Það er ekki endilega varanleikanum fyrir að fara í ljóðabók Ingunnar Snædal, Komin til að vera, nóttin, en ljóðin fjalla aðallega um aðskilnað og ástarsorg. Tónninn er öllu hæglátari en í síðustu tveimur ljóðabókum Ingunnar, sem einkennast af undirliggjandi ólgu og gleði, á einhvern mótsagnakenndan hátt er þessi bók ljúfari, þó hún lýsi nístandi tilfinningum:
ljóð
sú sem var uppspretta þessa ljóðs
er farin
og því fellur þetta líka um sjálft sig
Aðskilnaðartemað er síðan skotið ferðalýsingum, en ferðin er áberandi stef í ljóðum Ingunnar. Þannig hefst bókin á ferð heim til Íslands og endar á skilnaði, sem reyndar tekur á sig pólitískt yfirbragð:
við skilnað I
til Steinunnar Jóhannesdóttur
og Einars Karls Haraldssonarjá gott fólk
þetta heitir líka skilnaður
hjá okkur kynvillingunumþið verðið bara að kyngja því
Hér stígur fram töffarinn sem kom víða við í síðustu tveimur bókum.
Ástarsorginni fylgja óhjákvæmilega upprifjanir á fyrri ástum og sorgum. Tilfinningarótið tekur á sig mynd velgju sem síðan brýst út í ælu í þremur ljóðum, „svona ælir dama”, en þar ælir ljóðmælandi pent í klósett áður en hún stígur fram og heilsar nýju kærustu síns fyrrverandi. Í „þroska” segist ljóðmælandi ekki hafa lært margt af tuttugu árum af ástarsamböndum, „síðan ég kastaði upp steik / og bökuðum kartöflum á / gólfið í borðstofunni” eftir að hafa loks nælt í strákinn sem hún hafði elskað úr fjarlægð. Í næstsíðasta ljóði bókarinnar „til baka” er síðan beinlínis reynt að kalla fram þessi hreinu líkamlegu viðbrögð ungdómsins, en þar segir að „á mínum aldri / lendir fólk ekki í ástarsorg” heldur „upplifir einfaldlega / óþægindi / strokar númer út úr / símanum sínum”:
þess vegna drekk ég stundum
þar til ég er orðin sautján ára
og farin að æla á
annarra manna parket
Það sem gerir þessi ljóð svo áhrifarík er spennan sem myndast á milli lýsinganna og viðfangsefnisins, en Ingunn hefur sérlega sterk tök á því að grípa ferska tóna í viðfangsefni sem er útjaskað af klisjum. Mitt í íróníunni og kímninni vella tilfinningarnar fram og þó það sé ekki hægt að segja að ljóðin séu hliðstæða ælunnar sem gusast út úr ljóðmælanda, þá er ljóst að þeim fylgir einhverskonar úthreinsun og útrás (nei, ekki þannig útrás).
Klisjurnar verða Ingunni auðvitað uppspretta ljóða líka, einsog í „fjórði júlí í firði austanlands”, en þar situr ljóðmælandi úti í íslenskri náttúru og það „eina sem minnir á / bandarískan bróður dagsins / eru klisjukenndar / - beint úr lélegri bíómynd - / hugsanir mínar um þig”. Í næstu tveimur ljóðum eru svo hugsanir sem eru afskaplega langt því frá að vera klisjukenndar, vindurinn sækir lykt hinnar elskuðu „þvert yfir landið / bara til að gera mig brjálaða” í „fjarlægð” og í „sumarást” situr ljóðmælandi við sjóinn og rifjar upp „kossana sem við kysstumst ekki”, húðflúrar svo akkeri á bak ástkonunnar: „þú sekkur til botns”.
Þannig spannar nóttin allt litrófið, frá grótesku til ljúfsárra augnablika, allt er þetta á sinn snjalla og hógværa hátt bæði heillandi sorglegt og lymskulega fyndið í flínkum höndum skáldkonunnar, sem svo sannarlega er komin til að vera.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2009