Beint í efni

Ódáðahraun

Ódáðahraun
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Titillinn hér að ofan hefði getað verið undirtitill Ódáðahrauns, nýjustu skáldsögu Stefáns Mána. Skúrkurinn Óðinn R. Elsuson er reyndar bisnessmaður að upplagi en alltaf röngu megin við lögin. Þegar hann svo fær tækifæri til að taka þátt í nokkurn veginn lögmætum viðskiptum grípur hann það þótt ófús sé í fyrstu. Hann hefur nefnilega verið nokkuð ánægður með sig og sitt fram að þessu. Hann gengur til starfa í viðskiptageiranum af sama miskunnarleysinu (en kannski ekki sama ákafanum) og tíðkast hinum megin við línuna og er að lokum orðinn stórefnamaður. Það er svo spurning hvort hann er hamingjusamur í hinu nýja hlutverki sem góðborgari og styrktaraðili Óperunnar.

Óðinn missir auga snemma í sögunni og er því eineygður eins og nafni hans úr goðafræðinni. Fleiri eru goðsögulegar tilvísanir ekki, að ég best fæ séð, nema hvað varðar nafnaruglinginn sem einnig fylgdi nafna Óðins hinum forna. Óðinn R. Elsuson kom aðeins við sögu í síðustu bók höfundar, Skipinu (2006). Sú bók taldist glæpasaga, að minnsta kosti var hún valin besta íslenska glæpasagan það árið af Hinu íslenska glæpafélagi. Ágætis bók þótt ekki væru allir sáttir við hvernig hún endaði. Sumum fannst endirinn lönguvitleysa sem minnti á Hollendinginn fljúgandi, aðrir vildu meina að öðru vísi gæti endirinn ekki verið, sumsé bara snilld. Sama kann að verða upp á teningnum hvað þessa bók varðar, örugglega verða deildar meiningar um sögulokin.

Víst er að efniviðurinn hittir alveg í mark núna. Alls konar plön um kaup og sölu hlutabréfa í bland við kostulegt persónugallerí skúrka af öllu tagi. Og, vel á minnst, skúrkana er að finna í öllum lögum samfélagsins. Skýringarnar á því hvernig Óðinn og vinkona hans, Viktoría bera sig að í viðskiptalífinu eru ekki alltaf áhugaverðar, svolítið eins og að reyna að lesa viðskiptablaðið eða viðskiptadálka dagblaðanna. Það er ekki mjög spennandi lestur, raunar afspyrnuleiðinlegur, og segir okkur kannski eitthvað um það hvers vegna flestir hafa botnað svona lítið í fjármálaævintýrum íslensku auðjöfranna. Burtséð frá þessum köflum, sem eru sem betur fer tiltölulega fáir, er frásögnin alla jafna hröð og dálítið villt. Það eru læti í stílnum enda fara persónur sögunnar um með látum. Það er þó ívið meiri kraftur í orðum og athöfnum undirheimalýðsins en hinna fínpússuðu eins og við er að búast. Sú hugmynd að dópsölutrikk hafi komið fótum undir margan í viðskiptum er ekki fráleit og í raun býsna trúverðug. Það er reyndar fátt sem kemur manni á óvart í þessum efnum nú til dags.

Ódáðahraun er harðsoðinn og hressilegur fjármálaþriller, líklega fyrsta íslenska sagan af því tagi og verulega ólík þessum fáguðu útlensku. Það er hið besta mál. Ekki er þó víst að öllum líki hamagangurinn og ofbeldið í sögunni en þannig vill undirheimaskáldið hafa þetta og við verðum bara að meðtaka boðskapinn eins og hann er.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2008