Það er eitthvað sérstaklega dýrmætt við það bessaleyfi sem barnabækur taka sér í bulli. Hugmyndafluginu er gefinn algerlega laus taumur og fyrstu skotmörkin eru raunsæi (sem er leiðindapúki) og trúverðugleiki (sem er fúll). Hláturtaugarnar eru kitlaðar hressilega í tveimur þýddum barnabókum sem einkennast af líflegu taumleysi, Ottólína og gula kisan (Æskan, 2008) eftir Chris Riddell, breskan barnabókahöfund og myndasöguhöfund og Doktor Proktor og prumpuduftið (Mál og menning, 2008) eftir norska glæpasöguhöfundinn Jo Nesbø.
Ottólína og gula kisan er að hluta til myndasaga eða myndabók, en þar er sagt frá Ottólínu sem er dálítið mikið ein heima því foreldrar hennar eru á stöðugum ferðalögum um fjarlæg lönd að safna furðulegum munum. Sér til halds og trausts hefur hún herra Normann sem er hárprúð norsk mýrarvera og afar fámáll. Saman sinna þau heimilinu og rannsóknum á glæpamálum, í þessu tilfelli skartgriparánum, en slík virðast tengjast dularfullu hvarfi kjölturakka. Eins og áður segir spila myndirnar stórt hlutverk, þær segja söguna að hluta til og bæta við hana á einn eða annan hátt. Þessum myndlýsingum fylgir stundum útskýringatexti sem fyllir enn betur uppí sögusviðið með ýmiskonar ævintýralegum smáatriðum og upplýsingum. Þannig eru sumar myndirnar eins og einskonar kort eða leiðbeiningar um innviði sögunnar.
Þýðing Ásdísar Guðnadóttur er sallafín og bókin í heild sinni bæði heillandi og falleg - og fyndin - saga af vináttu, heimilishaldi og glæparannsóknum.
Doktor Proktor og prumpuduftið er, einsog titillinn gefur til kynna, ekki alveg eins dömuleg bók og sagan um Ottólínu. Hér hittum við fyrir Lísu, sem er einmana, og Búa, sem er örsmár en afar orðheppninn strákur. Hann er nýfluttur í hverfið og verður vinur Lísu. Þau eru bæði tíu ára. Búi og Lísa eru klárir krakkar og þegar Búi hittir Doktor Proktor sem ætlaði að finna upp duft sem kemur í veg fyrir að fólk prumpi, en kemst að því að uppfindingin hefur þveröfug áhrif, þá sjá þau alveg til hvers er hægt að nota duftið - þjóðhátíðardagurinn nálgast og þá vilja allir jú heyra sprengingar!
Sögusviðið er Osló og við sögu koma anakonda, illskeyttir tvíburar, kóngurinn og liðsforinginn, pabbi Lísu, auk ýmissa annarra. Prumpuduftið reynist búa yfir ýmsum möguleikum sem gætu reynst mikilvægir, ekki síst þegar í ljós kemur að í einni blöndunni er það svo öflugt að fólk hreinlega tekst á loft. Myndir Pers Dybvig eru óreiðukenndar í anda sögunnar og skapa henni ákaflega viðeigandi umgjörð.
Eiríkur Örn Norðdahl er handhafi íslensku þýðingaverðlaunanna og sýnir hér að hann er vel að þeim kominn. Þýðingin er hnökralaus og grípur fullkomlega tóntegund og andrúmsloft þessarar dásamlega klikkuðu sögu.
Báðar bækurnar eru sérlega skemmtileg dæmi um lifandi ímyndunarafl, léttleika og skemmtilegheit, eitthvað sem er ákaflega mikilvægt að börn og fullorðnir fái að njóta og gleðjast yfir.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008