Beint í efni

Landslag er aldrei asnalegt

Landslag er aldrei asnalegt
Höfundur
Bergsveinn Birgisson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Mér skilst að höfundur bókarinnar Landslag er aldrei asnalegt, Bergsveinn Birgisson, hafi áður gefið út ljóðabók, en þrátt fyrir mikla leit á mínu ágæta Borgarbókasafni fannst bókin ekki. Svo ég hef því miður ekki mikla bakþekkingu um þennan höfund sem hér stígur fram með sína fyrstu skáldsögu og vissi engan veginn á hverju ég átti von. Sagan segir frá samfélagi trillukarla sem búa í verbúð í annars mannfáum Geirmundarfirði og samskiptum þeirra hver við annan og við samfélagið í kring, og síðast en ekki síst, við ráðskonurnar sem þeir auglýsa eftir. Dagar trillukarlanna eru fullir af hversdagslegum áhyggjum, vangaveltum um veðurfar og sjósókn, en inn í þetta blandast svo vangaveltur um guð – og prestinn – um skáldskap og skrif, um heimspeki og um kvótamál að sjálfsögðu.

Það er því ljóst að hér er á ferðinni ein af þeim skáldsögum sem upphefja hið einfalda líf og skoða það í rómantísku ljósi; það er utan borgarinnar og glysmenningu hennar sem hin raunverulega viska blómstrar hjá ómenntuðum verkamönnum með frumleg nöfn sem sækja sinn sjó og láta sér fátt um innflutta speki finnast. Rómantísering af þessu tagi er að auki bundin við karlasamfélög, konur eiga hér ekki stað, nema sem draumadísir eða matmæður. Þetta, verð ég að viðurkenna, finnst mér þreytandi, og minntist sagna Stefáns Mána, Hótel Kalifornía og Ísrael: Saga af manni, sem einmitt börðu skemmtilega á þessari mýtu. Ekki svo að skilja að ég efist eitt andartak um að viska geti búið jafnt með verkamönnum sem menntafólki, enda væri það í bága við eigin fjölskyldusögu, en það er þessi rómantíseraða upphafning sem fer í taugarnar á mér.

En hafandi sagt það þá verð ég að játa mér til þónokkurrar gleði að mér fannst bara lúmskt gaman að sögu Bergsveins. Í fyrsta lagi er hún sett fram á skemmtilegan hátt, sem dagbók eins trillukarlsins, sem reyndar er varla karl heldur ungur maður og gengur sagan að einhverju leyti út á að skýra ástæður þess að hann er þarna niðurkominn, í þessum hverfandi og að margra áliti vonlausa atvinnuvegi. Ekki nóg með það, heldur er dagbókin skrifuð upp af oddvitafrúnni, sem gerir athugasemdir við hana þar sem henni finnst þurfa, útskýrir og réttlætir suma atburði að fyrirmælum manns síns. Inn í þessa margþættu textafléttu fléttast svo þrá sögumanns til að skrifa og semja smásögur, en þau skrif fara alltaf út um þúfur og í staðinn skrifar hann niður ýmsa söguþræði sem eru bráðgóðir. Þetta samspil í textanum virkar vel og er skemmtilegt, auk þess sem það gerir það að verkum að sagan gengur upp innan sjálfrar sín, þ.e. við fáum ekki að vita um endanleg örlög skrifarans, Halldórs.

Núnú, því var það að þrátt fyrir pirring vegna rómantíseringar, uppskrúfað málfar á köflum og þreytandi klisjur stóð ég mig að því að hlakka til að hverfa aftur inn í þennan trillukarlaheim og hugleiða líf þeirra og tilveru. Ég var lengi að lesa bókina og fannst hún nokkuð torlesin á köflum, eða kannski bara þreytandi, en það sem ræður úrslitum er ákveðin gleði og húmor sem gegnsýrir allt, persónusköpunin er skemmtilega ýkt og sömuleiðis er málsniðið – hér nota ég uppkrúfað fræðiheiti yfir þann stíl sem höfundur velur sögumanni sínum – skemmtilega skrýtið, og fyndið. Þannig verð ég að játa að þó ég rataði ekki alltaf um persónugalleríið og þyrfti að fletta dáldið fram og til baka, þá eru skapaðar þarna skondnar persónur og ber þá helst að nefna prestinn og öndverða bræðurna.

Sumsé, og í hnotskurn, ekki gallalaus gripur, en bara ansi grípandi á sinn hátt, og ekki laus við að vera gleðigjafi.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003