Beint í efni

Óttar Martin Norðfjörð

Æviágrip

Óttar Martin Norðfjörð fæddist í Reykjavík þann 29. janúar 1980. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2000 og var einingadúx, B.A.-gráðu í heimpeki frá Háskóla Íslands 2003 og M.A.-gráðu, einnig í heimspeki frá sama skóla 2005 en stundaði einnig nám í faginu við University of Aberdeen í Skotlandi haustið 2004. Óttar var í spænskunámi við Universidad de Sevilla á Spáni vorið 2006 og hefur þar að auki numið þýsku í Heidelberg og frönsku í Nice, hvorutveggja um mánaðarskeið auk þess að hafa kynnt sér arabísku. Hann sótti námskeið í módel- og fríhandsteikningu í Myndlistarskólanum í Reykjavík 1998-1999.

Óttar hefur aðallega fengist við störf sem tengjast skrifum, meðal annars var hann ritstjóri menningarblaðs DV 2006 og jóla-og gamlársblaðs sama blaðs sama ár auk þess sem hann sá um kvikmyndaopnu blaðsins um skeið og skrifaði fyrir Sirkus. Hann hefur einnig bakað pizzur, unnið í bókaverslun og verið aðstoðarkennari í inngangsnámskeiðum í siðfræði og stjórnmálaheimspeki í Háskóla Íslands auk ýmissa starfa fyrir Vilhjálm Árnason heimspekiprófessor við H.Í. frá 2003 - 2006. Hann skrifaði bókmenntagagnrýni og þýddi greinar eftir Paulo Coelho fyrir DV haustið 2006 og hefur birt pistla um heimspeki í blöðum og á vefsíðum. Frá 2004 hefur Óttar helgað sig eigin skáldskaparskrifum að mestu leyti, en einnig fengist við prófarkalestur og yfirlestur. Hann sýndi myndverk í Gallerí Tukt vorið 2004, götulist hans má sjá í bókinni Icepick (2007) og hann hefur einnig hannað stuttermaboli undir vörumerkinu „Alive“.

Fyrsta útgefna verk Óttars er ljóðabókin Í Reykjavík sem hann gaf út sjálfur árið 2002. Fyrsta skáldsaga hans, Barnagælur, kom út árið 2005. Síðan hefur Óttar sent frá sér fleiri ljóðabækur, sumar hverjar með teikningum eða klippiverkum eftir hann sjálfan, birt ljóð í tímaritum, safnritum og á netinu, gefið út þrjú bindi af ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á fjórblöðungum, teiknimyndasögu, og fjölda skáldsagna. Meðal annarra verka hans má nefna minningabók um föður hans, Sverri Norðfjörð, Arkítektinn með alpahúfuna, sem Óttar gaf út í 18 eintökum 2009.

Óttar Martin Norðfjörð býr í Barcelona á Spáni.

Forlög: Sögur útgáfa og Nýhil.