Æviágrip
Bergsveinn Birgisson fæddist árið 1971 á Eiríksgötu. Hann ólst upp í Kópavogi, og bjó síðar í Garðabæ og lauk stúdentaprófi frá Fjölbrautarskóla Garðabæjar 1991. Hann fór síðar í Háskóla Íslands og lauk BA prófi í íslensku og almennri bókmenntafræði árið 1997, cand. mag prófi frá Háskólanum í Osló 1999, magisterprófi árið 2001 frá Háskólanum í Björgvin og doktorsprófi í norrænum fræðum frá sama skóla árið 2008.
Fyrsta útgáfa var ljóðabókin Íslendingurinn sem kom út árið 1992, og þar á eftir ljóðabókin Innrás liljanna sem kom út undir merkjum Nykurs árið 1997. Skáldsagan Landslag er aldrei asnalegt kom út 2003 hjá Bjarti, síðan hefur Bergsveinn sent frá sér nokkrar skáldsögur. Bergsveinn var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsögurnar Landslag er aldrei asnalegt (2003), Svar við bréfi Helgu (2010) og Lifandilífslækur (2018) auk þess sem Svar við bréfi Helgu var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir Svar við bréfi Helgu árið 2010 og tíu árum síðar var hann tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Lifandilífslæk.
Frá höfundi
Pistill frá Bergsveini Birgissyni
Kannski mætti segja um mig eitthvað svipað og sagt var um Ólaf digra, síðar helga, í Gerplu, að ég ólst upp í kjölum báta við frekar harðsnúið orðfæri. Átta ára gamall var ég með dag og dag á grásleppuveiðum með föður mínum, og tólf ára gamall var ég á sumrum á togara upp á hálfan hlut. Fjórtán ára var ég kominn upp á dekk á hlera, og lásaði úr gröndurum við öskrandi mann í glugga. Frá átján ára aldri gerði ég út trillu norður á ströndum á sumrin, þar til ég hafði lokið við magisternám mitt í norrænum fræðum árið 1998. Ég hef fengið að kynnast góðu fólki og góðum sagnamönnum; fólki sem snemma vakti hjá mér áhuga á tilvistarlegum spurningum.
Á hinn bóginn hef ég helgað líf mitt norrænum fræðum, og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Björgvin árið 2008. Ég er fræðimaður sem leitast við að nota báða hluta heilans, og ekki bara þann sem sér um rökhugsun. Ég er sérfræðingur í dróttkvæðum, og hlýt að jafnaði samúð fyrir það hlutskipti mitt. Ég hef ekki áhuga á dróttkvæðum sem slíkum. Ég hef áhuga á manneskjunni, hugsun hennar og háttum. Og dróttkvæðin eru einu frumheimildirnar sem um það hvernig fólk hugsaði hér í norðrinu áður en grísk-rómverska menningin ruddi sér til rúms í hugum fólks með kristni og kirkju. Ég tel mig búa að fræðagrúski mínu sem rithöfundur, það hjálpar mér að sjá kjarnann í hlutum, að afklæða hvernig fólk man í gegnum sögur og kvæði og hvað þarf að vera í sögu eða kvæði svo það sitji í minni fólks. Nútímahöfundurinn er í samskiptum við sama mannsheilann og dróttkvæðaskáldið og sagnaritarinn; lögmálið hefur ekki breyst. Að lesa klassík er leið út úr mörgum ógöngum.
Ég hef verið svo heppinn að kynnast þeirri menningarstofnun sem einn íslenskur sveitabær er, og að auki tel ég mig hafa fengið innsýn inn í miðaldir á sveitabæ ömmu minnar og afa. Stundum nýti ég þennan eina «íslenska» heim sem ég þekki sem umgjörð fyrir mína texta, en sem rithöfundur er ég fyrst og fremst upptekin af tilvistarlegum spurningum. Mig dreymdi um að verða heimspekingur, en örlögin gerðu úr mér fílólóg. Draumurinn brýst út á öðrum vettvangi. Árin 1993–1994 ferðaðist ég víða um Afríku og Asíu. Þetta hafði mótandi áhrif á mig; og kveikti mikla forvitni um sögu og fortíð míns fólks.
Ég hef haft kenningu Osip Mandelstam að leiðarljósi í mínum skrifum; ætli maður að búa til bókmenntir þarf hvorki trú á Guð, manneskju eða hugmyndafræði hennar; en maður verður að trúa á orðið. Ef maður trúir ekki á orðið, er best að hætta að skrifa bókmenntir. Og reyndar má segja að trúin á orðið sé að vissu marki einnig trú á manneskjuna.
Bergsveinn Birgisson
Um höfund
Rætur og rostungar : Nokkur orð um skáldskap Bergsveins Birgissonar
Við lestur bóka Bergsveins Birgissonar er afstaða höfundar eitt það fyrsta sem leitar á huga lesandans. Hvað finnst honum um þær persónur, það líf sem hann skapar með orðunum á pappírnum? Oft vaknar hugsunin um að honum þyki þetta heldur fáfengilegt fólk, bjástur þess hlægilegt. En jafnframt er eins og hann standi staðfastur með því í firrum sínum og vonlausu stríði við aðstæður sínar. Oft setja persónur Bergsveins á tölur um hörmulegt ástand heimsins og volæði mannlífsins. Hversu hátt hljómar rödd höfundar sjálfs í þessum ræðum? Eða finnst honum þetta bara vera raus? Það má alveg halda því fram að það skipti ekki máli, en spurningin lætur lesandann ekki í friði: Hvað vakir fyrir Bergsveini?
Er myndin af trillukörlunum glórulausu við endimörk hins byggða bóls í Landslag er aldrei asnalegt skopmynd af klisju eða jafnvel upphafning lífshátta á hverfanda hveli? Hvernig eigum við að meðtaka kenningar menningarfræðingsins Gests í Handbók um hugarfar kúa: sem skopfærslu á fimbulfami nútíma hugvísinda eða einlæga og kröftuga gagnrýni á síðkapítalískt og firrt nútímasamfélagið? Er Svar við bréfi Helgu lofgjörð um sveitalífið eða stráksleg háðsádeila?
Og hvernig á að meðtaka konseptverk á borð við Geirmundar sögu heljarskins, þar sem útlit, leturgerð og uppsetning Fornritaútgáfunnar er elt niður í smáatriði til að segja sögu Geirmundar á þann hátt sem kynslóðir Íslendinga hafa tamið sér að líta á sem allt að því tryggingu fyrir að minnsta kosti sannleikskorni.
Textar Bergsveins gefa alltaf til kynna að höfundi liggur mikið á hjarta. Það á bæði við um skáldskapinn og fræðimennskuna. En allt orkar tvímælis sem sett er á blað í nafni listarinnar og þau tvímæli hefur Bergsveinn unnið með á frumlegan og snjallan hátt allan sinn feril.
I
Sáuð þið hana systur mína
við sjónvarpið að teiga kók ?
Hún fær sér líka lítinn smók
og byrjar svo að hósta og hrína.Þar sem hún vinnur sér ei til sólu
hún situr við tölvuskjá allan dag.
Hún hefur sungið mér svolítið lag
fyrir að velja sér vídeó spólu.…
(„Sjoppuferð“, Íslendingurinn)
Eins og margir rithöfundar sem síðar gera lausamál að sínu aðalviðfangsefni heyrist fyrst í Bergsveini í ljóðum. Fyrsta útgefin bók hans er ljóðabók. Íslendingurinn kemur út árið 1992, þegar höfundur er 21 árs. Næsta bók kemur fimm árum síðar og inniheldur einnig ljóð, Innrás liljanna heitir hún. Þriðja ljóðabókin, Drauganet, birtist ekki fyrr en 2011, eftir að þrjár fyrstu skáldsögur Bergsveins hafa komið út, og hann „slegið í gegn“ með Svari við bréfi Helgu árið áður.
Íslendingurinn er ungæðisleg bók. Ljóðin meira og minna í bundnu máli, skrautleg og mælsk frekar en innileg eða djúp. Þar eru ýmis form prófuð, spakmælavísur eru nokkrar. Meira að segja frekar hátíðleg snörun á söngtexta eftir Tom Waits. Það er erfitt að sjá fyrir sér að þetta sé skáld sem tekur sig mjög alvarlega, eða hyggist þróa þessa tilteknu nálgun áfram. Enda kveður strax við annan tón í Innrás liljanna. Engu að síður má strax í Íslendingnum finna dæmi um tvíbenta afstöðu til formsins, til menningarinnar og hlutverks skáldsins:
Dettifoss
Ó , ó , ó ferlega freyðandi spræna
frónskáldahendingum tókst þér að ræna.
Rómantískt leirbull með litsnauðum orðum
lá um þig víða á mörlandans borðum.En mér er ei gefið að lýsa vel lækjum
þó langhlaupaíþrótt ég brölti á hækjum;mishæð og skekkja í skaparans verki!
Í Innrás liljanna eru fjölbreyttari og öruggari efnistök. Rím og stuðlar eru enn í notkun, en hér eru einnig stuttir prósar og ljóð sem styðjast við myndmálið eitt. Óræðni og innhverfa bætast við sem efnistök. Áfram eru vísanir í menningu gamla og nýja og fornar bókmenntir fyrirferðarmiklar.
Og áfram er spennan milli nútíma og fortíðar, spennan í viðhorfinu til horfinna og hverfandi lífshátta, togstreita vitsmuna og eðlisávísunar drifkratftur:
STUNDUM
Stundum
langar mig hreinlega
til að losa um bindið
og slökkva á tölvunni…fara í látur
fást við brimla
rota hvíta kópa og skera á háls
fyllast þeirra fjörvi er ég drekk
það ylvolga blóð og æpa að dröngum
laugast aur og þangi jarðar
þrífa til stúlku sem gengur hjá
bíta í og sjúga safa…
þartil hin hvíta framrás lífsins
hnígur í krefjandi svörð
Drauganet kemur síðan út eftir að Bergsveinn hefur haslað sér rækilega völl sem frumlegur skáldsagnahöfundur. Bókin er stór og efnismikil á mælikvarða ljóðabóka, og mun ort á löngum tíma. í henni heldur áfram þróun í átt að nútímahefð í ljóðagerð. Bundna málið er hverfandi, yrkisefnin persónulegri; myndmál, líkingar og orðaleikir taka við af rími og stuðlum.
GÖNGUTÚR MEÐ LITLA FRÆNDA
Hafðu eitthvað utan yfir þig
engu líkara en hann sé að fara að rigna
og örlögin fáum við aldrei skiliðhafðu þykku eyrnaskjólin
það er svo mikill gjallandi í loftinu
og mikilsvert að heyra í sjálfum sérvertu í stígvélunum
menn þurfa að vaða allan djöfulinn
nú til dagsekki hafa trefil eins og ég
áður en þú veist af verður gripið í hann
og þú teymdur um tilvistina
Og eins og bæði fyrr og síðar er staða nútímamannsins í sköpunarverkinu, bæði því náttúrulega og því manngerða, undir eftirliti:
Þegar Óðinn kom frá Asíu
var maðurinn Guð
nýja trúin kenndi að hann væri
skaptur í Guð mynd
síðan varð maðurinn bara maður
uns kom ný kenning –
maðurinn er dýr
(meindýr sögðu sumir)en gái maður á fyrirbærið
sært og umkomulaust heilsa kurteislega
dubbað upp í terlín og gáir aldrei til fjalla
bryðjandi pillur gegn dýrslegu viðbragði sínu
sér maður
að einnig slíkri kenningu er hæpið að treysta
II
Enn og aftur ydda ég blýantinn til að skrifa um atburðina hér í Geirmundarfirði. Ekki veit ég hví ég stöðugt ydda blýantinn. Hér gerist aldrei neitt. Hér eru bara nokkrir menn í firði að myndast við að veiða þorsk sem er sendur suður, flattur og saltaður og sendur til Portúgals þar sem senjóríta Períglesí býður nágrnnum til garðveislu og allir dansa við gítarvísurnar og eru glaðir í sólinni. Og borða fisk af Hámundarhryggnum. Hér gerist ekkert og enginn dans. Engin ráðskona ennþá.
Landslag er aldrei asnalegt, 28
Það er alveg hægt að lesa fyrstu skáldsögu Bergsveins, Landslag er aldrei asnalegt frá árinu 2003, sem hetjusögu manna sem aldrei létu sjá sig í terlíni, hafa enga trú á pillum og eiga allt undir því að kunna að gá til fjalla. Hver kafli hefst á veðurlýsingu, enda trillukarlarnir sem sagan segir frá háðir því að lesa í náttúruna, bæði varðandi hvar fiskur leynist undir yfirborðinu og því hvenær óhætt er að leggja á djúpið.
Það er samt ekki bara náttúran sem ógnar þeim Dóra, Gusa, Ebba og Bensa þar sem þeir reyna að draga fram lífið á trillunum sínum í hinum hálfyfirgefna Geirmundarfirði á Ströndum. Nútíminn er kannski höfuðandstæðingurinn, með öllum sínum reglugerðum, tækninýjungum og firringu. Að ógleymdum þverrandi þorskstofni og skorðunum sem fiskveiðistjórnunarkerfið setur mönnum sem eru ekki hættir að hugsa eins og stoltir sjálfsþurftarbændur í harðri en gjöfullri náttúru sem þeir þekkja eins og freknurnar á handarbökunum.
Það er engin leið til baka inn í heim hins sjálfum sér nóga veiðimanns. Gusi lendir harkalegast upp á kant við nútímann en það er sögumaður bókarinnar, hinn ungi Dóri, sem líður mest. Það er líka fyrst og fremst hann sem langar til að langa í eitthvað annað líf, eins og fjarstæðukenndur ástarhugur hans í garð ráðskvennanna er til vitnis um. Hann er líka brotinn af öðrum og persónulegri ástæðum en óskiljanlegum nútíma: harkalegt einelti hefur markað hann og heft, fáum við að vita seint í sögunni.
Að mörgu leyti er sögusvið og atburðir Landslagsins kunnuglegt. Ekki bara úr bókmenntum heldur úr öðrum listgreinum, ekki síst kvikmyndagerð. Bergsveinn fer ansi nálægt ýmsum klisjum um „lífið úti á landi“ í þessari bók. Ráðaleysi karlanna, heimóttarskapurinn í umgengninni við ráðskonurnar. Litríki presturinn, heimspekingurinn að sunnan sem ekkert veit um lífið að mati heimamanna. Vitri rúmliggjandi öldungurinn sem verður nokkurskonar skriftarfaðir og andlegur leiðtogi Halldórs. En spennan í afstöðu textans til efnisins, til klisjanna, til hinnar vonlitlu baráttu söguhetjanna við ósýnilegt ofurefli nútímans, gerir Landslag er aldrei asnalegt að frumlegu innleggi í þessa flóru. Um leið og sagan afhjúpar, hæðist jafnvel að vandræðum Geirmundarfirðinga við að fóta sig, er eftirsjáin eftir lífsgæðunum sem þeir eru kannski síðasti til að njóta líka djúp og sönn:
... og súgurinn í glugganum og sólskinið inn um renna í eitt í brjósti manns og þá heyrist þessi undarlega gleðitónlist eins og úr fjarlægu útvarpi og allt í einu er maður kominn hinum megin og dreymir til dæmis ský í laginu eins og spikfeitar, allsberar kellingar sem leika á bumbur sínar hlæjandi svo maður kemst við og þakkar í hjarta sínu fyrir að vera til á jörðinni. (28–29)
Einhvernvegin þannig líður Dóra þegar hann hallar sér á bekkinn eftir að að hafa rifið í sig sigin fisk og selspik, og sama hversu girnileg sú fæða er getur lesandinn ekki annað en lifað sig inn í þessa sælustund.
III
Gestur fékk orðið, og vísaði til heimspekings sem sýnt hefði hvernig hugsanaform tenginganna hefði verið við lýði á miðöldum en lifði aðeins í skáldskap og geiðveiki í dag, en málið væri að hann, Gestur, aðhylltist miðaldahugsunina frekar en hugsun upplýsingarinnar sem lokaði allt af í eigin bás og rauf tengingar milli hlutanna. Nútíma-hugsunarformið hvetti í raun til forheimskandi rörsýni.
Handbók um hugarfar kúa, 185
Í næstu skáldsögu, Handbók um hugarfar kúa, virðist við fyrstu sýn vera allt annað uppi á teningnum en í sögunni um strandaglópana í nútímaveröldinni sem sagt er frá í Landslaginu.
Hér segir af Gesti, nýlega útskrifuðum og heimkomnum menningarfræðingi. Honum gengur treglega að komast að í heimi akademíunnar á Íslandi og á að auki í töluverðum sálrænum vanda sem tengist áföllum í æsku. Ensk eiginkona og dóttir þeirra hafa fylgt honum til Íslands og una hag sínum misvel, og sjálfur er hann alls ekki öruggur með sig í hlutverki fjölskylduföður.
Gegnum kunningsskap tekst Gesti að fá verkefni við að skrifa handrit að heimildarmynd um íslensku mjólkurkúna fyrir Bændasamtökin, og fer þannig á dýptina við að nýta menntun sína til verksins að lesandanum verður snemma ljóst að samleið hans með áróðursbatteríi mjólkurbænda er engin.
Það er mikil kómísk spenna milli verksins sem Gestur sökkvir sér í og væntinga þeirra sem borga honum laun. Söguna skortir heldur ekki dramatíska spennu, því Gestur leiðist inn í afskipti af málum konu einnar sem á í stríði við ofbeldisfullan fyrrum sambýlismann, auk þess sem æskusaga Gests og hjónabandsvandræði eru rakin. Hér eru margir boltar á lofti og á stundum gæti svo virst sem Bergsveinn hafi færst of mikið í fang að koma öllu til skila í meðallangri skáldsögu. Honum er að því leyti eins farið og Gesti, sem leyfir einföldu heimildarmyndaverkefni að blása út í meðförum sínum, verða óviðráðanlegt og taka á endanum bókstaflega yfir líf hans, þar sem hann hverfur inn í goðsagnarkennt fjós og verður þátttakandi í stríðinu sem þar geisar, þegar raunsæislegur rammi skáldsögunnar hefur endanlega látið undan.
Líkt og trillukarlarnir fyrir vestan fótar Gestur sig illa í samtímanum. Hann er kannski ekki utangátta í honum vegna þess að forsendum fyrir starfi hans hefur verið kippt burt með lagasetningu eða nátttúrubreytingum, en það er á hinn bóginn lítil sem engin eftirspurn eftir því sem hann hefur upp á að bjóða. En eins og þeim er honum ekki sjálfrátt. Greiningar hans á sögu mannkyns og þjóðar í átt til firringar nútímans með kýrnar sem leiðsögumenn eru vissulega ekki það sem Bændasamtökin voru að biðja um, en þær eru heiðarleg tjáning Gests á sinni sýn. Um leið eru þær mögulega einhverskonar góðlátleg háðsádeila Bergsveins á „fræðin“, á hátimbraða líkingaturna þar sem allar tengingar eru mögulegar og fyrir vikið erfitt að greina skýra meiningu:
Í raun réttri var hún, hormónakýrin, á góðri leið með að verða skýrasta birtingarmynd vélfinngálknins (cyborg) sem Donna Haraway notaði sem mynd af samrunalist framtíðarmannsins, sem er allt í senn: dýr, vél og maður. Kýrin var orðin bestía sem rauf tvenndirnar, hún var náttúra, menning og vísindi í einni verund, sambland lífveru og maskínu sem misst hafði sitt sakleysi og sína „hlutlausu“ náttúru þar sem egin leið var til baka því sækýr (sbr. psycho) samtímans (cyborg) var sjálf orðin véllífvera sem maðurinn hafði líkamnað hugsun sína og tækni í … (212)
Fyrir óinnvígða getur verið erfitt að vita hvort taka beri hugmyndir Gests um menningarástandið alvarlega. Og ekki síður hver afstaða höfundarins sé til inn- og útblásinnar mælginnar sem einkennir framsetninguna. Þessi óvissa er eins og fram hefur komið eitt af því sem gerir glímuna við bækur Bergsveins sérstaka og gefandi.
IV
Sýnin af þér berri í sólargeislunum var frískandi fyrir augað líkt og blóm á nakinni klettasyllu. Ég hef í raun engu að jafna saman við þessa sjón. Mér dettur helst í hug þegar Farmallinn kom.
Svar við bréfi Helgu, 51
Ef Bergsveinn Birgisson væri popptónlistarmaður væri Svar við bréfi Helgu (2010) „gegnumbrotsplatan“ hans. Fyrir utan viðurkenningar bókmenntaheimsins (tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, auk bóksalaverðlaunanna) vakti bókin almenna athygli, „varð óvænt metsölubók“ segir á bókakápu kiljiunnar sem kom út í tilefni af frumsýningu leikgerðar Ólafs Egils Egilssonar á sögunni í Borgarleikhúsinu 2012.
Almennar vinsældir Bréfsins voru kannski óvæntar, en kannski enn frekar gleðilegar. Hinn „almenni lesandi“ hafði greinilega enn áhuga á að sjá glímu við sígræn viðfangsefni á borð við ást í meinum. En ekki síður að sjá nýstárlega unnið með annað klassískt efni íslenskra bókmennta tuttugustu aldarinnar: togstreitu sveitarlífs og borgar. Hér er ekki bara síðbúið svar við bréfi ástkonunnar brottfluttu heldur er líka verið að svara Landi og sonum, Óðali feðranna og jafnvel Dalalífi. Í þessum jarðvegi blómstrar tvísæ afstaða Bergsveins, og vafalaust heillaði marga lesendur ísmeygileg fyndnin í lýsingu heimsmyndar Bjarna Gíslasonar forðagæslumanns og sanntrúaðs framsóknarmanns, sem er einn orsakavaldur lífsharmsins sem jarðtengir gróteskt grínið.
Kaflinn sem tilvitnunin hér að framan er sótt í er gott dæmi. Allir lesendur munu sjá fyrstu líkinguna sem sannrómantíska tjáningu sem samstundis er kippt niður á jörðina þegar dráttarvélin er látin vitna um hve einstök upplifunin var. Nokkrum línum fyrr lýsir Bjarni leik þeirra Helgu þar sem aðfarir og flestum ókunnugt orðalag hrútadómarans taka sess ástaratlota. Tilvitnunin heldur áfram:
Að rífa grindina utan af vélinni og pappann og sjá þá glansandi dýrð sem átti eftir að umbylta lífinu. (51)
Og allt í einu er komið vit og erótík í fráleita myndina af traktornum. En um leið sér Bjarni að sér:
Sjá nú hve lítilla sanda ég er í hugsun minni, Helga mín, að líkja þér ungri og berri við dráttarvél. (51–52)
En auðvitað getur hann (Bjarni? Bergsveinn?) svo ekkert stillt sig um að hnykkja á neðanbeltisfimmaurabrandaranum sem þarna bíður í dauðafæri:
Þú varst dásamleg dráttarvél. (52)
Líkt og trillukarlarnir í Landslaginu er Bjarni fangi hverfandi lífshátta. Líkt og þeir er hann stoltur af hlekkjum sínum, þó ástin á Helgu láti hringla í þeim. Hann nýtur sín til fullnustu í faðmi sveitalífsins, faðm sem Bergsveinn gerir bókstaflegan á frumlegan hátt með Helguþúfum:
Það er víst bara ég sem veit hvar Helguþúfur eru hér í sveit og þegar ég dey tek ég þetta örnefni með mér í gröfina. Þessar þúfur sunnanvert í brekkunni við Göngukleif eru nefnilega líkt og jarðneskar afsteypur brjósta þinna. [...] Hve oft lagðist ég ekki þar í Helguþúfur í suðvestan-sólvindi með höfuðið milli brjóstanna og ímyndaði mér að ég væri í faðmi þínum. (27–28)
Líkt og menningarfræðingurinn Gestur í Handbókinni er hann líka fastur í hlutverki sínu í einkalífinu. Skylduræknin er eitt af því sem heldur honum föstum í ástlausu hjónabandinu sem einnig er ófrjósamt, og þar með í andstöðu við sjálfa lífsafstöðu og sjálfsmynd náttúrubarnsins.
Lesandinn veit ekki alveg hversu mikla fjarlægð hann hefur eða á að hafa við tilfinningalíf Bjarna og Helgu. En athyglin beinist ekki síður, jafnvel aðallega, að höfundinum sjálfum: hver er fjarlægð hans við efni sitt? Hversu einlægur og hversu írónískur er hann? Hvað finnst honum um þetta fólk? Hvaða augum vill hann að við sjáum Bjarna við Helguþúfur, kennileitin sem koma í stað konunnar sem hann guggnaði á að fórna jörðinni fyrir?
Galdur sögunnar er ekki síst sá að skopið helst skoplegt, gróteskan yfirgengileg og harmurinn sannur. Og myndar allt sannfærandi heild.
V
Eftir Svar við bréfi Helgu og Drauganet tekur rithöfundaferill Bergsveins nýja stefnu. Þó fortíðin hafi alltaf verið viðfangsefnið þá skyggnist Bergsveinn nú umtalsvert lengra aftur. Efnistökin eru líka um margt einstök, því hann nálgast efni sitt úr tveimur áttum samhliða: sem fræðimaður og skáld. Þekking og ímyndunarafl vinna saman að því að skapa óvænta en sannfærandi mynd af mögulegri fjarlægri fortíð.
Árið 2013 kemur út í Noregi Den Svarte Vikingen, þar sem Bergsveinn rekur rannsóknir sínar og setur fram kenningar um landnámsmanninn Geirmund heljarskinn og mikilvægi rostungaveiða og úrvinnslu rostungaafurða í landnámi Íslands. Bókin kom síðan út á íslensku sem Leitin að svarta víkingnum árið 2016 og vakti mikla athygli. Öllu minna fór fyrir Geirmundar sögu heljarskinns sem kom út árinu áður og er að stofni til byggð á sama grunni og fræðiritin, sett fram í skáldsagnaformi. Og ekki bara skáldsagnaformi heldur í gegnumhugsaðri stælingu á stíl og málsniði Íslendingasagna. Og stælingunni lýkur ekki þar því frágangur bókarinnar fylgir formi hinnar virðulegu Fornritaútgáfu Hins íslenska bókmenntafélags, niður í umbrot og leturval, auk þess sem ítarlegur „inngangur“ gegnir ekki veigaminna hlutverki en sagan sjálf.
Efni beggja bóka er í grunninn saga landnámsmannsins Geirimundar Heljarskinns, sem lítið er vitað um af rituðum heimildum, og sumt með ærnum þjóðsagnablæ. Í Leitinni að svarta víkingnum tekur Bergsveinn saman það sem hægt er að sækja í heimildirnar og notar það sem grunn að umfangsmiklum rannsóknum og á endanum nokkuð yfirgripsmikla tilgátu sem hefur víðtæka þýðingu um skilning okkar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, gangi lesandinn henni á hönd.
Í stuttu máli er niðurstaða Bergsveins sú að Geirmundur hafi verið hálfur Síberíumaður, hafi dvalist á unglingsárum meðal móðurfólks síns við Hvítahafið, lært til verka við veiðar og vinnslu á rostungum og síðar byggt veldi sitt á Íslandi á slíkum iðnaði, með öllum þeim þrælaskara sem vinnslan útheimtir. Þessi veiðimennska – rányrkja reyndar – ásamt með umfangsmiklu þrælahaldi og vafasömum uppruna er síðan orsök þess hvað rýrum sögum fer af Geirmundi heljarskinn: hann fellur ekki að landnámsmýtu sagnaritara tólftu og þrettándu aldar.
Þó Leitin að svarta víkingnum lúti lögmálum fræðimennskunnar er framsetning efnisins á köflum að hætti skáldsögunnar. Í lokaorðum bókarinnar segir Bergsveinn hana vera „viðleitni til að brúa bilið milli fræðimanns og rithöfundar“ (328). Það má til sanns vegar færa. Bergsveinn er óspar á sviðsetningar, þeirra veigamest norðursigling Geirmundar með föður sínum frá Ögvaldsnesi í Rogalandi til móðurfólksins austan Kólaskaga árið 861, sem er hryggjarstykkið í öðrum kafla bókarinnar.
Að sama skapi má segja að form samstofna skáldsögunnar vinni á skapandi hátt með aðferðir eða allvega framsetningarmáta fræðanna. Neðanmálsgreinar gegna mikilvægu hlutverki, og ekki síður viðamikill formáli sem má jafnvel líta á sem sjálfstætt skáldverk um varðveislusögu hinnar uppdiktuðu Geirmundarsögu. Þar segir af höfundi hennar, Brandi Príór, og örlögum hans þegar sagan hlýtur ekki náð fyrir augum yfirvalda, endurritun hennar af Magnúsi Þórhallssyni í upphafi fimmtándu aldar og svo saga alþýðufræðimannsins Svans Kjerúlf sem fær það hlutverk að afrita handrit í einkaeigu á tuttugustu öld. Svanur sver sig nokkuð í ætt við menningarfræðingin Gest í Handbók um hugarfar kúa, og vel hefði verið hægt að hugsa sér að fingraför hans á „megintexta“ sögunnar sjálfrar væru meira áberandi.
VI
Í sjónvarpsviðtali í tilefni af útkomu Geirmundar sögu Heljarskinns (Kiljan 8. desember 2015) lýsti Bergsveinn yfir efasemdum um nútímaskáldsöguna, erindi hennar og möguleika á að túlka og skýra mannlífið. Margir deila þeim efasemdum, og hafa gert áratugum saman, ef ekki lengur og tilraunamennskuna í framsetningu Geirmundar Heljarskinns má vel túlka í ljósi þeirra.
Þremur árum síðar kom næsta skáldsaga Bergsveins út. Efnistök í Lifandilífslæk gætu bent til þess að höfundur hafi endurheimt trú á möguleika skáldsagnaformsins til að reka alvöru erindi. Líkt og oft áður er írónísk afstaða höfundar til söguhetja sinnar mikilvægt einkenni, en ætlunin er afdráttarlausari en oft: að afhjúpa – jafnvel afsanna – heimsmynd upplýsingar og vísindahyggju sem ófullnægjandi mynd heimsins, sem er fullur af óútskýranlegum furðum á borð við drauga, lindarvatn með lækningamátt, og þó fyrst og síðast ást.
Drifkraftur atburðanna í Lifandilífslæk er hvorki meira né minna en Móðuharðindin, og hin alræmda hugmynd um að gefast upp á Íslandi; flytja eyjarskeggja á Jótlandsheiðar í ljósi þess að landið væri tæpast byggilegt.
Áður en af því verður er ungur og upprennandi menntamaður, Magnús Egede, gerður út til að skrifa skýrslu um ástandið, þó ljóst sé að áformin byggja ekki nema að litlum hluta á niðurstöðum hans, heldur ekki síður á þörf fyrir ódýrt vinnuafl í nýlenduveldinu við Eyrarsund. Enda er honum líka falið að nýta rannsóknarleiðangurinn til að stunda landmælingar og bæta kortin sem til eru af landinu. Einkum er Dönum í mun að fá nákvæmari mynd af nyrsta hluta Stranda. Þangað liggur leið Magnúsar, um þann mikla táradal sem Ísland móðuharðindanna er. Og því lengra norður sem leið hans liggur, því nánari verða kynni hans af lífinu handan vísindanna. Draugar slást í för hans, og að lokum opinberast fyrir honum verðmæti sem ekki verða mæld á mælistiku vísinda og hagfræði:
Innra með honum voru kategóríurnar farnar að skarast. [Hann var ekki objektífur er hann leit í augu þessa fólks lengur. Hvað átti hann með að ákveða hvar væru góð eða slæm lífsskilyrði? [...] skyndilegri hugsun laust niður í hann um að kannski einmitt þar – í miðjum grautnum sem hann fann fyrir í brjóstinu – væri æðstu vísindin að finna. Í þessum samhræringi kategóríanna við hvatir og tilfinningar, eins og hjá eljusamnri matreiðslukonu yfir pottum. Var hægt að miðla þeim graut skynsemdar og kennda við vísindalega aðferð? Gátu vísindin flokkað þann graut? Er hægt að flokka graut? (197)
Auðvitað er sú mynd af sýn og iðju vísindamanna sem gengið er á hólm við í Lifandilífslæk löngu dauð, og það þarf varla drauga til að sannfæra nútímafólk um að sitthvað fleira skiptir máli milli himins og jarðar en það sem hægt er að mæla og reikna. Fyrir nú utan að það er hægur vandi fyrir ímyndunarafl rithöfundar að vekja þá drauga upp. Engu að síður er ferðalag Magnúsar Egede á vit hins yfirnáttúrulega og fjarstæðukennda viðburðaríkt og magnað.
En stóra bomban í Lifandilífslæk er hins vegar uppljóstrunin í lokin: í heimi sögunnar ganga áformin um brottflutning vinnufærra Íslendinga eftir. Í eftirmála er farið hratt yfir þá atburði: hernaðaraðgerð þar sem mótþrói var brotinn miskunnarlaust niður og öllu vinnufæru fólki smalað á skip, en aðrir skildir eftir og þeim leyft að deyja drottni sínum. Og andspyrnuhreyfinguna sem kannski þraukaði neðanjarðar á hálendinu um tíma, og hina sem sluppu í hollenskar duggur af Ströndum og eiga sér afkomendur í Niðurlöndum. Það þarf ekki langt mál til að vekja hjá lesanda sterkar myndir af þessum hörmungum. Í framhaldinu verður landið svo að leikvelli danskra auðmanna og enn síðar að eiturspúandi iðngarði fyrir ameríska athafnamenn.
Og lokamyndin: þar sem Magnús Egede snýr aftur í forystu fyrir eftirleitarsveit danska hersins og finnur ófölnaðan blómvönd sem hann týndi handa Sesselju sinni tveimur árum áður, er sterk, tilfinningaþrungin og allsendis óírónísk.
Stílsmáti Bersveins í Lifandilífslæk er stór hluti áhrifa hennar. Þar er unnið með nokkur þrep af fyrnsku, sem nær hámarki í skýrslum Magnúsar til rentukammersins. Sem er ekki endilega rökrétt eða raunsæislegt, enda eru þær væntanlega ekki skrifaðar á íslensku, heldur þýddar úr dönsku eða latínu af sögumanni, sem er nútímamaður. Sá nýtur þess samt að fyrna mál sitt og krydda með óvenjulegum orðum, nokkuð sem Bergsteinn gerir allajafnan, en einna mest afgerandi hér.
Vald hans á ólíkum málsniðum er ótvírætt, sem og nautn hans við að beita litríku orðfæri. Það er áberandi í ástarlífslýsingum í Svari við bréfi Helgu, bregður fyrir í mæli trillukarlanna í Landslaginu og springur út hér. Vald Bergsveins á máli fornsagnanna gerir honum síðan keift að segja sögu Geirmundar Heljarskinns á sannfærandi hátt innan þeirrar hefðar. Honum eru allir vegir færir í að skoða andstæður og órólegt sambýli fortíðar og nútíðar, fræða og skáldskapar, eins og hugur hans virðist standa til. Mögulega með órætt kuldaglott á vör.
Þorgeir Tryggvason, júlí 2020
Greinar
Um einstök verk
Lifandilífslækur
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson: „Hvaða veruleika á andi sögunnar að segja frá?“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2019, 80. árg. (3), s. 133-139.
Geirmundar saga heljarskinns
Þorgeir Tryggvason: „Skrifað við skorður“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2016, 77. árg. (1), s. 130-135.
Handbók um hugarfar kúa
Kjartan Már Ómarsson: „Gesturinn, hjörðin og gvuðið sem neitaði að deyja“
Skírnir 2017, 191. árg. (haust), s. 432-471.
Leitin að svarta víkingnum
Einar Már Jónsson: „Með teiknibólum og þolinmæði“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2017, 78. árg. (2), s. 140-145.
Svar við bréfi Helgu
Björn Unnar Valsson: „Blessuð sértu sveitin mín, þá veistu svarið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Fríða Björk Ingvarsdóttir: „Örlagaríkt ástleysi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2011, 72 (4), bls. 118-126.
Svarte vikingen
Grønlie, Siân: „Den svarte vikingen. By Bergsveinn Birgisson“ (ritdómur)
Saga-book 2015, 39. árg., bls. 131-33.
Verðlaun
2017 - Stórriddarakross hinnar konunglegu norsku heiðursorðu, fyrir framúrskarandi störf í þágu Noregs og alls mannkyns
2010 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, besta íslenska skáldsagan: Svar við bréfi Helgu
Tilnefningar
2020 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Lifandilífslækur
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Lifandilífslækur
2012 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Svar við bréfi Helgu
2010 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Svar við bréfi Helgu
2003 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Landslag er aldrei asnalegt
Svar við bréfi Helgu
Lesa meiraÍ afskettum firði á 5. áratug síðustu aldar verður hinn ungi bóndi Bjarni ástfanginn af Helgu, konunni á næsta bæ. Þau hefja ástríðufullt, forboðið ástarsamband, og brátt fara tilfinningarnar að flæða jafn hömlulaust og hafið sem umkringir þau.Kolbeinsey
Lesa meiraFlóttin frá siðmenningunni verður sífellt flóknari og að lokum er stefnan tekin mót nyrstu eyju Íslands - KolbeinseyQuell des lebens
Lesa meiraReisen til livsvannet
Lesa meiraHledáni Carneho Vikinga
Lesa meiraPara Helga
Lesa meiraIl vichingo nero
Lesa meiraLifandilífslækur
Lesa meiraRisposta a una lettera di Helga
Lesa meira
Átta ljóð
Lesa meira[Þrjú ljóð]
Lesa meira