Beint í efni

Maður í myrkri

Maður í myrkri
Höfundur
Paul Auster
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hér sit ég, ritdómarinn, snemma á björtum sunnudagsmorgni, og skrifa ritdóm um skáldsögu um mann sem hefur starfað alla ævi sem ritdómari og dundar sér nú við að semja sögu um mann í stríði sem fær það verkefni að drepa ritdómara nokkurn.

Sögur innan sagna eru líklegast eitt helsta einkenni skáldsagna bandaríska rithöfundarins Paul Auster og Maður í myrkri er engin undantekning á þeirri góðu reglu. Bókin kom upphaflega út árið 2008 og er ekki mikil um sig, frekar í ætt við stutta skáldsögu, eins og reyndar fleiri bóka Austers. Sömuleiðis er ekki heldur hægt að segja að söguþráðurinn sé eitthvað brjálæðislega umfangsmikill, þó vissulega rúmist mikið á þessum 190 síðum. August Brill (!?) er sögumaðurinn en hann hefur lent í bílslysi og er illa gangfær eftir það. Dóttir hans og dótturdóttir búa hjá honum, dóttirin er nýskilin og dótturdóttirin í áfalli eftir að kærasti hennar er drepinn í Írak. Það er því frekar þungt yfir heimilinu og til að stytta sér stundir á andvökunóttum hugsar ritdómarinn upp sögu um stríð og óviljugan hermann sem er skyndilega hrifsaður í það. Hann nefnist Owen Brick (!?) og vaknar upp í holu í jörðinni í hliðarveruleika borgarastríðs í Bandaríkjunum, en það gengur útá að sum ríki Bandaríkjanna hafa lýst yfir sjálfstæði meðan önnur berjast fyrir áframhaldandi sameiningu. Owen er sagt að hann sé sá sem muni binda endi á stríðið ef hann fari og skjóti August nokkurn Brill.

Það er dálítið fyndið að lesa bók um sögur innan sagna og vera jafnframt hrifin inn í heim annarra sagna, en maðurinn í holunni minnti mig mjög á manninn í brunninum í stríðssögu Harukis Murakamis, Frásögnin af upptrekkta fuglinum, og hugmyndin um ‘lausnarann’ eða ‘hinn útvalda’ sem lendir í alvarlegu veruleikaflökti minnti mig mest á Neo í Matrix-myndunum.

Þannig breiddi sagan út vængina og það heldur hún svo áfram að gera, en á ákaflega hversdagslegan hátt, því þó stríðssagan haldi áfram að flækja sig hressilega (Owen fer aftur til baka í sinn veruleika, hafnar þó hlutverki sínu en leggst í staðinn í lestur á ritdómum Brill og þaðan í lestur á bókunum sem Brill fjallar um) þá tekur veruleikinn í auknum mæli við og saga Brill, látinnar eiginkonu hans, dóttur og dótturdóttur verður veigameiri. Þess má geta að Brill og dótturdóttirin eyða dögunum í kvikmyndagláp og kvikmyndagreiningu, bara svona ef lesandi skyldi álíta að Auster væri eitthvað að slaka á.

Hér er í raun ekki slakað á neinu og ótrúlega miklu pakkað inn í snyrtilegar og hagkvæmar umbúðir. Ég hef alltaf verið sérlega snokin fyrir skáldskap sem tekst á við stöðu sína (hvað er skáldskapur og hvað er hann að gera hér), því í slíkum skáldskap verða mörkin milli rýni eða fræðimennsku og skáldskapar óljós og það finnst mér gaman. Auster tekur þetta skrefi lengra með því að flækja rýninn hreinlega inn í málið. Vissulega getur hann stundum virkað of fjarlægur í könnun sinni á möguleikum skáldsögunnar en hér fangar hann einnig fjölbreyttar tilfinningar persóna sinna á fallegan og ferskan hátt, einmitt með því að fjalla um þörfina fyrir að pakka slíkum inn í snyrtilegar og hagkvæmar umbúðir. Almennt séð hefði ég ekki verið spennt fyrir enn einni bókinni um krísu og lífsuppgjör eldri karlmanns, en færni Austers í að flétta söguna og þátta inn í hana fjölmargar tilvísanir gerði það að verkum að ég gleymdi öllum fordómum.

Þýðinguna hefði þurft að lesa mun betur yfir, en texti Austers virkar einfaldur en er það þó engan veginn. Það truflaði mig sérlega að rekast á villur í svo vandlega samsettri bók sem fjallar meðal annars um texta, frásögur, skrif og greiningu. Að öðru leyti naut ég þess að hverfa inn í myrkrið með Auster og persónum hans.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2011