Beint í efni

Öskudagar

Öskudagar
Höfundur
Ari Jóhannesson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Samkvæmt kínverskri stjörnuspeki skipa árin sér niður á valin dýr, slöngu, apa, tígur, dreka og fleiri, í ár er ár svínsins. Samkvæmt íslenskri bókaútgáfuspeki skipa árin sér niður á valin bókmenntaform eða -greinar, eins og skáldsögu, glæpasögu, myndasögu, ævisögu og svo virðist sem árið í ár sé ár ljóðsins. Þegar hafa komið út nokkrar sterkar og fallegar (og skrýtnar og æstar) ljóðabækur, enn fleiri eru á leiðinni, væntanlega í öllum regnbogans litum.

Fyrir ári síðan var verðlaunum kenndum við Tómas Guðmundsson breytt í ljóðaverðlaun og gat sú gáfulega ákvörðun af sér hina gæfulegu ljóðabók Ingunnar Snædal, Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást. Og nú er önnur ágætis bók komin með stimpil Tómasar, Öskudagar eftir Ara Jóhannesson, hans fyrsta útgefna bók.

Bókin skiptist í þrjá kafla, Sjáöldur og silungar, Hvítur hamar og Þessar stundir og það verður að segjast strax að síðasti hlutinn er sá sísti, þó vissulega innihaldi hann skemmtilegar stemningar eins og endurminningu um sjoppuhangs á unglingsárum og lýsingu á fengsælli túngirðingu í roki. „Eftir storminn“ og „101 Darin“ eru hvorttveggja prósar í léttum tóni sem virka vel innanum frekar þunglamalegri ‘hefðbundnari’ ljóð í kaflanum.

Fyrsti hlutinn einkennist af náttúruljóðum með árstíðaívafi og í takt við fallegan titil inniheldur kaflinn margar fallegar stemningar, lýsingu á kirkju á siglingu, dálítið gamaldags sveitamynd og svo ljóð um mýri sem allir krækja fyrir „líka skáldin sem vilja frekar / yrkja um fjöllin því þau eru / tignarleg. Samt er meira blóð / í þér en þeim öllum til samans.“ Hér er hið nýja skáld að stíga fram og gefa dálitla yfirlýsingu, án þess þó að taka sjálft sig of hátíðlega.

Allt er þetta ósköp ágætt og vel gert án þess kannski að vera sérstaklega tilþrifamikið. Mesti fengurinn er hinsvegar af miðkaflanum, Hvítum hamri, en þar sækir höfundur í reynslu sína sem læknir og fléttar ljóðmál og læknamál saman á áhrifamikinn og áhugaverðan hátt. Ljóðin eru margskonar, „Morgunn“ lýsir atburðum eins morguns; á gjörgæsludeildinni lýsa lítil tungl og í Garðabæ fær húsbóndinn hjartaáfall. Á bráðamóttökunni nokkru síðar „rennur bein lína yfir grænan skjáinn“, eiginkonan bíður í angist og læknisins bíður erfitt hlutverk: „niðurlút orðin leysa landfestar sorgarferjunnar“. Í syrpu af ljóðum sem bera heitið „Stofa 1 - 6“ fylgjumst við með stofugangi, ljóðmælandi útskýrir „stökkbreytingar fyrir tveimur læknanemum / í rifnum gallabuxum“, í næstu stofu bíður gömul kona þess að fá að deyja, umkringd börnum sínum og í þessum liðlega prósa teiknar Ari upp frábæra skyndimynd af aðstandendum og ólíkum viðbrögðum þeirra og væntingum. Líkaminn rennur saman við ljóðmálið í „Stofu 4“, en sjúklingurinn þar hefur hlotið heilaskaða: „Blóðtappi lokaði spjallrásinni í síðustu viku.“ Lokaljóð kaflans ítreka þessa undarlegu stemningu sem skapast hefur, einhversstaðar milli lífs og dauða; í „Blóðgjöf“ fær myndmál hins bleika hests feigðarinnar alveg nýtt líf í samhengi við blóðgjafir til krabbameinssjúklings og í „Öskudegi“ hittum við aftur fyrir eldri konu sem minnir á unga stúlku, hún vill fá að halda gulu töflunum: „Þær minna mig á að ég ætti að vera þakklát fyrir hvern þann morgun sem ég fæ að sjá sólina koma upp. Þær minna mig nú aðallega á gular hjartatöflur. En þetta með sólina er flott.“

Þannig ferðast ljóðin óhikað milli hins kómíska og hins háfleyga og skelfilega og ná, eins og áður segir, að spanna vítt og breitt svið lífs og dauða og alls þar á milli. Bókmenntasagan geymir dálítið af bókmenntum sjúklinga sem lýsa baráttu sinni við sjúkdóma og dauða, skemmst er að minnast ljóðabókar Gylfa Gröndal, Eitt vor enn (2005), en þau eru færri dæmin sem lýsa reynslu líflæknisins á þennan íhugula og margradda hátt.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007