Beint í efni

Rimlar hugans: ástarsaga

Rimlar hugans: ástarsaga
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Skáldsagan er ólíkindatól og hefur margsýnt það og sannað að hún rúmar alls konar form og textagerðir. Einar Már notfærir sér það í nýjustu skáldsögu sinni, Rimlum hugans, þegar hann fléttar saman bréfaskáldsögu og sjálfsævisögulegan texta í eins konar esseyju- eða dagbókarformi. Bréfaskáldsagan á sér langa og virðulega hefð og oftar en ekki eru það ástir af ýmsu tagi sem þar eiga heima eins og í Julie ou la nouvelle Héloise eftir Rousseau og Les liaisons dangerouses eftir Laclos. Þótt franska 18. öldin virðist fjarlæg Reykjavík 21. aldar þá leyfi ég mér samt að bregða hér upp smá hliðstæðu. Í verki Laclos gefur að líta inngang þar sem höfundurinn segist hafa fundið bréfin sem eftir fylgja; „ástir" líbertínanna sem lýst er í verkinu eru frásagnir af vægast sagt óæskilegri hegðun og því varla tilhlýðilegt efni í skáldsögu, en með því að nota bréfaformið fær lesandinn þeirra sjónarhorn milliliðalaust, án þess að dómur sé lagður á hugmyndir þeirra, skoðanir eða hegðun. Að ástir skulu einmitt oft verða fyrir valinu er heldur ekki tilviljun – því það er einmitt þar sem elskendur velta fyrir sér tilfinningum sínum, lýsa þeim og gera tilraun til að tjá þær; þar birtist einkaheimur elskendanna, sem að jafnaði er manni lokaður. Bréfaformið leyfir því frásagnir af jaðrinum, frásagnir af því sem við annars höfum ekki aðgang að.

Rimlar hugans segir sögu þriggja persóna – annars vegar sögu parsins Einars Þórs og Evu – sem er mestmegnis sögð í gegnum bréfaskriftir þeirra á milli meðan Einar Þór dúsar í fangelsi – og hins vegar sögu sögumannsins Einars Más, sem eins og þau á við fíkn að etja. Einar Þór og Eva eru fíkniefnaneytendur sem hafa átt í alls konar basli og þegar hér er komið við sögu hefur Einar Þór verið settur inn fyrir fíkniefnasölu. Einar Már útskýrir að Einar Þór hafi skrifað honum bréf sem sé kveikjan að skáldsögunni og hann hafi síðar fengið að skoða bréfaskriftir parsins – hann er því eins og Laclos með „fundin" bréf í höndunum.

Undirtitill nýjustu skáldsögu Einars Más er ástarsaga – og í verkinu er að sjálfsögðu eina slíka að finna milli Einars Þórs og Evu. Ástarsögur í bókum og kvikmyndum einkennast gjarnan af því að elskendurnir nái að yfirvinna einhverja örðugleika sem standa í vegi fyrir ást þeirra og nái svo saman í lokin. Hér er það fangelsisvistin sem sundrar hinu ástfangna pari, en ást þeirra virðist þó aldrei í hættu samkvæmt bréfunum, þau verða ekki hvort öðru afhuga eða láta bugast, því verða ekki beinlínis nein hvörf í ástarsögunni sjálfri. Hins vegar er önnur „ástarsaga" þarna líka, ástin á áfenginu, dópinu og öllu því. En sú saga einkennist af óumflýjanlegri endurtekningu ógæfunnar (svo ég steli frá sjálfri mér setningu úr öðrum dómi um aðra bók), þar til botninum er náð, eins og sagt er, og hvörf verða, frelsun frá fíkn, skilningur á eigin hegðun, fortíð og vanda – og þessi saga snertir allar þrjár persónur bókarinnar.

Einar Már hefur skýrt frá því í viðtölum að hann hafi sett sjálfan sig í söguna og eigin baráttu við fíkn til að sýna framá að hann sé ekkert öðruvísi en þau Einar Þór og Eva – fíknin hjá öllum sé eins, hann sé ekkert „betri maður" en þau. En í textanum er einmitt áberandi hversu ólíkir þeirra heimar eru. Að eigin sögn býr hann við öryggi, trygga fjölskyldu, velgengni og frelsi; þeirra heimur er mun ógnvænlegri, hættulegri og á tímum vonlausari (t.d. þegar Eva á á hættu að missa börnin sín). Í fræðum sem fjalla um minnihluta, jaðarmenningu, innflytjendur og fleira í þeim dúr hefur oft verið rætt um hver eigi rétt á að tala fyrir ákveðinn hóp, fyrir hönd ákveðins minnihluta. Hér er það enn og aftur bréfaformið sem leysir þann vanda – við fáum að heyra raddir þeirra milliliðalaust, eða það er skáldsagan að minnsta kosti fær um að telja okkur trú um.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2007