Hún vekur upp áleitnar og áhugaverðar spurningar, skáldsaga Vals Gunnarssonar, Örninn og Fálkinn. Ábyrgð, kynhlutverk og þjóð koma fyrst upp í hugann, en einnig má nefna stríðsrekstur, græðgi og skáldskap. Yfir og allt um kring liggja svo pólítískar meginlínur tuttugustu aldarinnar, kommúnismi, kapítalismi, fasismi og nasismi.
Á ylhýrri ensku myndi sagan kallast ‚alternative history‘, en þrátt fyrir að eitthvað örlítið sé til af slíkum skáldverkum á íslensku þá hefur ekki enn fundist gott heiti yfir fyrirbærið. Hjásaga, tilbrigði við söguna, ‚hvað ef?‘-saga, eða bara furðusaga, blendingur af vísindaskáldskap (þá sem þýðingu á enska orðasambandinu ‚speculative fiction‘) og fantasíu. Ekkert af þessu er sérstaklega þjált og heldur ekkert endilega sérstaklega lýsandi fyrir skáldsögu Vals.
Í stuttu máli fjallar Örninn og Fálkinn um það hvað gæti hafa gerst ef Þjóðverjar hefðu hernumið Ísland á undan Bretum. Aðalsöguhetjan er ungur bókhneigður maður, Sigurður, sem vinnur sem símadama hjá Landsímanum. Hann er ástfanginn af stúlku, Áslaugu, hún er harður kommúnisti og vinnur líka hjá Landsímanum. Þegar Íslendingar taka Þjóðverjum, og nasismanum, fagnandi dregst Sigurður inn í andspyrnuna vegna ástar sinnar á Áslaugu, því þótt hann sé vissulega ekki hallur undir hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar þá er hann heldur ekki maður átaka. Þetta sjónarhorn manns sem er bæði ráðvilltur og fælinn virkar afar vel, Sigurður tekur sjálfan sig ekki mjög alvarlega og tóntegund hans litar alla frásögnina, sem er hæfilega kómísk, án þess þó að dregið sé úr alvöru málsins.
Sem símadama er Sigurður táknrænn fulltrúi miðlunar og tenginga, að ekki sé talað um pólitískar línur. Hann er ekki þátttakandi heldur áhorfandi sem óvart flækist í mál sem hann hefði helst viljað forðast. Og sem símadama ruglar hann í hefðbundnum kynhlutverkum, sem gerir það að verkum að hið táknræna hlutverk ber hann ekki ofurliði. Ástæðan fyrir því að hann vinnur í þessu kvennastarfi er faðir hans, sem var frumkvöðull á sviði símtækni. Sigurði er ætlað að taka við af honum og fara í verkfræðinám, en í kjölfar kreppu neyðist hann til að hverfa frá námi. Þrátt fyrir atvinnuleysi koma tengslin við Landsímann sér vel en þó er ekki auðvelt að finna honum starf við hæfi:
Ég var of gamall til að vera sendisveinn, ekki nógu menntaður til að feta í fótspor föður míns og of ungur og vanættaður til að koma til álita sem skrifstofustjóri. Því var ákveðið sem neyðarúrræði að bjóða mér starf við talsímavörslu. Ef til vill var vonast til að ég teldist kvenmannsstarf langt fyrir neðan mína virðingu [...]. Sjálfsvirðing mín reyndist þó minni en nokkur hafði von á, ég þáði boðið og undi hag mínum ágætlega, vissulega á kvenmannslaunum en þó í þægilegri innivinnu á tímum þegar lítið var um slíka. (30)
Bókmenntaáhugi hans gerir það að verkum að hin bókmenntalega hlið skáldsögunnar nýtur sín vel, en Valur vísar bæði leynt og ljóst í fjöldann allan af bókmenntaverkum sem fjalla um hernámið og stríðið, auk þess að nefna til sögunnar fjölda þekktra skálda frá þessu tímabili. Eitt þeirra er Gangvirkið (1955) eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, sem endar daginn sem Bretar hernema landið, en eftir stuttan inngang hefst Örninn og fálkinn á því að Þjóðverjarnir ganga á land, að Sigurði viðstöddum. Auk íslenskra bókmenntatilvísana er þó nokkuð um erlendar, meðal annars koma verk helstu frumkvöðla vísindaskáldsögunnar, þeirra Jules Verne og H.G. Wells, við sögu.
Eins og áður segir taka Íslendingarnir Þjóðverjum fagnandi, ekki síst þegar í ljós kemur að hernáminu fylgir mikill gróði fyrir þá sem eru viljugir. Íslendingar er því bæði auðkeyptir og ginnkeyptir fyrir nasismanum og inn í þetta blandast svo upphafning á norrænum menningararfi, víkingaímyndinni og hreinleika þjóðarinnar. Andspyrnan kemst ekki almennilega af stað fyrr en það fer að þrengja að, þegar breskur sjóher hindrar aðföng og gróðinn minnkar. Enn á ný er það Sigurður sem lendir í því að miðla, alveg óvart, mikilvægum skilaboðum. Hann er svo að lokum dreginn með í mikla andspyrnuaðgerð, einmitt vegna verkfræðifærni sinnar sem símadama.
Frásögninni er skipt á milli þriggja tímasviða, sem síðan falla saman í eitt. Einn hluti lýsir hernáminu og því sem gerðist í kjölfar þess; annar gerist fyrir stríð og segir frá ástum Sigurðar og Áslaugar; og í þeim þriðja er Sigurður staddur á hálendinu í hættuferð með andspyrnuhreyfingunni. Þar hefur greinilega slitnað upp úr ástarævintýrinu en skýringin á því kemur ekki strax í ljós.
Þessi þrjú sjónarhorn gera sig vel og skapa gott flæði í sögunni, en draga hana jafnframt nokkuð á langinn og eftir fyrstu 150 síðurnar féll dampurinn svolítið niður og náðist ekki upp aftur fyrr en 100 síðum síðar (skáldsagan telur 438 síður). Það hefði því að ósekju mátt stytta verkið nokkuð. Hinsvegar er stíllinn skemmtilegur, persónurnar áhugaverðar og samspil þeirra ekki síður, auk þess sem Valur er afar flinkur í því að skapa víðtækar tengingar í sögu og tíma. Þannig er það vel þess virði að halda lestrinum áfram, enda er lokaspretturinn skemmtilegur, ekki síst vegna þeirra fjölmörgu tilvísana til þjóðsagna, bókmennta og nútíma sem höfundur fléttar inn.
Það er þó best að segja sem minnst um það, enda myndi það skemmileggja ánægjuna fyrir lesendum, auk þess sem tilvísanaramminn er þannig að sagan gerir sig fullkomlega án hans. Sem dæmi um það má nefna sögulegar tilvísanir til síðari heimsstyrjaldar og ýmissa atburða hennar, þekktra hetja, skipa, orrusta og tækninýjunga, en þennan heim stríðssögu þekki ég lítið. Það truflaði mig þó ekkert sem lesanda að vita ekki endilega hvað væri skáldskapur og hvað sagnfræði.
Og þar í liggur kannski helsti styrkur þessa verks, í því að varpa upp spurningum um skáldskap og sagnfræði. Við vitum öll að sagan er ekki einfalt mál og að hún er iðulega einfölduð og straumlínulöguð í sagnfræðiritum. Hvað ef sagan er alls ekki sú sem við héldum að hún væri, heldur allt önnur? Hver er þá munurinn á sagnfræði og sögulegri skáldsögu, eða tilbrigði við sögulega skáldsögu? Ljóst er að Íslendingar voru hallir undir nasisma, þó það hafi ekki farið hátt. Sömuleiðis er áhugavert að lesa skáldverk sem spyr ‚hvað ef?‘ spurninga í heimi þar sem margt er ennþá flækt í vefjum þöggunar og þar sem nýjar tengingar hafa opnað fyrir möguleika á afhjúpunum og sögulegum endurskoðunum. Þar koma inn málefni sem varða vald og ofbeldi; kynhlutverk og hið svokallaða ‚ástand‘, þjóðernishyggja og stjórnmál.
Margt af þessu snýr svo að spurningum um ábyrgð. Hlutverk og staða sögumannsins verða enn athyglisverðari í þessu samhengi, en eins og áður segir vill Sigurður helst bara geta sinnt sinni þægilegu innivinnu og lokað augunum fyrir öllu þessu veseni samfélagslegra og pólitískra átaka. En hann dregst inn í þetta samt og á örlagastundu tekst honum ekki að gangast við því hetjuhlutverki sem hefur verið troðið upp á hann. Þetta gerir persónu hans enn blæbrigðaríkari. Annarsvegar má skoða hann sem fulltrúa þeirra sem neita að horfast í augu við erfiðar spurningar og falla því á siðgæðisprófinu með óvirkri meðvirkni, hinsvegar hafnar hann þeim karlmennskuímyndum sem eru grundvöllurinn að stríði og valdaátökum og uppfyllir á þann hátt kröfuna um andspyrnu – þó hún sé nokkuð ólík þeirri sem kommúnistinn og harðlínukonan Áslaug stendur fyrir.
Sögulegar skáldsögur eiga það iðulega til að vísa til samtímans á einn eða annan hátt og það gera tilbrigðin við söguna ekki síður. Þetta birtist á margvíslegan hátt í Erninum og Fálkanum. Skáldsagan er full af ýmiskonar draugagangi, sem á stundum tekur á sig táknrænar myndir en skilur lesanda fyrst og fremst eftir með vangaveltur um sögu, tíma, skáldskap og veruleika.
úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2017