Beint í efni

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Æviágrip

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er fædd í Reykjavík 4. febrúar 1979. Hún er myndasöguhöfundur, myndlistakona, myndhöfundur, rithöfundur, tónlistakona, handritshöfundur og leikskáld.

Lóa útskrifaðist af myndlistabraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti árið 1999 og lauk BFA í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2003. Hún stundaði nám í myndlýsingum og myndasögugerð í Parsons, New York árin 2007-2008. Árið 2016 útskrifaðist hún sem MA í ritlist frá Háskóli Íslands. Lóa er meðlimur og stofnandi hljómsveitarinnar FM Belfast síðan 2005 og ennfremur einn af eigendum World Champion Records.

Fyrsta bók Lóu var Alhæft um þjóðir (2009), en áður hafði hún verið myndhöfundur fjölda bóka - og er enn. Hún hefur birt smásögur, myndasögur og greinar í Tímariti Máls og menningar, Iceland Review, The Guardian, Reykjavík Grapevine, smásagnasafninu Uppskriftabók sem Blekfjelagið gaf út, Jólabók Blekfjelagsins, Fréttatímanum, Mannlífi og Málinu, sem var fylgiblað Morgunblaðsins.

Árið 2020 var Lóa tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina Grísafjörður og 2021 var hún tilnefnd til Barna- og ungmennabókaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók. Árið 2022 var Héragerði, sjálfstætt framhald Grísafjarðar, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna.

Hún heldur úti síðunni Lóaboratoríum á samfélagsmiðlum.