Nýlega bárust fréttir af því að skáldið Brynja Hjálmsdóttir hefði hlotið hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur en verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti þann 25. október síðastliðinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og sjálfri Vigdísi Finnbogadóttur að sjálfsögðu. Við athöfnina greindi Brynja frá því að hún ætti þriggja mánaða gamalt barn og því „alveg upp að olnboga í bleyjum“, þess vegna væru hvatningarverðlaunin sérstaklega kærkomin því við þær aðstæður geta háleit markmið og draumar gleymst eða lagst í dvala.
Það er ánægjulegt að heyra af tilurð hvatningarverðlaunanna og það verður áhugavert að fylgjast með þeim næstu ár: hvaða metnaðarfulli listamaður, sem umhugað er um tungumálið og ræktun íslenskunnar, verður hvattur næst. Og það kemur ekki á óvart að Brynja skuli hljóta þau að þessu sinni en hún hefur sýnt það að hún er á góðri vegferð sem skáld og rithöfundur. Fyrsta verk hennar, Okfruman, kom út hjá Unu utgáfuhúsi árið 2019 og vakti verðskuldaða athygli, var t.d. valin ljóðabók ársins af bóksölum það ár. Ég fjallaði um verkið á Bókmenntavefnum á sínum tíma hér og skrifaði meðal annars að „Okfruman er metnaðarfullt og flott fyrsta skáldverk“ en verkið er einn heildstæður ljóðabálkur sem segir frá ævi ónefndrar konu með hrollvekjandi hætti. Þá samdi Brynja Ávarp fjallkonunnar sem flutt var við hátíðarhöldin þann sautjánda júní síðastliðinn en nokkru áður hafði hún hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Þegar dagar aldrei dagar aldrei“. Á síðasta ári kom svo út önnur ljóðabók hennar, Kona lítur við, sem hlaut tilnefningu til ljóðaverðlauna Maístjörnunnar.
Ég reifa þessar upplýsingar hér til að ítreka að Brynja Hjálmsdóttir er skáld sem vert er að taka eftir og fylgjast með. Þar að auki fylgdi fréttin um hvatningarverðlaunin með lestrinum á nýjasta verki skáldsins, leikritinu Ókyrrð, sem er að ég held fyrsta verkið sem Brynja sendir frá sér sem ekki er ljóð. Ókyrrð er raunar leiktexti því einhvern veginn finnst mér „leikrit“ eiga frekar við um það sem maður sér á sviði, byggir að sjálfsögðu á leiktexta höfundar, en við það bætist svo leikur leikara, leikstjórn, sviðsmynd og fleira.
Verkið segir frá fjórum persónum um borð í flugvél. Yfirleitt eru talsvert fleiri farþegar í áætunarflugi en hér er sögusviðið markað af veirunni kóvid sem gefur jú aðstæðum fjarstæðukenndan absúrdbrag. Tvær sögupersónanna, þau Gaukur og Kría, eru farþegar á leið til ónefnds áfangastaðar, en hinar tvær, mæðgurnar Svanhildur og Svanhvít eru einu starfsmennirnir um borð; móðirin Svanhildur er flugstjórinn sem stýrir fleyinu en Svanhvít í hlutverki flugfreyju sem sér um að þjóna mannskapnum í vélinni. Í upphafi verksins er aðstæðum á sviðinu lýst: „þar er hugguleg stemmning, lampar og pottaplöntur“ (9). Ég minnist þess ekki að hafa séð pottaplöntu um borð í flugvél en á þær er ítrekað minnst í verkinu.
Verkið hefst á samtali mæðgnanna Svanhildar og Svanhvítar og lýsir togstreitu og átökum sem virðast hafa einkennt samband þeirra um tíma: móðirin vill fjarstýra dótturinni og beina henni á rétta braut, en dóttirin vill ráða sér sjálf og finna sína eigin braut. Ákaflega þekkt og óþrjótandi togstreita sem einkennir sambönd barna og foreldra nánast alltaf en að sjálfsögðu mismikið og með ólíkum hætti. Mæðgurnar fljúgast á og að lokum missir Svanhildur meðvitund en Svanhvít lokar hana inni á klósetti vélarinnar.
Á meðan Svanhildur liggur inni á klósetti getur Svanhvít óáreitt snúið sér að farþegum vélarinnar, þeim Kríu og Gauk, sem segjast bæði vera lífstílsráðgjafar og hafa tileinkað sér nýaldarhyggju en með talsvert ólíkum hætti. Gaukur stundar jóga og ayurvedísk fræði en Kría minnir dálítið á agressífa viðskiptakonu sem hefur trúlega upplifað skipbrot og tekið að stunda jákvæða sálfræði. Það er eitthvað mjög kómískt en í senn raunsætt, trúverðugt og nútímalegt við þessar sögupersónur og orðaskipti þeirra eru á köflum æði fyndin („Það raskar líka eðlilegri froðumyndun líkamans að sofa í flugvélum“ 33)
Þungamiðja verksins er aftur á móti Svanhvít sem virkar kúguð af móður sinni og er dálítið týnd: hana langar alls ekki að halda áfram starfi sínu sem flugfreyja, á sér draum um eitthvað órætt og spennandi sem myndar ef til vill ókyrrð innra með henni; ókyrrð að innan í stað ókyrrðarinnar fyrir utan sem við upplifum stundum í flugferðum. En eitthvað heldur aftur af henni svo hún tekur ekki skrefið – móðirin, samviskubit, óöryggi, það er ekki gott að segja.
Það er ekki oft sem ég tek leiktexta í hönd. Það var því áhugavert að velta fyrir sér lestrarupplifuninni sem minnti mig að einhverju leyti á að lesa texta sem er staðsettur mitt á milli þess að vera ljóð, hlaðinn táknum sem þarf að staldra við, velta fyrir sér og túlka (af hverju bera persónurnar allar nöfn sem vísa í fugla?) og smásaga eða nóvella sem dregur skýrt upp myndir af sögupersónum sem takast á og eiga í orðaskiptum. Þá er skemmtilegt að fylla upp í eyðurnar sem leiktextinn skilur eftir, velta fyrir sér sviðsmyndinni, öllum pottaplöntunum, og hvaða leikari ætti best við hvert hlutverk. Ég held að margir gætu komið til greina en af einhverjum ástæðum sá ég Ólafíu Hrönn fyrir mér í hlutverki Svanhildar, ef til vill af því að ég hef svo oft dáðst af henni í móðurhlutverkum þar sem harmur og kómík takast á með eftirminnilegum hætti?
Mín helsta reynsla af lestri leiktexta er úr frönskunámi þar sem kennarinn minn, hinn raffíneraði Monsieur Charbonnier, leiddi okkur í gegnum undur absúrdsins hjá höfundum eins og Ionesco. Samtalsform leiktextans hentar nefnilega vel í kennslu fyrir nemendur sem leggja stund á erlend tungumál. Ég reyndi eins og ég gat að eyða áhrifunum af þessari reynslu og að koma í veg fyrir að lesa verk Brynju sem absúrdleikrit. Engu að síður læddist að mér grunur ýmisskonar. Í verkunum í frönskutímunum var alltaf einhver kjarni verksins, einhver sannleikur sem við nemendur áttum að henda reiður á og gera grein fyrir, koma með tillögur og rökstyðja, sem er mjög góð talþjálfun í tungumálanámi. Með hugmyndina um kjarna absúrdleikritins á bakvið eyrað, las ég verkið sem þroskasögu ungrar konu sem þarf að læra að standa með draumum sínum og verjast þeim öflum sem reyna að eyða þeim: hvort sem það er eldri kynslóðin sem telur sig vita betur eða takmarkanir kapítalísks samfélags sem einkennist fyrst og fremst af ókyrrð og ófyrirsjáanleika.
Hvað sem því líður, hlakka ég til að sjá verkið á sviði þó það megi einnig vel njóta þess að lesa það.
Vera Knútsdóttir, nóvember 2022