Hafið hefur löngum verið uppspretta skáldskaparmála ýmiskonar, enda afskaplega skáldlegt fyrirbæri, nátengt dulvitundinni og móðurinni. Hafið hefur þó ekkert endilega verið nærtækt íslenskum skáldum, þrátt fyrir að umlykja landið linnulaust. Það eru helst skáld sem tilheyra (eiginlega ekki) nýrómantíkinni sem hafa fjallað um hafið, eins og hinn dramatíski Einar Benediktsson og þær systur Herdís og Ólína Andrésdætur. Á síðari hluta tuttugustu aldar virðast sjómannalögin hafa tekið við því hlutverki að fjalla um hafið, en einnig má nefna Hannes Pétursson og Þorstein frá Hamri, en sá síðarnefndi heldur sig að mestu á dýpinu, í innra dýpi mannsins sem hafið verður að táknmynd fyrir. Vissulega eiga mun fleiri skáld í fórum sínum falleg ljóð um hafið, en þó eru ekki svo mörg sem eru sérstaklega tengd þessu viðfangsefni.
Þeir höfundar hafsins sem koma hvað helst upp í hugann eru kannski ofurlítið ólíkir, en það eru þau Jón úr Vör og Björk. Í ljóðum Jóns birtist hafið oft sem fulltrúi dauðans en í söngtextum og myndböndum Bjarkar er hafið gnægtabrunnur lífsins og undirfurðulegra ævintýra. Skáldið sem kallar sig Elías Knörr stendur nær Björk en Jóni, en þó má einnig greina þá tóna sem einkenna ljóð Jóns, tilfinningu fyrir óendanleika og eilífð, og að lokum dauða.
Ævintýrið er þó mest áberandi í ljóðabókinni Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum. Þar leggur skáld út á hafið, sem er mjög greinilega táknmynd skáldskaparins og þetta tvennt því lagt að jöfnu eins og kemur fram í þessu ljóði:
Nauðsynlegt er
að kasta botnvörpu
frá himninum
og draga rústir gegnum daganaslík eru örlög og fæðing ljóða
Skáldið er sæörn og hvalur
og kyngir hafinu
Þessi samfella ljóðs og hafs kemur ekki í veg fyrir að hafið sé ráðandi mynd ljóðanna og lesandinn fylgi sæfaranum í ýmis ferðalög á sjó og landi, oft undir vökulu auga mánans.
Annað einkenni ljóðanna eru svokölluð kynstur. Í skáldskaparhafinu fer kynið mjög á flot, eins og kemur strax fram á forsíðumynd bókarinnar, sem sýnir einskonar hermafródítu, tvíkynja einstakling með kúpt brjóst og silkimjúkt skegg. Titillinn ítrekar þetta svo: sjóarinn er í kjól. Sjóarinn virðist því vera ýmist kona eða karl og á erótísk samskipti við bæði kynin, þó konur séu meira áberandi. Að einhverju leyti gengur sjóferðin um skáldskapinn út á að finna sér kyn, eða einhverja staðfestu í því máli. Þetta kemur fram snemma í bókinni en þar „vaknar stúlkan í völundarhúsi / og blæðir sig blinda / Hún á heima í spegilmyndum”. Næsta ljóð hljómar svo:
Nei, þegar ég vakna mun ég ekki tendrast og verða dæmi-
gerð klausturnunna hangandi í loftinu eins og skrautlegasti
lampi. Nei, ég ætla að verða heimsendasjóari og flakka um
höfin og sjávartóftir og rústir og saltar leifar, þangað til ég
finn mér róandi spegilmynd. Þangað til ég get sofnað aftur.
Og þar með hefst ferðalagið sem heldur áfram út alla bókina, en hún er í raun einskonar ljóðabálkur, óður til hafsins, skáldskaparins og ævintýrsins. Súrrealískt myndmál er áberandi, enda á það ákaflega vel við þegar fjallað er um undirdjúpin. Súrrealisminn inniheldur stundum beinar tilvísanir til súrrealískra verka, eins og í þessu ljóði sem óneitanlega kallar fram mynd eftir belgíska málarann Magritte:
Í minningum hrynur orrustuskip úr steini
Þetta var flakkandi kastali
sem rakst á brjóst mitt
Á stundum má einnig sjá bregða fyrir táknsæi módernismans í anda Steins Steinars eins og í þessum línum: „Sofandi syndi ég til þín / einsog steinninn sem fellur í gleymsku”. Helsta einkenni bókarinnar er þó leikurinn með myndmálið og sá léttleiki sem einkennir ljóðin, þrátt fyrir þunga undirtóna.
Þannig virkar verkið umfram allt eins og stórstreymt úthaf með stöðugum öldugangi, flóði og fjöru. Ljóðin mynda einkennilega heillandi og afar óreglulega hrynjandi sem endurspeglar ákaflega vel viðfangsefnin, allt er einhvernveginn ánægjulega á floti: „Sjóarinn flæðir / Froðan hans / dreifist á nýjum tungum” segir á einum stað, en ljóðið hefst á því að „Sjóarinn bráðnar á landi”. Allt þetta flæði er einnig ákaflega hlaðið erótík, sem iðulega fylgir kynstrunum en á einnig vel við sjávarmyndmálið. Þetta kemur meðal annars fram í því hvernig sjóarinn og skáldið rennur saman við hafið, líkt og í tilvitnuninni hér að framan. Skoðum eitt blautlegt ljóð:
Þegar ég datt í dúnalogn
hitti ég bardagadömu
Hún var drottning með sjóaraaugu
og drottningarlegt bragð á skutli
Hún sá mig
og hóf hvalveiðar í kviði mínum
Hún fróaði mér með illviðri
Hér renna kynstrin saumlaust saman við hafið og erótíkina, myndmálið vísar í allar áttir, drottningin er bæði kona og karl (skutullinn) og ljóðið er rammað inn af ólíkum veðrum, frá dúnalogni til illviðris. Hvalir koma reglulega við sögu og virðast iðulega þjóna því hlutverki að vera einskonar táknmyndir lífsins í hafinu, tilfinning fyrir einhverju stóru og voldugu djúpt í iðrum sjávarins.
Ég gæti vel haldið áfram að ferðast með sjóaranum með morgunhestana undir kjólnum og baða mig upp úr ljóðum hans, en læt þetta duga að sinni og hvet í staðinn lesendur eindregið til að demba sér sjálfir í þetta skáldlega sjósund.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010.
P.S. Eftir að þessi umfjöllun birtist kom höfundurinn fram undir réttu nafni. Hann heitir Elías Portela og er frá Galisíu. Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum er fyrsta bók hans á íslensku.