Líf í orðum
– um ritferil Jóns Kalmans Stefánssonar frá 2003
Snemma á tímabilinu sem hér er fjallað, og hefst um 2003, tók Jón Kalman Stefánsson sér stöðu í fremstu röð íslenskra rithöfunda og hefur haldið henni síðan. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 og fimm tilnefningar að auki. Þrívegis hafa bækur hans verið tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bækur Jóns hafa komið út víða um heim við mikið lof.
Afköstin er líka mikil: Ellefu skáldsögur og ein ljóðabók auk nokkurra þýðinga. Þegar fram líða stundir má reikna með að fimm af skáldsögunum teljist í raun tvær, svo samstætt er efni þriggja þeirra annars vegar og tveggja hins vegar, og verður nánar rakið hér á eftir, og fjallað um þær sem slíkar.
Mikilvægara en verðlaun, viðurkenningar og blaðsíðufjöldi verður samt að teljast að Jón Kalman hefur á þessu blómaskeiði markað sér afgerandi sérstöðu í íslenskum bókmenntaheimi. Þar skiptir mestu máli hinn sterki heildarsvipur sem er á stíl og efnistökum Jóns. Söguefnin spanna vítt svið í tíma og rúmi, þó Ísland sé alltaf aðalvettvangurinn, og Jón hverfi aftur og aftur að efni úr eigin minningum og fjölskyldusögu.
Það skrifar engin eins og Jón Kalman, og sjáist þess merki hjá öðrum höfundum verður það ævinlega best skýrt með því að rödd Jóns hafi haft áhrif á viðkomandi höfund.
Fjölskyldumynd verður til
Sonurinn líkist móðurinni en hefur eitthvað af hörku föðurins. Hann situr á einum borðstofustólnum, sem konan hefur stillt upp milli sófaborðs og stofuglugga og dagsbirtan sem streymir í gegnum rúðuna breytir honum í dökkt strik.Við þrjú erum í sams konar stólum en hinumegin borðsins, og í fyrsta sinn hugsa ég þetta: Við þrjú. Það er sárt eins og hnífsstunga.
(Snarkið í stjörnunum 37)
Meðan Ýmislegt um risafurur og tímann (2001) getur virkað eins og bók fyrir börn og unglinga – allavega bókhneigða og sérlundaða unglinga eins og þá sem birtast í bókum Jóns Kalmans á næstu árum – er Snarkið í stjörnunum (2003) hreinræktuð fullorðinsbók. Munar þar mestu um tvær ástarsögur úr fortíðinni sem höfundur fléttar saman við dramatískt tímabil í lífi ungs drengs. Sem þægilegt og rökrétt er að hugsa sér að sé sami drengur og heldur til Noregs í Risafurunum, sem kom út tveimur árum fyrr en gerist nokkrum árum síðar en Snarkið í stjörnunum. Fjölskylduaðstæður þeirra eru í það minnsta hinar sömu í grundvallaratriðum. Og hafa auki ýmis tengsl við fjölskyldusögu Jóns sjálfs.
Stjúpan sem er formálalaust kynnt til sögunnar í Risafurunum drottnar yfir þeim hluta Snarksins sem gerist í „núi“ bókarinnar. Líf drengsins sem þar segir frá er í föstum skorðum, fábreytt og þögult í sambýli við afskiftalítinn föður. Tindátarnir og bækur Enid Blyton helstu félagarnir auk krakkana í hverfinu. Við fáum innsýn í strákaheim með leikjum og hættulegum hrekkjusvínum, skákdella tekur um tíma yfir líf drengjanna. Aðalpersónur hverfisins: Söbekk í sjoppunni, rakarinn og bakarinn, eru kynntir til sögunnar eins og goðkynja verur.
Þessi æskumynd sver sig að mörgu leyti í ætt við „strákabækur“ næstu höfundakynslóðar á undan Jóni; Andrabóka Péturs Gunnarssonar og Riddara hringstigans eftir Einar Má Guðmundsson. Þó er veldi ímyndunaraflsins og innra líf stráksins hér enn ríkulegra – skáldlegra – en jafnvel hjá Einari Má:
Á nóttinni klippa gríðarstóru Vogueskærin fyrstu hæð til vinstri út úr tímanum og íbúðin svífur um í tómi geimsins eins og reikistjarna í leit að sól. (8)
Himintunglin eiga eftir að leika stórt hlutverk í skáldamáli Jóns Kalmans allar götur upp frá þessu, innan um hjartað, hafið og fleiri höfuðskepnur.
Hin látna móðir er svo sannarlega sólin í þessu dálítið kalda en nokkurnvegin bærilega lífi sem feðgarnir lifa í blokkaríbúðinni, allt þar til ókunnug kona birtist einn morguninn út úr herbergi föðurins og byrjar að bjástra við að elda óætan hafragraut. Smám saman þarf drengurinn að laga sig að þessum nýja veruleika – lífinu með Stjúpu. Jafnframt eru stundir með móðurinni, veikindi hennar, dauði og útför, rifjuð upp og taka á sig mynd sem litast af skáldlegu ímyndunarafli drengsins sem segir söguna og viðtekinni venju sögutímans að halda börnum í „hæfilegri“ fjarlægð frá alvarlegum stórtíðindum lífsins.
Tvær enn eldri sögur eru rifjaðar upp samhliða hinu sviptingasama en þó kyrrstæða bernskulífi sögumanns. Annars vegar ástarsaga foreldranna. Hvernig hin kraftmikla, metnaðargjarna og lífsglaða tilvonandi móðir hans dregst að þöglum og óframfærnum múraralærlingnum og situr föst í mun hversdagslegra hlutskipti en hún hafði ætlað sér.
Öllu fyrirferðarmeiri er síðan saga langafa drengsins. Sem líkt og móðir hans er of stór fyrir kringumstæður sínar. Áræðinn og metnaðargjarn ungur maður sem auðgast á viðskiptum en er of rótlaus til að halda því striki. Einnig í þeirri sögu er heit og ástríðufull ástarsaga í lykilhlutverki, langamman einörð við hlið hans lengst af þrátt fyrir drykkjuskap, framhjáhald og fráleitar fjármálaákvarðanir. Ástin á eftir að vera helsta hreyfiafl persóna Jóns Kalmans allar götur eftir þetta, ásamt með skáldskapnum sjálfum og ýmsum lægri djöflum.
Aftur í Dalina
Við tölum, skrifum, segjum frá stóru og smáu til að reyna að skilja, reyna að höndla eitthvað , jafnvel sjálfan kjarnann sem færist sífellt undan eins og regnboginn.
(Sumarljós og svo kemur nóttin 113)
það er freistandi að sjá Sumarljós og svo kemur nóttin (2005) sem lokahnykkinn á sveitaþríleiknum sem Jón Kalman hefur skáldsagnaferilinn á. Sögutíminn fluttur til nútímans reyndar og sögusviðið að mestu í þéttbýli þó, en þó þorpið sé ónefnt dylst ekki að þar er horft vestur í Dali. Búðardalur er eina kirkjulausa þorp Íslands, og þannig er staðan í bænum sem „sögurnar og útúrdúrarnir“ hverfast um, en það er undirtitill bókarinnar.
Hvort „sagnasveigur“ er rétt heiti á formi bókarinnar má deila um. Kannski nær óformlegri lýsing betur utan um formið: lausbeisluð skáldsaga. Nokkrar sögur eru sagðar en þræðirnir milli þeirra eru oftast sterkir. Það er innangengt milli sagnanna fyrir stóran hluta af litríku persónugalleríinu og í hverri sögu er sífellt vitnað til og vísað í hinar frásagnirnar.
Þær sögur sem hafa lengstu „fálmarana“ af þessu tagi eru annars vegar sú sem fjallar um reimleikana á lager Kaupfélagsins, sem reynist standa á gömlum grafreit, og á hinn bóginn umpólunin sem verður i lífi forstjóra Prjónastofunnar þegar hann byrjar að „dreyma á latínu“ (11) og hverfur á skömmum tíma frá veraldarvafstri og helgar líf sitt lærdómi og þó sérstaklega stjörnufræði. Einn af mörgum persónum í verkum Jóns Kalmans sem hlýðir kalli bókmennta – í víðasta skilningi – og hverfur heiminum, eða í það minnsta þráir það.
Fleiri minni sem einkenna skáldsögur Jóns fá sín tilbrigði hér. Líkt og Snarkinu fjórum árum áður er hér saga af móðurmissi og þöglum og hörðum föður, þó hún hafi bæði dramatískari og kómískari svip hér: lögreglumaður bæjarins gefst upp fyrir harminum sem konumissirinn skilur eftir sig og sviptir sig lífi, en hinn viðkvæmi og pasturslitli sonur tekur við starfinu án þess að hafa nokkuð til að bera til að valda því, sem bæjarbúar nýta sér um tíma óspart.
Þá eru systurnar, girndin og ástin, hreyfiaflið í mörgum frásagnanna eins og svo oft. Og aftur: dramatík og kómík einkenna atburðina í sérkennilegu jafnvægi. Það er höfuðeinkenni á sögunni af upplausn hjónabands Kjartans og Ásdísar, eftir að bóndinn fellur fyrir Kristínu nágrannakonu þeirra þar sem hann hleypur fram á hana við girðingarvinnu. Það er grótesk og fyndin gleði í lýsingunum, en fornsöguleg heift í aðgerðum eiginkonunnar þegar hún kemst að öllu saman.
Önnur ástarsaga er jafnvel enn áhrifaríkari, í annarri tóntegund en aftur með spaugilegum og harmrænum hliðum: hvernig hin staðfasta Þuríður, móttökustúlka á heilsugæslunni, nær með staðfestu að vekja ástir hins einræna bónda Benedikts. Uppbygging þessarar litlu sögu, þeirrar síðustu sem bryddað er upp á í Sumarljósi, er nánast eins og í formúlukenndri rómantískri gamanmynd, og þó svo það samlíf fái sviplegan endi áður en það byrjar gefur það tilfinningu fyri færni Jóns Kalmans í að lýsa ástarhamingju, án þess að kaldhæðni (sem ekki er alveg fjarri) nái að spilla neinu, nema síður sé.
Fyrir utan litríkt persónugalleríið og viðburðaríkt lífið í þorpinu og nærsveitum sem hér er líst er það ekki síst frásagnarhátturinn sem fangar athygli lesanda Sumarljóss og svo kemur nóttin. Jón velur að leggja söguna í munn þorpsbúanna í heild. Eða kannski öllu heldur: anda íbúanna, lífs og liðinna, sem fylgjast grannt með sínu fólki og er ekkert mannlegt óviðkomandi.
Sögumannsröddin talar um sjálfa sig í fleirtölu:
Hvað skyldi hann hugsa, spurðum við stundum, og áttum við Stjörnufræðinginn… (25)
en ávarpar lesandann í eintölu:
Þú mátt ekki halda að þetta hafi alltaf verið svona hjá Benedikt… (184)
Þessi frásagnarháttur gefur sögunni sérlega aðlaðandi blæ. Gefur henni vissulega yfirbragð bæjaslúðurs, en eykur jafnframt á einhvern hátt trúverðugleikann. Betur sjá augu en auga, hvað þá ef þau virðast vera svona alsjáandi.
Þetta virðast fyrst og síðast vera karlmannsaugu. Sjónarhorn sögunnar er ákaflega karllægt – „við“ horfum girndarlega á konurnar á sögusviðinu. Hvort sem það er Sólrún sýslumannsfrú í sjónsundinu sínu, kona Prjónastofustjórans sem „bjó í draumum okkar“ (13), hin sérdeilis lögulega Elísabet sem ræður ríkjum í Félagsheimilinu eða Bára, fíngerð eiginkona Hannesar lögreglumanns sem deyr frá honum og Jónasi syni þeirra, sem sver sig meira í móðurættina líkt og móðurlausir drengir í bókum Jóns Kalmanns gera svo gjarnan.
Ástarþrá, fróðleiksþrá og nálægð dauðans. Allt eru þetta stef sem ganga í gegnum höfundarverkið og taka á sig sérlega áhrifaríkan svip í næsta verki, og því fyrsta sem ekki er hægt að kalla annað en stórvirki.
Af höfuðskepnunum
Afhverju á vondur maður svona margar bækur, bækur eiga að gera menn góða … (Himnaríki og helvíti 120)
Ekki vissi hann að það væri hægt að stöðva snúning jarðar með því að horfa á stakan hárlokk sem liðast niður hvítan vanga. (Harmur englanna 102)
Hver man eftir þeim sem hafa sjaldan, jafnvel aldrei gleymt sér og týnst í draumum, ekki fundið fyrir glóðinni en gránað hægt og bítandi, gránað og fölnað og runnið baráttulítið saman við tilbreytingarleysið, orðið að tilbreytingarleysi og horfið löngu fyrir dauða sinn (Hjarta mannsins 200)
Á fimm ára tímabili kemur út viðamesta verk Jóns Kalmans til þessa: þríleikurinn sem hófst með Himnaríki og helvíti (2007), hélt áfram í Harmi englanna (2009) og lýkur á harmrænan hátt með Hjarta mannsins (2011). Hátt í níu hundrað síðna örlagasaga og lýsing á kyrrstæðu samfélagi sem, líkt og náttúran, þrengir harkalega að hverjum þeim sem sýnir ekki tilhlýðilega auðsveipni, andlega jafnt sem efnahagslega. Nokkrum slíkum vindur fram og flestar leiddar til lykta, og fyrir miðju stendur nafn- og munaðarlaus drengur.
Sagan hefst á því að sögumaður gerir örlita grein fyrir sér. Eða öllu heldur sögumenn, því í þríleiknum eru það aftur „við“ sem segja söguna, líkt og í Sumarljósi. Það er ljóst frá fyrsta ávarpi að hér tala hinir framliðnu:
Við ætlum að segja frá þeim sem lifðu á okkar dögum, eða fyrir meira en hundrað árum, og eru fátt annað fyrir þér en nöfn á hallandi krossum og sprungnum legsteinum. (Himnaríki og helvíti 8)
Engir einstaklingar kveða sér hljóðs, þetta er andlitslaus hópur. Kórar í grískum harmleikjum koma upp í hugann, en þeir eru þó alla jafnan meiri gerendur en „við“ í verkum Jóns Kalmans, og sérstaklega í þríleiknum.
Stundum hljóma þessu dánu raddir eins og þær hafi þegar verið komnar undir græna torfu þegar atburðir sögunnar gerast. Sem gæti skýrt hversu alvitrar þær eru, sjá í hug allra og hugleiða stöðu hvers og eins í samfélaginu.
Það fer engu að síður aldrei milli mála hvers hugur er hér í forgrunni, afdrif hvers eru mælikvarði sögunnar á umhverfið. Þroska- og örlagasaga hins ónefnda drengs sem við sjáum fyrst elta besta vin sinn og verndara, Bárð, úr Plássinu yfir í verið þaðan sem þeir róa. Tveir ungir og kappsfullir menn með örlítið annan metnað en harðskeyttir sjómennirnir sem eru í áhöfn með þeim. Tíminn er sennilega undir aldamótin 1900 og þó samfélagið sé harðneskjulegt og lífsbaráttan slítandi eygja þeir von í skáldskapnum. Sú von virðist ætla að slokkna snemma. Bárður er svo hugfanginn af Paradísarmissi í þýðingu Jóns á Bægisá að hann fer stakkslaus á sjóinn og frýs í hel.
Þessi örlagaríka sjóferð er meginefni fyrri hluta Himnaríkis og helvítis og er sérlega glæsilegur texti, hvort sem litið er til teikninga af persónuleikum skipverjanna, harmrænna örlaga Bárðar og viðbragða stráksins við þeim, og þó öllu helst myndinni af náttúruöflunum, þar sem fegurð, ógn og skeytingarleysi ríkja yfir lífi og dauða.
Heimur stráksins hrynur við fráfall Bárðar. Hann yfirgefur verið og heldur til Plássins og síðari hluti Himnaríkis og helvítis kynnir það sögusvið fyrir okkur og veitir jafnframt innsýn í hinn stóra missi sem strákurinn hefur orðið fyrir. Megindrifkraftur þríleiksins er spennan milli hins mjúka, opna lífsviðhorfs sem hinn fróðleiks- og skáldskaparþyrsti Bárður var helsti fulltrúi fyrir, og hins harða, þrönga og ofbeldisþrungna lífs sem hefur mótast um aldir í erfiðri glímu við náttúruöfl og ríkjandi siðferðisviðhorf og óréttlátt þjóðskipulag. Fljótlega kemst strákurinn í kynni við fólk beggja vegna þessarar víglínu. Finnur nýja bandamenn og öfluga andstæðinga.
Plássið er í heljargreipum verslunarvaldsins, sem holdgerist í Friðrik faktori. Tilraunir annarra til að standa á eigin fótum í rekstri og útgerð eru hindraðar og ónýttar, vinnuaflið þrælkað og kúgað. Hinar skörpu línur milli góðs og ills, þar sem hin góðu glíma jafnframt við eigin breyskleika og freistnivanda, minna stundum allnokkuð á Charles Dickens. Það á ekki síður við um málsvara hins góða en illmennið Friðrik og fylgdarlið hans. Strákurinn kemst fljótlega undir verndarvæng hinnar vel stæðu Geirþrúðar, sem rekur greiðasölu og veitir skjól þeim sem standa höllum fæti, en hafa engu að síður eitthvað til brunns að bera, líkt og hún sér að aðalsöguhetjan hefur.
Allt við Geirþrúði er eitur í beinum Friðriks og yfirstéttarinnar. Ekki síst sjálfstæði hennar sem konu, sem hefur haslað sér völl sem virkt afl í samfélaginu. Þriðja bindið, Hjarta mannsins er að miklu leyti helgað uppgjöri og undankomuleið Geirþrúðar undan áhrifavaldi Friðriks, en miðbókin, Harmur englanna, er líkt og fyrri hluti fyrsta bindisins helguð baráttu við sjálf náttúruöflin. Titillinn er kenning fyrir snjó, og það kyngir svo sannarlega niður yfir Strákinn, sem slæst í för með Jens landpósti sem sendur er í hættulega svaðilför yfir fjörðinn, að undirlagi Friðriks sem virðist vilja Jens feigan, enda pósturinn frjáls andi.
Æsilegar og dramatískar veður- og hrakfaralýsingar einkenna bókina, en þó fær mannlífið sitt rými líka. Fegurðar- og menntaþráin lifir líka í kotunum á Vetrarströndinni. Og í smáþorpinu Sléttueyri, þar sem ferðinni lýkur, holdgerist fegurðin í hinni rauðhærðu Álfheiði.
Ástarþroskasaga stráksins er, fyrir utan baráttu góðs og ills og samlífsins við náttúruöflin, meginþráður þríleiksins. Hinn næmi unglingur heillast af tveimur stúlkum, því áður en Álfheiður kemur til sögunnar hefur hann komist undir áhrifavald Ragnheiðar, dóttur Friðriks kaupmanns:
Hann horfir og hann horfir og smám saman hægist á snúningi jarðarinnar, það hægist þar til hún nemur staðar. [...] Ekki vissi hann að það væri hægt að stöðva snúning jarðar með því að horfa á stakan hárlokk sem liðast niður hvítan vanga. (Harmur englanna 102)
Hliðarspor í þessari ástarsögu stráksins er Guðrún, ráðskona í verinu, sem hann skynjar sem sálufélaga í liði þeirra sem þrá fegurð og bókmenntir og lokkar frá manni sínum, en áttar sig ekki á að hafa þar með skuldbundið sig henni. Úr þeirri flækju tekst að greiða með hjálp Geirþrúðar.
Ragnheiður virðist meiri ógn, enda við föður hennar að eiga ef sá samdráttur gengur of langt. Sjálf beitir hún þokka sínum og valdi vægðarlaust, en er síðan úr sögunni þegar hún siglir á vit yfirstéttarlífs í Danmörku.
Eftir stendur hin undurfagra Álfheiður, og það er í örmum hennar sem sögu stráksins lýkur á dramatískan hátt í sjávarhelli á Vetrarströndinni.
Þríleikurinn er mikið og glæsilegt stórvirki. Hér er sagt frá stórum örlögum og einbeittu hugrekki í baráttu við þrúgandi græðgi og grimmd, með melódramatískum undirtónum. En það eru stórbrotnar náttúrulýsingarnar, samofnar við fínlegar og ljóðrænar lýsingar á sálarlífi hinna næmgeðjuðu, og ekki síður þeirra breysku og smáu, sem sitja eftir í huga lesandans.
Listin að lifa í köldum heimi
… að sama svæði stjórni dómgreind, tilfinningum og forsjálni, það fer ekki vel saman, hlýtur eiginlega að flokkast sem hönnunarmistök, því dómgreind, tilfinningar og hið vitræna búa á hvert á sinni plánetunni, eru tæpast í sama sólkerfi, ekki er að undra að okkur gangi jafn illa að fóta okkur, séu úr lagi gengin, heimurinn hart leikinn. (Eitthvað á stærð við alheiminn 153)
Það liggur sterkur sjálfsævisögulegur þráður í gegnum mörg verka Jóns Kalmans, eins of fram hefur komið. Sú úrvinnsla minninga og fjölskyldusögu sem er áberandi í Snarkinu í stjörnunum heldur áfram í Fiskarnir hafa enga fætur (2013) og Eitthvað á stærð við alheiminn (2015), sem eðlilegast er að líta á sem eina langa skáldsögu í tveimur hlutum, ekki ólíkt því og við horfum til dæmis á Sölku Völku og Íslandsklukkuna.
Aðalpersóna tvíleiksins, bókamaðurinn Ari, deilir sárum aðstæðum í æsku með söguhetju Snarksins, móðurmissi og kaldranalegu heimilislífi sem einkennist af togstreitu við Stjúpu. Fleiri þræðir liggja milli Fiskanna og Alheimsins og fyrri bóka Jóns. Eitt af lykilatvikum þessarar sögu er nauðgun á sláturhússballi, sem fyrst er sagt frá í Skurðum í rigningu (1996). Veigamest er samt kannski að form hennar er í grunninn það sama og á Snarkinu í stjörnunum.
Eins og þar er hér fléttað saman þremur tímaskeiðum í sögu ættar, þannig að einn tími varpi ljósi á annan: Í forgrunni er nútíminn, þar sem útgefandinn Ari snýr aftur úr sjálfskipaðri útlegð og heldur til fundar við deyjandi föður sinn í þeirri efnahagslegu rúst sem Keflavík æsku hans er orðin. Að sjálfsögðu verður endurkoman Ara tilefni til að rifja upp unglingsár sín þar í bæ og í aðdraganda þess að faðir hans og stjúpa flytja þangað.
Þriðja skeiðið er síðan ástar- og baráttusaga ömmu hans og afa á Norðfirði snemma á síðustu öld. Atburðarás þeirrar síðastnefndu og nútímasögunnar er nokkurnvegin í réttri tímaröð en upprifjanir úr fortíð Ara lúta duttlungum minnisins.
Úr þessari stóru fjölskyldusögu verður til breið þjóðfélagslýsing með tvær persónur í forgrunni: hina sterku, sigldu en viðkvæmu Margréti, og Ara sonarsonar hennar. Bæði eru þau nokkuð utanveltu í samfélögum sínum, í hálfgerðu stríði við þau, eins og títt er um aðalpersónur í skáldsögum Jóns, og einkennir til dæmis mjög Geirþrúði og strákinn í þríleiknum.
Það er í gegnum þann núning sem einkenni samfélaganna, mótin sem þau ætla fólki að passa í, verða sýnileg, og eins og svo oft kemur í ljós að harðneskja er grunntónn umhverfisins. Við fylgjumst með heitri ást Odds og Margrétar veðrast í harðri lífsbaráttunni og flótta Ara frá keflvískum kulda og sinnuleysi föður og stjúpu eftir heimsslit móðurmissisins í skjól heyrnartólanna, tónlistarinnar. Hún tekur mikið pláss hér, og átti eftir að nema jafnvel enn stærri lönd í síðari verkum Jóns.
Í tvíleiknum víkur Jón Kalman aftur frá „fleirtöluröddinni“ þegar kemur að sögumanni. Hér er sá sem segir frá hluti sögunnar, talar um sig sem frænda og samferðamann Ara og á sér einhverskonar samsvarandi og samhliða tilvist, en er þó þokukenndur, alvitrari en svo að hann sé alfarið af þessum heimi og virðist leysast upp í lokin. Jón á eftir að gera frekari tilraunir með stöðu sögumannsins í efni sínu í næstu skáldsögum.
Þó frásagnaraðferðin sé önnur er viðfangsefni Jóns í þessum bókum í grunninn hliðstætt við meginþema þríleiksins: Andstæða og togstreita hversdagslífs og brauðstrits við heim tilfinninga, sköpunar og lista. Þarna er varnarþing höfundar, hann og fulltrúi hans, sögumaðurinn, eru talsmenn þeirra persóna sem gangast þessum síðarnefndu höfuðskepnum á hönd.
Við horfum á glímu sægarpsins Odds og Margrétar konu hans um sál og framtíð sonarins Þórðar frá sjónarhóli hennar. Margrét er þungamiðja fortíðarkaflanna, við fylgjumst með hennar viðkvæma en grunnsterka sálarlífi veðrast í hvunndagsraununum og mælum kostnaðinn við baráttu hennar við að halda sjálfri sér á andlegu lífi og að halda opinni leið sonarins Þórðar út úr hinum harða heimi sjómennskunnar. Glíma sem hin heimsku örlög dæma tapaða með harmrænu fráfalli Þórðar í blóma lífsins.
Meðan þríleikurinn var næsta afdráttarlaus í að skipa í lið ljóss og myrkurs, hörku og mýktar, leyfir Jón sér meiri grátóna hér. Áhrifaríkast er það þegar við fáum innsýn í persónuleika föður hans og stjúpu sem bæði virðast á endasprettinum hafa fundið einhverskonar frið og – að minnsta kosti hún – innsýn í hvað orsakaði andrúmsloftið á heimilinu, og hverjar gætu hafa verið afleiðingar þess fyrir aðra en drenginn.
Bréf stjúpu til Ara undir lok bókarinnar er fallegur texti, þar sem höfundurinn færir þessari þreyttu og hörðu konu eitthvað af stílmýkt sinni þar sem hún kveður lesandann. Kannski er það réttlætismál að hörkutól og hrúðurkarlar af báðum kynjum fái aðgang að skáldlegu ímyndunarafli og mjúkum alheimshúmanisma höfundar.
Tvíleikurinn um Odd Norðfjarðarskipstjóra og keflvíska afkomendur hans er eitt helsta stórvirki Jóns Kalmans. Sú einarða vígstaða sem hann tekur sér með þeim sem leyfa sér að hrærast í heimi andans og ástarinnar er skýrust hér og í þríleiknum sem hófst með Himnaríki og helvíti. En með því að stika vígvöllinn í nútímanum, láta hann varpa ljósi á samfélag okkar og ýmis mein sem einkenna það færir hann greiningu sína á stöðu og horfum tilfinningalífsins í hörðum heimi enn nær okkur, og grátónarnir sem hann leyfir sér meira af hér gera myndina trúverðugri og nákomnari lesandanum.
Hið mjúka og hið harða
Ég er kominn inn í vitann. Klyfjaður bókum, tónlist og minningum stíg ég inn í ljósið sem klýfur myrkrið. (Saga Ástu 443)
Næsta skáldsaga Jóns Kalman eftir tvíleikinn kom út 2017, tveimur árum á eftir Eitthvað á stærð við alheiminn. Saga Ástu – Hvert fer maður ef það er engin leið út úr heiminum heitir hún fullu nafni.
Ýmislegt á ytra byrði hennar, og innihaldi líka, sver sig í ætt við síðustu tvær bækur, og kallast einnig á við Ýmislegt um risafurur og tímann og Snarkið í stjörnunum. Líkt og í þessum bókum sækir Jón hér í sagnasjóð fjölskyldu sinnar. Þá er formið áþekkt tvíleiknum: Saga nokkurra ættliða og skyldmenna á ólíkum tímum er rakin samhliða, af sögumanni í nútímanum. Að þessu sinni er hann þó nær því að geta verið höfundurinn sjálfur en í tvíleiknum, þar sem hann er þátttakandi í atburðarás fortíðarinnar.
Hér segir söguna rithöfundur, staddur á sögusviði eins fortíðaþráðanna, en í nútímanum. Milli þess sem hann skapar söguna fáum við innsýn í líf hans og stöðu mála í þjóðfélaginu, þar sem ferðamenn hafa tekið við sauðkind og selveiðum sem aðalatvinnuvegur afskekktra sjávarbyggða. Hér er jafnvel horft víðar á á raunveruleikann utan hins skáldaða heims – sjálfur Donald Trump á sínu fyrra valdatímabili fangar athygli sögumanns milli þess sem hann rannsakar fortíð fólksins sem sækir á hug hans.
Uppbygging Sögu Ástu er líklega sú margslungnasta hingað til í höfundarverki Jóns Kalmans. Flóknasta tilbrigðið við að rekja marga tímaþræði og nálgast þannig heild í lífi ættar eða fjölskyldu.
Þegar hefur verið minnst á þann þátt Sögu Ástu sem gerist í nútímanum. Ónefndur höfundur reynir að koma sér að verki á afskekktum stað og segja sögu konu sinnar, Ástu, sem sendir honum saknaðarbréf í útlegðina, sem mynda annan af þráðum bókarinnar.
Þó „höfundurinn“ sé sögumaður og lesandi verði að lesa hana sem hans „verk“, er inni í þeim ramma annar sögumaður og annar rammi. Sigvaldi, faðir Ástu, fellur úr stiga við störf sín sem málari í Noregi. Hann kemur hart niður og eins og oft er sagt að gerist við þær aðstæður þá þýtur æfi hans um hugann milli þess sem hann nær meðvitund í skamman tíma öðru hverju.
Tveir meginþræðir eru í þessum minningum. Önnur þeirra er um kvöldstund sem hann á með bróður sínum, sem einnig býr í Noregi, og kallar á Sigvalda eitt kvöld og biður hann að lesa endurminningar sem hann hefur fært í letur. Bróðirinn er skáld og þó þeir séu engir óvinir er langt á milli þeirra: annar lifir í heimi andans, hinn í efnisheiminum – hið sínálæga andstæðupar í verkum Jóns. Minningarskrif bróðurins fjalla ekki síst um föður þeirra, sem við þekkjum aftur úr lýsingum langafans í Snarkinu í stjörnunum. Heillandi, ístöðulaus sveimhugi sem þrífst á endanum ekki í fjölskyldulífi.
Hinn meginþráðurinn í upprifjunum Sigvalda snúa að skyldri andstæðu og þeirri sem hann myndar gagnvart bróður sínum: samband hans við Helgu, móður Ástu. Sem er hæfileikarík, metnaðargjörn og listræn, en heillast af hinum jarðbundna húsamálara, ekki síst kynferðislega. Þegar barneignir og hvunndagsraunir hellast yfir sígur hratt á ógæfuhliðina fyrir henni og að lokum yfirgefur hún fjölskylduna.
Hin eiginlega „saga Ástu“ er síðan enn einn þráðurinn. Vandalaus eldri kona, „fóstra“ kemur að henni og bróður hennar yfirgefnum eftir brotthvarf Helgu og úr verður að hún gengur henni í móðurstað. Þegar hinn órólegi andi móður Ástu virðist vera að ganga aftur í henni er hún send í sveit, um það leyti sem „það er búið að skjóta Kennedy, en líklega ekki Martin Luther King og alls ekki John Lennon “ (159). Hún kynnist síðan harðneskjulegu lífinu á mjög afskekktum bæ við sjávarsíðuna fyrir vestan. Þar býr mjög svo einrænn bóndi, Árni, ásamt Kristínu móður sinni, sem er farin að „villast í tímanum“ og lifa í fortíðinni.
Mikilvægast fyrir söguna er samt að þarna er annað barn vistað: drengurinn Jósef, en með þeim takast náin kynni. Jósef er hægt að sjá sem myrkari útgáfu af stráknum í Himnaríkisþríleiknum. Fulltrúi andans, bókelskur mjög en trúr sínum samtíma. Meðan Ólöf frá Hlöðum var í hávegum hjá skjólstæðingi Geirþrúðar í Plássinu er það Thor Vilhjálmsson og bókmenntaleg útþrá hans sem á hug Jósefs, mjög á kostnað t.d. Davíðs Stefánssonar, sem auðvelt er að sjá eiga greiða leið að fyrri drengnum.
Eftirtektarvert er líka að hinn ónefndi strákur þríleiksins og Jósef deila sviplegum örlögum. Sjórinn hrifsar þá báða í blóma lífsins. Við taka óróaár í lífi Ástu, sem virðist þegar við nálgumst nútíma hennar og skáldsins í vitanum fyrir vestan hafa kyrrst og sprungið út.
Þessi flókna atlaga Jóns Kalmans að sínu stærsta viðfangsefni er áhrifarík og dramatísk, jafnvel myrk á köflum. Lýsingarnar á niðurbroti Helgu og sorg Sigvalda og glímu Ástu við sjálfsmynd sína og aðstæður eru sterkar, litirnir dimmir og skýrir. Í hvert sinn sem hugur höfundarins hvarflar að þessu efni koma nýir fletir fram og þó stíleinkenni Jóns séu alltaf skýr og auðþekkjanleg birtast stöðugt ný blæbrigði.
Svik, harmur og dauði
Er það eitt af lögmálunum, að gjaldið fyrir hamingju á einum stað sé óhamingja á öðrum? (Fjarvera þín er myrkur 222)
í næstu skáldsögu fær lesandinn litla sem enga tilfinningu fyrir að sami sagna- og minningarsjóður sé efnisuppsprettan og var í síðustu bókum. Fjarvera þín er myrkur (2020) á engu að síður ýmislegt sammerkt með fyrri skáldsögum Jóns, bæði að formi, umfjöllunarefnum og áherslupunktum.
Eins og svo oft eru hér tveir megintímar undir, annar í nútímanum, þar sem sögumaðurinn er í forgrunni líkt og í Sögu Ástu, en þaðan liggja reyndar ótal upprifjunarleiðir aftur til nálægrar fortíðar persónanna. Hinn tíminn er á hinn bóginn alveg sjálfstæður, þó aðalpersónurnar séu vissulega forfeður fólks sem kemur fyrir í nútímasögunni: frásögn af ást í meinum á Snæfellsnesi um aldamótin 1900.
Þó þessi fortíðarsaga sé að blaðsíðutali minnihluti bókarinnar þá er hún áhrifaríkasti hluti hennar. Þar segir af prestinum Pétri, sem hefur glatað lífsgleðinni við dauða dóttur sinnar, og jafnframt ást sinni á eiginkonunni. Þegar honum berst ritgerð til birtingar í tímariti sem hann ritstýrir ásamt félögum sínum, kviknar eitthvað í brjósti hans. Þar heldur á penna Guðríður, harðgift húsfreyja og þriggja barna móðir á heiðarbýli nokkurn spöl í burtu.
Þó ritgerðin sé um ánamaðka nær hún að heilla prestinn og hreyfa við tilfinningalífi hans, og jafnvel kynhvöt. Hann er í raun orðinn ástfanginn af þessari giftu bóndakonu meðan samband þeirra er eingöngu bréflegt, og áður en honum tekst að gera sér upp erindi til að sækja þau hjón heim.
Bæði Pétur og Guðríður eru í grunninn kunnuglegar manngerðir úr höfundaverki Jóns Kalmans. Tilfinninganæmt, ástríðufullt og menningarþyrst fólk sem býr við aðstæður sem setja löngunum þeirra strangar skorður. Báðum þykir þeim vænt um maka sína, þó lífsbarátta beggja hafi kæft, eða í það minnsta kælt, ástina. Lýsingarnar á aðdraganda heimsóknar séra Péturs í Uppsali og nákvæm rakning á þeim dagparti sem hann dvelur þar hjá Guðríði og Gísla manni hennar, eru með því spennuþrungnasta sem Jón Kalman hefur sent frá sér. Eins er lokakaflinn í þessu ástarævintýri: ferð Guðríðar til Stykkishólms til að taka sæti í ritnefnd tímaritsins, og fá loksins tækifæri til ástarfunda með prestinum, glæsilegur texti. Blátt áfram en þrunginn hita og skynjun, hvort sem lýst er kynnum af nýstárlegum mat, tækifæri Guðríðar til að skoða sjálfa sig nakta í spegli, eða þegar presturinn mætir loks til fundar:
Hjarta Guðríðar slær svo þungt þegar Pétur kemur inn og hrífur alla með nærveru sinni og ákafa, að hún óttast að það berist yfir háa heiði og alla leið heim til Uppsala, heim til Gísla. Sem má alls ekki. Hann má ekki heyra hvernig hjarta hennar slær. Hún horfir á Pétur og hugsar, Gísli veit ekki hver Émile Zola er. (422)
Ástarfundur Guðríðar og Péturs þessa nótt getur af sér son, sem síðan reynist vera forfaðir aðalpersónunnar í nútímahluta bókarinnar. Það er reyndar lengi vel ekki alveg ljóst hvern ber að sæma því heiti, því bæði er persónugalleríið stórt og sögumaðurinn sjálfur plássfrekur.
Nútímasagan hverfist um sveitahótel sem er að opna á ný þegar Covid-faraldurinn er kominn á undanhald, og fyrirhugaða veislu sem er helguð minningu „Páls í Odda, Elvis og lífinu“, eins og margoft er ítrekað í textanum. Lagalistinn sem á að hljóma í partíinu verið er að setja saman gegnir vegamiklu hlutverki í textanum og vísanirnar í þekkt og minna þekkt popp- og rokklög lita lestrarupplifunina. Listinn er prentaður í bókarlok og er einnig að finna sem spil-lista á Spotify-prófíl höfundarins.
Persónugallerí nútímahlutans er ekki bara stórt heldur líka mjög litskrúðugt, eins og breiðar dreifbýlislýsingar Jóns Kalmans hafa gjarnan verið. Það er ættarsvipur með sveitungunum hér og þorpsbúum og nágrönnum þeirra í Sumarljós og svo kemur nóttin. Sem dæmi mætti nefna ferð Kára eftir þarfanauti í næstu sveit. Svo illvígur er boli að hann þarf að fá heimasætuna Margréti með sér í heimferðina:
Margrét tók stokkinn orðalaust af honum, settist á læri hans, bar logandi eldspýtuna upp að ilmandi vindlinum og fann í þriðja sinn hvernig limur hans þrútnaði, stækkaði og harðnaði hratt í buxunum. En í stað þess að sitja kyrr og horfa burt, byrjaði hún varfærnislega en samt þétt og ákveðið að nudda sér upp við liminn. [...] Þau giftu sig tveimur mánuðum síðar. (219)
Kannski mætti kalla þennan frásagnarblæ ljóðræna grótesku.
Framan af virðist lesandanum að sögumiðja nútímasögunnar séu sögumaðurinn og hótelstýran á sveitahótelinu. Þau eiga sér greinilega einhverja fortíð, en sögumaðurinn er óræð vera. Minnislaus og jafnvel framliðinn. Alla vega virðist hann lausbundinn tíma og rúmi. Fljótlega kemur hann sér fyrir í hjólhýsi ásamt með dularfullu, hálf-yfirnáttúrulegum samferðamanni sínum, sem situr yfir honum meðan hann – eða þeir skrifa bókina. Þessum samferðamanni er ýmist lýst sem presti, rútubílstjóra eða jafnvel djöfli.
Sögumaðurinn er þátttakandi í lífinu sem hann skapar, en aðeins á jaðri þess. Glíma Jóns Kalmans við skáldsöguformið er kröftug í þessari bók, jafnvel enn sviptingarsamari en í fyrri bókum. Hún mun halda áfram í næstu skáldsögu, en þar ríkir þó meiri sátt við óreiðuna.
Smám saman þéttist miðja frásagnarinnar utan um Eirík sem er er afkomandi Guðríðar í gegnum Halldór föður sinn og Skúla afa sinn sem er sonarsonur Guðríðar og Péturs. Líkt og formóðir hans er Eiríkur leitandi sál. En ólíkt henni standa honum allar dyr opnar, og hann hefur snúið aftur í sveitina eftir að hafa yfirgefið hana fyrir menningarhringiðu meginlands Evrópu og ástir fagurra kvenna. Hann er sjálfur framhjáhaldsbarn, og er lengst af í sambandi við hina dönsku Tove, sem sjálf er gift kona.
Ást og svik mynda þannig þráð í gegnum þessa ættarsögu með öllum sínum viðamiklu útúrdúrum, fjölbreyttu tónlist, skrautlegum mannlífsmyndum og vangaveltum um stöðu þess sem segir söguna gagnvart efni sínu. Vangaveltum sem aldrei verða leiddar til lykta.
Auðvitað er margt óljóst og auðvitað er mörgu ósvarað. Það verður að vera þannig. Þú veist það jafn vel og ég. Annars höfum við enga ástæðu til þess að halda áfram. (483)
Millileikur ljóðsins
Til að byrja með sökkti ég mér fyrst og fremst ofan í prósa, las skáldsögur og smásögur eins og andsetinn, reyndi fremur að skrifa smásögur en að yrkja ljóð. Með hægðinni rann þó upp fyrir mér að ég væri ljóðskáld… (þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim 181)
Eins og margir skáldsagnahöfundar hóf Jón Kalman feril sinn með ljóðagerð. Fyrstu þrjár bækurnar eru ljóðabækur, og milli þeirrar síðustu í þeirri runu og fyrstu bókar í óbundnu máli líða átta ár. Síðan líða ríflega þrír áratugir þar til næsta ljóðabók lítur dagsins ljós, Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir (2021). Árið áður hafði Jón safnað ljóðabókunum þremur saman í eina bók, Þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim (2020). Þar er að finna örfá óbirt ljóð til viðbótar, en ekkert þeirra virðist yngra en fyrstu prósaverkin.
Ljóðasafnið endar á fróðlegri og stórskemmtilegri ritgerð þar sem Jón Kalman rekur leið sína inn í heim skáldskaparins; opinberunum, hugljómunum, lestri og grúski, og gefur þarfar vísbendingar um fagurfræði sína almennt. Þýðingar fá þar veglegt pláss og afdráttarlausan stuðning fyrir mikilvægi sitt fyrir skáldið, og í íslenskum bókmenntum almennt. Árið 2013 kom út safn ljóðaþýðinga Jóns Kalmans, Undir vernd stjarna. Ritgerðin er líka ákaflega skýrt og nytsamlegt gagn fyrir þau sem vilja bera þær skáldsögur Jóns sem vinna úr sjálfssögulegu efni saman við staðreyndir fortíðarinnar. Sem er óneitanlega freistandi, þó mörgum þyki það tortryggileg bókmenntafræðileg rannsóknaraðferð.
„Af hverju þessi sóun á pappír?“ Ritgerðin góða í lok ljóðasafnsins hefst og endar á þessari spaugilegu spurningu. Óvíst er að henni yrði varpað fram um síðustu ljóðabók Jóns Kalman. Ljóðin í fyrri bókunum eru reyndar ekkert sérlega knöpp í formi, en skilja þó flest eftir talsvert autt pláss á hverri síðu.
Í Djöflunum er þessi nýting komin nær því sem tíðkast í óbundnu máli. Ljóðmálið stendur líka nær prósanum. Lesandanum finnst hann í raun geta fundið kafla í flestum skáldsögum Jóns Kalmans sem gætu auðveldlega átt heima í bók af þessu tagi. Og öfugt:
Þú veist líklega að heimurinn
er allskonar, það er til fólk
sem sofnar alltaf einmana
vegna þess að einhver dó, einhver fór,
einhver brást, sofnar einmana,
þráir snertingu, það er til fólk
sem óttast morgundaginn og hefur
ástæðu til þess, það er til fólk
sem vaknar grátandi
eins og nágranni minn,
eins og barnið sem grætur núna í næsta húsi(„Þú veist líklega að heimurinn er allskonar“ 31)
Þannig hljóma textar djöflanna eins og eintöl sögumanna Jóns Kalmans, eitt hans sterkasta stíleinkenni og mikilvæg ástæða þess hve ástsæll höfundur hans er.
Líkt og í skáldsögunum á undan og eftir er tónlist hér í talsverðu hlutverki. Abba kemur við sögu, og vitnað í Paul McCartney, sem er í stóru aukahlutverki í næstu skáldsögu. Og líkt og í þeirri sem á undan kom, þar sem Bee Gees er úthýst af lagalistanum mikla, fá áströlsku bræðurnir heldur slæma umsögn:
Einhver spilar Bee Gees,
kýs rangan stjórnmálamann, kastar plasti í sjóinn
og jöklarnir hverfa
eins og framtíð okkar
eins og kvöldin sem við áttum að eiga saman
eins og næturnar
sem hér eftir verða án þín(„Þegar einhver fer“, 51)
En við bætum engu lagi með Bee Gees á lagalista Dauðans. Nei, auðvitað ekki. Við erum ekki fantar. (Fjarvera þín er myrkur 366)
Engin frekari skýring er á boðstóum um andúð höfundar og persóna hans á tónlist Gibb-bræðra. Hvorki í hinni efnisríku skáldsögu eða öllu knappara formi ljóðanna. í næstu bók eru dilkadráttur tónlistar síðan í forgrunni.
Faðir vor
In the place where I was born
No one cared, no one cared.(Prufuupptaka Johns Lennon af Yellow Submarine)
Í Gula kafbátnum (2022) heimsækir Jón Kalman enn og aftur hinn ríkulega sagnasjóð fortíðarinnar, minningar sínar og fjölskyldusögu. í hvert sinn sem hann gerir það gerist eitthvað nýtt, þó efniviðurinn sé alltaf nokkuð kunnuglegur. Að þessu sinni er farið víða um fortíðina, komið við í sveitadvöl á Ströndum, í ökunámi sem fær sviplegan endi, auk þess sem við sjáum ráðvilltan ungling finna bókmenntalegu fjölina sína í einverunni í leyndum afkima bókasafnsins í Keflavík. Grúsk sem má segja að endurómi í einum þræði í nútíma sögunnar, áhuga á Gilgameskviðu og öðrum bókmenntalegu efni sem sífellt er verið að grafa upp úr eyðimörkum Miðausturlanda, og vinur sögumanns er á leið að rannsaka þegar bókin hefst.
Sagan er sögð í fyrstu persónu af aðalpersónu bókarinnar, frásagnaraðferð sem Jón Kalmann hefur ekki beitt síðan í Snarkinu í stjörnunum - eftir allar tilraunir með misfjarlæga og mismarga sögumenn erum við aftur komin í nokkurskonar grunnstöðu sagnamennskunnar.
Þaðan reynast allir vegir færir. Það er hægt að nálgast á raunsæislegan og nærgöngulan hátt sálarástand og þroskasögu óvenjulegs drengs í erfiðum fjölskylduaðstæðum eftir móðurmissi, með þöglan og kaldan föður, og jafnvel enn harðneskjulegri stjúpu. Og ekki síst hvernig hann finnur sér athvarf hjá Sesselju og Guðmundi, gömlum og hjartahlýjum hjónum í annarri íbúð í blokkinni.
En það er líka hægt að fara í ævintýraferðir út fyrir allt raunsæi. Þegar söguhetjan er komin í sveit á ættarheimili Stjúpu á Ströndum getur hann sótt sér félagsskap og huggun meðal hinna framliðnu í heimagrafreitnum, sem taka að nokkru yfir hlutverk gömlu hjónanna í blokkinni.
Guli kafbáturinn er tvímælalaust sú skáldsaga Jóns Kalmans þar sem áhrif Suður-ameríska töfraraunsæisins blasa best við, að minnsta kosti síðan í Sumarljósi og svo kemur nóttin. Það er hægt að spjalla við framliðna Strandamenn, og það er líka hægt að fá sér sæti á grasflöt í London, spölkorn frá sjálfum bassaleikara Bítlanna, Paul McCartney, og safna kjarki til að færa honum mikilvæg skilaboð. Tónlist hefur fengið vaxandi hlutverk í skáldsögum Jóns hin síðari ár, en er hér nær kjarna bókarinnar en nokkru sinni.
Meðan lagalistinn mikli sem þræðir sig í gegnum Fjarvera þín er myrkur er fyrst og fremst til stemmningsauka, þar sem söngtextarnir bæta merkingarvídd við textann á nokkuð almennan hátt, er tónlistin hér beinlínis dregin inn í átök bókarinnar. Hin harða karlmennska föðurins, sem stendur ógn af lausbeisluðu ímyndunarafli og tilfinningaflæði söguhetjunnar, sækir næringu, styrk og sannfæringu í karlmannlega vegsamendur hinna hörðu gilda, einkum Johnny Cash og Rod Stewart, en líka (nokkuð óvænt) Simon og Garfunkel. Bítlarnir, með sína leikandi mýkt, lífsgleði og ástarboðskap eru á hinn bóginn bandamenn drengsins.
Barátta hins harða og mjúka, listfengi og þröngsýni er langlífur grunntónn í bókum Jóns Kalmans. Í Gula kafbátnum er óhætt að segja að öflum myrkursins bætist nokkuð óvæntur liðsauki. Sjálfur Guð gamla testamentisins situr gjarnan með föðurnum og hlýðir á Johnny Cash boða harðneskjuna.
Þessa júlídaga fyrir heimsókn pabba er ég því teygður á milli kvíða og tilhlökkunar og veit ekki hverju ég á von á.
Pabba á Keflavíkurveginum, pabba með þungu hendurnar, fjarhuga pabba, pabba sem situr inni í stofu ásamt vodkaflöskunni, Guði og Johnny Cash: eða hetjunni pabba sem hræðist ekki neitt.
Nema kannski tilfinningar. (154)
Drengurinn byrjar að lesa Biblíuna eftir móðurmissinn, en rekur sig strax á að þar er ekki ýkja mikla huggun að finna, hvað þá „öll svörin“ eins og föðursystir hans hafði haldið fram (17). Miklu fremur er þar að finna dómhörku, miskunnarleysi og ofbeldi, sem Guð hefur greinilega velþóknun á, þegar hann er ekki beinlínis í gerendahlutverki. Svo honum er skipað á bekk með þeim pabba og Cash.
En málið er ekki alveg svona einfalt, því eins og allir glöggir lesendur fyrstu Mósebókar reka fljótlega augun í er að þar eru tvær sköpunarsögur, og jafnvel tveir guðir á kreiki. Fljótlega verður til í huga drengsins, og þar með í heimi bókarinnar, önnur trúarvídd, þar sem Eva rennur saman við móður Krists og tengist hinni framliðnu móður sögumannsins sterkum böndum í persónulegri goðafræði. Á hinn bóginn reynist hin harða guðfræði föðurins og kántrístjörnunnar eiga bandamenn í Ágústi og Líney, sem stýra sunnudagaskólanum, þar sem þau reyna að koma kristilegum böndum á óstýrlátt ímyndunarafl söguhetjunnar og félaga hans.
Guli kafbáturinn er frjálslega byggð, losaralegri hvað það varðar en flestar fyrri bækur Jóns Kalmans, jafnvel þær flóknustu eins og Saga Ástu. Þó Kafbáturinn flakki sífellt um tímann og milli raunsæis og fantasíu heldur sögumaðurinn í hjarta hennar vel utan um hana og lesandinn fylgir honum eftir, hvort sem hann leitar horfinnar móður sinnar, skýringa á hörku og fjarlægð föður síns, eða miskunnarleysi Guðs.
Það er freistandi í lokin að tengja þessa opnu leit og þessi frjálslegu hugrenningatengsl við úrvinnslu og endurnýtingu Bítlanna, og John Lennon sérstaklega, á sínum minningum, í bland við lausbeislað ímyndunarafl. Bókin heitir í höfuðið á einhverri björtustu og bernskustu smíð hljómsveitarinnar, en endurómar í raun ekki síður fyrstu sólóplötu Lennons, Plastic Ono Band, þar sem móðurmissir er miðlægur í endurreisn sálarlífsins. Og Guði hafnað.
Tímarnir tvennir
Drottinn einn veit allt, það verður aldrei of oft sagt. Sverðið heggur, það ógnar, en á endanum er það penninn sem dæmir hér í mannheimum.
(Himintungl yfir heimsins ystu brún 63)
Guð er aftur miðlægur í nýjustu skáldsögu Jóns Kalmans, sem sker sig þó á nokkuð afgerandi frá öðrum bókum í höfundarverki hans. Réttnefnd söguleg skáldsaga, þar sem sannsögulegt og vel kunnugt efni í fjarlægri fortíð er eitt af meginþráðum verksins. Þó svo þríleikurinn sem hófst með Himnaríki og helvíti, og fortíðarhluti Fjarvera þín er myrkur hafi líka á sér yfirbragð sögulegra skáldsagna, þá eru þar engir sögulegir viðburðir eða þekktar persónur á sviðinu. Hér eru fjöldamorðin á Vestfjörðum haustið 1915, sem ýmist eru kölluð Baska- eða Spánverjavígin mikilvægur þáttur í sögu uppdiktaðrar aðalpersónunnar, séra Péturs á Meyjarhóli, eitt af tilefnum þess að hann stingur niður penna um ævi sína, bakgrunn, ástir og þátt í hinum ægilegu grimmdarverkum.
Grunnform sögunnar bréfaskáldsaga, sem er nýjung í höfundaverki Jóns Kalman. Texti bókarinnar er samkvæmt honum sjálfum ætlaður einum lesanda: dóttur hans og einnar af þjónustukonum Kristínar, konu Ara Magnússonar, sýslumanns í Ögri. Óstýrlátt ástarlíf séra Péturs gegnir mikilvægu hlutverki í sögunni, og bersöglin þannig að það reynir á trúverðugleika þess að viðtakandinn sé dóttir mannsins sem játar þær syndir.
Á hinn bóginn er undanbragðalaus vitnisburður um sannleikann tvímælalaust mikilvægt erindi bókarinnar. Bæði um tilfinningalíf prests og, undir lokin, um hugrekki Jóns lærða Guðmundssonar, sem setti saman frásögn um framgang valdsins þegar basknesku hvalfangararnir verða skipreika rétt fyrir brottför af miðunum, og óttinn við þessa ókunnugu menn tekur völdin í huga fólks með mannaforráð.
Framan af rekur Pétur sögu sína og uppruna og leið sína í prestskap vestur á fjörðum. Daglegt líf á prestsetrinu er alltaf hluti þess sem honum þykir í frásögur færandi, sama hversu dramatískir atburðir eru annars til frásagnar. Enda er heimilisfólk og húsdýr þar vel í frásögur færandi – hin ólæsa en minnuga og fjölvísa húsfreyja Dórótea, villibarnið Guðmundur sem hefur fengið skjól á Meyjarhóli eftir að hafa tilheyrt umrenninga- og þjófagengi, tíkin Saffó og kötturinn Kleópatra.
Séra Pétur er söguhetja af tagi sem lesendur Jóns Kalmans þekkja vel. Unnandi bókmennta, ástríðufullur elskhugi. Órólegur andi. Þó engir gulir kafbátar sigli innan um hvalina sem óbeint hleypa meginatburðunum af stað, og aldir séu í það að Elvis fæðist eru skáld aldarinnar aldrei langt undan hugarheimi séra Péturs. Bæði klassískir á borð við Saffó, Katúllus og Óvíð, en líka síðmiðaldamaðurinn Petrarca og svo sjálfur Shakespeare, sem er nýsestur í helgan stein þegar atburðirnir gerast.
Síðast en ekki síst er það auðvitað heilög ritning sem á huga séra Péturs. Þar er hann í senn barn síns tíma og fulltrúi nútímaviðhorfa. Trúarsannfæring hans er hluti af sjálfgefinni heimsmynd aldarinnar, en á sama tíma sjáum við hann mæta samkynhneigð nágranna sinna og eigin óstýrlátu kenndum með kristilegu umburðarlyndi sem er öllu líkara viðhorfum sem við heyrum frá kristnu kennivaldi i dag, í það minnsta í okkar heimshluta.
Mögulega má segja að það sé ekki síst í eiginhagsmunaskyni, því Pétur er syndugur maður. Elskar heitt tvær konur á næstu bæjum og á í eldheitu kynferðissambandi við aðra þeirra. Ást í meinum og ástarþríhyrningar eru síður en svo einskorðuð við Pétur, því í forsögu hans eru nokkur dæmi, og hann er ekki einn um það í sveitinni að horfa út fyrir lögformlegt hjónaband eftir svölun.
Þríhyrningar einkenna ástarlífið en tvenndir eða andstæðir pólar eru eins og svo oft meginbyggingarefnið. Hér birtast þeir í glímunni um tvenns konar sannleika í atvikalýsingum víganna, sem Ari Magnússon og Jón lærði eru fulltrúar fyrir. En líka í biblíuskilningi hins nútímalega og milda séra Péturs og harðneskju og refsigleði séra Jóns, einkaprests Ara í Ögri, og Jóseps, sem er gildur bóndi í sókninni, smiður kirkjunnar á Meyjarhóli „sem hann lýtur á sem sýna eign“ (12).
Síðast en ekki síst einkenna andstæðupör sjálfan textann, eins og svo gjarnan í verkum Jóns Kalmans. Hér eru það penninn og sverðið sem snemma bókar eru sögumanni hugleikin tákn. Og ekki einber tákn, því sverðin eru svo sannarlega á lofti, og Pétur hefur mundað skriffæri sín til að andæfa mætti þeirra. En við sjáum líka fleiri tvenndir í textanum. Myrkur og ljós. Menn og djöfla. Ást og hatur.
Himintungl yfir heimsins ystu brún er efnismikil og viðburðarík söguleg skáldsaga, full af ytri og innri átökum, sem einkennist af órólegu og spennuþrungnu samspili fortíðarinnar sem lýst er og nútíðarinnar sem horfir á, túlkar og blandar sér óhjákvæmilega í.
Stjörnur himinsins og hjarta mannsins
Stíll Jóns og orðfæri er svo sterkt einkenni að það getur dulið hve fjölbreytt höfundarverkið er. Hvað leitin að frásagnaraðferð hefur leitt hann víða. Hvað hann er fundvís á nýja fleti á söguefni sem hann heimsækir aftur og aftur. Hvað það er alltaf stutt i raunveruleikann, sama hvað svifið á skáldlegum líkingum er hátt. Þó englar og djöflar, sól og stjörnur, alheimurinn allur og aðrar höfuðskepnur séu tíðir gestir í textanum eru hér ekki síður miskunnarlausar lýsingar á grimmd og ofbeldi og bersöglar frásagnir af kynlífi þar sem lostinn ýtir öllu öðru frá. Hvað sterkur þráður þjóðfélagsrýni er í sögunum, allt frá einræðistilburðum Friðriks faktors og hans fólks í Himnaríkisþríleiknum til kæfandi umhyggju Kaupfélagsins í Sumarljósi og auðninni sem kvótakerfið hefur skilið eftir sig í Keflavík í Fiskunum og Alheiminum.
Nýjasta skáldsaga Jóns Kalman opnar nýja leið í höfundaverki hans. Við höfum fylgst með honum vinna á frjóan og síbreytilegan hátt úr endurminningum sínum og fjölskyldusögu. Við höfum skyggnst inn í heim fjarlægrar fortíðar, og nú bætist hin réttnefnda sögulega skáldsaga við með öllum sínum möguleikum á efnisöflun og speglun samtíma og liðinnar tíðar.
Við bíðum spennt eftir því hver, eða hverjir, taka næst til máls og hvað hann, eða þeir, hafa að segja okkur.
Þorgeir Tryggvason 2025