforma, samfélags og einsemdar. Mörk og mæri eru frjó uppspretta sköpunar, en einnig er varhugavert að eiga við þau, slíkt getur ógnað hefðbundnum valdahlutföllum. Leit sögumanns að jafnvæginu hér á milli er drifkraftur sögunnar og um leið uppspretta hennar.

Nándin er hér eins og í fyrri verkum Oddnýjar til umfjöllunar. Einkum nándin við kærastann og bróðurinn í þetta sinn og hugleiðingar um hvers konar nánd sé eftirsóknarverð, ‚viðeigandi‘, bætandi en ekki tæmandi. Hún veltir fyrir sér sambandi sínu við bróður sinn á ýmsa vegu og finnur hliðstæður og andstæður í öðrum systkinasamböndum eins og hjá Dorothy og William Wordsworth. Í sjálfsævisögulegum verkum getur einmitt reynt á þolmörk nándarinnar og þá ekki síst í dagbókarforminu sem er í eðli sínu hversdagslegt, samtímabundið og náið. Oddný hefur pússað sitt form, jaðarform bókmenntanna, eins og hún kallar það og býður lesandanum uppá náin kynni og lesandinn þarf í raun að gangast inn á þau kynni til að njóta textans. Nándin gæti virst óþægileg á köflum, en um leið er hún tilbúningur. Þótt gripurinn sjálfur sé fagur eins og við var að búast, þá er þetta að sjálfsögðu ekki líkamleg nánd heldur textaleg, sem með vísunum sínum fram og aftur í tíma, sögur, bókmenntir o.fl., skapar einnig næði fyrir lesandann til að finna sitt eigið rými og skrifa sína eigin sögu.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2011.