Beint í efni

Lygarinn: sönn saga

Lygarinn: sönn saga
Höfundur
Óttar Martin Norðfjörð
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Helga Birgisdóttir

Lygarinn eftir Óttar M. Norðfjörð er þrælspennandi glæpasaga en í henni er að finna fjölda tilvísana í samtíma okkar og hrunið auk þess sem spennandi gátur, skákeinvígi aldarinnar og dágóður skammtur af morðum skreyta síðurnar. Fjölskylduerjur, heimilisofbeldi, framhjáhald (raunverulegt og ímyndað, í raunheimi og netheimi) og dass af lesbískum ástum koma líka við sögu og gott ef ekki mansal. Það er nóg um að vera í Lygara Óttars og lygararnir reynast fleiri en einn.

Aðalsöguhetjan er Vera Ragnarsdóttir sem er allt í senn bókmenntafræðingur, háskólakennari, rithöfundur, aðgerðarsinni, eiginkona og móðir. Þrátt fyrir sín mörgu afrek er hún óánægð og kemur sér ekki til að byrja á næstu bók, en þess vegna hefur hún tekið að sér stundakennslu við Háskóla Íslands. Hún tilheyrir hópi aðgerðarsinna sem starfar í samráði við Wikileaks og eftir að brotist er inn í aðsetur hópsins fer í gang æsileg atburðarás með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Sagan teygir sig aftur til ársins 1972, þess tíma þegar Spassky og Fischer tefldu í Laugardalshöll og faðir Veru, lögregluþjónninn Ragnar, rannsakar glæp sem enn er óleystur og skrifar um hann í dagbók sína. Glæpurinn og dularfullar gáturnar sem Ragnari berast tengjast, bæði beint og óbeint, Veru sjálfri og þeirri flækju sem hún og félagar hennar reyna að leysa í nútímanum. Frásögnin er hröð og spennandi og þó svo ótrúlega margt sé á seyði missir sögumaður aldrei dampinn og það er auðvelt að fylgja honum eftir. Dagbókarbrotin, tímaflakkið og gáturnar brjóta frásögnina skemmtilega upp.

Persónusköpun og samskipti persóna eru trúverðug. Þetta á t.d. við um samband Veru og Kára, samverkamanns hennar og aðgerðarsinna, en ég verð þó að viðurkenna að meiri rækt hefði mátt leggja í aðra félaga í hópnum, tölvutótann Patta og Ástu Lilju. Samskipti Veru og Ingólfs, eiginmanns hennar, eru vel skrifuð þótt nöturleg séu og vel kemur fram hversu flókin og sársaukafull ofbeldissambönd geta verið og að engin ein lausn sé möguleg. Saga föður Veru, og fortíð hennar sjálfrar, sýna okkur einnig að það er aldrei eitt einhlítt svar við öllum spurningum og að allar ákvarðanir hafi afleiðingar. Höfundur hefði þó að ósekju mátt leggja meiri rækt við samband Veru og Berglindar. Berglind er nemandi Veru og ástfangin af henni og virðist einna helst gegna því hlutverki að fá Veru til að opna augun og viðurkenna hversu skítt samband þeirra Ingólfs er. Samskipti kvennanna finnst mér á stundum hálfpínleg og meiri alúð hefði mátt vera lögð í þau og lýsingar á ástarlífi þeirra.

Skáldsagan Lygarinn hefst á sömu orðum og henni lýkur á: „Í fornsögum táknar rigningin nýtt upphaf“ (bls. 10 og 302) og er að vissu leyti sagan um það hvernig höfundur hennar varð fær um að skrifa hana – saga um eigin tilurð eða svokölluð sjálfsaga (e. metafiction). Vísanir í okkar eigin samtíma – og fortíð sem margir lesendur muna eftir – eru fjölmargar, vitnað er orðrétt í þjóðþekkta menn og einhvern veginn efast maður ekki um að eitthvað – og kannski svolítið mikið – í þessari sögu, sem hefur undirtitilinn Sönn saga, sé satt.

Helga Birgisdóttir, janúar 2012