Æviágrip
Jón Kalman Stefánsson fæddist í Reykjavík 17. desember 1963. Hann bjó í borginni til 12 ára aldurs en flutti þá til Keflavíkur og bjó þar til ársins 1986; þá lá leiðin aftur til Reykjavíkur, með stúdentspróf úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja upp á vasann. Frá 1975 til 1982 var hann með annan fótinn vestur í Dölum, vann meðal annars í sláturhúsinu í Búðardal og frá 1979 til 1982 stundaði hann ýmis störf, vann við saltfisk og skreið, múrverk og var eitt sumar lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli. Jón Kalman nam bókmenntir við Háskóla Íslands frá haustmánuðum 1986 og með hléum til 1991 en lauk ekki prófi. Hann kenndi bókmenntir í eitt ár við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, hálft ár við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, skrifaði jafnframt greinar fyrir Morgunblaðið, ritdæmdi þar bækur í nokkur ár. Jón bjó í Kaupmannahöfn 1992 til 1995, las, skúraði, taldi strætisvagna. Hann starfaði sem bókavörður við Héraðsbókasafnið í Mosfellsbæ fram til vorsins 2000. Síðan þá hefur hann starfað sem rithöfundur.
Fyrsta bók hans, ljóðabókin Með byssuleyfi á eilífðina, kom út árið 1988. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur, smásögur og skáldsögur. Fjórar af bókum Jóns Kalmans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 2001, 2004, 2007 og 2015. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 fyrir skáldsöguna Sumarljós, og svo kemur nóttin og tilnefningu til þeirra fyrir Hjarta mannsins (2011), Fiskarnir hafa enga fætur (2013), Eitthvað á stærð við alheiminn (2015), Sögu Ástu (2017) og Himintungl yfir heimsins ystu brún (2024). Hann hefur einnig hlotið Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fjórum sinnum. Verk Jóns Kalmans hafa verið þýdd á önnur mál, svo sem þýsku, ensku, frönsku og Norðurlandamál og hafa þýðingarnar einnig hlotið fjölda viðurkenninga.
2024 hlaut Jón Kalman Budapest Grand Prize og var heiðursgestur á Alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Búdapest. Þessi virtu verðlaun eru árlega veitt rithöfundi sem telst í fremstu röð samtímahöfunda
Mynd af höfundi: Ragnar Axelsson.
Ritþing um verk Jóns Kalmans Stefánsson í Gerðubergi 21. október 2014
Frá höfundi
Frá Jóni Kalman Stefánssyni
Nepalska skáldinu Keki Arun Das, sem var uppi fyrir tæpum fimm hundruð árum, var einu sinni hótað lífláti ef hann hætti ekki að yrkja. Hann hafði ort níðkvæði og skrifað skopsögur um einhvern héraðshöfðingja eða konung, og sá hótað að gera skáldið höfðinu styttri ef það sneri ekki baki við orðunum. Taktu höfuðið, sagði Keki Arun Das, ég er hvort sem er hauslaus án þeirra. Sagan segir að höfðinginn hafi skelfst svo máttinn eða ofstækið í svari skáldsins að hann sleppti því lausu – án skilyrða.
Einhverra hluta vegna verður mér iðulega hugsað til þessarar sögu þegar ég er spurður hvers vegna ég skrifa; hvað það sé sem knýi mig að skrifborðinu. Kannski einfaldlega því ég veit ekki hverju ég á að svara. Beckett sagðist skrifa því hann gæti ekki annað, kynni ekki annað. Ég yrki fyrir köttinn minn, segir Werner Aspenström, jafnvel þótt hann eigi kannski engan kött; til þess að kafna ekki, segir Sigurður Pálsson einhversstaðar. Öll svörin eru góð, jafn hreinskilin á sinn hátt, og kjörið að gera þau að sínum. Maxim Gorkí hefði að líkindum sagst skrifa til varnar manneskjunni, en hlýtur það óréttlæti og sú harðneskja sem Gorkí upplifði í rússnesku samfélagi á síðari hluta 19. aldar ekki hafa haft áhrif á viðhorf hans? Því mig grunar, og það sterklega, að bak við öll svör, bak við alla ketti og allt réttlæti sé svarið við spurningunni; hvers vegna skrifar höfundur, ætíð það sama: hann getur ekki annað. Það er þessi órói í blóðinu, frásagnarþörfin, þið megið kalla það hvað sem þið viljið; álögin að þurfa að breyta öllu í orð: litbrigðum himinsins, ilminum af jörðinni, suðinu í hjartanu og hvernig aldraður maður beygir sig eftir pappírssnifsi eða trjágrein. Síðan má bæta við þáttum eftir upplagi hvers höfundar: athyglisþörf, hugsjón, metnaður…
Já, eitthvað í þá veru að þörfin fyrir að skrifa sé í þyti blóðsins, og það sé mér jafneðlislægt og að ganga, eða anda, en þá er ég líklega kominn upp að Sigurði; skrifa til þess að kafna ekki, hugsanlega í óeiginlegri merkingu. Hér er þó ekki nein rómantík á ferðinni heldur yfirveguð rökhyggja, og ástæðan fyrir fumi mínu andspænis spurningunni er sú að ég er óviss hvaðan skrifþörfin kemur, þörfin sem mér er lífsins ómögulegt að komast undan, og kæri mig líklega ekki um, þótt mér verði oft hugsað til orða Hannesar Sigfússonar, um að skáldagáfan sé jafnmikið böl og gjöf. Ég veit það eitt að hún stýrir lífi mínu; hyrfi hún mér myndi ég kannski visna upp, en örugglega verða hroðalegur í umgengni. Já, ég myndi hugsanlega fórna fingri, handlegg eða jafnvel höfði í stað þess að hætta að skrifa. Það eitt veit ég. Og ég held líka að sá sem reynir að koma orðum yfir sköpunargáfuna sé að veiða þoku með höndunum.
Ekki misskilja mig, hér er alls engin rómantík á ferðinni, heldur ísköld rökhugsun. Ég hef það nefnilega á tilfinningunni að ef einhver færði mér sköpunargáfuna í lófum sínum, þá myndi sá hinn sami færa mér sönnun fyrir tilvist annars lífs – og þá jafnvel fyrir því sem við nefnum Guð. Og kannski það sé þess vegna sem ég hef kinokað mér við að svara spurningunni; til hvers skrifa ég, öðruvísi en með því að fela mig bak við svör annarra skálda, öðruvísi en með því að segja: get ekki annað. Sá sem spyr til hvers höfundur skrifi, spyr um leið um sköpunargáfuna; hvað hún sé, hvaðan hún komi. Og þar með erum við komin að efanum, og óvissunni, komin að sígildri spurningu um efni og anda; farin að spyrja um Upphafið. Hvort hæfileikar mannsins séu einungis efnaferli, og allt líf sviplaus þula sameinda? Þessu get ég ekki svarað. Því miður og sem betur fer. En mér dettur í hug að óvissan sem býr í þessum vangaveltum sé ein þeirra frumþátta sem knýr mig áfram í skáldskapnum.
Sem er auðvitað gömul saga, og er ég ekki einfaldlega að endursegja eitt af bestu kvæðum Stephans G. Stephanssonar, Vantrúna. Því sá sem les kvæðið sannfærist um að óvissan gerir ljósið bjartara, skuggana stærri, hugann kvikari, skynjunina næmari.
Hvers vegna skrifa ég? Ég er ekki viss, en það snýst eflaust um ketti, andardrátt og að halda haus.
Jón Kalman Stefánsson, 2001
Um höfund
Um skáldskap Jóns Kalmans Stefánssonar
Skáldsögur Jóns Kalmans Stefánssonar fjalla allar á einn eða annan hátt um liðinn tíma. Þær eiga það sameiginlegt að vera sagðar af manni sem horfir um öxl í von um að festa minningar sínar í orð. Sögunum er miðlað ef sínálægum sögumanni sem stöðugt leitar inn í fortíðina og dregur úr hugskotum skrautlegar persónur og atburði sem að lokum mynda samfellda frásögn. Frásögnin er þó stöðugt brotin upp af hugleiðingum sögumanns um framrás tímans og hlutskipti sitt sem skrásetjara hins liðna. Sögurnar hafa því allar sterkan svip minningabóka, og fjalla í raun ekki síður um hlutskipti sögumannsins andspænis liðinni veröld heldur en þá liðnu veröld sem hann lýsir. Í upprifjun hans fá liðnir atburðir næstum heimsögulegan blæ, og persónurnar sem stíga fram eru allt annað en hversdagslegar. Gegn þessum horfna heimi teflir sögumaður sinni eigin fábrotnu tilveru sem upprifjanda og skrásetjara, og manni verður ekki annað skilið en að lífið sé alltaf fegurra og stærra í fjarlægðum tímans, þegar fortíðin er orðin að skáldskap. Þessi nostalgíski sögumaður er í raun aðalpersóna allra sagnabóka Jóns Kalmans Stefánssonar og jafnmikið afsprengi höfundarins og aðrar persónur þeirra. Mig grunar að vísu að gott samband sé með höfundinum og sögumanninum, en rétt er þó að rugla þeim ekki saman, þar sem um skáldsögur er að ræða, en ekki sögulegar minningabækur. Bækurnar sem hér er lýst eru fjórar að tölu. Skurðir í rigningu (1996), Sumarið bak við brekkuna (1997) og Birtan á fjöllunum (1999) mynda sameiginlega langan bálk sagna sem allar gerast í sömu sveitinni og hafa sömu persónur í öndvegi, en nýjasta skáldsaga höfundarins, Ýmislegt um risafurur og tímann (2001), stendur utan við þennan flokk og segir frá sumri í lífi ungs drengs sem heimsækir ömmu sína og afa í Noregi.
Jón Stefánsson hóf skáldskaparferil sinn sem ljóðskáld og í ljóðunum má raunar greina mörg þeirra stefja sem síðar verða aðalsmerki sagnanna. Þannig segir í ljóðinu „Slitur úr gömlum formála“, sem birtist í bókinni Úr þotuhreyflum guða frá árinu 1989:
ég stend á herðum tímans
og sé sjónvarpsstöðvar
verða að söfnum gleymskunnar
Ljóðmælandinn veltir vöngum yfir sambandi nútíðar og fortíðar, en stendur sjálfur á herðum þeirra beggja og reynir að öðlast þar víða sýn. Annað þema og sterkt í öllu höfundarverki Jóns Kalmans er samband skálds við tunguna, og er eftirfarandi brot úr „Slitrum úr gömlum formála“ lýsandi fyrir afstöðu hans til tungumálsins:
ég hef ekkert að segja en
tungumálið
er konan í lífi mínu;
krjúpandi við fótskör hennar
gruna ég svik bak við hvert orð
hvern staf
Framhaldið í verki höfundarins hlýtur að vísu að vekja grunsemdir um þá fullyrðingu að hann hafi ekkert að segja, en ástarjátningin til tungumálsins og grunurinn um sviksemi þess gengur líkt og rauður þráður gegnum allar skáldsögurnar eins og síðar verður vikið að. Þessar efasemdir um áreiðanleika tungumálsins og hin þversagnakennda ást sem rithöfundurinn ber engu að síður til þess minnir nokkuð á fullyrðingu franska hugvísindamannsins Maurice Blanchot, þess efnis að rithöfundar hafi ekkert að segja en séu knúnir áfram af óstjórnlegri þörf til þess að segja þetta „ekkert“. Vangaveltur um gildi tungumálsins og efasemdir um að það sé nokkuð eru grunnstef í póstmódernískum fræðum. Þar er einnig tekist á um samband veruleika og skáldskapar, en hugleiðingar um þetta samband birtast oft í skáldsögum Jóns Stefánssonar, og raunar í ljóðunum líka.
Þess viðhorfs gætir oftar en ekki hjá sögumanni sveitatrílógíunnar að betra sé það sem ekki er áþreifanlegt, að endurminningin sé fremri líðandi stund og skáldskapurinn veruleikanum æðri. Svipaðar tilvistarhugleiðingar má einnig finna víða í ljóðunum. Síðasta ljóðabók höfundarins, Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju (1993), hefur að geyma fjölmörg ástarljóð sem mörg eru tölusett undir sama titli, eins og til dæmis ellefta kennd til konu:
hún spurði
hvað ég tæki með mér á eyðieyjubát og þig
sagði ég
og við brennum bátinn á ströndinnisíðan fór ég
en skildi hana eftir
til að halda í drauminn
Á líkan hátt og veruleikinn er meira virði í endursköpun minnisins, þá virðast draumarnir meira virði ef þeir rætast ekki. Myndir hugans missa vægi sitt ef þær ná að verða áþreifanlegar. Ef til vill er það þess vegna sem mælandinn í verkum Jóns Kalmans Stefánssonar, bæði ljóðum hans og sögum, er svo gjarn á að lýsa vantrausti sínu til tungumálsins, þótt tungumálið sé jafnframt „konan í lífi hans“. Leikur með þessi meginþemu höfundarins birtist skýrt í næsta ljóði í Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju:
tólfta kennd til konu
trúðu mér
ég hef beðið öll tungumál heimsins
og skáld allra tíma um orð
einungis eitt orð
yfir þetta brosekkert
jafnvel guð
ef hann er loksins til
lýtur höfðiog vorið ákallar þögn vetrarins
þetta bros
kallar á eina ljóðið
sem ég á ekki til
ljóð
sem fæðist öskrandi
- hlýtur að fæðast öskrandi -
af sorg
og síðan, kannski,
af gleðiþetta ljóð
sem er til
umþetta bros
sem
auðvitað
er ekki til
*
Til eru ljóð og sögur um ýmislegt sem ekki er til í veruleikanum. Sögusvið Skurða í rigningu, fyrstu bókar trílógíunnar, er á bókarkápu sagt vera íslensk sveit í byrjun áttunda áratugarins. Sögunni vindur svo fram í næstu bindum, líklega eitthvað fram á þann níunda. Þessi afmörkun í tíma og rúmi er þó aðeins ytra viðmið, og fellur varla að „raunsannri þjóðfélagslýsingu“. Undrin í þessari veröld eru kannski ekki mikilfenglegri en gengur og gerist; mannýgt naut, magnaður traktor, umræður um bókmenntir og framfarir. Drættir persónanna í þessari sveit eru þó stærri og meiri en venja er, hitamálin heitari og blóðið í lífi sveitarinnar ástríðufyllra en víðast annars staðar. Sá sem þetta ritar upplifði það reyndar að vera í sveit í nokkrar vikur þegar hann var barn og var skammaður fyrir að lesa á blíðviðrisdegi enda fólk ekki mikið að ræða Þórberg og Laxness í heyskapnum. Um sveitungana í sögum Jóns Kalmans gegnir hins vegar öðru máli. Þar stendur allt og fellur með afstöðu manna til þessara höfuðsnillinga tungunnar, og hörðustu deilurnar í sveitinni snúast um hvorum þeirra er fylgt. Þegar þær deilur liggja niðri þá koma upp önnur deilumál sem minna nokkuð á ritdeilur og greinaskrif Laxness og Þórbergs, eins og umræðan um tilvist guðs og raflýsingu sveitanna. Sumir bændanna sem lýst er vilja gangast nýja tímanum á hönd en aðrir rísa þverir gegn honum og berja niður ljósastaura í sveitinni. Eins og segir á einni bókarkápunni þá er hér ekki verið að lýsa bragðdaufum hversdagsmanneskjum. Drættirnir í skapgerð fólksins eru stundum svo ýktir að þeir verða næsta ótrúverðugir þeim lesanda sem miðar við bragðdaufan hversdagsleikann, hvort sem er í sveit eða borg. En hér ber líka að hafa í huga að Jón Kalman er alls ekki að skrifa raunsæisverk, heldur miðar öll frásögnin og frásagnaraðferðin að því að um eftirlíkingu raunveruleikans sé að ræða. Það mætti hugsanlega kalla raunsæi ímyndunaraflsins. Skrásetjari atburðanna stígur hvað eftir annað fram í eigin nafni og rýfur frásögnina, sundrar hlekkjum í atburðakeðjunni og minnir á að fortíðin er ekki til nema í minningum og orðunum sem reyna að fanga þær. Þegar hann beygir út af þjóðveginum í upphafi Sumarsins bak við brekkuna þá tekur hann líka beygju í sínu eigin minni og tekur til við að rifja upp fortíðina með hætti þess sem ætlar að rita um hana sögu. Í stuttum kafla sem birtist síðar í bókinni er því síðan lýst hvernig slík saga verður til, og má sjá að tilviljun minnisins ræður þar mestu en raunveruleikinn minnstu:
[U]ngum var mér kennt að eitt er það sem sögumaður má ekki gera, og það er að beita söguna ofbeldi. Hann á að berast áfram með henni einsog báturinn lætur ána fleyta sér áfram, því sögur eru einskonar ár: þær finna sinn eigin farveg, sinn nátturúlega farveg sem er ekki bara þekkilegri en hinn manngerði, heldur eru öflin sem móta hann á allan hátt dýpri og óræðari: þau eru lífið sjálft.
Höfundurinn er semsagt að móta lífið í orð, en er þó alls ekki allur þar sem hann er séður.
Að ytra borði eru sveitalífssögurnar rómantískur minnisvarði liðinna tíma. Lýsingarnar á sveitalífinu og persónunum eru þó oft æði írónískar, og höfundurinn dregur oftar en ekki fram spaugilegu hliðarnar í sköpunarverki sínu. Honum þykir augljóslega vænt um persónur sínar, og þær virðast jafnvel vera honum hlífiskjöldur í fábreytni hversdagsleikans. En það kemur ekki í veg fyrir að hann hendi að þeim góðlátlegt grín og hlægi jafnvel að sveitalífinu sem hann saknar svo sárt:
Guð er bara staðreynd og maður eyðir ekki tíma í að grufla yfir þeim, þær einfaldlega eru. Þannig hefði Ágúst líklega svarað, hefði hvarflað að einhverjum að spyrja um afstöðuna til Guðs, en það spyr enginn stórbónda að slíku og Ágúst hugsaði heldur ekkert um Guð; fór bara til kirkju þegar við átti, umhugsunarlaust, svona ósjálfrátt eins og maður hirðir heyið þegar þurrt er, borðar þegar mann svengir, dælir olíu á traktorinn, ber fúavörn eða smurolíu á girðingarstaurana svo hestarnir éti þá ekki og merkir við Framsóknarflokkinn í kosningum. (SBB:44)
Þess hefur verið getið að sögumaður horfir til hins liðna með söknuði. Í lýsingum á sjálfum sér verður sakleysi æskunnar þó oftar en ekki tilefni ósérhlífinnar kaldhæðni. Þannig er því lýst þegar sögumaður verður skotinn í stelpu:
Það stóð á endum; þegar ég var búinn að blanda og ætlaði aftur inn, sá ég hvar hún kom út og hvarf inn í gula Lödu Steisjon með þriggja barna föður sem var utansveitarmaður í þokkabót. Skömmu síðar fór Ladan að rugga, stjörnurnar hrundu af himni og ég vissi að sólin skini aldrei framar í þessum heimi.
Daginn eftir vaknaði ég með mikinn höfuðverk. Sorgin var hnífur í hjarta mínu og gekk dýpra inn með hverjum andardrætti. Um nóttina hafði besta mjólkurkýrin komist í fóðurbætistunnu og drepist af ofáti.
Það er ekki laust við að stílbrögð og efnistök minni á annan rithöfund sem, eins og áður sagði, er mikið fjallað um og oft vitnað til í sagnabálki Jóns Kalmans, nefnilega Þórberg Þórðarson. Ýkjur og upphafið tungumál lýsa ástarraunum sakleysingjans með dramatískum hætti og að lokum er klikkt út með samskonar rómantískri íróníu og er eitt af aðalsmerkjum Þórbergs.
Tengslin við íslenska bókmenntahefð eru ætíð náin og hvarvetna sjáanleg í verkum Jóns Kalmans. Efnistök hans virðast næstum vísvitandi klisjukennd og úrvinnsla þeirra ekki ósjaldan í ætt við skrumskælingar á íslenskum sveitasögum og náttúrurómantík. Tvíræðnin í þessu er þó sú að rödd sögumannsins virðist oftar en ekki kalla á fortíðina í einlægum söknuði, og það er strengurinn á milli þessarar ósnortnu fortíðarþrár og hinnar síður saklausu kaldhæðni höfundarins, sem titrar sterkast í verkum hans. Höfundurinn er nefnilega fyllilega meðvitaður um að tímarnir sem hann lýsir eru liðnir og verða ekki endurheimtir nema í skáldskap. Og kannski voru þeir aldrei raunverulega til. Minnið er gjarnt á að umbreyta veruleikanum og það er einmitt það sem gerist þegar skáldskapur verður til. Sveitasamfélagið í bókum Jóns Kalmans Stefánssonar er oft æði „skáldsögukennt“ og virðist oftsinnis ekki síður mótað af bóklegum hugmyndaheimi slíks umhverfis. Menn eru ekki síður „Laxnessmenn“ og „Þórbergsmenn“ í þessari sveit vegna þess að þeir draga dám af ýmsum persónum úr verkum þeirra og annarra íslenskra rithöfunda sem skrifað hafa um líf til sveita. Það er engu líkara en að sumar persónanna lifi inni í skáldverki. Ein persóna verksins gengur jafnvel svo langt að ýja að því við sveitunga sína að dalurinn sé ekki meira en kafli í einu slíku:
Maður verður alltaf jafn standandi hlessa að rekast á fólk sem telur sig geta sagt, og það af botnfastri vissu, hvað sé veruleiki og hvað uppspuni, hvað líf og hvað draumur. Já úr því að maður er kominn út í þessa sálma er best að láta allt vaða; ekki einungis lamandi hissa, heldur líka fullur af depurð þegar ólíkustu manneskjur standa upp og lýsa yfir af töluverðri sjálfumgleði að svona sé hann þessi veruleiki, það dregur línu, bendir og bætir við: hér eru endimörk hans og sá sem stígur yfir línuna mun glata trúverðugleik sínum. Þá þykist maður kannski góður og svarar með sögu sem sýnir veruleikann snöggtum margslungnari en þetta fólk vill vera láta, sko sjáiði, sjáiði hvar hann þenst út fyrir ímyndunaraflið! Segir maður af ákefð jafnvel, krossfari hugmyndaflugsins, skekur vopn sín framan í villutrú alvörunnar en er þá bara svarað mæðulega og mildilega ávítandi: nú læturðu öfgarnar hlaupa með þig í bullið. Og það er nefnilega það sem var sagt við Starkað þegar hann, af hlakkandi meinfýsni, upplýsti okkur um að í raun og veru væri sveitin lítið annað en hugarfóstur skálds, sem sæti einhversstaðar fyrir sunnan og þvældi henni allri með fólki, fjöllum og vindum uppúr sér, gæfi út á bók, fengi starfslaun, viðtöl í blöðum, bros frá fögrum konum og spásséraði þannig um með mig og þig í höfði sínu, léti þennan detta í ána, þennan draga hann upp, þessa halda framhjá, þennan deyja, í stuttu máli, sjálfstæður vilji væri blekking, við værum ofurseld dyntum skálds. Hvaða skálds? ja hver vissi nema það væri þessi úr Mosfellsbænum, nóbelskáldið holdi klætt, hver vissi nema við værum stafur eftir hann, líkami okkar samansettur úr orðum, einstaklingurinn frá tveimur orðum uppí nokkrar síður – fjandi óþægileg hugmynd! (SBB:16-17)
Nostalgían sem stundum skynja má hjá sögumanni er ekki síður þrá eftir liðinni „bókmenntaveröld“ og tilraun til þess að leita aftur í sagnasmiðju Þórbergs og Laxness. Eins og hjá þeim gætir talsverðrar tvíræðni í lýsingum sögumanns á veröldinni sem hann endurskapar í verki sínu en jafnframt augljósrar tvíræðni gagnvart hefðinni sem hann skrifar í – og gegn. Samofin þrá sögumanns eftir hinu liðna er vissan um að það sé tilgangslaust að óska þess sem liðið er, og í raun fáránlegt. Sögumaður gleymir sér gjarna í söknuði til liðinna tíma en kemur jafnharðan til sjálfs sín og dembir fram efasemdum um gildi þess að horfa til baka. Eins og eitthvert undarlegt tilbrigði af grískum guði stendur hann með fæturna í tveimur höfum og ber tímann á herðum sér. Nema hann sé eins og völvan í Völuspá sem lifir öll tímaskeið í senn. Það reynist honum alltént erfitt að upplifa sig nákvæmlega þar sem hann er. Í þessu samhengi er ekki úr vegi að minnast orða franska skáldsins Arthurs Rimbaud: „Lífið er alltaf annars staðar“ og „Ég er annar“. Sögumaðurinn í bókum Jóns gegnir því tvöfalda hlutverki að vera hvort tveggja persóna og skrásetjari sögunnar, að því viðbættu að hann er kannski þessi „annar“ sem höfundurinn verður við ritun verka sinna.
En hver er þá hin raunverulega afstaða þessa „annars“ til þeirrar liðnu veraldar sem hann lýsir? Þegar borin eru saman lærdómur sveitar og borgar, eða jafnvel náttúru og siðmenningar, svo samhengið sé stækkað aðeins, þá er samanburðurinn ætíð náttúrunni í vil: „Að vera nútímamaður og standa berfættur og berhöfðaður í grasi meðan regnið fellur, það er nú reynsla sem jafnast fyllilega á við tíu ára háskólanám og tekur því fram í mörgu.“
Sögumaður gerir sér að vísu ljóst að ýmsir gætu mótmælt slíkum fullyrðingum og veltir því fyrir sér hvort draga megi þessa staðhæfingu hans í efa. Niðurstaðan verður þó aðeins til þess að festa skoðun hans í sessi, og árétta það að hugmyndafræði sögumannsins í sveitatrílógíunni er æði rómantísk. Þetta er framhald tilvitnunarinnar að ofan:
Bull?
Barnaleg rómantík?
Ja, það er nú einu sinni svo, að sá sem stendur berhöfðaður og berfættur í grasinu í þungu regni, helst með augun aftur og lætur hugann bara reika, sá hinn sami mun finna hvernig drambsemi mannsins koðnar niður og þá fyrst er viðkomandi móttækilegur fyrir boðskap skýja, þá sýna droparnir honum trúnað, þá finnur hann til samkenndar með grasi, með maðki, og verður hluti af andardrætti náttúrunnar. Þá en ekki fyrr uppljúkast hin einföldu sannindi sem í fábreytni sinni geyma djúpa visku.
Það verður ekki annað sagt en þessi lífssýn, sem svo víða gætir í sveitasögum Jóns Kalmans og gegnumsýrir í raun verkið allt, sé hárómantískur og tilfinningaríkur óður til náttúrunnar og sveitasælunnar. Á það hefur reyndar verið bent hér á þessum síðum að sögumaður er oftar en ekki írónískur í lýsingum sínum og alls ekki laus við húmor fyrir sjálfum sér. Engu að síður má leiða að því sterkar líkur að hinn rómantíski sögumaður verksins sé hin eiginlega höfundarrödd Jóns Kalmans Stefánssonar, og að virðing hans fyrir liðnum tíma og undrum sveitarinnar sé einlæg og óskoruð. Ólíkt eldri kynslóð íslenskra rithöfunda sem lýstu flutningi þjóðarinnar úr sveitinni á „mölina“, þá bera sögur Jóns þó lítinn svip þjóðfélagslýsinga og fást alls ekki við að lýsa „breytingum í lífi þjóðar“. Enn síður gætir þar meinfýsinna siðgæðisdóma hinna „raunsæju“ aldamótaskálda, sem lýstu uppvexti Reykjavíkur og lífinu þar um aldamótin 1900 hinu óspillta sveitalífi í vil. Það er heldur alls ekki víst að höfundurinn sé sveitinni yfir höfuð vilhallur. Það vill einungis svo til að fortíðin sem sögumaður glímir við leið á bak við brekkuna og í birtunni á fjöllunum. Meginþátturinn í höfundarverki Jóns Stefánssonar er barátta mannsins við eigin minningar, fortíðina og það sem aldrei getur komið aftur – nema kannski í skáldskap. Og þar verður það í raun aldrei alveg eins, og jafnvel einhvern veginn allt öðru vísi. Hlutskipti skáldsins, einsemd mannsins og vonleysi hans andspænis framrás tímans eru sterkustu þættirnir í þessari trílógíu.
Fyrstu tvær sögurnar í flokkinum hafa verið þýddar á þýsku og gefnar út saman undir titlinum Der Sommer Hinter dem Hügeln, eða Sumarið bak við brekkuna. Þessi þýðingaraðferð áréttir hin augljósu tengsl milli verkanna og gefur til kynna að í raun sé um sömu sögu að ræða, þótt skipt sé í tvö bindi í íslensku útgáfunni. Það sem þó er athyglisvert við þetta er að við fyrstu útgáfu Skurða í rigningu árið 1996 var bókin nefnd sagnasafn, og þannig gefið til kynna að um sjálfstæðar sögur væri að ræða fremur en samfellda frásögn. Bækurnar þrjár mynda raunar langa samfellda sögu en þessi saga er sögð í stuttum svipmyndum, útúrdúrum og stemningslýsingum af vettvangi atburða fremur en að henni vindi fram í línulaga frásögn. Sagan er með öðrum orðum sögð eins og hún verður til í huga þess sem rifjar upp hið liðna, ekki með ákveðnu upphafi og endi, dramatísku risi og vendilega fléttaðri lausn í síðasta kafla. Þessi saga er brotakennd eins og minni mannsins og oft óreiðukennd í framsetningu. Framsetningin er með þessum hætti hluti hugleiðinganna um hvað það er að segja sögu, og ferlið frá framrás minninganna til hinna rituðu orða innlimað í frásögnina sjálfa. Birtan á fjöllunum hefst með þessum hætti:
Stundum er eins og allt það liðna verði að ljóði. Eins og minningarnar séu í ljóðum þar til reynt er að koma þeim í orð: þá breytast þær í sögu.
Það er dimmur vetrarmorgun í útjaðri borgarinnar en í huga mínum er júní og birtan á andlitinu tuttugu ára gömul.
Þannig hefst það.
Ég sit við skrifborðið en þegar ég lít upp, sé ég hvar rúta fjarlægist vegamót vestur á landi.
Ég seilist eftir blýanti og dreg ljóðið niður í flaum frásögunnar.
Það skiptir í raun ekki máli hvort Jón Kalman Stefánsson reyni hér að fanga sína eigin liðnu tilveru, eða hvort skrásetjarinn sé ímyndaður og tilbúinn og eftirlíkingin með þeim hætti tvöföld. Fortíðin er liðin og verður ekki fönguð nema í ljóðrænum myndum hugans, þeim sem rithöfundur reynir að koma í orð. Og í tilraunum hans til þess að fanga fortíðina á sér stað stöðugur samanburður við nútíðina og bilið sem ekki verður brúað. Skrásetjarinn er svo upptekinn af stöðugri og ósýnilegri framrás tímans (sem ekki verður sýnileg nema í frásögn) og vonleysinu til þess að festa á henni endanlegar reiður, að hann gleymir sér hvað eftir annað í vangaveltum um samband manns og minninga, minninga og tungumáls, og sambandið milli tungumálsins og þess sem raunverulega gerðist:
Ég er valdalaus alvaldur. Sit við skrifborðið og reyni að færa minningarnar sem óma yfir tungumálinu í orð. Fyrir utan er dimmur morgunn gegnumstunginn götuljósum en stöku bílar aka út úr borginni og hverfa inn í myrkur landsins; en ég man svo vel annan morgun, miklu bjartari, þegar við Starkaður nálguðumst þorpið á sjötíu og fimm kílómetra hraða. Ég veit semsagt núna það sem ég vissi ekki þá, að það var ekki bara þorpið sem kom á móti okkur, heldur örlögin, örlög Starkaðar. Þetta vildi ég segja; bráðum ekur gulur kafbátur, dulbúinn sem rauð Lada, inn í þorpið og þar bíða örlögin eftir Starkaði Jónassyni frá Karlsstöðum.
Hið liðna verður sannarlega að ljóði, og ljóðrænn og myndríkur stíll er eitt helsta aðalsmerki þessara sagna. Setning á borð við: „Fyrir utan er dimmur morgunn gegnumstunginn götuljósum…“ er dæmigerð fyrir myndauðgi og lýrík í bókum Jóns Stefánssonar og minnir á að hann var upphaflega ljóðskáld. En ljóð hans hafa breyst í sögu. Sögumaður sveitatrílógíunnar leitar sí og æ inn í ljóð minninganna, en jafnframt veltir hann því stöðugt fyrir sér hvernig þau verða að sögu og hvað það er sem gerist þegar fortíðin verður að orðum. Traust skrásetjarans til tungumálsins er ekki óskorað, en það er hins vegar eina vopn hans í baráttunni við að ná til þess sem eitt sinn var áþreifanlegt en er ekki lengur. Orðin eru byggingareiningar í endursköpun hins áþreifanlega, og þetta nánast efnislega vægi þeirra birtist stundum í athyglisverðum myndhverfingum sögumanns og persónanna sem hann greinir frá: „En nú má enginn álíta að orð mín séu bátar á siglingu útá biblíulegt úthaf.“ (Sumarið bak við brekkuna, bls.8); „Eftir vörubílsfarma af ferlegustu blótsyrðum, settist hann á eldhúsbekkinn…“ (Skurðir í rigningu, bls.58). Hugleiðingar um vægi orðanna og sköpun sögu eru veigamikill þáttur í trílógíunni, og birtast hvort tveggja í beinum vangaveltum sögumanns, sem og lýsingum á misjöfnum sagnahæfileikum persónanna. Í umfjöllun um starf sitt á þessari síðu talar höfundur sagnanna um „álögin að þurfa að breyta öllu í orð“. Álögin sjálf minna stöðugt á sig í bókum hans.
*
Sömu meginstef og hér hefur verið fjallað um eru enn slegin í nýjustu skáldsögu Jóns Kalmans, Ýmislegt um risafurur og tímann. Höfundurinn leitar sem fyrr í sagnasmiðju liðins tíma og býr til sögumann sem einu sinni var lítill drengur í útlöndum, þar sem undrin eru stærri en í bragðdaufum hversdagsleikanum. Þetta er á yfirborðinu saga um barnæskuna og ævintýri hennar og svipar um margt til svonefndra „strákasagna“, þar sem prakkarastrikunum má helst líkja við hetjudáðir Tarzans og Léttfeta. Sérkenni Jóns Kalmans Stefánssonar njóta sín einkar vel í þessari bók og gera hana að mínu mati að skemmtilegasta þættinum í höfundarverkinu. Húmorinn kemst líka vel til skila þar sem aðalpersóna bókarinnar er barn, og hin smáu atvik hversdagleikans verða sannarlega efni í heimssöguleg ævintýri í huga hans. Sögusviðið hefur nú færst út fyrir landsteinana, en á það sameiginlegt með fyrri bókunum að vera andstaða þeirra götumynda Reykjavíkur sem virðast sögumanni eiginlegar þegar hann festir sögu sína í orð. Togstreitan er sem áður sterk milli nútíðar og fortíðar, sveitar og borgar, og felur í sér hugleiðingar um hlutskipti nútímamannsins, með hendur sínar og fætur eilíflega spriklandi í höfum tímans. Í skáldskapnum á hann sér vísan griðastað og getur leyft sér meiri rómantík en veruleikinn býður oftast nær upp á. Eitt ljóðanna í fyrstu bók höfundarins, með byssuleyfi á eilífðina, ber reyndar í sér þessa sterku rómantísku þrá eftir friði frá borgarlífinu, en þráin er þó alls ekki óbrotin og viss í sinni sök heldur hikandi og sjálfshæðin, eins og síðasta línan gefur til kynna.
Reykjavík Ó Reykjavík
[…]
hér hef ég numið
nið næturlífsins
og menninguna;
öndvegissúlur nútímans
en Reykjavík
ég sem ort hef í saltan vind
suður með sjó
og vaknað í morgunroðanum
þar sem fjöllin eiga heima
ég segi þér aðmig þreytir þetta landslag húsa
þessir nafnlausu nágrannar
og þögnin
sem aldrei erþví segi ég þér að
einhvern daginn
tek ég saman sjóinn og fjöllin
í huga mínum og hverf
í rykmekki
burt frá þér… held ég
Mér telst svo til að Jón Kalman Stefánsson búi enn á höfuðborgarsvæðinu, en ef til vill er það líka málinu óviðkomandi enda varasamt að tengja andlitið á bókarkápunni um of við röddina sem niðar á síðunum. Engu að síður má segja að í huga sínum hafi Jón Kalman horfið burt frá Reykjavík, og fest svipmyndir frá öðrum slóðum í þær bækur sem hann hefur látið frá sér. Á þessum slóðum virðist höfundurinn kunna best við sig. Hann leitast við að festa liðinn heim á síður bóka sinna, „færa minningarnar sem óma yfir tungumálinu í orð“. Það verða alls kyns torfærur á vegi hans til hins liðna, því vegurinn í huga mannsins er ekki beinn heldur liggur hann um hlykkjótta mela og vallgrónar tóftir. Jón minnir lesendur sína sífellt á að farartæki hans um þennan veg er tungumálið, og að það er jafn viðkvæmt og hvaða annað farartæki sem skríður um holótta vegi. Það hefur engu að síður skilað honum í höfn þriggja ljóðabóka og fjögurra skáldsagna. Geri aðrir efasemdamenn betur!
© Sölvi Björn Sigurðsson, 2002.
Greinar
Almenn umfjöllun
Alda Kravec: „Remembering a dying community : Alda Kravec talks to author and poet Jón Kalman Stefánsson about the re-emergence of a departed Icelandic countryside in his novels
Iceland review, 48. árg., 4. tbl. 2010, bls. 36-39
Auður Aðalsteinsdóttir: „Listin er andstæða hátíðleikans“ (viðtal)
Spássían 2011, 2. árg., haust, bls. 19-23.
Ingi Björn Guðnason: „Íslenska sveitasagan og þríleikur Jón Kalmans“
Skírnir 2016, 190. árg. (haust), s. 382-413
Sigfús Bjartmarsson: „Viðtal við Jón Stefánsson.“
Teningur, 5. árg., 8. tbl. 1989, s. 32-34.
Um einstök verk
Birtan á fjöllunum
Kristín Viðarsdóttir: „Kannski á að handtaka náttúruna.“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 3. tbl., 2000, s. 121 - 125.
Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir
Ásdís Helga Óskarsdóttir. „Jón Kalman Stefánsson. Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir“ (ritdómur)
Són. 20. árg., 1. tbl. 2022, bls. 160-164
Eitthvað á stærð við alheiminn
Þorgeir Tryggvason: „Himnaverur og hrúðurkarlar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 77. árg., 3. tbl. 2016, s. 134-138
Fiskarnir hafa enga fætur: ættarsaga
Fríða Björk Ingvarsdóttir: „Íslensk innanmein“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 3. tbl. bls. 118-22.
Ingvi Þór Kormáksson: „Nálægt hafi sefast allar sorgir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Vala Hafstað: „Fabulous fish“ (ritdómur)
Iceland review, 55. árg., 1.tbl. 2017, bls. 12
Harmur englanna
Ingi Björn Guðnason: „Harmur englanna“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Rúnar Helgi Vignisson: „Landpóstar tveir“
Hugrás : vefrit Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. 2012; 6. febrúar
Himintungl yfir heimsins ystu brún
Þorgeir Tryggvason: „Tímarnir tvennir“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 85. árg., 4. tbl. 2024, s. 131-136
Himnaríki og helvíti
Ása Helga Hjörleifsdóttir: „Lífróður orðanna“
Tímarit Máls og menningar, 69. árg., 3. tbl. 2008, s. 124-127
Ingi Björn Guðnason: „Himnaríki og helvíti“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kristine Perlmutter: „Heaven and hell: by Jón Kalman Stefánsson“ (ritdómur)
The Icelandic connection 2014, 66. árg., 2. tbl. bls. 93-4.
Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins
Fríða Björk Ingvarsdóttir: „Hlustað eftir andardrætti orðanna“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 1. tbl. bls. 95-106.
Dieter Langel: „Trilogie“ (Himmel und Hölle, Der Schmerz der Engel, Das Herz des Menschen) (ritdómur)
Island : deutsch-isländisches Jahrbuch. 2020, 26.árg. 1. tbl. bls. 8-12.
Hjarta mannsins
Lucy Dallas: „Jón Kalmann Stefánsson - The heart of man, translated by Philip Roughton“ (ritdómur)
Times literary supplement TLS. 2015. nr. 5837 (13. febrúar), s.19
Saga ástu
Auður Aðalsteinsdóttir: „Hinn huldi heimur“
Tímarit Máls og menningar, 79. árg. 1. tbl. 2018, s. 121-126
Rósa María Hjörvar: „Saga Ástu“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bókmenntir, sjá hér
Snarkið í stjörnunum
Guðmundur Andri Thorsson: „Tilgangur. Komdu. Himinn: hugleiðingar kringum þrjár sjálfsævisögur.“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 51-59.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Af fjölskyldusögum.“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sumarið bakvið brekkuna
Preben Meulengracht-Sørensen: „Færøsk familiekrønike : islandsk kærlighedshistorie og hjemstavnsparodi = A family chronicle from the Faroes : a love story from Iceland, and an Icelandic parody on regional literature“
Nordisk litteratur 2001, s. 42-46
Þórður Helgason: „Merkilegt fólk“
Frjáls verslun, 58. árg., 10. tbl. 1997, s. 78-79.
Sumarljós og svo kemur nóttin
Arngrímur Vídalín Stefánsson: „Rómantík hins daglega lífs“
Hugsandi, hugsandi.is, 2006; 20. apríl
Árni Bergmann: „Ef einhver glóra væri í heiminum.“
Skírnir, 180. árg., vor 2006, s. 221-224.
Ingi Björn Guðnason: „Sumarljós, og svo kemur nóttin“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Soffía Auður Birgisdóttir: „Villugjörn öngstræti hjartans“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 4. tbl. 2006, s. 111-113.
Greinar og viðtöl við Jón Kalman hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
Verðlaun
2024 - Budapest Grand Prize
2022 - Prix Jean Monnet: Ton absence n'est que ténèbres (Frönsk þýðing Éric Boury á Fjarvera þín er myrkur)
2020 - Prix folio des libraires: Asta (Frönsk þýðing Éric Boury á Saga Ástu)
2017 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Saga Ástu
2011 - Per Olov Enquist bókmenntaverðlaunin (Svíþjóð): Himnaríki og helvíti
2011 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Hjarta mannsins
2009 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Harmur englanna
2007 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Himnaríki og helvíti (sem besta skáldsaga ársins)
2006 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2005 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sumarljós, og svo kemur nóttin
Tilnefningar
2024 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Himintungl yfir heimsins ystu brún
2018 - Médici bókmenntaverðlaunin: Asta (frönsk þýðing Éric Boury á Saga Ástu)
2017 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Saga Ástu
2017 - The Man Booker International Prize: Fish Have No Feet (ensk þýðing Philip Roughton á Fiskarnir hafa enga fætur)
2015 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Eitthvað á stærð við alheiminn
2015 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Fiskarnir hafa enga fætur
2013 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fiskarnir hafa enga fætur
2012 - Premio Bottari Lattes Grinzane: (ítölsk þýðing Silviu Cosimini á Fiskarnir hafa enga fætur)
2011 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Hjarta mannsins
2007 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Sumarljós, og svo kemur nóttin
2004 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Ýmislegt um risafurur og tímann
2001 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Sumarið bakvið brekkuna
Himintungl yfir heimsins ystu brún
Lesa meiraÁrið 1615 skrifar presturinn Pétur um atburði sem hafa skekið sveitina á Brúnasandi, um ástina, mennskuna og ábyrgðina sem við berum hvert á öðru. Á ystu rönd heimsins blása alþjóðlegir vindar og flytja með sér nýja heimsmynd, hugmyndir og bækur, enskar duggur, spánska hvalfangara og tilskipanir frá konunginum. Og penninn er beittari en sverðið.Guli kafbáturinn
Lesa meiraFortíðin sækir á hann í líki gamals Trabants þar sem sitja m.a. faðir hans og Guð með vodkaflösku, mamma hans og heill kirkjugarður af dánu fólki.Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir
Lesa meiraDjöflarnir taka á sig náðir í næstu íbúð/ nema þetta séu englar/ ég þekki ekki lengur muninnÞetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim
Lesa meiraLjóðasafn sem hefur að geyma þrjár ljóðabækur;. . Með byssuleyfi á eilífðina (1988), Úr þotuhreyflum guða (1989) og Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju (1993) auk nokkurra áður óbirtra ljóða.Ásta : når det inte inns nån väg ut ur världen - vart beger man sig då?
Lesa meiraSolzíte na angelíte
Lesa meiraAbout the size of the universe
Lesa meiraSommerlys, og så kommer natten
Lesa meira