Æviágrip
Ingunn Snædal er fædd á Egilsstöðum 10. ágúst 1971 og ólst upp á Jökuldal. Hún lauk B.ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1996 og lagði stund á írskunám við háskólann í Galway á Írlandi 1996-97. Árið 2006 hóf hún nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Ingunn bjó í Írlandi frá 1996-98, á Costa Rica og í Mexíkó 1998-99, á Spáni 2001-02 og sumarlangt í Danmörku 1998. Á Íslandi hefur hún kennt í grunnskólum auk þess að vera prófarkalesari, ráðskona í vegavinnu, bensínafgreiðslumaður, þjónustustúlka, sendisveinn, keyra út póst, vinna á síldarvertíð, semja auglýsingar og vera einkakennari.
Fyrsta ljóðabók Ingunnar, Á heitu malbiki, kom út hjá höfundi 1995. Önnur bók hennar, Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást, kom út 2006 hjá bókaforlaginu Bjarti. Bókin fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þriðja ljóðabók Ingunnar, Í fjarveru trjáa – vegaljóð, kom út sumarið 2008. Ljóð eftir hana hafa einnig birst í nokkrum ljóðasöfnum, m.a. Ljóð Austfirðinga 1999, Skáldaval IV 2007, tímaritinu Andblæ 1996, Nema ljóð og sögur 1996, Huldumál – hugverk austfirskra kvenna 2001, Wortlaut Island: Isländische Gegenwartsliteratur 2000, Pilot: Debutantologi í Noregi og víðar. Ingunn hefur ennfremur þýtt verk eftir erlenda höfunda á íslensku.
Frá höfundi
Af hverju skrifa ég?
Einfaldasta svarið við því er að mér finnst það gaman. Ég hef alltaf verið hugfangin af orðum, samspili þeirra og áhrifum. Hugsunin verður til í kippum af safaríkum orðum, líkt og samanspyrtir silungar, hengdir upp á prik.
Er heimur orðanna annar en raunveröld okkar? Auðvitað er hann það. Og vitaskuld er hann það ekki. Orðin gefa okkur það sem við eigum hvort eð er innra með okkur þótt það finnist hvergi annars staðar. Það er eitthvað undursamlegt við það að orð á blaði geti kallað fram hlátur og grát hjá fólki. Geðshræringar vegna skáldskapar eiga stóran hlut í siðferðis- og tilfinningalegu uppeldi fólks, að minnsta kosti í mínu tilfelli. Fjölmargir af þeim samferðamönnum mínum í lífinu sem ég kann einna best við eru skáldsagnapersónur. Enda á ég mun fleira sameiginlegt með mörgum þeirra en þeim sem hafa heitt blóð í æðum. „Auðvitað gerist þetta í höfðinu á þér Harry en af hverju í ósköpunum ætti það að þýða að þetta sé ekki raunverulegt?“ mælti Dumbledore fróðastur manna.
Af því að það er skemmtilegt?
Af viðleitni til að halda á lofti málfræðiatriðum sem eru á undanhaldi? Til dæmis viðtengingarhætti.
Fyrsta ljóðið mitt var samið þegar ég var um átta ára gömul. Það var raunar hálfgerð níðvísa um einn sveitunga minn og ég botna enn ekkert í þessari ódæmigerðu framhleypni hjá annars feiminni stúlku. Að öðru leyti var þetta ljóð einnig ódæmigert fyrir mína ljóðagerð, það hafði hvort tveggja ljóðstafi og rím sem ég hef ekki stundað mikið síðan enda leikur slíkt mér ekki á tungu. Annars hefur barnæskan fram til þessa verið mér mikil uppspretta skrifa, eins og oft er. Enn eimir eftir af ferskleika barnsins í lífi mínu, eins og bragðvottur á tungunni, nýbakaðar hugsanir stúlku sem sér heiminn í fyrsta sinn.
Á unglingsárunum las ég og skrifaði til að halda geðheilsu, eins og svo margir. Allt sem ég gat ekki sagt fór í bunka af stílabókum, skreyttum með Wham og Duran Duran límmiðum. Ég hélt ég væri einstök í öllum heiminum, engum liði eins og mér og lífsreynsla mín væri þar af leiðandi ómetanlegur fjársjóður á pappír. Þegar ég komst að því að hver einasta lína var klisja og margtuggin tilfinning henti ég öllum bókunum og skrifaði ekki orð í tíu ár. Talandi um að taka sjálfa sig hátíðlega.
Skrifa ég af því að ég er miðjubarn og sem slík þokkalega meðvirk?
Af því að með skrifunum get ég skáldað sjálfa mig upp á nýtt? Skemmtilegri, viðkunnanlegri mig?
Í ljóðum er hægt að slá á svo marga hárfína sammannlega strengi, finna ylinn sem þau veita. Þau eru eins og Opal, hressa, bæta og kæta, eða var það Maltöl?
Til að leika mér?
Til að fá útrás fyrir allar ljótu tilfinningarnar, þessar sem ég skammast mín jafnvel fyrir?
Vitur kona hefur sagt að fólk skrifi vegna þess að það sé eitthvað að.
Það er eitthvað að okkur öllum.
Ingunn Snædal, maí 2009.
Um höfund
Ferðast um ljóð
íslenskt landslag
að hálfu leyti himinn
hinn helmingurinn
minning
Á þessu ljóði lýkur þriðju ljóðabók Ingunnar Snædal, í fjarveru trjáa (2008). Bókin lýsir ferðalagi um landið sem einmitt birtist í ljóðunum sem bland af landslagi og minningum. Þessi blanda ferðalýsinga og minninga einkennir fleiri ljóð Ingunnar, en seinni bækur hennar tvær, verðlaunabókin Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást (2006) og í fjarveru trjáa eru báðar ferðaljóðabækur (eða vegaljóðabækur, í fjarveru trjáa ber undirtitilinn vegaljóð). Þrátt fyrir að það sé ekki eins áberandi mikið um ferðir í fyrstu bókinni, þá ber hún titilinn Á heitu malbiki (1995). Ferðina má einnig skoða í yfirfærðu samhengi, eins og hefð er fyrir í ljóðum, því ástarljóðin í fyrstu bókinni eru ort til karlmanns, en kona er viðfangsefni ástarinnar í næstu bók, ellefu árum síðar. Þannig skapast áhugaverð tilfinning fyrir lífshlaupi sem ferð, því ferðalög fela alltaf í sér einhverjar breytingar, nýjar upplifanir, eins og birtist svo vel í síbreytilegri upplifun af náttúru og landi í fjarveru trjáa.
Náttúran, hið íslenska landslag, leikur þar lykilhlutverk, en þrátt fyrir að Á heitu malbiki innihaldi aðallega ástarljóð þá er náttúran nálæg, bæði sem viðfangsefni ljóða og í myndmáli ástarljóðanna. Snjórinn birtist sem eitthvað mjúkt og fallegt í ljóðunum „Fyrsti snjórinn” og „Snjókoma”, en í því fyrrnefnda „hafa mjólkurhvít skýin / fallið af himnum”. „1. apríl” boðar ekki vor heldur meiri snjókomu og náttúran yrkir ljóðmælanda ljóð í „Þrá”. „Í Möðrudal” birtist okkur drottning fjallanna, „Hún hefur beðið í hundruð ára / eftir ævintýraprinsinum // En allir almennilegir prinsar / hafa megnasta ýmugust / á eldgömlum drambsömum / drottningum”. Ævintýrið snýr aftur í ljóðinu „Regn”, en þar breytir rigningin ljóðmælanda í hafmeyju: „ég syndi mjúklega til sjávar / með léttum sporðaköstum”. Titill bókarinnar er síðan fenginn úr ljóði sem nefnist „Í Neskaupstað í maí 1995” en þar hitnar malbikið í sólinni svo „það rýkur af blautri götunni / eins og guðirnir hafi / í gríni / kveikt í undirheimunum”.
Ástin er þó aðalviðfangsefni bókarinnar og að hætti ferðasögunnar er sögð saga af ferð um ástina, frá sælu yfir í fjarlægð og sársauka vegna aðskilnaðar; öfugt við margar slíkar ástarsögur endar þessi þó vel, því lokaljóðið „Náttflug” lýsir vængjaslætti þarsem „Beiskar hugsanir / flögra á brott”. En það er ekki eina flugið, því fjarlægðinni sem myndast milli elskenda er einnig lýst sem flugi í ljóðinu „Fjarlægð”. Þar fljúga álftir oddaflug og kvak þeirra berst ljóðmælanda „um óravegu” þarsem hún hvílir alsæl í örmum elskhugans, en hugsanir hans eru „víðs fjarri”. Náttúrumyndmálið getur þó líka lýst ástinni í sinni bestu mynd eins og í „Regnbogaljóði”:
Í mildri blámóðu á heitu sumarkvöldi
brosir þú við mér mjúkum rauðum vörum
Gullin hárin á handleggjum þínum gældu við
uppbrettar peysuermar þegar við gengum í döggvotu
grasinu
Hér birtist samband elskendanna í fullkomnu jafnvægi við náttúruna og náttúrulegu litrófi regnbogans, frá bláu, rauðu og gulu yfir í grænt grasið.
„Mig langar að yrkja ykkur ljóð”
Það liðu svo ellefu ár þar til Ingunn sendi næst frá sér ljóðabók og á þeim tíma hefur greinilega ýmislegt gerst í lífi hennar. En það er ekki bara ástin sem hefur breyst heldur hefur tíminn einnig nýst vel til að slípa og fanga ljóðmál skáldkonunnar, sem hlaut verðskuldað bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Guðlausa menn og fylgdi þeirri bók svo eftir tveimur árum síðar með í fjarveru trjáa. Einkenni þessara tveggja bóka er sterk heildarmynd sem gerir það að verkum að ljóðabækurnar lifa sterkt í minningu lesanda, en gera einnig þá kröfu að hann fylgi ljóðunum eftir alla leið. Heildarmynd af þessu tagi, sem á stundum mætti næstum líkja við forn söguljóð, hefur reyndar verið nokkuð áberandi í ljóðabókum yngri skálda undanfarin ár. Kostir slíkrar samfellu eru þeir að veikari ljóð njóta stuðnings frá þeim sem sterkari eru, hvert ljóð á sinn stað í þræðinum sem er ofinn. Áhættan er hinsvegar sú að ef heildin er veik þá getur öll bókin fallið flöt, þrátt fyrir stöku sterk ljóð. Hið síðarnefnda á ekki við í tilfelli Ingunnar sem hefur, að því er virðist, fundið lausn á vandanum sem hún setur fram í upphafsljóði fyrstu bókar sinnar:
Halló
Mig langar að yrkja ykkur ljóð
úr öllum fallegustu orðunum sem ég þekki
í því eiga að veratúlípanar
fiðrildi
brönugrös
kotasæla
stjörnuhrap
vængasláttur
svefnþungi
skellibjöllur
maríutásurÉg sé ekki fyrir mér
í fljótu bragði
um hvað slíkt ljóð gæti fjallað
(Athugið að uppsetning ljóðsins er öðruvísi í bókinni, orðunum er dreift um síðuna).
Vaðið áfram
Þrátt fyrir að önnur ljóðabók Ingunnar beri hinn afarlanga titil, Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást, lætur hún ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Í raun inniheldur bókin bara eitt ljóð, auk inngangs, en það er ljóðið „dauði, ferðalag og játning”. Þetta ljóð er einskonar sjálfsævisaga, jafnframt því að vera ferðasaga, ljóðmælandi er á ferð yfir landið á leið í jarðarför ömmu sinnar, í bílnum með henni eru systkini hennar. Og hún rifjar upp æskuminningar af afa sínum og ömmu, jafnframt því að velta fyrir sér lífi systkina sinna. Inn í þetta langa ljóð koma svo stök ljóð, einskonar stef, sms ástarljóð og hugleiðing um fréttir, ættingja, sveitunga. Sveitin sjálf, landið, er til umfjöllunar bæði í langa ljóðinu og innskotunum. Þannig séð er þetta allt mjög kunnuglegt, ferðaminnið er klassískt ljóðatema, sömuleiðis ástin, náttúran, æskuminningar; hér er meira að segja ljósmyndaljóð sem virðast vera sérlega nærtæk skáldkonum (minnti mig á ofurfalleg ljósmyndaljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur og Þóru Jónsdóttur).
En með þessu er ekki allt sagt, enda ljóðið alltaf dálítið viðsjárvert fyrirbæri. Inní þessu látleysi, þessum kunnuglegu stefjum býr einhver ferskleiki, hægt og hægt teiknast upp heill heimur af hreyfingu, myndum, lykt og hljóðum. Dæmi um lágstemmda en þó eftirminnilega mynd er í ljóði XVII, ljóðmælandi er „andskotans alltaf” að hugsa um ástvinu sína og óskar þess að hún „gæti hvílt í þeirri tilfinningu / eins og í hengirúmi / örugg og glöð // ég er mjög glöð í hengirúmum”. Hér færumst við frá tilfinningu fyrir óþoli yfir í tilfinningu fyrir öryggi, sem er tengd einhverri líkamlegri upplifun og stöðu, því að liggja í hengirúmi, og endum svo þar, í hengirúminu.
Bygging bókarinnar er einstaklega vel unnin, inngangsljóðið um það að vera í öngum sínum gefur tóninn fyrir það hárfína jafnvægi húmors og trega sem einkennir ljóðin, en þar birtist minningarbrot sem virðist vera úr bernsku. Ljóðmælandi gengur yfir á og blotnar í fæturna, því hún vill ekki taka á sig krók og stikla á steinunum: „þegar maður er í öngum sínum og veður beint af augum er hallærislegt að taka á sig krók. Svolítið eins og maður sé ekki í nógu miklum öngum.” Og svo heldur músíkin bókstaflega áfram í diskum sem eru spilaðir í bílnum, Radiohead, Ensími, Sigur Rós. Tónlistin gefur ekki aðeins tóninn heldur einnig tilfinningu fyrir tíma. Upphafsljóðið hefst svo: „Mosfellsbær, 67 km/klst / Radiohead, No Surprises í botni / framhjá Þingvallaafleggjaranum, 85 km/klst / ennþá Radiohead en annað lag og búið að lækka”. Í öðru ljóði bálksins segir frá dauða ömmunnar, hún hefur dáið fyrir viku og ljóðmælandi hefur „haft tíma til að hugsa um það” en „átt erfitt með að átta” sig á því, „hér fyrir sunnan / þar sem ekkert í umhverfinu hefur stöðvast”. Dauðinn „verður fyrst að veruleika” þegar hún er komin heim í kunnuglegt umhverfi ömmunnar: „svo er auðvitað kistulagningin á morgun”. Þannig er ferðin margháttuð, mæld í kílómetrum á klukkustund, lögum á geisladiski, tilfinningu fyrir umhverfi og loks áþreifanlegum atburðum eins og kistulagningu, en í framhaldinu kemur lýsing á henni, „beygi mig fram / kyssi ömmu á ennið / hvísla ég bið að heilsa afa”. Minnið um dauðann (og lífið fram að honum) sem ferðalag er hér dregið fram á einfaldan og fallegan hátt, án allrar tilgerðar. Ferðin sem er farin til að fylgja ömmuni til grafar endurspeglar hinstu ferð gömlu konunnar, sem ber kveðju til afans.
Þriðja ferðin er svo, sem fyrr segir, ferð ástarinnar, en þegar á líður kemur í ljós saga um aðskilnað og ást á konu og tilfinningaleg átök tengd því. Ljóðmælandi flytur frá barninu „sem spyr í sífellu / sígildra spurninga / útlærð í sektarkennd”, „þrjátíu og tveggja og / var að missa / mannréttindin”. Þessu ljóði fylgir svo frekari útlegging á þessu tilfinningaróti sem nú er útfært í kímnu en þó sársaukafullu myndmáli:
ég er skrímslavörður
svört og hvöss ólmast þau
á hvítu tjaldi hugans
vilja bíta migég er skrímslaveiðimaður
sit fyrir þeim
hvenær sem
tækifæri gefastég er skrímslavinur
gef þeim rúsínur
úr berum lófa
og sleppi lausum
til að éta mig
aftur
Þetta hárfína jafnvægi húmors og trega sem Ingunn fangar í ljóðum sínum er sérlega áhrifamikið og gerir það að verkum að lesendur eiga auðvelt með að hverfa inn í þann heim sem hún teiknar upp í bókinni. Tært myndmálið gerir ljóðin sömuleiðis aðgengileg, enda naut bókin mikilla vinsælda og seldist ítrekað upp, en slíkt er ekki algengt þegar um ljóðabækur er að ræða. Bókmenntafræðingurinn Þorgerður Sigurðardóttir sagði eitthvað á þá leið í erindi um bókmenntir ársins að með bók Ingunnar „hefði ljóðið ratað til fleiri en sinna”.
Sækjum það heim
Orð Þorgerðar gefa til kynna að ljóð fjalli ekki aðeins um ferð heldur séu þau á ferð, geti jafnvel verið einskonar ferð. Ferðin er enn viðfangsefni Ingunnar í bókinni í fjarveru trjáa: vegaljóð. Sá ferski tónn sem einkennir Guðlausa menn er enn til staðar í í fjarveru trjáa, þrátt fyrir að sú bók sé að mörgu leyti mun hefðbundnari í formi og efnistökum. Á hinn bóginn má líka benda á að heildarmyndin er svo sterk í Guðlausum mönnum að það er ekki auðvelt að finna stök ljóð sem gefa mynd af stemningunni. Þó það sé vissulega enn tilfinning fyrir samfellu í í fjarveru trjáa þá er heildarmyndin ekki eins sterk, sem gerir það að verkum að ljóðin eru sjálfstæðari og öruggari ein og sér.
Líkt og undirtitillinn gefur til kynna eru ljóðin vegaljóð, ljóðmælandi ferðast um landið, þjóðvegi og afvegi ýmsa og lýsir því sem fyrir ber, bæði inni í bíl og utan hans. Lesandi fær tilfinningu fyrir mörgum ferðum og ýmiskonar róti endurminninga sem tengist stöðum og upplifunum, auk þess að fá innsýn í landið sjálft. Þannig gæti bókin reynst ágætlega sem vegahandbók, svona álíka og gamla vegahandbókin sem lýst er í ljóðinu „í Húnavatnssýslu”, en þar er
hægt að fara í sund
í hálfhrundum
mosavöxnum laugum
og kaupa nesti í
löngu niðurlögðum
kaupfélögum
allt ef „farið er eftir / hálfónýtri vegahandbók / annarri útgáfu”. Þetta eru vegahandbækur sem bjóða uppá glaðar villur og tilfinningu fyrir að taka þátt í einhverju sögulegu.
Á þennan hátt eru ljóð Ingunnar lifandi innsýn í land og sögu, við hittum drauga og bændur, rifjum upp gömul ástarævintýri, sorgir og örvæntingu í bland við flisskast yfir því hvað hólarnir í Vatnsdal líkjast brjóstum. Hér eru reglur fyrir puttaferðalanga og topptíu listar yfir hitt og annað í náttúrunni, þótt atriðin séu yfirleitt færri en tíu eins og „topptíu fjöllin”:
Lómagnúpur
Herðubreið
ekki hægt að toppa þau
Topptíulistarnir geta jafnvel innihaldið færri atriði en eitt, því í sumum tilfellum álítur ljóðmælandi að lesandi verði bara að mynda sér skoðun sjálfur, því náttúrufegurð getur líka verið einkamál, eins og fossinn er dæmi um: „fossar eru persónulegir / blautir fallgjarnir / freistandi / hver og einn verður að eiga / sína í friði // ég ætla að þegja yfir mínum”. Hér tekur náttúran á sig líkamlegt og nautnalegt form, enda margir staðir sem tengjast minningum um fornar ástir.
Þessi líkamlega nánd náttúrunnar birtist líka í skemmtilegum persónugerfingum eins og í ljóðinu „íslensk ferðalög IV”:
bregð kíki á fjallið
það kemur allt í einu nær
hallar sér upp að bílglugganum
eins og bóndi
Í ljóði um Kverkfjöll birtast „röggsamir landverðir / í lopapeysum og uppreimuðum skóm / útiteknir með tóbaksklút um höfuðið” sem einskonar landvættir og í „Dettifoss” lýsir ljóðmælandi vantrausti á hljóðlausu vatni, „hér er vatnið beinskeyttara / fer ekki dult með fyrirætlun sína / ef þú skyldir fara / óvarlega á brúninni”. Landið er lifandi, síkvikt og náttúran ekki bara blautleg heldur líka dálítið ógnandi eins og í ljóðinu „Vatnsnes”:
í fjarveru trjáa grýtt slétta
með svört endalaus fjöll
á aðra höndhikandi sól þrykkir
flöktandi myndir
úr svörtum skuggum á jörðinastórir gráir steinar gera
göt í mistrið
alveg niður í fjörusjórinn dregur landið til sín
einn stein í einu
Mannsins verk og náttúran taka svo höndum saman í fyndnum örnefnum og vangaveltum um landakort og vegahandbækur, eða þegar útilegugræjurnar klikka eins og í ljóðinu „ónýtt einnota grill” en þar gæða tveir hrafnar sér á lambasneiðum frá Goða „ennþá kolhráum”. Ævintýrin eru svo allt um kring, þó aðallega á Vestfjörðum:
vestfirsk ævintýri
einu sinni voru þrír
risastórir vegagerðarmenn
sem ráku niður allar þessar
þriggja metra löngu stikurljónið sem sofnaði og
varð að fjalli fékk nafnið
Hestur til að fæla ekki
íbúana á brottinnst í Ísafjarðardjúpi
stendur hrörlegur
kastali sem undir
er botnlaus dýflissagegnum úrhellið kemur
gult skilti fljúgandi
og bendir í vestur
á þjóðveg 66
Þannig umbreytir Ingunn landinu í ævintýri, hvort sem það er í uppgufun af heitu malbiki eða ábúðarmiklum fossum. Landið streymir fram í minningum og sögum eins og bragðmikið jökulvatn: íslenskt landslag sem er að „hálfu leyti himinn” og „hinn helmingurinn minning”.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2009.
Greinar
Um einstök verk
Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást
Ásgeir H. Ingólfsson: „Heima. Um Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást e. Ingunni Snædal“
Á vefnum Tíu þúsund tregawött 17. október 2006 – vefurinn er nú óvirkur
Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir: „Við verðum að halda vöku okkar“
Mímir, 46. árg. 2016, s. 109-114
Steinnunn Inga Óttarsdóttir: „Lárviðarskáld og landsbyggðartútta“
Tímarit Máls og menningar, 77. árg., 1. tbl. 2016, s. 135-139
Úlfhildur Dagsdóttir: „Hengirúm og öngur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Í fjarveru trjáa – vegaljóð
Skúli Björn Gunnarsson: „Í fjarveru trjáa – vegaljóð“ (ritdómur)
Glettingur 18. árg., 3. tbl. 2008 s. 50.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sækjum það heim“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
komin til að vera, nóttin
Úlfhildur Dagsdóttir: „Komin til að vera, Ingunn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
það sem ég hefði átt að segja næst – þráhyggjusögur
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir: „Hnitaðir gráthringir“
Spássían, 3. árg., 1. tbl. 2012. Bls. 27.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Ást, lygi og landsbyggðalíf“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar um verk Ingunnar hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Greinasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2006 - Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást
Tilnefningar
2017 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, besta skáldsagan í íslenskri þýðingu: Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos, í þýðingu Ingunnar
2017 - Ísnálin, fyrir bestu þýddu glæpasöguna: Hjónin við hliðina (The Couple Next Door) eftir Shari Lapena
2006 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást
Ljóðasafn: 1995-2015
Lesa meiraÞað sem ég hefði átt að segja næst: þráhyggjusögur
Lesa meiraLjóð í Neue Lyrik aus Island
Lesa meiraLjóð í Ny islandsk poesi
Lesa meiraHrikalega skrýtnar skepnur : Skrautleg sæskrýmsli og aðrar lystisemdir
Lesa meirakomin til að vera, nóttin
Lesa meiraí fjarveru trjáa: vegaljóð
Lesa meiraLjóð í God i ord
Lesa meiraLjóð í Pilot: Debutantologi
Lesa meira
Skandar og draugaknapinn
Lesa meiraÆvintýrið um Skandar og einhyrningana heldur áfram. Skandar hefur uppfyllt drauma sína og er orðinn einhyrningaknapi og þjálfari. En ógnin er aldrei fjarri og þegar hann og félagar hans hefja sitt annað ár á Eyjunni blasir við þeim ný og ófyrirséð ógn. Getur Skandar komið í veg fyrir sjálfseyðingu Eyjunnar, áður en það er of seint fyrir þau öll?Skandar og einhyrningaþjófurinn
Lesa meiraVegna þess að einhyrningar tilheyra ekki ævintýrum, þeir eiga heima í martröðum.Dulmálsmeistarinn. William Wenton 1
Lesa meiraMenntuð
Lesa meiraFlúraða konan
Lesa meiraKrítarmaðurinn
Lesa meiraLitla vínbókin: sérfræðingur á 24 tímum
Lesa meiraAllt eða ekkert
Lesa meira