Beint í efni

Skálmöld

Skálmöld
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Sæmundsson

Skálmöld er fjórða og jafnframt síðasta bók Einars Kárasonar um atburði og persónur Sturlungaaldar. En þótt Skálmöld sé síðasta bókin í Sturlungakvartett Einars er hún ekki framhald Skálds (2012), þriðju bókarinnar, heldur er um að ræða svokallað „prequel“. Skálmöld er með öðrum orðum fyrsta bókin í kvartettnum, en þar er fjallað um atburði sem eiga sér stað á undan þeim sem fjallað er um í Óvinafagnaði (2001).

Persónan „EK, árið 2014“ kveður sér þrívegis hljóðs í Skálmöld, en um ástæður skrifanna hefur hún þetta að segja:

Og það var ekki fyrr en eftir það að við mér blasti að ég hafði þrátt fyrir allt farið yfir megnið af því tímabili er við köllum öld Sturlunga, nema sjálfa byrjunina; hvernig þetta fór allt af stað. Bókin Óvinafagnaður hefst á því að Þórður kakali heyrir um mikil tíðindi sem gerst hafa á Íslandi en ég hafði enn ekki skrifað um hvernig þeir atburðir gengu fyrir sig. (21)

Þeir atburðir sem „EK“ vitnar til eru Örlygsstaðabardagi og aðdragandi hans, en árið 1238 laust hersveitum feðganna Sighvats Sturlusonar og Sturlu Sighvatssonar (bróður Þórðar kakala), og liði Kolbeins unga Arnórssonar og Gissurs Þorvaldssonar saman í blóðugum átökum sem áttu eftir að draga dilk á eftir sér eins og fjallað er um í Óvinafagnaði.

Í Skálmöld beinir Einar kastljósinu að Sturlu Sighvatssyni og klifri hans upp metorðastigann. Þrátt fyrir að vera ekki elsti sonur Sighvats er Sturla augasteinn föður síns, allt frá því hann lítur hann fyrst augum:

[Ég] sá og fann að hans beið mikil framtíð og glæst. Það var eitthvað í svip hans, yfir honum var öryggi og og rósemd af því tagi sem enginn tengir við nýfædd börn. Strax og hann sýndi svipbrigði sá maður gjörhyglina í öllu hans fasi og þegar hann fór að tala þá vakti það undrun mína hvað drengurinn var hittinn á snjallyrði og skýra hugsun. Og augnaráðið himinblátt undir ljósu hárinu. [...] Ég sá strax og æ því betur sem hann óx meira úr grasi að hann væri höfðingjaefni, kannski til alls landsins – enginn var til forystu fallinn sem hann. (5-6)

Sighvatur ætlar syni sínum stóra hluti og gerir sitt til að greiða götu hans. Og í leiðinni traðkar Sighvatur á frumburðarrétti Tuma, elsta sonarsins, sem hann hefur reyndar aldrei gert tilraun til að tengjast. En þrátt fyrir gott atlæti og yfirdrifið sjálfsöryggi er Sturla hálfgerður gallagripur, einfaldur oflátungur sem er þó undarlega atkvæðalítill á ögurstundu. Einar dregur bresti Sturlu sérstaklega vel fram í þeim köflum sem aðrar persónur hafa orðið, en höfundurinn beitir sömu frásagnaraðferð og í fyrri bókunum þremur, þar sem persónurnar skiptast á að segja söguna í stuttum og snörpum köflum.

Sögumenn eru margir og af öllum stigum; höfðingjar, eiginkonur, guðsmenn, bændur og kóngafólk, og áðurnefndur „EK“. Þessar höfundarklausur er skemmtilegar og brjóta upp frásögnina, en það hefði þó mátt vinna markvissar með þær. Annars er þetta allt afar vel gert, eins og Einars er von og vísa. Uppbygging sögunnar er góð og höfundi nær að skapa og viðhalda spennu, þótt flestum sé eflaust kunnugt um málalyktir Örlygsstaðabardaga.

Með Skálmöld setur Einar punktinn aftan við Sturlungasögu sína, magnaðan kvartett um þetta róstusama tímabil – þessa skálmöld – þar sem aðsópsmiklir og dramblátir höfðingjar steyptu sjálfum sér og öðrum í glötun, drifnir áfram að valdasýki og blindum metnaði.

Ingvi Þór Sæmundsson, desember 2014