Margrét Lóa Jónsdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðbókina Pólstjarnan fylgir okkur heim. Verðlaunin hafa oft verið veitt ungskáldum sem jafnvel eru að senda frá sér sitt fyrsta verk. Slíkt á þó ekki við í ár enda skáldkonan enginn nýgræðingur á ritvellinum en fyrsta ljóðabók hennar, Glerúlfar, kom út árið 1985. Síðan þá hefur Margrét Lóa sent frá sér ellefu ljóðabækur og eina skáldsögu. Pólstjarnan fylgir okkur heim er sterkur og fallegur ljóðabálkur þar sem persónulegri reynslu er listilega blandað saman við þanka um ástand heimsins; ekki síst þá sem snúa að stríði og afdrifum flóttafólks; og mikilvægi þess að halda í vonina; veraldarundrið sjálft.
Samkvæmt viðtali við Margréti Lóu hafði hún nýlega lokið pílagrímsgöngu þegar hún hóf að semja ljóðabálkinn. Það er ekki óalgengt að rithöfundar og skáld fjalli um reynslu sína af því að ganga Jakobsveginn því þótt viðkomandi sé ekki einn á ferð gefst honum góður tími til að láta hugann reika um allt og ekkert og upp úr því sprettur gjarnan skáldskapur. Ljóð Margrétar Lóu flæða fram eins og í vitundarstreymi, koma víða við og eru mörkuð ferðalagi en þó er það ekki pílagrímsferðin sem er sérstaklega til umfjöllunar. Í upphafi bókar er ljóðmælandi enda staddur á „útikaffihús[i] á gatnamótum / þar sem borðin standa í halla og / kaffið er framreitt í krómlitri könnu“ en „á meðan jörðin snýst / einsog skopparakringla / um möndul sinn“ situr hún sem fastast, hugsar um söng og ferðast í huganum á milli staða, fram og aftur í tíma.
Hugur ljóðmælanda leitar víða en meðal annars rifjar hún upp allra fyrstu minninguna þegar hún hoppaði á nagla og hvernig hún öskraði þegar hann var dreginn út. Það er kannski í öskrinu – þessum mikla frumkrafti – sem löngunin til að skrifa vaknar en á öðrum stað í bálknum minnist ljóðmælandi unglingsáranna og man „höfuðkúpu / fulla af blýi og bleki“. Með hjálp ritlistarinnar fangar hún síðan á kjarnyrtan hátt atvik úr lífinu, tilfinningar, hughrif og vangaveltur. Endurlit til fortíðar ná jafnt til bernsku, ungdóms og fullorðinsára; og snúa meðal annars að ástinni, ferðalögum, mótmælum og samskiptum við vini og ættingja. Minningarnar sem vakna eru margar hverjar ljúfsárar, þar á meðal sú sem fjallar um samband ljóðmælanda og látinnar móður. Framarlega í bókinni er dregin upp tær hversdagsleg mynd af samskiptum þeirra þegar hlutverkin hafa snúist við og dóttirin annast móður sína:
fréttatími á dvalarheimili
við mamma sjáum brjóstmylking
í sjúkrarúmi– ég gef henni kaffi og koníak í skeið
Síðar í bókinni er móðirin öll og þótt fá orð séu höfð um kveðjustundina er ljóst að söknuðurinn ristir djúpt:
brostin augu
kista sem er látin síga
ofan í jörðinaég átti þig að
ég átti þig alltaf að– dagarnir vöfðu sér um hálsinn á mér
einsog festi gerð af fjögurralaufasmárum
Endurtekningin minnir á hve stór missirinn er og undirstrikar mikilvægi sambandsins; hvernig móðirin hefur alltaf verið klettur í lífi ljóðmælanda. Með undurfögru líkingarmáli í lokalínum ljóðsins er síðan lögð megináhersla á þakklætið fyrir tímann sem mæðgurnar áttu saman. Ljóðið má þó einnig túlka í víðara samhengi því það getur jafnframt átt við um líðan ljóðmælanda í garð annarra ástvina sem fallið hafa frá.
Ljóðmælandi lítur ekki einvörðungu inn á við heldur hugsar einnig um ástandið í heiminum. Án þess að falla í gryfju væmni eða tilfinningasemi leiðir hún til að mynda hugann að flóttafólki og fórnarlömbum stríða eins og eftirfarandi ljóðlínur vitna um:
hugsa um fólk á flótta
brottvísanir og baráttu um landsvæði– hugsa um alla þá
sem fallið hafa í stríði
Það er einfalt að loka augunum fyrir harmrænum örlögum fólks á átakasvæðum en með því að veita þessum hópi endurtekna athygli er minnt á nístandi og nöturlegan veruleika alltof margra og lesendur vonandi vaktir til umhugsunar um hryllilegar afleiðingar stríða.
Þrátt fyrir sára undirtóna í umfjöllun um persónuleg og pólitísk málefni víkur ljóðmælandi einnig að birtunni í myrkrinu og voninni sem öllu máli skiptir til að halda lífinu áfram sama hvað bjátar á. Í ljóðabálknum er vonin nátengd pólstjörnunni sem vísað er til í titli bókarinnar og skyldi engan undra. Pólstjarnan hefur verið sögð skærasta stjarna himingeimsins og þótt það sé reyndar ekki rétt er hún bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu litlabirni. Vegna þess að hún er afar stöðug og nálægt himinskauti norðurhvels jarðar hefur hún auk þess verið kölluð leiðarstjarna. Það er sannarlega einnig réttnefni með tilliti til ljóðabókar Margrétar Lóu þar sem pólstjarnan vísar mannfólkinu leið:
pólstjarnan fylgir okkur heim
þegar við villumst
þegar við siglum inn í nóttina án áttavita
Það er kannski ekki síst á ferðalagi hugans sem ljóðmælandi, og fólk almennt, þarfnast leiðarstjörnunnar enda fjallar ljóðabálkurinn einum þræði um að takast á við erfiðleika, „löngunin[a] til að skilja heiminn“ og ná sátt í eigin skinni; „fyllast ekki grimmd / hugsa ekki um villidýr / hugsa ekki um hefnd“; og njóta þess sem var, er og verður. Í þeim tilgangi nýtir ljóðmælandi sér meðal annars aðferðir núvitundar og beinir sjónum að andartökum líðandi stundar, gefur til að mynda „gaum að morgunkaffi // hversu heitt það er / hversu sterkt það er“, veitir fegurð lífsins athygli og rifjar upp ljúfar en um leið hversdagslegar stundir eins og þessa hér: „hlátrasköll og minning um fellu í keilusal / minning um sigurvímu og klapp“. Þótt ljóðmælandi lýsi eigin lífi verða ljóðin aldrei of persónuleg heldur tekst mætavel að gera reynsluna og vonina eftir sátt og betri heimi sammannlega. Í það minnsta hljóta flestir að geta tekið undir vonarsönginn í áhrifamiklu lokaljóði bókarinnar:
ég hugsa um söng
söng fyrir brjóstmylking
söng um landamæralausan heim
og söng sem heldur á flot
minningu þeirra
sem fallið hafa í stríðiég hugsa um söng
söng um vonina
– veraldarundrið sjálft
Á heildina litið er Pólstjarnan vísar leiðina eftirtektarverð, mikilvæg og vel smíðuð ljóðabók þar sem hugrenningar um fortíð og samtíð, sorg, fegurð og von fléttast vandlega saman. Það er ekki hægt að segja annað en að ljóðaunnendur eigi með lestrinum von á góðu.
Guðrún Steinþórsdóttir, nóvember 2024