Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir er þriðja myndasögubók Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur. Eins og í síðustu bók Lóu Hlínar, Lóaboratoríum, er ekki um að ræða heildstæða sögu heldur samansafn smærri sagna. Bókin er samansett úr fjölbreyttum einnar síðu myndasögum, sem eru allt frá því að vera eins ramma og orðlausar yfir í margra ramma og fjölmálga myndasögur. Þrátt fyrir að engar sagnanna nái lengra en eina blaðsíðu í senn er sterk innbyrðistenging milli þeirra í gegnum umfjöllunarefni og myndrænan stíl. Margir ættu að þekkja til efnistaka og teiknistíls Lóu þar sem myndasögur eftir hana birtast reglulega í dagblöðum og á netinu. Stíll Lóu er oft ‚naívur‘ eða einfaldur og einkennist af feitlaga manneskjum – sem eru oftar en ekki rjóðar í kinnum og freknóttar. Sparlega er farið með skyggingar og aðra tækni til að veita myndunum raunverulegri blæ og þess í stað fær lita- og sköpunargleðin að njóta sín. Það er því ekki ólíklegt að lesendur nálgist nýjasta verk Lóu Hlínar, Nýjar rannsóknir, með ákveðnar væntingar í huga. Að mínu mati stenst Nýjar rannsóknir líklegar væntingar en býr þó einnig yfir nýjungum sem ekki hafa sést í þeim sögum sem birtar eru í fjölmiðlum. Myndasögur Lóu Hlínar eru oftar en ekki gagnrýnar og skondnar glefsur úr hversdagsleikanum, innihaldsmiklar sögur sem Lóa tjáir í örfáum römmum. Hvort sem það er jólaundirbúningur, fermingarfræðsla, stefnumótamenning, samskipti á samfélagasmiðlum eða árásirnar á Charlie Hebdo finnur Lóa Hlín ávallt sjónarhorn sem er í senn frískandi og fyndið.
Áður en farið verður út í hinar ‚hefðbundnari‘ Lóaboratoríum-sögur, sem eru bróðurpartur bókarinnar, er athyglisvert að líta á það sem kalla mætti nýjungarnar í bók Lóu Hlínar. Í byrjun bókarinnar eru þrjár sögur, „Beðið eftir botnlangakasti“, „Þið sem kennduð mér“ og „Endurminningar úthverfabarns – gluggakistan í stofunni“, sem skera sig úr hópnum. Það gera þær meðal annars með því að hafa titla og dempaðri litapallettu en einnig í umfjöllunarefni og í frásagnarstíl. Sögurnar virðast vera að einhverju leyti sjálfsævisögulegar og hafa skýrar persónur í stað þeirra staðalímynda sem oftast koma fyrir í sögum Lóu Hlínar, t.d. hneykslaði og íhaldssami borgarinn eða unga og stefnulausa manneskjan. Í „Þið sem kennduð mér“, sem er eina sagan sem nær yfir tvær blaðsíður, má sjá brotakenndar minningar sögumannsins af kennurum sínum. Í framsetningunni notfærir Lóa sér möguleika formsins til hlítar og auðvelt er að finna fyrir andrúmslofti þessara stuttu svipmynda. Þessar sögur eru heillandi og spennandi væri að sjá fleiri sögur í svipuðum stíl frá Lóu.
Þessar ‚endurminningasögur‘ eru hins vegar ekki einu nýjungarnar. Fleiri ‚seríur‘ má finna innan bókarinnar eins og t.d. þunglyndislegar sögur með svörtum bakgrunn og orðlaus portrett sem reyna á form myndasögunnar og teygja merkingu orðsins ‚sögu‘. Ein serían einkennist af feiknarmiklu og glæsilegu tré fyrir miðju rammans en sitt hvoru megin við tréð sitja maður og kona. Samskipti þeirra eru fyndin en um leið ljóðræn og ákveðin kyrrð ríkir yfir myndinni þar sem tréð er eini litaði flöturinn. Þrátt fyrir að þessar seríur séu áhrifamiklar og vandaðar er auðvelt að gleyma þeim innanum um klassísku Lóaboratoríum-sögurnar. Að mínu mati er það hins vegar mikilvægt að gefa þessum nýjungum meiri athygli því það er áhugaverð undiralda í heildarfrásögn Lóu og hún tekur á sig ólík form.
Nýjungarnar og hinar hefðbundnari sögur eru þó oftast á svipuðum slóðum þegar kemur að efnistökum. Á baksíðu bókarinnar er Nýjar rannsóknir kynnt sem nýjasta úttekt Lóaboratoríum á ‚mannlegri eymd‘. Vissulega má sjá umfjöllunarefni á borð við kvíða, þunglyndi, óraunhæfar kröfur samfélagsins, áreiti samtímans og einmanaleika en samt sem áður myndi ég hika við að hengja orðið ‚eymd‘ á bókina. Ferskt sjónarhorn Lóu Hlínar og glaðvær teiknistíll hennar umbreyta erfiðari hliðum mannlegrar tilveru í eitthvað jákvæðara og viðráðanlegra. Eymdin er víðáttumikil og alltumlykjandi – ástand sem erfitt er að eiga við eða uppræta – en lægðir lífsins eru heilbrigður hluti þess.
Þessi hringrás hæða og lægða í lífinu er sett skemmtilega fram í einni af sögum Nýrra rannsókna sem flestir Íslendingar ættu að eiga auðvelt með að samsvara sig með. Þar liggur sólbrennt par í sólarlandaferð og konan byrjar að ræða um hversu fjarlægt skammdegið er þessa stundina. Karlinn svarar einfaldlega „Hvað er skammdeig?“. Sögur Lóu Hlínar gera ‚skammdeig‘ mannlegrar tilvistar brosleg og skondin með því að skapa fjarlægð frá vandamálunum svo hægt sé að líta á þau í nýju ljósi. Kvíðinn og þær áhyggjur sem við öll upplifum eru fyndin og Lóa Hlín nær að draga það fram í ‚rannsókn‘ sinni með ferskri frásögn.
Már Másson Maack, janúar 2016