Æviágrip
Margrét Lóa Jónsdóttir er fædd 29. mars 1967. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík og fór síðan í Háskóla Íslands þar sem hún lagði stund á íslensku og heimspeki. Hún fór í viðbótarnám í heimspeki í háskólanum í San Sebastian á Spáni og lauk B.A. prófi 1996.
Margrét Lóa hefur aðallega skrifað ljóð en fyrsta verk hennar, ljóðabókin Glerúlfar, kom út árið 1985. Hún hefur sjálf gefið út margar af bókum sínum og myndskreytt þær. Auk ljóðabókanna hefur Margrét Lóa samið hljóðlistaverk sem flutt var í Gallerí Hlust og bóklistaverk sem sýnt var í Gallerí Barmi. Hún hefur ennfremur haldið námskeið í skapandi skrifum í samvinnu við Borgarbókasafn Reykjavíkur og haldið svipuð námskeið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Margrét Lóa ritstýrði og gaf út listatímaritið Andblæ um tveggja ára skeið.
Margrét Lóa hefur unnið mikið á listasöfnum gegnum tíðina, m.a. sem leiðsögukona um listsýningar á Kjarvalsstöðum, ennfremur starfaði hún í Norræna húsinu sem safnvörður og kynningarfulltrúi. Hún hefur líka lesið töluvert inn á hljóðbækur í Blindrabókasafni Kópavogs. Einnig hefur Margrét Lóa fengist við kennslu og þáttagerð hjá RÚV, þar sem hún hefur meðal annars fjallað um femínisma og stöðu kynjanna.
Árið 2003 kom út geisladiskurinn Hljómorð með ljóðum hennar og tónlistarmannsins Gímaldins, Gísla Magnússonar. Haustið 2001 var þeim boðið, sem fulltrúum Norræna hússins í Reykjavík, á bókamessuna í Gautaborg til að kynna diskinn.
Margrét Lóa býr í Reykjavík.
Forlag: Salka.
Frá höfundi
Af hverju skrifa ég?
Ég kem að leynidyrum sem standa opnar. Auðvitað fer ég inn. Laumast út úr hversdagsleikanum, umbreyti honum, bölsótast út í hann eða syng honum lof. Stundum finnst mér það dásamlegt, stundum hræðilegt, og allt þar í milli. Smám saman hef ég orðið háð þessu ágenga undri.
Orð sem fæðast
Sum orð fæðast
(í bókstaflegri
merkingu)
lítil og óburðug.
Önnur öskra.
Enn önnur
eru yfirveguð og þögul
en reynast
við nánari athugun
feimin
og jafnvel smeyk
um að það verði
hlegið að þeim.
Önnur
eru ánægð með sig
og vilja gjarnan
birtast í ljóðum -
sannfærð um
að lögun þeirra
eða keimur -
muni hreyfa við
ljóðunnendum.
Sum orð fæðast
við miskunnarlausar
aðstæður.
Önnur fæðast áreynslulaust
en hitta samt beint í mark.
Orð fæðast
þegar hjörtu slá
í takt –
eða
þegar hjörtu
springa
í tætlur
og blóð
vætlar
úr sárum
Með öðrum orðum:
Þegar hið óbærilega
nær yfirhöndinni.
Skáldsins
óljóðræni
sársauki
vandlega
sveipaður orðum
dúðaður
nútímaleika -
málaður bæði ljóðrænt
og afstrakt ...
(Því sá sem þekkir
huggun ljóða
varpar þeim ekki
fyrir róða.)
Stundum
safnast orð saman
í ljóðum
svo einlæg
og alvarleg
að mörgum
virðast þau
kjánaleg.
Ég veit ekki ...
Yfirleitt
hefur fólk gaman af
orðum.
Og margir segja:
(af einskærri
orðaást)
Einlægni
er allt sem þarf.
Kjána
priks
orð.
Dýrðlegu
kjánapriksorð.
Um höfund
Um verk Margrétar Lóu Jónsdóttur
Hér á landi hefur sjálfsútgáfa verið mjög ríkur þáttur í ljóðaútgáfu, enda ljóðahefðin er sterk í Íslendingnum allt frá því að ljóð voru okkar næstmesta útflutningsvara á víkingaöld, á eftir vaðmálinu. Þessi óháða útgáfa hefur eins og gengur átt sín blómaskeið, óhætt er að segja að henni hafi vaxið fiskur um hrygg eftir miðja tuttugustu öldina en síðasti gróskutíminn var á níunda áratugnum. Þá komu fram raddir sem síðar áttu eftir að styrkja sig í sessi og verða að bókaforlögðum skáldum, sem dæmi má nefna Gyrði Elíasson, Sjón, Braga Ólafsson, Ísak Harðarson og Kristínu Ómarsdóttur, sem öll sendu frá sér eigin útgáfur. Þrátt fyrir að mesta gróskan í sjálfsútgáfum hafi verið á níunda áratugnum, má þó ekki gera ráð fyrir að sjálfsútgáfur hafi dáið út, nokkur vaxtabroddur hefur þó verið á tíunda áratugnum og má meðal annars nefna yngri höfunda eins og Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Stefán Mána og Steinar Braga sem öll gáfu út verk á eigin vegum áður en þau gengu inn í bókaforlög. Af öðrum má nefna Bjarna Bjarnason, sem hafði um langt skeið gefið út bækur áður en saga hans Endurkoma Maríu hlaut náð fyrir augum bókaútgefanda, og Óskar Árna Óskarsson og Geirlaug Magnússon sem hafa gefið út undir merkjum sjálfstæðra smárra ljóðaforlaga eins og Nykurs (ath gyrðir elías). En slíkar útgáfur liggja nærri sjálfsútgáfunum.
Þrátt fyrir að þessari útgáfu fylgi heilmikil hefð, eins og áður sagði, þá hefur það viljað brenna við að fremur sé litið niður á slíkan sjálfsþurftabúskap, að þau skáld sem gefi út á eigin vegum séu ekki nógu góð til að komast að hjá alvöru útgefendum. Það er erfitt að taka undir slík viðhorf, sérstaklega með tilliti til bókamarkaðarins og veikra stöðu ljóða innan hans, en ljóð seljast illa og eru almennt álitin óhagstæður kostur fyrir bókaforlög. Hinsvegar er sá fjöldi fólks sem skrifar ljóð greinilega mikill, og sjálfs ljóðaútgáfa auðveldari í umsvifum en útgáfa á öðrum skáldverkum. Augljóslega eru gæðin misjöfn, en það eru þau líka í ljóðabókaútgáfum forlaganna, sem fleyta ekki endilega alltaf rjómanum af því efni sem í framboði er.
Sjálfsútgáfan býður oft upp á meira frelsi í útliti bóka, ekki aðeins vegna þess að þar fær hugmyndaflug bókahönnuðar að leika lausum hala án tilsjónar íhaldsamra forlagslína, heldur einnig vegna þess að oft eru þessar bækur gefnar út í fáum eintökum og því auðveldara að dunda við útlitið. Margar þessara útgáfa eru því sérlega fallegir gripir og nálægt því að vera bókverk. Eitt þeirra skálda sem hefur gert ákveðna list úr því að gefa út sjálf er Margrét Lóa Jónsdóttir, en hún hóf einmitt skáldaferil sinn með Besta vini ljóðsins á níunda áratugnum. Fyrsta bók hennar, Glerúlfar (1985), var skrúfuð saman með skrúfum, kápan var plastfilma. Hún lýsti því eitt sinn fyrir mér hvernig hún hefði gengið á milli fólks á kaffihúsum til að bjóða bókina til sölu – en slíkur var og er almennt háttur skálda með sjálfsútgáfur – uppáklædd í stuttu pilsi og með rauðan varalit. Höfðu kaffihúsagestir horft á hana í forundran og sagt ert þú skáldkona? Að gefa út þessa bók? Þannig varð bóksalan sjálf að einskonar gjörningi, því útlit og stíll Margrétar Lóu féll ekki að hefðbundinni ímynd óframfærinnar skáldkonu (hvernig sem sú ímynd hefur nú verið á þessum tíma?). Náttvirkið (1986) var gefið út undir merkjum Flugna sem var sjálfstætt smáforlag Hrafns Jökulssonar, og hét eftir bók Jóns Thoroddsens, Flugur, sem var fyrsta útgáfa forlagsins. Hrafn var á þeim tíma aðalsprautan í ljóðahópnum Besti vinur ljóðsins sem stóð fyrir fjölda uppákoma og ljóðalestra á níunda áratugnum og er starfandi enn, þrátt fyrir að minna beri á starfseminni nú. Þriðja bókin, Orðafar (1989) er merkt Marló á baki kápunnar, líkt og fimmta bók Margrétar Lóu, Tilvistarheppni (1996), og virðist Marló standa fyrir sjálfsútgáfuforlag Margrétar Lóu. Því þrátt fyrir að fjórða bók skáldkonunnar, Ávextir (1991), kæmi út undir merkjum Máls og menningar, þá hélt hún áfram að gefa út sérstakar ljóðabækur á eigin vegum. Á eftir Tilvistarheppni fylgdi bókin Ljóðaást árið 1997, og inniheldur í þrjú ljóð sem öll eru einskonar yfirlýsing um ljóðaskrif (sjá frá höfundi). Bókin er mjög lítil, ekki nema eins og lófastór, bundin í spónakubba með álímdum tréplötum framan á og að aftan. Framan á kápunni er síðan límd mynd sem virðist vera gömul landslagsmynd af fossi, en óraunveruleg blómabreiða fyrir framan gerir það að verkum að myndin virðist bæði raunsæ og dálítið absúrd. Enginn titill er á bókinni, sem er hönnuð af sambýlismanni Margrétar, Jóhanni L. Torfasyni. Bókin er myndskreytt af Margréti sjálfri, eins og reyndar flestallar bækur hennar, utan Ávextir sem er myndskreytt af Jóhanni, og Tilvistarheppni, sem er án mynda, líkt og nýjasta bók Margrétar Háværasta röddin í höfði mínu, en sú bók kom út hjá Máli og menningu árið 2001. (ath smáútgáfur hér fyrir utan) Allar eru bækurnar sérstakar í útliti, með grípandi kápur og greinilegt að mikið er lagt í hönnun, þrátt fyrir að ekki séu þær allar eins frábrugðnar hefðbundnum bókum og Glerúlfar og Ljóðaást.
Það er því óhætt að segja að Margrét Lóa hafi gert sjálfsútgáfuna að ákveðinni list og sér ekki fyrir endann á því, því hún heldur áfram að senda frá sér bókverk með ljóðum og hefur haldið sýningu á slíkum (athath). Hún er einnig mjög meðvituð um stöðu ljóðsins og hefur starfað sem ritstýra að tímaritinu Andblær, sem er metnaðarfullt ljóða- og myndlistartímarit, en þar er einnig mikið lagt upp úr fallegu og sérstöku útliti.
Af þessu má vera ljóst að Margrét Lóa er einnig mjög meðvituð um eigin stöðu sem skáld, enda er sjálft ljóðið og vangaveltur um það mjög áberandi þráður í síðari bókum hennar. Fyrstu bækurnar fjórar eru fremur súrrealískar í stíl og minna meira á skrif meðlima Medúsuhópsins, en þau ljóð sem settu mestan svip á upplestra Besta vinar ljóðsins. Þessi munur kemur kannski einna best fram í fyrsta erindi ljóðsins „Tilvistarheppni“ úr samnefndri bók en þar segir frá því að skáldkonan gengur niður Laugaveginn og það er hrópað á eftir henni: „- Hei þú, gafstu ekki út ljóðabók.../og hét hún ekki eitthvað með gleri?“ Skáldkonan veltir fyrir sér tilvistarheppni, og viðkvæmni ljóða, glers og fólks: „- Svo þetta ert þá þú?/- Auðvitað, segi ég vingjarnlega./- Veistu, við skiljum ekki rassgat/í ljóðunum þínum!“ Þrátt fyrir að ljóð Glerúlfanna hafi verið ógagnsæ, þá getur hver sem er skilið þetta ljóð sem fjallar einmitt um ljóð, og það að vera ljóðskáld sem enginn skilur – en er samt minnistætt. „Og tilvistarheppnin?“ segir síðar í ljóðabálknum, „Að elska/og matast/og vera flinkur við að/látast...“ Lesandinn hlýtur þó að tengja tilvistarheppnina við sjálft ljóðið, því nokkrum erindum síðar hrópar ljóðmælandi „Húrra fyrir skrifþörfinni!/Húrra fyrir hinum ljóðræna veruleika!“ Í síðasta erindinu kemur fram að í neðstu skrifborðsskúffunni eru ekki geymd hjartnæm ljóð heldur hauskúpa úr gleri „sem á að minna mig á/dauðans óvissa tíma“. Þessi hauskúpa tengist líka tilvistarheppninni og ljóðið endar á þesum línum: „Lífið er dásamlegt./Lífið er skjálfandi brjálað gras.“ Hér virðast ljóðið og lífið blandast saman í eitt, í tilvitnun í sálm – þjóðsönginn – og drykkjusöng.
Ljóðabálkar eru algengir í bókum Margrétar Lóu, þarsem unnið er úr einu tema, eða ljóðin eru tengd saman með sameiginlegum þráðum. Þrátt fyrir að umræðan um skrif og skáldskap sé mest áberandi í síðustu bókunum þá má sjá djarfa fyrir henni í Náttvirkinu í ljóðabálkinum „Leyniskjal Alexíu“. Ljóðin eru mjög súrrealísk en í stuttu máli má segja að þau fjalli um unga stúlku, Alexíu, sem er flækt í einhver dularfull mál, mögulega bara vegna þess að hún er ástfangin af einum meðlimi í „hreyfingunni“ og virðist í kjölfar þeirra verða fangin í kastala – sem er mögulega hæli fyrir geðsjúka – þarsem hún að lokum deyr, svikin. Alexía skrifar dagbók, sem er tímasett, en ekki dagsett og sem hún brennir því hún leitar sín „ekki lengur meðal fánýtra orða“ en heldur samt áfram að skrifa í sína eigin dauðastund og heimsókn til elskhugans svikula:
5.10
Svört augu fálma gegnum ísbreiðuna.
Nálgast rispuförin á bakinu. Það skellur
í stálgrindunum. (Lykli er stungið í
skrá.) Ég hrekk upp með andfælum. Faðma
loftið og ósýnilega veggina. (Þetta
hlaut að vera eins konar þú.) Hunangsblá
ljósbrot fylla herbergið og ballet-
dúkkan stígur upp úr bleiku vatninu.
(Syngur þér þrjá sálma.) Stuttu síðar
finn ég samastað á jörðinni. Hvíslandi
í þokunni: Ég veit hver sveik.
Fótatak varðarins fjarlægist og lágróma
raddir bergmála í hvítum ganginum:
Alexía er dáin.
Bálkurinn er áhrifamikill og eldist vel, geðveiki og sársauki takast á í lýsingum sem eru fullar af óþoli og þráhyggju. Að mörgu leyti lýsir ljóðið „Staðreynd“ í hlutanum „Ferðalag“ í Orðafari tilfinningunni af ljóðum Margrétar Lóu í þessum fyrstu bókum:
farþegarýmið er á stærð
við appelsínu
mér er skítsama
sit klofvega á ótaminni hugsun
og er þar af leiðandi
þráhyggjusjúklingur
Þarna takast á þær tilfinningar sem einkenna Alexíubálkinn og fleiri sterkustu ljóð Margrétar, innilokunartilfinning í bland við óheft ímyndunarafl. Togstreitan þarna á milli skapar spennu í ljóðunum og gera þau bæði skemmtileg og eftirminnileg, en ekki endilega gagnsæ, eins og hinir skilningsvana en viðkvæmu lesendur sem birtust í „Tilvistarheppni“ uppgötvuðu. Þessi spenna birtist líka vel í ljóðinu „Eindhoven“, en þar eru „konurnar fimm/í húsunum fimm/beint á móti/komnar í doppótta nælonkjóla/og borða morguverð/ásamt fimm eiginmönnum“. Ljóðmælandi sem fylgist með í kíki fær sér neskaffi og finnur til svengdar. Hún hefur ekki talað við neinn í viku og heldur að hún hljóti bráðum að brjálast: „með kíkinum/má greina philipsristavélarnar fimm/á bak við stórrisana fimm/sem allir eru nákvæmlega eins“. Það er næstum eins og Alexía sé mætt aftur og lesandinn veit ekki hvort hann á að líta svo á að ljóðmælandi sé búinn að tapa sér í njósnastarfsseminni og orðinn ofsóknaróður eða hvort hér sé um að ræða femíníska vangaveltu um einsleitni hins hversdagslega fjölskyldulífs sem ljóðmælandi er greinilega útilokuð frá. Eins og kemur fram í „Eindhoven“ eru ljóðin í Orðafari almennt ekki eins súrrealísk og í Náttvirkinu, sérstaklega ekki þau sem birtast í ferðalagshlutanum. Annað dæmi um þetta er ljóðið „Nær og nær“: „hann skríður undan hurðinni/og heillar alla hótelgestina/þessi 5 metra langi maur“. Hér getur lesandi ekki gert upp við sig hvort maurinn sé virkilega 5 metra langur, hvort þarna sé 5 metra löng röð af maurum, eða hvort maurinn sé bara óvenjustór og ljóðmælandi færi aðeins í stílinn.
Önnur útgáfa af kvenlegum hversdegi birtist í fyrri hluta ljóðsins „Skot“ í Ávöxtum:
Um morguninn: Fer fram úr (með lokuð aug-
un). Þreifa á veggjunum, engin skilaboð frá
öðrum hnetti, en á morgun yfirvofandi styrjöld.
Líklega rökrétt afleiðing suðupottarins þarna
niður frá. Hnýti um mig bláa kínverska silki-
sloppinn. Annars þægilega svalt frammi. Sting
tánum í inniskóna, hætti við – betra að koma
blóðinu á hreyfingu. Hollt að skjálfa dálítið.
Teygi mig í blaðið, les, dýfi hrökkkexinu ofan
í apríkósumarmelaðið. Finnst smjör ekki leng-
ur skipta máli en uppveðrast af sykri.
Það sem byrjar á súrrealískan hátt breytist skyndilega í pólitíska skírskotun (sem á jafnvel við í dag og þá) og lesandi veltir fyrir sér hvort ekki sé hér bara um tiltölulega venjulega morgunstund að ræða – sem aftur er færð í stílinn: forðumst við ekki öll að opna augun fyrir deginum í lengstu lög og fálmum okkur hálfblind áfram í morgunsárinu? Því svo verður hversdagurinn svo yfirgnæfandi með blaðinu, hrökkkexinu og marmelaðinu. Í næsta hluta ljóðsins virðumst við óvænt aftur vera komin í ferðalag, og ljóðmælandi heldur dagbók – kannski bergmál frá Alexíu? Það reynist þó erfitt að „halda dagbók og ferðast um í lestum“ en ljóðmælandi reynir að „skrifa hvert smáatriði niður.“ Við hlið hans sest ungur maður sem reynist indverskur og mænir á ljóðmælanda bláum vörum. Allt í einu dettur hann utan í hana og hausinn „slútur fram svo sér í víravirki.“ Ljóðmælandi fær hroll en þreyfar samt á hlýju brjósti hans og finnur þar smáar geirvörtur og franskan rennilás á hjartanu: „Dreg þaðan snúrur og lítið Sony-kasettutæki.“ Henni léttir og hún tekur batteríin úr og fleygir tækinu út um gluggann. Hér er hreyfingin gerólík og í fyrri hlutanum, því það sem virðist í fyrstu sakleysisleg lestarferð þarsem helsta vandamálið er að halda dagbókinni gangandi breytist í óvænta uppákomu með vélvæddum indverja.
Það er því ljóst að umfjöllun um skrif er algengt stef í ljóðum Margrétar Lóu þó að það taki ekki á sig heildstæða mynd fyr en með Tilvistarheppni, Ljóðaást og Háværasta röddin í höfði mínu.
Háværasta röddin í höfði skáldkonunnar er auðvitað ljóðið, og líkt og í „Tilvistarheppni“ er það alltaf tengt hverfulleika og dauða, því það er jafnframt „dauðaáminningin mikla“ eins og segir í ljóðinu „Sárasti grátur í heimi“. „Ljóðið heldur mér frá sturlun/með sínum spaugilega alvarleika“ en allt sem skáldkonan sendir frá sér er jafnframt fábrotið og meinleysislegt í samanburði við „hið myrka ljóð/sem býr innra með okkur öllum.“ Og við minnumst aftur hinnar óþreyjufullu togstreitu innilokunar og útrásar þegar í ljós kemur að skáldkonan þráir huggun og svölun, en orðin í hausnum á henni heimta algleymi: „Þau hegða sér/líkt og óðir mávar/sem nýlega/hafa komist í æti.“ Hún ákallar orðin og spyr: „Hvað með lítil yndisleg fiðrildi?/Þið viljið ekki líkjast þeim.“ Þarna er berlega mikill órói í skáldkonusálinni, en hún er síðan komin úr mesta ólgusjónum í kaflanum „Stundum þykja mér öll ljóð vera góð“. Ljóðið „Ljóðalofgjörð“ lýsir stemingunni vel, en það hljómar svo:
Í harðæri jafnt sem góðæri
er ljóðið skemmtilegt hljóðfæri.Kertaljós og
snjór á glugga ...Stirndur himinn ...
Hógvær ljóð sem hástemmd ...
Sterk sem veik ...
Stundum þykja mér öll ljóð vera góð!
Það er ekki óalgengt að þegar á líður ferilinn fari skáld að velta fyrir sér eigin skáldskap, stöðu hans, tungumáli og formi, eins og Margrét Lóa gerir í seinni bókum sínum. Hinsvegar er óhætt að segja að slíkar vangaveltur í ljóðum hafi ágerst undanfarin ár, og er nýjasta ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Meira en mynd og grunur (2002), gott dæmi um þetta. Af öðrum mætti nefna Öll fallegu orðin (2000) Lindu Vilhjálmsdóttur, og ljóð í nýrri bókum Sigurðar Pálssonar og Baldurs Óskarssonar, þarsem finna má bollaleggingar um stöðu ljóðsins.
Í Tilvistarheppni birtast þessar vangaveltur í stúlkunni Draumey sem fær ekki sofið um nætur, heldur hugsar hún um mennina og heiminn, menninguna og listina: „Skrifa/jafn hratt/og þú nemur þessi orð/Skrifa/með blóði mínu//í senn ófyrirleitin/og hógvær.“
Þessi „þú“ er líklegast lesandinn því Draumey virðist ekki vera að ávarpa neinn sérstakann í þessum ljóðabálki. En hver er Draumey? Hún minnir um margt á Alexíu og sem skáld gæti hún verið alter egó höfundarins, sú sem lifir í draumum hans. Draumey stundar orðaföndur um nætur, hún hugsar og spyr spurninga en enginn heyrir orð hennar hún er „allt í senn/ljóðlína, móðir, óbyrja/skáldkona,//Ég sem er dýpsta þrá sérhvers manns.“ Sem slík er hún þá ímynd músunnar, skáldgyðjunnar og minnir jafnvel á bláa blómið í ljóðum rómantíkeranna. En hún er líka kvenímynd skáldkonunnar, en í síðari bókum Margrétar Lóu verður hugmyndin um konuna meira áberandi, sem birtist meðal annars í vangaveltum um móðurhlutverkið. Þessi móðurmynd birtist afskaplega fallega í ljóðinu „Sum orð“ í Ljóðaást, en þar er ljóðinu lýst sem háfi, gerðum úr orðum, og augnablik eru sjaldgæf fiðrildi sem ljóðmælandi vill veiða í háfinn. Eitt augnablikið er mjög nærri:
- Ég sit skrifandi
upp við dogg
með ungbarn
mér við hlið.Litlar tær
gægjast
undan sæng...Allt
vil ég
með
orðum
veiða...Þó ekkert gæti
skýrt mitt lán.
Hér verður ljóst að ljóðaháfurinn nær ekki taki á öllum augnablikum – eða hvað? Þannig blandast ástin á ljóðinu saman við ástina á börnunum og sú samfléttaða ást nær svo yfir elskhugann líka, og í Tilvistarheppni og Háværustu röddinni eru löng og falleg ástarljóð. „Ástarljóð“ heitir einfaldlega einn bálkurinn í Tilvistarheppni, en þar er skáldkonan að spjalla við Amor um ástina.
Guð ástarinnar – Amor
færir þér súkkulaiði og rósir
en mér réttir hann
penna og blað
(svo ég geti dásamað
augu þín í ljóði.)
Hann spyr ljóðmælanda: „Þú elskar hann?“ og hún svarar: „Við eigum saman gimstein“, „Gimstein,/sem ekki er hægt að skipta á milli sín.“ Bálkurinn „Góðir dagar“ í Háværustu röddinni í höfði mínu virðist næstum vera framhald á þessu spjalli við Amor því hann hefst á því að lýsa hvernig englar tengjast ástum ljóðmælanda og elskhuga hennar. Þau eiga saman tvo engla, og það fyrsta sem hann gaf henni voru tvær englamyndir. Fyrsta sumarið þeirra gista þau í Riojahéraði og sjö árum síðar eru þau stödd þar aftur og finna vín frá uppskeru þessa fyrsta sumars þeirra: „á flöskumiðanum voru tveir englar...“ Í ljóðinu „Venjulegt ástarljóð“ fallast skáldkonunni aftur hendur við að koma augnabliki í ljóðaháfinn, og hún er þess fullviss að henni muni „aldrei/almennilega takast/að semja ljóð/sem gæti tjáð þér/hvaða hug ég/ber til þín“. Þó hlýtur ljóðið „Sumardagur“ að koma ansi nærri, en þar lýsir ljóðmælandi því hvernig hún virðir elskhugann fyrir sér úr fjarska, líkt og hún hafi aldrei séð hann fyrr:
Líkt og fugl á flugi
sem flýgur
í hægum hringjum yfir höfði þínu
sest síðan á stein
og heldur áfram að virða þig fyrir sér.
Á meðan leika stelpurnar sér í grasinu sem þau sáðu í fyrra. Orð skáldkonunnar eru leitandi fuglar, og hafa alltaf verið leitandi fuglar á flugi í sólinni innanum fræ og skrautfiðrildi, „stór og næstum/óhugnanlega fögur“. Enn er ljóðaháfurinn kominn á loft í leit að fiðrildum augnabliksins. Orðin hafa alltaf verið leitandi fuglar, hvort sem skáldkonunni leið vel, illa, hræðilega eða stórkostlega en:
Alla ævi
hef ég samt aðeins
verið að bíða- eftir degi
eins og þessum.
Hér get ég ekki betur séð en að ljóðháfurinn hafi fangað eitt af þessum kyrrlátu en þó óþreyjufullu fiðrildum.
© úlfhildur dagsdóttir, 2003
Greinar
Um einstök verk
Ávextir
Þórdís Kristleifsdóttir: „Ávextir“
Vera, 11. árg., 2. tbl. 1992, s. 37
Biðröðin framundan
Úlfhildur Dagsdóttir: „Bíðum bíðum Bambaló“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Náttvirkið
Soffía Auður Birgisdóttir: „Konur skrifa um ástina: kynning á skáldverkum kvenna frá síðastliðnu ári“
19. júní, 37. árg. 1987, s. 78, 94-95
Pólstjarnan fylgir okkur heim
Lesa meiraMargrét Lóa hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2024 fyrir bókinaBiðröðin framundan
Lesa meiraFrostið ínni í hauskúpunni
Lesa meiraTímasetningar
Lesa meiraLaufskálafuglinn
Lesa meiraHljómorð
Lesa meiraLjóð í Cold was that Beauty...
Lesa meiraHáværasta röddin í höfði mínu
Lesa meiraLjóðaást
Lesa meira