Beint í efni

Rokland

Rokland
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
Klett-Cotta
Staður
Stuttgart
Ár
2006
Flokkur
Þýðingar á þýsku
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Hallgrímur Helgason býr til risavaxnar PERSÓNUR í verkum sínum, með hástöfum og feitletraðar. Þessir útblásnu karakterar fylla út í verkin og vitund þeirra gerir jafnvel ítrekaðar tilraunir til að losa sig úr viðjum skáldsögunnar og fylla út í samtímann. Þetta á við um Hlyn Björn í 101 Reykjavík og Ragnheiði Birnu í Þetta er allt að koma og Böðvar H. Steingrímsson aðalsöguhetja Roklands, nýjustu skáldsögu Hallgríms, er hér engin undantekning. Þetta er saga hins ‘ekki-svo-bráðunga’ manns sem kemur heim eftir dvöl í útlöndum, nánar tiltekið á Sauðárkrók, og þolir ekki pleisið – eða landið. Hann óskar þess helst að Íslendingar gengju um götur og læsu Goethe í stað þess að leigja mynd, borða rusl og drekka kók. Augljóslega löngu töpuð barátta. Og vandinn er að ef honum yrði að ósk sinni þá myndi hann tapa sérstöðu sinni og þar með sinni brothættu sjálfsmynd. Það mætti segja að hann þrái að verða Don Kíkóti – Söguhetja Skáldsögunnar með stórum staf – en göfuglyndið lætur á sér standa. Í stað þess er hann gríðarlega sjálfsupptekinn og oftast lítilmótlegur og missir af risunum í leit sinni að vindmillum.

Það er samtíminn sem hér er í forgrunni eins og áður í verkum Hallgríms, og hér sérstaklega menningarneysluvenjur nútíma Íslendinga. Samasemmerki er sett á milli dægurmenningar, sjónvarpsmenningar, amerískra áhrifa og ruslmenningar og Böddi sér merki um þetta menningarleysi út um allt sitt samfélag og ekki síst í ‘söluskálunum’, þar sem flíspeysurnar og hamborgararnir ráða ríkjum og minnir á ‘Borgarneshrollinn’ sem óneitanlega grípur um sig á sölustöðunum þar. Böddi vill ruslið burt, gera fólk meðvitað um heimsku sína, gera þjóðina þjóðlegri, en fyrir utan að mæla frekar með skyráti en frönskum kartöflum þá er frekar óljóst hvað átt er við með því – mótvægið við ruslið og draslið lýsir sér fyrst og fremst í einhverri þrá eftir þýskri fortíð sem aldrei var. Samtímaádeilan er hávær og beinskeytt, sem kallar oft á viðbrögð lesanda á borð við, ‘já, ég veit, þetta er óþolandi’, en að sama skapi er umræðan einsleit og andmæli gagnslaus.

Böddi fetar veginn niðrávið markvisst og af sérkennilegri innri sannfæringu. Ýmsir verða á vegi hans á þeirri leið, sem lesandinn kynnist í gegnum sjálfsupptekna sýn Bödda, þarna eru komnar hóran og gyðjan, sem þó skipta um hlutverk áður en yfir líkur, barrekandinn sem heldur utan um einhvers konar alternatívt samfélag, sjónvarpsmettuð móðir Bödda og bróðir hans leikarinn sem selt hefur sig ruslmenningunni. Þótt frásögnin sé ekki fyrstu persónu frásögn, þá renna saman rödd söguhöfundar og Bödda í eina og því ekki gefið færi á fjarlægð á hans sýn að neinu marki. Þetta getur virkað örlítið ruglandi, sérstaklega í byrjun, en svo er eins og frásögnin fóti sig betur og samræmið verður betra sérstaklega í síðustu köflunum, þegar Böddi heldur á vit sinna sérstæðu örlaga.

Eftir óformlega könnun kom í ljós að lesendur Hallgríms skiptast í tvo hópa; annar hópurinn hlær hátt og lengi að orðaleikjabröndurunum og allri nýyrðasmíðinni og stuðlunum, hinum hópnum þykir nóg um. Öðru hvoru gerist það í þessu verki að höfundur dettur út úr ofhlaðna málfarinu sem hann er þekktastur fyrir og var það fyrir þennan lesanda nokkur léttir. Þessi gífurlega meðvitund um tungumálið getur orðið þrúgandi og þá verður erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum. Það skín líka í gegn mjög sterk meðvitund um að hér sé verið að skapa ‘persónu’, persónu sem helst endar með að verða að lýsingarorði. Það verður til þess að stundum langar lesandann helst af öllu að vísa Bödda á dyr, henda honum út, en í Roklandi er enginn séns að flýja hann og hans brjál-skynsemisrödd.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2005