Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart þegar fólk talar um glæpasögur sem eitthvað eitt og einfalt svið – og þá yfirleitt eitthvað sem óhætt er að líta niður á og afgreiða í sviphendingu. Glæpasögur, sem einnig eru kallaðar sakamálasögur, spennusögur, krimmar, leynilögreglusögur, gátusögur eða bara ævintýri (sbr. ævintýri Sherlock Holmes), eru eins fjölbreyttar og þessi fjölbreytilegu heiti yfir þær gefa til kynna. Sumar eru æsispennandi, aðrar hægfara og íhugular, sumar eru hrollvekjandi og blóðugar, aðrar kúnstugar og dularfullar. Og sumar eru huggulegar, en undanfarið hefur hinn svokallaði ‚kósí krimmi‘ náð gífurlegum vinsældum – á ný, en sjálf drottning glæpasagnanna Agatha Christie er aðalhöfundur kósí krimmans.
Jónína Leósdóttir vísar einmitt til hennar í Óvelkomna manninum, þriðju skáldsögu sinni um Eddu, þegar sonur Eddu segir önugur: „Það hefur stigið þér gjörsamlega til höfuðs að tengjast tveimur lögreglumálum, mamma. Þú ert kominn með einhvern Miss Marple-komplex!“ (58)
Óvelkomni maðurinn hefst á því að maður fellur niður af svölum í íbúðablokk Eddu. Svo virðist sem hann hafi verið gestur í samkvæmi á hæðinni fyrir ofan hana, en þar býr fjöldi erlendra verkamanna. Edda, sem hefur vingast við verkafólkið, tekur strax til við að skipta sér af rannsókn málsins og kemur víða við á leið sinni. Samhliða þessu aðstoðar hún tengdason sinn við að hjúkra móður hans, en sú fékk einhverskonar taugaáfall sömu nótt og maðurinn féll til jarðar. Það er því í nógu að snúast hjá Eddu og þeir sem þekkja hana úr fyrri bókum geta strax komið sér þægilega fyrir og fylgst af ánægju með þessari ráðdeildarsömu og góðhjörtuðu konu.
Í fyrstu Eddu bókinni kom fram að hún er fráskilin með tvö uppkomin börn, komin á eftirlaun, en hafði verið verslunarstýra í bókaverslun. Henni leiðist afskaplega að hafa ekkert fyrir stafni og er því dugleg að finna sér eitthvað til dundurs, eins og það að blanda sér í lögreglumál. Þar er hægt um vik því dóttir hennar er blaðamaður og gift lögreglumanni. Ekki eru börnin og tengdabörnin þó með öllu ánægð með framtakssemi móðurinnar, eins og fram kemur í orðum sonarins Snorra hér að ofan. En hún fer sínu fram og reynist ekki síður glúrin en fyrrnefnd Miss Marple. Fyrstu bækurnar tvær, Konan í blokkinni (2015) og Stúlkan sem enginn saknaði (2016), einkenndust af fjölbreyttum áhugamálum Eddu, svo að glæpamálin sjálf urðu eiginlega aukaatriði. Það gerði lestur sagnanna vissulega ekki síðri, því málin sem tekin voru til umfjöllunar voru áhugaverð og áleitin, en hinsvegar vantaði svolítið upp á að glæpasagnaramminn væri nægilega sannfærandi. Það var næstum eins og höfundur hefði ekki alveg gert upp við sig hvort hún væri að skrifa krimma eða sögu af frískum og forvitnum eftirlaunaþega.
Í þessari þriðju bók gengur hinsvegar allt upp. Sakamálin og rannsókn þeirra fléttast fumlaust saman við félagsvirkni Eddu og sem fyrr er hin persónulega nálgun á samfélagslega þætti vel heppnuð.
Jónína hefur komið víða við á afar fjölbreyttum rithöfundarferli og þessi nýjasta viðbót í fríðan flokk ritverka hennar er sérdeilis ánægjuleg. Húmorinn og hlýjan sem einkenna verk hennar gera þau afar læsileg og á einhvern hátt ‚nærtæk‘; ég minnist orða frænku minnar sem lýsti vinsælum kósí krimmum þannig að þar væri mannbætandi lestur. Jónína er afburða stílisti og hefur gott vald á íslensku máli – og líka húmor fyrir því, en umræða um málfar er reglulegt stef í bókunum.
Þegar rætt er um nútímabókmenntir og mikilvægi þess að fjalla um nútímann í bókum er krafan iðulega sú að þar sé fjallað um ungt fólk og menningu þess, enda sé það hvað best í stakk búið til að skilja og skynja strauma og stefnur þeirrar tæknivæðingar og fjölmiðlunar sem einkenna samfélagið í dag. Vissulega er mikið til í þessu, en jafnframt ljóst að slík sýn er alltaf ákveðnum takmörkunum háð. Í þessari umræðu vill oft gleymast að glæpasagan er sú tegund bókmennta sem hvað mest hefur tekist á við samtímann, einmitt í tengslum við tæknivæðingu og fjölmiðlun, en einnig samfélagsgerð og –átök. Eddu bækur Jónínu koma með ferskan vinkil á hvort tveggja – já, ég segi ferskan, þó kósí krimminn eigi sér hundrað ára sögu – þær fjalla um nútímann, en út frá sjónarhorni fullorðinnar konu, eftirlaunaþega sem er fullfrísk og fær, líkt og reyndin er með meginþorra eftirlaunaþega í dag. Samhliða nýtir Jónína glæpasagnaformið til að skoða ýmis samfélagsleg málefni og mein og svo auðvitað að búa til skemmtilegt plott!
úlfhildur dagsdóttir, mars 2018