Langhlaup æskumanns
endar þegar hann lítur
sem snöggvast um öxl(“Örskot”)
„Hið hefðbundna ljóðform er nú loksins dautt“ sagði Steinn Steinarr í viðtali fyrir bráðum þremur aldarfjórðungum síðan. Það var ekki satt þá, og er það ekki enn. Það þarf ekki annað en að fletta ljóðasafni Steins sjálfs til að sjá sönnunargögn á annarri hverri síðu. Stuðla, höfuðstafi, rím og allra handa háttbindingu, þó óbrjálaðir fornir bragarhættir séu sjaldgæfir.
Og þannig hefur það verið allar götur síðan. Vissulega styðst stór hluti íslenskrar ljóðlistar síðustu áratuga nánast ekkert við háttbindingu í skilningi fortíðarinnar, og íhaldsmenn um miðja síðustu öld myndu hrista hausa yfir flestu sem út kemur. En ekki öllu. Fjarri því.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er gott dæmi um höfund sem vinnur með bindingar á fjölbreyttan hátt. Stór hluti útgefina verka hans fylgir reglum um ljóðstafasetningu. Það gildir að ég tel um hina ótölulegu söngtexta hans, án þess að ráðrúm gefist til að rannsaka það nema á mjög yfirborðskenndan hátt hér og nú. Þá má ekki gleyma að Aðalsteinn hefur gefið sig einna mest að sálmakveðskap af núlifandi íslendingum á skáldabekk, sem ekki eru prestlærðir. Í slíkum verkum er lipurð og hagmælska nauðsynleg, og henni býr Aðalsteinn yfir og hefur þjálfað með sér á löngum ferli.
Ljóðin í Spunatíð, nýjustu ljóðabók Aðalsteins, bera þessari færni vitni. Þó engum myndi detta í hug að kalla þau háttbundin, og Steinn væri vís til að nefna þau sem dæmi um það sem kom í stað þess sem var loksins dautt í kringum 1950, þá eru í þeim ákaflega skýr dæmi um enduróm hefðarinnar. Mjög víða notar Aðalsteinn ljóðstafasetningu. Stundum alveg reglulega:
Ljóð heimsins
eru lausnarorð
í lengd og bráðstórhuga, djörf
stefna fram á við
með stakri ró …(“Ljóð heimsins”)
Og mjög víða bregður fyrir vel útfærðu rími, oft bara á einum stað í hverju ljóði, eins og lokaerindi þessa tiltekna kvæðis er gott dæmi um:
Ljóð heimsins
leiðarstefin tengd
við lífsins þráð.
Þessi smekklega og hófstillta notkun hinna gömlu formeiginda íslenskrar ljóðahefðar hefur verið áberandi í óbundinni ljóðagerð allar götur frá „fráfalli“ hefðbundins ljóðforms. eins og lesendur Hannesar Péturssonar, Þorsteins frá Hamri og fleiri meistara síðustu aldar vita mæta vel.
Lengst í átt að hefðbundinni kveðandi má segja að Aðalsteinn stigi í viða- og svipmesta ljóði bókarinnar, “Hraðferð”. Fjögur átta línu erindi, þar sem hver lína samanstendur af þremur daktílum, þriggja atkvæða bragliðum með þyngstu áherslu á það fyrsta, og einum tróka, tveggja atkvæða braglið með áherslu á það fyrra. Það hefst svona:
Framan af ævi er ferðinni heitið
fluginu hraðar til móts við allt lífið
og lýkur svona:
Allt stöðvast og dempast með almættisafli
hver örmagna sál verður stundinni fegin
og svífandi engill með harðskeyttri hendi
heimtar nú lausn og friðsælan endi.
Ljóð sem kallar á að vera lesið upphátt, eða að lesandinn láti það í það minnsta hljóma í huga sér við lesturinn. Þá springur það út, eins og títt er um háttbundinn kveðskap, og söngtextasmiður og sálmaskáld veit skálda best. Það er ekki laust við að hugurinn hvarfli til Einars Benediktssonar við lesturinn, sem gerist ekki á hverjum degi við lestur nýrra ljóðabóka.
Í “Hraðferð” er lagt út af mannsævinni og hún sett í samhengi við glímu við náttúruöflin. Mörg ljóð bókarinnar eru atlögur að því að rýna í tilvistargátuna, og flest kalla á endurtekinn lestur til að ljúkast upp. Aðalsteinn Ásberg hefur lítinn sem engan áhuga á að vera hnyttinn eða fyndinn. Alltaf er ljóst að hér yrkir maður með lífsreynslu að baki, sem þarf bæði að sætta sig við og gera upp það sem er liðið, og einnig að velta fyrir sér leyndardómunum framundan.
Skáldið er minna upptekið af einstökum ágöllum á heiminum heldur en sálarheill sinni og tilgangi, og þar með okkar allra. Þó kemur fyrir að horft sé almennum augum, úr mikilli hæð, á það sem gæti staðið í vegi fyrir hamingju okkar:
Bragarbót
Atkvæði talin
ástandið vegið
og metið.Hamingjan spottuð
hugarfer dregið
í efa.Ástin hvergi óhult
fyrir sýndarmennsku
og sölufíkn.Við upplifum örbirgð
sálarkreppu og sút
meðan auður sumra vex.Veraldargæðunum hrakar
og vandfundin er
að lokum leiðin út.
Spunatíð er þó fjarri því að vera tómur blús. Ástin er plássfrekt yrkisefni, og ljóð þar sem hún fær sitt lof er að finna um alla bók. Stundum jafnvel skemmtilega og afdráttarlaust erótískt, þó dulið sé bak við hulu náttúruvegsömunar:
Samspil
Undir mér
bylgjast jörðin
án þess að gera
kröfu um neitt.Hún bylgjast meðan
vaxandi ástríðan
verður ólgandi afl
sem þarf útrás.Kynkröftug nautn
þegar bylgjan langa
breytist í fögnuð
yfir einni andrá.
Þetta er fáguð bók þrautþjálfaðs skáld sem er handgenginn bæði háttbundnum kveðskap og nýjum formum og tjáningarhætti. Hér er horft inn á við með hjálp náttúrunnar, út á við í ljósi tilfinninganna og formað á sérlega aðlaðandi hátt fyrir unnendur ljóðlistar allra tíma, listar sem allt bendir til að lifi allt af.
Þorgeir Tryggvason, desember 2024