Beint í efni

Morgunn og kvöld

Morgunn og kvöld
Höfundur
Jon Fosse
Útgefandi
Dimma
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Lýsingin á bók Jon Fosse vakti ekki beint áhuga minn, en aftan á bókakápu er skáldsagan Morgunn og kvöld sögð vera „frásögn um fæðingu barns og dauða gamals manns“. Titillinn er því hefðbundin myndhverfing lífs og dauða, hringrásar ljóss og myrkurs og allt það. Höfundurinn er afar virtur og virkur, hann hefur skrifað fjölda verka, leikverka, skáldverka og ljóðabóka, og hlotið fyrir þau ýmsar viðurkenningar, nú síðast bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Eftir því sem ég kemst næst hafa þrjú leikverka Fosse verið þýdd og leiklesin eða sviðsett, en þetta er fyrsta skáldsaga höfundar í íslenskri þýðingu. Myndin af höfundi sýnir nokkuð veðurbarðan alvarlegan mann, á einhvern hátt afar norrænan, enda má segja að ímynd norðursins svífi hér nokkuð yfir vötnum: Þetta er fremur þungbúin bók sem gerist í óljósri en ekki of fjarlægri fortíð þar sem lífið einkennist af fábreytni og nokkurri einangrun, fjallað er um grundvallarmálefni eins og líf og dauða, ástir og vináttu og náttúruöflin eru sínálæg, sérstaklega hafið. Án þess að það sé endilega tekið fram fær lesandi tilfinningu fyrir kulda og ljóst er að samskipti liggja ekki sérlega vel fyrir persónum verksins.

Allt er þetta ofurkunnuglegt, til dæmis úr norrænum glæpasögum sem gengið hafa ljósum logum um bókmenntalandslagið undanfarin ár. Jon Fosse nær þrátt fyrir það að ljá sinni einföldu og ófrumlegu sögu nokkuð heillandi yfirbragð, hann teiknar upp skýra stemningu með beitingu tungumáls og tákna og skapar andrúmsloft sem auðvelt er að fella sig við og njóta.

Bókin hefst á fæðingu sveinbarns, sem faðirinn er þegar búinn að nefna eftir föður sínum, Jóhannesi. Fæðingin tekur á, eins og gengur, og faðirinn er smeykur, vill hjálpa til en er vísað frá af festu; ljósmóðirin bendir á að líkt og það sé óheillamerki að hafa konur á skipi sé ekki heppilegt að karlar skipti sér af svona málum. Sjónarhornið ferðast milli feðganna, þess sem hlustar í angist og ungans sem þrýstist út úr líkama móðurinnar og Fosse tekst hér á við það sem margir bókmenntafræðingar hafa talið illmögulegt: að gefa líkamanum tungumál. Samkvæmt kenningum femínista hefur líkaminn ekkert tungumál, annað en þann möguleika að valda truflun á tjáskiptum og það er einmitt sú leið sem Fosse fer, tungumálið brotnar niður í bókstafi og rofnar í hljóð:

gamla ljósmóðirin Anna segir aðeins betur og Marta þrýstir að höfðinu á honum og myrkrið er ekki lengur rautt og mjúkt og öll hljóðin og jafni slátturinn a a da da a a a da a og a e a e a niðar a iðar a gamla árin og vaggar í a e a í e a e vatnið e a og e o a allt er já sa sa a sa jafnt sa og raddirnar og svo þessi skelfilegu hljóð og þrýsta e a e og þessi kuldi rembingur a a sargandi steinn koma aftur a og a fram og allt sem sker mann (15)

Eins og sjá má á þessum texta er skynjunin látin rása óheft fram til að kalla fram og endurspegla þau átök sem þarna eru. Þegar öllu er lokið veit faðirinn ekki hvað hann á af sér að gera og kemur ekki orðum að tilfinningum sínum – gamla ljósmóðirin minnir hann á að það þurfi að róa henni aftur til baka. Lesandi skynjar einangrun en jafnframt hlýju og væntumþykju.

Þessi fyrsti hluti er ekki nema tæpur fjórðungur verksins, en í næsta hluta tekur við öllu hefðbundnari frásögn – þó greinarmerkasetning beri áfram merki flæðis, því það eru engir punktar á eftir efnisgreinum. Hér hittum við fyrir hinn nýorðna afa, sem vaknar óvenju sprækur og finnur ekki fyrir hinum vanalega þunga líkamans né þrautum hans. Enn á ný er áherslan lögð á líkamlega skynjun, að þessu sinni eftir dauðann, því lesandi veit að kallinn er dauður þó hann sé ekki búinn að fatta það. Líkaminn er ýmis léttur eða óbærilega þungur, hann yngist og eldist sitt á hvað, bragðskynið er farið og tóbakið hefur ekki sín vanalegu áhrif. Hér eru lýsingarnar á tilfinningunni fyrir líkamanum þó öllu hefðbundnari en í fyrsta hlutanum.

Jóhannes fer á fætur eins og vanalega en finnst morgunverkin einkennilega óspennandi. Hann saknar konu sinnar og vinar síns, sem bæði eru dáin, en hugsar hlýlega til dótturinnar sem býr í grennd og sinnir föður sínum vel. Hann fer út og er nokkuð hissa þegar hann hittir vininn, en jafnar sig fljótt og fer með honum á krabbaveiðar. Tíminn og minnið sogast út og inn líkt og straumar hafsins á flóði og fjöru, stuttlega hverfur Jóhannes aftur til þess tíma þegar hann var ungur maður og hitti stúlkuna sem seinna varð eiginkona hans, en svo er hann aftur orðinn óbærilega gamall. Loks upplýsir vinurinn stöðu mála: hann hafi verið sendur til að hjálpa honum yfir.

Tilvísunin í titilinum vísar til hins sammannlega, hringrásar lífsins, morguns og kvölds, en þó er ljóst að hér eru karlar í aðalhlutverkum. Það er sveinbarn sem fæðist og gamall maður sem deyr, konur eru allar í aukahlutverkum, mæður, (hjúkrunar)konur og meyjar. Þetta minnti mig dálítið á kvikmyndaleikarann sem sagði um hlutverk sitt að allir ættu að geta sett sig í þessi spor, það að vera faðir (sonar, að sjálfsögðu). Vissulega er það áhugaverð nálgun að miðla upplifuninni af fæðingu í gegnum föðurinn, en þó verð ég að segja að mér fundust kvenhlutverkin óþarflega bragðlaus og blæbrigðalítil. Það að sagan gerist í fortíð (og afskekkt, sem oft er látið standa sem myndlíking fyrir fortíð) þar sem kynhlutverk eru ennþá öll í hefðbundnum skorðum er ekki endilega lausn.

Hafandi sett þann fyrirvara þá fannst mér þessi litla skáldsaga Jon Fosse áhugaverður lestur, ekki síst í ljósi þess hvernig hann vinnur með tungumál og framsetningu. Þýðing Hjalta Rögnvaldssonar er til mikillar prýði. Án þess að hafa samanburð við frumtextann þá er ljóst að þýðandi hefur sérlega góð tök á tungumálinu og býr yfir þeirri færni að skila af sér texta sem býr yfir kyrrlátu en áhrifamiklu látleysi.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2015