Beint í efni

Nautið

Nautið
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Bók Stefáns Mána, Nautið, var ekki fyrr komin út en það fréttist að gera ætti sjónvarpsþáttaröð byggða á henni. Leikstjórinn er þó ekki sá sami og umformaði Svartur á leik í kvikmynd, það er Vonarstrætismaðurinn Baldvin Z sem mun stýra verkefninu.

Líkt og fyrri verk Stefáns Mána hentar Nautið vel til myndrænnar útfærslu en mikið er lagt upp úr nákvæmum lýsingum og sviðsetningum eins og kemur vel fram í tveimur fyrstu köflum bókarinnar. Í fyrsta kaflanum, sem rammar verkið inn, segir frá tveimur erlendum stúlkum á ferð um Ísland. Bíllinn bilar og símasamband næst ekki og því ganga þær af stað í von um hjálp. Það er hábjartur dagur og glampandi sól sem undirstrikar enn frekar þá ógeðfelldu sýn sem blasir við þeim þegar þær banka upp á að Uxnavöllum.

Í næstu senu hittum við fyrir aðalpersónur bókarinnar, Ríkharð eða Rikka og Hönnu sem heitir fullu nafni Jóhanna. Þau tilheyra greinilega kunnuglegum heimi undirheima – það er að segja, kunnuglegum úr fyrri bókum Stefáns Mána. Hanna er trúlofuð eiturlyfjasala sem Rikki selur fyrir, bæði dreymir um betra líf (það er að segja, lúxuslíf í krafti þýfis og án vísitölu-vinnu) og flótta frá aðstæðunum á Íslandi. Aðstæðurnar eru sannarlega ekki öfundsverðar, en Hanna er alin uppi á sveitabæ og misnotuð af föður sínum frá því hún var unglingur. Sem síðan skýrir óhóflega eiturlyfjaneysluna og sjálfseyðingarhvötina.

Framvindan er svo mörkuð af tifi í klukku sem brýtur frásögnina upp í kafla. Í þessum köflum er flakkað fram og til baka í tíma, en þó er ljóst að tíminn stendur í raun í stað og að persónur bókarinnar eru allar fangar aðstæðna sem gera þeim hvorki kleift að brjótast út né horfa til framtíðar. Tíminn, í þessum heimi myrkraverka og ofbeldis, er því lykilþáttur í byggingu verksins. Strax í lok fyrstu senunnar birtist tíminn sem ógnvaldur: „Veggklukkann tikkar fyrir ofan hana. Sekúndurnar pikka í hausinn á henni, oddhvassar og harðar. Tíminn er miskunnarlaus fugl sem reynir að kljúfa á henni hauskúpuna, opna á henni höfuðið (20).“ Það er sérstaklega Hanna sem skynjar vald tímans á þennan hátt. Hún líkir tikkinu í klukku síns gamla heimilis við járnpöddu sem „skríður áfram, hún hreyfir stífa fæturna í takt en stendur samt í stað (210).“ Nautið er annað þema í myndmáli og stingur sér víða niður. Þannig helst myndmálið í hendur við innihald sögunnar og byggir hægt og rólega upp andrúmsloft innilokunar og ógnar.

Svartur á leik var fyrsta atlaga Stefáns Mána að spennusögum sem spretta úr undirheimalífi Reykjavíkur, en fram að því hafði hann skrifað ‚venjulegar‘ skáldsögur á borð við Hótel Kalifornía og Ísrael, en báðar fjalla að hluta til um karlmennsku í kreppu. Þetta var árið 2004 og síðan hefur Stefán Máni að mestu einbeitt sér að hasarsögum (sem einnig má skoða í ljósi karlmennskukreppu), þó með einni undantekningu, Túrista. Hann á sér því tvöfaldan rithöfundaferil, svona álíka og glæpasystir hans Yrsa Sigurðardóttir, sem hóf sinn rithöfundaferil með barnabókum.

Líkt og Yrsa hallast Stefán Máni að hinu myrka og óhugnanlega, en sögur hans eru iðulega stungnar hryllingi og hverfast á stundum yfir í að vera hreinar hrollvekjur, eins og Húsið. Munurinn á þessum tveimur höfundum er þó helst sá að sögur Stefáns Mána eru iðulega enn myrkari en verk Yrsu, allt tungumálið er gegnumstungið myndmáli sem sækir í hrylling og afskræmingu, auk þess sem Stefán Máni vinnur markvissar með dulúðuga undirtóna sem gefa verkum hans sérstakt yfirbragð, en dæmi um það er einmitt beiting myndmáls tímans og nautsins í Nautinu.

Fyrri verk Stefáns Mána hafa iðulega verið mun lengri, en hér er það þéttleikinn sem gildir. Fyrir vikið verður verkið ekki eins yfirþyrmandi lestrarupplifun og sumar af fyrri bókunum, en er í staðinn beinskeyttara og að mörgu leyti kraftmeira.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2015