Beint í efni

Jón Kalman Stefánsson

Æviágrip

Jón Kalman Stefánsson fæddist í Reykjavík 17. desember 1963. Hann bjó í borginni til 12 ára aldurs en flutti þá til Keflavíkur og bjó þar til ársins 1986; þá lá leiðin aftur til Reykjavíkur, með stúdentspróf úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja upp á vasann. Frá 1975 til 1982 var hann með annan fótinn vestur í Dölum, vann meðal annars í sláturhúsinu í Búðardal og frá 1979 til 1982 stundaði hann ýmis störf, vann við saltfisk og skreið, múrverk og var eitt sumar lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli. Jón Kalman nam bókmenntir við Háskóla Íslands frá haustmánuðum 1986 og með hléum til 1991 en lauk ekki prófi. Hann kenndi bókmenntir í eitt ár við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, hálft ár við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, skrifaði jafnframt greinar fyrir Morgunblaðið, ritdæmdi þar bækur í nokkur ár. Jón bjó í Kaupmannahöfn 1992 til 1995, las, skúraði, taldi strætisvagna. Hann starfaði sem bókavörður við Héraðsbókasafnið í Mosfellsbæ fram til vorsins 2000. Síðan þá hefur hann starfað sem rithöfundur.

Fyrsta bók hans, ljóðabókin Með byssuleyfi á eilífðina, kom út árið 1988. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur, smásögur og skáldsögur. Fjórar af bókum Jóns Kalmans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 2001, 2004, 2007 og 2015. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 fyrir skáldsöguna Sumarljós, og svo kemur nóttin og tilnefningu til þeirra fyrir Hjarta mannsins (2011), Fiskarnir hafa enga fætur (2013), Eitthvað á stærð við alheiminn (2015), Sögu Ástu (2017) og Himintungl yfir heimsins ystu brún (2024). Hann hefur einnig hlotið Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fjórum sinnum. Verk Jóns Kalmans hafa verið þýdd á önnur mál, svo sem þýsku, ensku, frönsku og Norðurlandamál og hafa þýðingarnar einnig hlotið fjölda viðurkenninga. 

2024 hlaut Jón Kalman Budapest Grand Prize og var heiðursgestur á Alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Búdapest. Þessi virtu verðlaun eru árlega veitt rithöfundi sem telst í fremstu röð samtímahöfunda

Mynd af höfundi: Ragnar Axelsson.

Ritþing um verk Jóns Kalmans Stefánsson í Gerðubergi 21. október 2014