Beint í efni

Sextíu kíló af kjaftshöggum

Sextíu kíló af kjaftshöggum
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Hallgrímur Helgason er einn þekktasti höfundur landsins hvort sem er hérlendis eða erlendis. Hann hefur sent frá sér fjölmargar skáldsögur en sló í gegn á alþjóðasviðinu með verkinu 101 Reykjavík (1996). Verk hans hafa oft verið umdeild og vakið mikla athygli þar á meðal Höfundur Íslands (2001) og Konan við 1000 gráður (2011) en í verkunum nýtir Hallgrímur sér ævisögur þekktra einstaklinga á afdrifaríkan hátt. Hallgrímur er einnig þekktur fyrir þátttöku í bæði stjórnmála og menningar umræðu hér á landi  og hefur verið óhræddur við að munda ugluspegillinn. Í þessu verki er hann hinsvegar á þjóðlegri nótum þar sem hann hefur ákveðið að lýsa þeim miklu umbreytingum sem urðu í atvinnulífi landsins snemma á tuttugustu öld.

Sextíu kíló af kjaftshöggum (2021) er framhald á verkinu Sextíu kíló af sólskini sem kom út 2018. Verkin fjalla um lífið við Seglufjörð frá lokum nítjándu aldar. Hér er um að ræða skáldaðan fjörð á Norðurlandi þar sem Gestur Eilífsson fæðist í litlu koti sem verður skriðu að bráð, svo Gestur litli endar á vergangi með föður sínum Eilífi. Í þessu öðru bindi hittum við Gest fyrir í Strandabænum þar sem hann er orðinn fyrirvinna fjölskyldu sinnar. Hann glímir enn við áföllin sem dundu á þeim í fyrra bindi og á erfitt með að sjá leið út úr fátækt og tilbreytingarleysi. En brátt fer sjórinn að iða og nýr tími hefst á Segló með komu síldarinnar. Við fylgjumst með Gesti í gegnum uppbyggingu og framfarir og sjáum hann reyna að fóta sig á nýrri öld.

Stíll verksins er hraður prósi, raunar eins og ólgusjór, en Gestur lýsir því best sjálfur í hugleiðingum sínum um lífið þegar segir: „Gesti varð hugsað til þess að hér í þessari slorveröld, þessu plankaplássi, fengi engin stund að standa ein, önnur næði alltaf að abbast upp á hana“ (509 - 510). Stundum veit lesandi hreint ekki hvaðan á hana stendur veðrið. Í upphafi er líkt og við séum mætt í einhverskonar norðlenska útgáfu af Alló Alló eða Benny Hill þar sem Gestur má sig hvergi hræra án þess að eiga á hættu að vera dregin á tálar. Allstaðar eru brjóst og mjaðmir sem þrýsta sér að honum eða reyna að draga hann út í hlöðu. Þá taka við lýsingar á uppbyggingu á Segló og síldarævintýrinu sem minna helst á Birting eftir Voltaire nema hvað Gestur þarf ekki sjálfur að leita að Eldóradó, það kemur einfaldlega til hans. Um miðbik bókar erum við stödd í köldum reifara og Gestur skellir sér í hlutverk spæjarans en gefst þó fljótt upp á leynilögreglustafi sínu og bókin fær á sig þann blæ sem helst einkennir hana: en það er nítjándu aldar skáldsagan með sínum lýsingum á ástum og örlögum fjölskyldunnar sem speglast í mikilfegnum lýsingum á umhverfi sögunnar. Í raun minnir þetta um margt á Charles Dickens. En í bullandi líkamleika og grótesku bergmálar bæði þekkt miðaldaskáldsaga franska höfundarins Rabelais um risann Gargantúa og fyrri verk Hallgríms sjálfs á borð við 101 Reykjavík. Bókin kallast svo líka á við íslenska bókmenntahefð með öllum sínum karlægu ömmum og síldarspekúlöntum á ‚jaket‘ auk þess sem flutningaskipið Argó siglir um firðina en flís úr því spinnur íslenskar kjaftasögur frekar en grískar eins og fleygið sem birtist í skáldsögunni Argóarflísin eftir Sjón.

Sögumaður er yfir og allt umkring, sjálfur lýsir hann sér svona: „Höfundurinn, sem ætíð er ugla í eigin verki (sjaldséð en alsjáandi), situr stóreygur á kirkjugarðsvegg og svarar því til að þarna vaki prestsmaddaman gamla, drottning fjarðar, á efri hæð í Maddömuhúsi (5).“ Oftast hvílir sjónarhornið á öxl Gests og sögumaður hleypir okkur inn í hugarheim hans þegar þurfa þykir. Sögumaður er staddur á okkar tímum, og vísar þannig ítrekað í samtíma lesanda máli sínu til skýringar. En hugmyndafræði og orðanotkun eru bundin sjónarhorni þess tíma og staðar sem sögumaður lýsir. Hann er karlugla, með eindæmum karllægur og hleypir sjaldan lesanda inn í hugarheim kvenna og nærri eingöngu þegar hugsanir þeirra eða samtöl snúa að karlmönnum. Hann beitir því sem á íslensku hefur verið nefnt karlmanns-gón (male gaze) á allt innan verks og konum þannig lýst eftir líkamsburðum og metnar af verðleikum eftir líkamslögum. Hér er auðvitað um skopstælingu að ræða en þegar líður á söguna verður sögumaður svo samdauna þessu karlrembu sjónarhorni að gagnrýnin virðist gufa upp. Dæmi um það er hvernig sögumaður lýsir 13 ára fátæku barni: „Sú var þrettán ára skass“ (82-83). Og svona skýrir sögumaður staðhæfingu sína um það að síldarstúlkurnar á Segló hafi ekkert verið að spá í kvenfrelsi: „Þetta var reyndar kvenfrjálsasti bær landsins, hér störfuðu konur utan heimilis, hér höfðu þær sumar hverjar karlmannstekjur, hér höfðu fyrstu konurnar þegið peninga fyrir vinnu sína, hér höfðu þær fundið sitt atvinnufrelsi, mátt sinn og megin, tekið skrefið út úr eldhúsunum. En það höfðu þær tekið með fótunum einum, hugsunin hafði ekki fylgt. Hér voru konur sem létu verkin tala en syðra höfðu þær hugsað þetta út og fylgdust með alþjóðlegum straumum“ (522-523). Á köflum virðist sögumaður þannig gleyma íróníunni og sökkva djúpt í ríkjandi hugmyndir fyrri tíma og notar hugtök á borð við kviðmág og evrópskur kynstofn gagnrýnilaust. Hann veltir mikið fyrir sér eðli íslendinga og virðist þá hugsa um þá sem eina þjóð óháð einangrun Segló og gjá milli stétta.

„Aðrar þjóðir stigu út úr hellinum, sigldu út á heimsbrún eða settu fót á tunglið. Ekkert þeirra skrefa var þó stærra en þetta: Þegar íslenska þjóðin kom í heiminn og flutti sig af moldargólfi á timburgólf, úr mógröf í hús“ (402-3). Íslendingar  eru ein þjóð í einu landi og framfarir allsráðandi og það er svolítið skondið fyrir nútímalesenda að fylgjast með ofveiði og mengun hefjast undir þessum jákvæðu formerkjum.

Í verkinu fylgjum við þróun Segló frá aldamótum fram yfir heimstyrjöldina fyrstu og frostaveturinn mikla. Lesendur ættu flestir að kannast við þessa atburðarás sem hefur verið ágætlega kynnt í íslenskri bókmenntahefð en mætir hér lesenda á fullri ferð. Verkið er stútfullt af litlum furðusögum og aðalfrásögnin um Gest er grípandi. Og þó að fátækt og armæða sé mikil þá léttir sögumaður lesanda lífið með kímni sinni og orðaleikjum. Sögumaður er í raun mjög hjálpsamur og verkið vel aðgengilegt og notalegt á þann hátt að lesandi fær að fylgjast með afdrifum allra þeirra persóna sem hún hefur tekið ástfóstri við. Verkið uppfyllir því allar kröfur sem gerðar eru til góðrar framhaldssögu og í lokin er heldur enginn efi um ætlun sögumanns að leyfa lesanda að fá að hitta Gest í nýjum ævintýrum.
 

Rósa María Hjörvar, desember 2021