Beint í efni

Kuðungasafnið

Kuðungasafnið
Höfundur
Óskar Árni Óskarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Smáprósar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Svona almennt séð er Óskar Árni Óskarsson ekki höfundur sem vant er að kenna við pólitík eða ádeilu, þó vissulega búi margir textar hans yfir snarpri samfélagslegri sýn. Það er kannski hæpið að heimfæra nýjustu bók hans, Kuðungasafnið, alfarið yfir á svið dæmisögunnar, en samt er sú samlíking ekki úr vegi, en hér er á ferðinni einskonar þorpatal, með tilheyrandi greiningu á sérkennum hvers þorps fyrir sig. Þessar sérviskur eru ýmiskonar og fjölbreytilegar og alls ekkert endilega pólitískar, en það er ómögulegt annað en að spegla þessar smámyndir í vangaveltum um þjóðerni og einkenni þjóða, samfélaga eða bara hópa. Jafnframt búa textarnir yfir öllu því besta sem einkennir örsögur Óskars Árna, hógværum húmor og gleði, í bland við ferska sýn og dálitið myrkur.

Afsakið: ljóð en ekki örsögur, en bókin ber undirtitilinn 54 ljóð um undarleg pláss. Mörkin þarna á milli eru ekki skýr, en þau hefur Óskar Árni einmitt kannað í þaula í verkum sínum, og er hér enn að. Hvað er saga og hvað er ljóð? Getur ljóð innihaldið frásögn? Á undanförnum árum hafa frásagnarkennd ljóð rutt sér til rúms í íslenskum bókmenntum, eins og verðlaunaljóðabók Gerðar Kristnýjar, Blóðhófnir (2010) og Blysfarir (2007) Sigurbjargar Þrastardóttur eru góð dæmi um. Það er því ekki sagan sem sker úr um hvort um ljóð eða örsögu sé að ræða. Svo þó að mér finnist textar Óskars Árna í Kuðungasafninu minna meira á örsögur, þá er í raun ekkert sem kemur í veg fyrir að þeir séu kallaðir ljóð, en þá væntanlega prósaljóð. Svona getur nú verið auðvelt að flækja litla bókmenntafræðinga.

Textarnir eru 54 eins og áður segir, og 53 þeirra byrja alveg eins: „Í þorpinu ...“ og svo kemur nafn þorpsins og þar á eftir fylgir lýsing á sérkenni þorpsins og íbúa. Síðasti prósinn hefst á orðunum: „Í borginni Vík“ sem rennir stoðum undir þá kenningu mína að hér fari fram lymskuleg könnun og úttekt á sérvisku og þjóðareinkennum Íslendinga. Tökum dæmi um texta:

Í ÞORPINU LEIRU búa íbúarnir yfir svo ótrúlegum innri styrk að ekkert fær haggað þeim. Það er sama á hverju gengur, þeir haggast ekki. Standa af sér öll ótíðindi; veikindi, barsmíðar, náttúruhamfarir – allt sem nöfnum tjáir að nefna. Eigirðu leið um þorpið tekurðu fljótlega eftir því að íbúarnir standa alltaf í sömu sporunum.

Þetta er óskup sakleysislegur texti en þegar nánar er að gáð býr hann yfir athyglisverðri sýn á hugmyndina um innri ró og styrk: þessi hæfileiki veldur einfaldlega stöðnun. Þögnin í svefnherbergjunum í þorpinu Reipi er svo þrúgandi „að brunalúðurinn á elliheimilinu fer af stað í hvert sinn sem einhver andvarpar eða leysir laumulega vind“. Aftur er þetta fyndið, en líka dálítið óhugnanlegt – af hverju öll þessi þögn? Í öðrum þorpum eru kynferðisleg ‚vandamál‘, bókmenntir og lestur koma við sögu í nokkrum textum, í einu þorpi búa bara milljónamæringar, í öðru er tíminn mældur í mjólkurglösum og svo mætti áfram telja. Í raun væri það þó synd, því þó bókin láti lítið yfir sér, eins og fyrri bækur höfundar, þá er hún stútfull af dálitlum undrum sem setja hugsanirnar á fleygiferð og gera hvorttveggja í senn, vekja hlátur og kalla á alvarlegar íhuganir.

Í ÞORPINU NÖF eru töluð þrjátíu og sjö tungumál. Fæstir íbúanna tala annað mál en sitt eigið. Skiltamergðin í þorpinu vekur óneitanlega athygli og ekki síður matseðillinn á Kátu ekkjunni, en þar hefur hent að samanburðarmálfræðingar sem leið hafa átt um þorpið og pantað sér morgunkaffi hafi ekki stigið upp frá borði fyrr en langt var liðið á kvöld. Þrátt fyrir þessi mörgu ólíku tungumál er sundurlyndi íbúanna síst meira en annars staðar, en vitaskuld þykir sumum þorpsbúum nóg um allt þetta þjóðhátíðarbrölt.

Textinn er bæði myndrænn og margræður: það er auðvelt að sjá fyrir sér skiltin og matseðilinn á kaffihúsi bæjarins og ekki er úr vegi að minnast þess að víða í þorpum úti á landi er fjölþjóðamenningin heilmikil, eins og ýmsar þjóðahátíðir eru einmitt til marks um. Þannig er prósinn bæði ævintýralegur og raunsær í senn, skírskotanirnar eru greinilegar, en útbúnar sem fantasía, jafnvel útópía. En hvað eru þessir samanburðarmálfræðingar alltaf að flækjast þarna? Eru þeir virkilega svona margir að þetta sé orðið viðtekið?

Sumir prósanna eru stef við orðatiltæki og í raun er fjölbreytnin ákaflega mikil, allt frá hreinni léttúð yfir í ádeilu. Umfram allt eru þetta þó mannlýsingar, rýni í sérkenni og sérviskur, hugmyndir og hegðun; eða bara flótta frá raunveruleikanum, en heiti bókarinnar kemur frá safni í þorpinu Tjörn. Þar „eru íbúarnir búnir að fá nóg af raunveruleikanum sem ekkert hefur fært þeim nema basl og innantómt dægurþras. Bæjarbúar hafa tekið málin í sínar hendur og umbreytt veruleikanum í kuðungasafn.“ Seinna segir að „eins og kunnugt er, þá er ekkert fjær raunveruleikanum en kuðungasafn.“ Textinn hverfist svo yfir í súrrealíska sýn en safnið er varið með marglitum glerhjúp, utan hans „hangir raunveruleikinn, grár og myglulegur“ en á efstu hæð safnsins „eru kýr á beit á bleikum frímerkjaökrum“.

Óskar Árni hefur umbreytt raunveruleikanum í kuðungasafn og þó það megi sjá glitta í grátt og myglulegt raunsæi þá kemur það ekki að sök, ævintýrið er óskaddað.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2012