Æviágrip
Einar Kárason fæddist 24. nóvember 1955 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1975 lagði hann stund á nám í almennri bókmenntasögu við Háskóla Íslands til 1978. Hann vann við ýmis störf meðfram námi til ársins 1978 en frá þeim tíma hefur hann verið rithöfundur að aðalstarfi.
Einar átti sæti í stjórn Rithöfundasambands Íslands á árunum 1984-1986, gegndi stöðu varaformanns 1986-1988 og stöðu formanns á árunum 1988-1992. Hann sat sem formaður Rithöfundasambands Íslands í stjórnum Bandalags íslenskra listamanna, Bókasambands Íslands, Fjölíss og IHM. Hann hefur átt sæti í stjórn Bókmenntahátíðar í Reykjavík frá 1985.
Einar tók að birta ljóð í tímaritum á árunum 1978-1980 en fyrsta skáldsaga hans, Þetta eru asnar Guðjón, kom út 1981. Tveimur árum síðar kom svo út fyrsta bókin í trílógíunni um lífið í einu af braggahverfum Reykjavíkur á eftirstríðsárunum, Þar sem djöflaeyjan rís. Hann hlaut Menningarverðlaun DV fyrir þá næstu, Gulleyjuna, 1986 en bókin var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ári síðar. Fyrirheitna landið var síðan tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1989. Leikrit byggt á bókunum var sett upp af Leikfélagi Reykjavíkur og sýnt við miklar vinsældir. Einar skrifaði jafnframt kvikmyndahandrit upp úr bókunum í samvinnu við Friðrik Þór Friðriksson leikstjóra og var kvikmynd hans, Djöflaeyjan, frumsýnd 1996. Einar og Friðrik höfðu áður unnið saman að handriti kvikmyndarinnar Skytturnar sem frumsýnd var 1987. Auk fjölda skáldsagna hefur Einar sent frá sér ljóðabók, smásagnasöfn og bækur fyrir börn, fyrsta barnabók hans, Didda dojojong og Dúi dúgnaskítur kom út 1993. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál.
Ritþing um Einar Kárason í Gerðubergi 15. apríl 2008
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Um höfund
Ferill Einars Kárasonar er ansi fjölþættur og spannar umfjöllunarefni allt frá átökum höfðingjaætta á Sturlungaöld, frásagnir af Reykjavík eftirstríðsáranna, Killianssögurnar, óborganlegar frásagnir af hinum uppátækjasama Eyvindi Stormi og nú síðast nóvellu um áhöfn á síðutogaranum Mávinum. Hér á vefnum birtast því tvær yfirlitsgreinar: Sú fyrri er eftir Gunnþórunni Guðmundsdóttur og nær fram að Sturlungakvartettnum og sú síðari er eftir Þorgeir Tryggvason sem tekur við þar sem grein Gunnþórunnar sleppir. Grein Gunnþórunnar hefst hér fyrir neðan; grein Þorgeirs kemur svo í kjölfar hennar.
Um verk Einars Kárasonar
Einar Kárason varð strax með fyrstu bókum sínum í upphafi níunda áratugarins vinsæll skáldsagnahöfundur. Hann hefur þó ekki haldið sig einvörðungu við skáldsöguna heldur einnig skrifað kvikmyndahandrit og barnabækur. Verk hans hafa verið þýdd á ýmis tungumál og meðal annars fallið í góðan jarðveg í Þýskalandi og á Norðurlöndum.
Skáldsögur Einars Kárasonar um líf stórfjölskyldu í einu braggahverfa Reykjavíkur á eftirstríðsárunum, Þar sem djöflaeyjan rís (1983) og síðar Gulleyjan (1985), urðu fljótt geysivinsælar bækur, síðar fjölsótt leikrit og loks vel látin kvikmynd. Ástæðan fyrir þessum vinsældum var ekki síst að auk þess að fjalla um merkilegt tímabil í sögu Reykjavíkur, undarlegar persónur og sérkennileg fjölskyldubönd, þá var hér á ferð hröð og spennandi saga sem lesendur vildu vita hvernig færi. Einar Kárason tók sjötta áratuginn með öllum sínum mótsögnum, öfgum og pólitísku hræringum og bjó til úr honum goðsagnakennt tímabil, og lífleg persónusköpun höfundarins og leikur með fjölbreytilegt talmál og slangur hafa orðið til þess að þessi heimssköpun hefur fests í þjóðarvitundinni svo það er vart hægt að minnast á braggahverfi án þess að líta til Eyjabókanna. Ljósmyndirnar sem skreyta Djöflaeyjuna staðfesta svo fyrir lesandanum að hér er byggt á raunverulegum atburðum sem gerðust á afmörkuðu tímabili og að sagan hefði ekki getað gerst á nokkrum öðrum tíma. Því verður goðsögnin trúverðugri og bókin fær því yfir sig nokkurn heimildabrag. Braggahverfin voru hluti af miklum umbyltingum í íslensku þjóðfélagi, og að þau skuli vera horfin fyrir all nokkru sveipar söguna enn meiri töfrablæ. Það er því gefið í skyn að lesandanum sé hleypt inn í horfinn heim, og þá kannski ekki að undra að Einar hafi síðar tekið að skrifa sögulegar skáldsögur, en aðdráttarafl þess forms byggir að nokkru leyti á svipuðum forsendum. Frásagnarmátinn er á margan hátt mjög hefðbundinn, og minnir á þjóðsögur og ýmis konar hetju- og raunasögur sem hafa verið festar á bók á ýmsa vegu. Mikilvægir atburðir eru oft kynntir til sögunnar með margvíslegum fyrirboðum, eins og þegar Baddi kemur fyrst frá Ameríku. Stundum er stíllinn eins og skýrt dæmi um munnlega geymd færða í letur, því að oft er vitnað í að eitthvað sé „frægt“, eða „lengi í minnum haft“, eða ákveðnir dagar eða kvöld voru „minnisstæð“. Og þó ekki sé beinlínis um töfraraunsæi að ræða þá er greinilegur þjóðsagnablær yfir fólki og stað.
Varðandi frásagnarmátann þá er það helst sterk tilfinning fyrir mismunandi talsmáta persónanna sem er eftirtektarverð. Þetta sést vel í samtölum, en einnig má segja að frásagnarmátinn sveigist að þeim persónum sem eru í forgrunni hverju sinni. Gott dæmi um þetta er upphaf Djöflaeyjunnar sem er að hluta sagt frá sjónarhóli ættmóðurinnar, Karólínu spákonu og er mjög litað sérstæðu orðfari hennar, en hún gleður lesandann með orðum eins og mannorðsþjófar, farísear og tittlinganámur. Einar notar mikið talmál í öllum verkum sínum, það sést til dæmis hvernig hann skeytir „einhver“ fyrir framan nafnorð, og notar „kannski“ töluvert, svona eins og til að draga úr alvisku sögumanns. Uppbygging Eyjabókanna er að sumu leyti losaraleg og virðist á stundum vera samtíningur ýmissa sögusagna, en stundum eru byggðir kirfilegir rammar í kringum frásögnina, eins og þegar höfundur samþjappar tíma, með því að láta fjölmarga mikilvæga atburði gerast á einum degi. Þannig koma ótengdir atburðir saman í magískt samband, eins og svakalegt fyllerí Badda og kattaslagsmálin í Tommabúð, og óskildir atburðir öðlast þá táknrænt gildi í bókunum.
Neðri stéttir þjóðfélagsins, þeir fátæku, ómenntuðu og lítils metnu, eru í nær öllum verkum Einars í aðalhlutverki. Hér er verið að segja sögu þeirra sem opinber saga nær sjaldnast til (nema þá helst í lögreglu- og læknaskýrslum), en boðskapurinn er oft málum blandinn. Þó að persónurnar séu vissulega upphafnar að ákveðnu marki, þá er sífellt grafið undan þeim væntingum að þetta fólk sé að einhverju leyti betra en fólk úr öðrum stéttum þjóðfélagsins. Því að þótt lukkan leiki við það og peningar fari að flæða inn eins og í Eyjabókunum og skáldsögunum Heimskra manna ráð (1992) og Kvikasilfur (1994), þá er lögð áhersla á að þetta fólk kunni ekki að fara með dýrðirnar, til þess hefur bilið milli væntinga og veruleika verið of stórt. En vegna þess að hér er fjallað um fólk sem stendur utan við opinbera sögu þá eru áberandi ýmis form óopinberrar sögu. Sérstaklega sést það vel í Eyjabókunum því þær eru yfirfullar af sögusögnum, slúðri og óbeinum sannindum. Höfundur sýnir líka fram á vald þess konar sögu og birtist það vel í konungi Eyjabókanna, Badda. Það voru til svo margar sögur, svo margar útgáfur af Badda að sögurnar voru alltaf óhjákvæmilega merkilegri en hann sjálfur. Sögurnar gerðu hann fljótt að goðsögn sem var vonlaust verk að standa undir. Baddi flæðir líka út yfir Eyjabækurnar og á sér eina sögu í Kvikasilfri. Höfundur gætir sín þó á að snobba ekki fyrir fátækt og fávisku og gerir grín að „menntamönnum“ sem snobba fyrir alþýðuvisku sem hvergi finnst, eins og í síðasta kafla Djöflaeyjunnar, þegar leikskáldið heilsar upp á Karólínu til að forvitnast um alþýðutrú og speki. Í síðustu Eyjabókinni, Fyrirheitna landið (1989), færist áherslan enn frekar yfir á dökku hliðarnar á þessum sérkennilegu tímum, þegar sjónarhornið færist yfir til barnanna sem þurfa að alast upp hjá þessu fólki. Þar eru gerðar meiri tilraunir með frásagnarmeðferð; saga Badda er sögð í læknaskýrsluformi og goðsögnin verður allt í einu ekkert annað en illa gefinn drykkjumaður, og sagan af dauða Karólínu er komin í búning skáldskapar upprennandi ungskálds. Í Fyrirheitna landinu má því finna úttekt á sögunni í heild, efasemdir um hvað liggi að baki þörfinni fyrir að segja sögu þessarar fjölskyldu og misskildu dálæti á fylliröftum og ístöðulausum kerlingum. Lesandanum er líka gefin innsýn í skrif Heimskra manna ráða og Kvikasilfurs þegar skotið er inn brotum úr viðtölum við sögupersónurnar. Kverúlantar og skrítimenni eru í miklu uppáhaldi hjá höfundinum og þegar best tekst til ná þeir að lýsa einhverju fyrirbæri eða einkenni en stundum verða persónurnar einfaldega einkennilegar (eins og til dæmis í smásagnasafninu Þættir af einkennilegum mönnum (1996)). Sumar persónugerðir finnast í fleiru en einu verki, þannig birtist Kristgeir í Heimskra manna ráðum seinna sem Víga-Glúmur í skáldsögunni Norðurljós (1998); menn sem eiga í stöðugum málaferlum sem ganga ekki út á neitt, en báðum er það talið til kosta að þeir kunni að tala illa um fólk.
Einar notar stórfjölskyldur til að tengja saman margar sögur bæði í Eyjabókunum og í Heimskra manna ráðum og Kvikasilfri. Í Eyjabókunum verður heimili stórfjölskyldunnar, Gamla húsið, tákn fyrir ris og hnig fjölskyldunnar og endanlega auðmýkingu hennar þegar það er rifið í lok Gulleyjunnar og það er látið ramma inn söguna. En fjölskyldusögur bera með sér kosti og galla. Í fyrsta lagi geta fjölskyldur veitt eðlilegan ramma og samhengi fyrir samsafn af sögum, en stundum er ekkert nema skyldleikinn sem heldur sögunni saman, eins og gerist í bestu fjölskyldum. Þetta kemur stundum fyrir í Eyjabókunum og er all áberandi í Heimskra manna ráðum og Kvikasilfri. Í fjölskyldusögum þarf að vera ákveðið ris og hnig fjölskyldu sem hinar margvíslegu sögur í verkinu styðja eða lýsa á einhvern máta, svo að framvinda sögunnar eigi sér einhverja innri hvöt. Þegar því er ekki að heilsa virka sögurnar eins og þær hafi verið settar inn því höfundurinn hafi sérstakt dálæti á þeim, frekar en að þær þjóni einhverju stærra hlutverki í verkunum.
Einar hefur á síðari árum fengist við sögulegar skáldsögur, Norðurljós sem fyrr er getið og gerist á 18. öld og Óvinafagnaður (2001) sem gerist á Sturlungaöld. Í þessum skáldsögum er áherslan á sannfærandi persónusköpun, hraðri atburðarás og ákveðinni heimssköpun, frekar en á nákvæmum lýsingum á lifnaðarháttum fyrri tíða. Höfundur reynir ekki að beita tungumáli þess tímabils sem sögurnar fjalla um, heldur notast að miklu leyti við nútímamál, og tekst yfirleitt að forðast að gera það afkáralega, eins og hættan er þegar sá háttur er hafður á. Hann leitar einnig lítið til þess frásagnarháttar sem tíðkaðist á þeim tímum, því Norðurljós byggir frekar á Íslendingasagnaminni en bókmenntum 18. aldar, þar sem hetjan lendir í ýmsum raunum og hremmingum og á endanum í útlegð frá Íslandi. Þrátt fyrir sérkennilega ofnotkun á þrípunktum, sem sér einnig stað í Óvinafagnaði, tekst Einari að halda uppi hraðri framvindu og Norðurljós er fín spennusaga. Það liggur í raun beint við að snúa sér að Sturlungaöld ef áhuginn beinist að sögulegum spennusögum. Það eru líka mjög góðar ofbeldislýsingar í Norðurljósum og í Óvinafagnaði eru ágætar bardagalýsingar, sérstaklega er skemmtilegt þegar einn sögumaðurinn er hálshöggvinn í miðri setningu.
Flest verk Einars fjalla á einn eða annan hátt um karlmennsku í öllum sínum tilbrigðum, vonlausu stellingum og innistæðuleysi, og hvergi er karlmennsku betur lýst en í stríði og vígaferlum. Karlmennskan er alltaf þáttur í verkum hans, og alveg síðan í fyrstu skáldsögu hans, Þetta eru asnar Guðjón (1981), sem lýsir ungri ráðvilltri karlmennsku, hafa stórmennskan og smámennskan togast á. Í Heimskra manna ráðum og Kvikasilfri beinist athyglin að þætti sem er einnig áberandi í höfundarverki Einars allt frá Þetta eru asnar Guðjón, en það eru endalausar vonlausar áætlanir og stórkostleg vanhugsuð plön. Öll stórkostlegu plön Bárðar og leit hans að Gullskipinu í Heimskra manna ráðum og Kvikasilfri eru dæmi um stórkarlalega, en að lokum fáránlega, tilburði, því í leit þessara manna að fjársjóðum, og í karlmannlegri veiðiþrá þeirra, afneita þeir hversdeginum sem er of smár fyrir þessa karla. Þetta birtist líka í þeim fjölmörgu fylleríislýsingum sem skreyta bækur Einars. Þar er aldrei neinn millivegur eða skemmtan höfð. Þar á aldrei að sætta sig við það smáa, heldur á að taka þetta af krafti, og endar alltaf með ósköpum. En þeir sem sætta sig við hið smáa, verða að nokkurs konar hetjum í verkum Einars, þótt ekki séu þeir margir, en má þó helst nefna Tomma, afa Badda, í Eyjabókunum. Í Eyjabókunum, Heimskra manna ráðum og Kvikasilfri, er nokkurs konar örlagahyggja ríkjandi í þessu sambandi. Þessir menn munu sífellt halda áfram að gera þessi stórkostlegu plön, en þau munu alltaf fara illa. Sjálfsskoðun og efasemdir um tilgang karlmennskunnar eru orðnar meira áberandi í Óvinafagnaði, þegar hvorki Þórður Kakali né Kolbeinn ungi vita í raun til hvers þeir eru að þessum stöðugu bardögum, þar virðist ekki ráða innri hvöt heldur hafa aðstæður borið þá yfirliði.
Einar hefur fengist við ýmis bókmenntaform. Í smásagnasöfnunum Söngur villiandarinnar (1987) og Þættir af einkennilegum mönnum, eru einnig skrautlegar manngerðir tíndar til, en með misjöfnum árangri. Sumar sögurnar geta vel staðið sjálfar, eins og „Kveldúlfs þáttur kjörbúðar“, en aðrar eru hálf léttvægar og lítið unnið úr forminu. En í þessum bókum má sjá persónueinkenni sem sjást víða í verkum Einars, en það er hvernig fólk kemst upp með lygar, ómennsku, leti og sérhlífni, frekju og yfirgangssemi og fleiri skemmtilegar hliðar smámennsku án þess að skynsamt fólk fái nokkuð við ráðið. Þættir af einkennilegum mönnum er uppfull af leiðinlegu fólki, frekjum og yfirgangsmönnum. Í smásagnasöfnunum sést líka áhugi höfundar á pínlegum og afkáralegum atburðum, en þess konar sköpun á kringumstæðum á sér langa hefð í smásagnaforminu, þótt Einari takist ekki alltaf að vinna úr þeim sem skyldi. Þessar sögur eru ekki tengdar einni fjölskyldu eða tímabili og virka þess vegna á stundum hálf munaðarlausar. Í verkum Einars eru víða ágætar lýsingar á barnæsku og kom því ekki á óvart þegar hann fór að skrifa barnabækur. Þótt ekki sé um væmnar sögur að ræða, heldur fjörugar spennusögur, þá eru þær litaðar nokkurri nostalgíu eftir því hvernig var að vera partur af hóp, því mikið er fjallað um alls konar systkinasambönd, leiki, klíkumyndun og þess háttar. Tilfinning Einars fyrir talmáli, frumlegar nafngiftir, hæfileiki til að gera hversdagsleikann spennandi og fullan af hættum og sérstæð persónusköpun sóma sér vel í barnabókunum, þar sem ekki er talað niður til barnanna, heldur er borin ákveðin virðing fyrir lesendunum. Og sú dýpt sem er ríkjandi í persónugerð minnir frekar á Astrid Lindgren en Ármann Kr.
Hið hallærislega, vandræðalega, fáránlega og fulla hefur reynst Einari drjúgt viðfangsefni lengi framan af, en í síðari skáldsögum hefur áherslan að nokkru leyti færst til sköpunar á hraða og framvindu í frásögn. Að mörgu leyti virðast því sögulegar skáldsögur vera rökrétt framhald á hans höfundarferli.
© Gunnþórunn Guðmundsdóttir, 2002
Hetjur, hrakfarir og heimskupör: Einar Kárason á nýju árþúsundi
I
Í síðustu bók „Sturlungakvartettsins“, Skálmöld (2014), stígur höfundurinn fram sem ein af röddum bókarinnar. EK (sérlega vel til fundið nafn á persónu í bók af þessu tagi) játar að þegar hann hófst handa við ritun Óvinafagnaðar (2001) hafi alls ekki staðið til að færa fleiri lykilatburði Sturlungaaldar í skáldsagnaform. Það hafi fyrst og fremst verið persóna Þórðar kakala sem vakti áhuga hans.
Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart. Þórður kakali verður í meðförum Einars dæmigerð EK-andhetja; vitleysingur og drykkfelldur auðnuleysingi sem enginn hefur trú á, allra síst hann sjálfur. En svo reddast þetta furðanlega og Þórður vinnur mikinn og óvæntan sigur í sjóorustunni á Húnaflóa. Það er auðvelt að heyra enduróm úr braggahverfinu og partasölunni í Killians-tvíleiknum í eintölum Þórðar, og það á við um fleiri persónur, einkum Dufgussyni, sem þrátt fyrir garpskap sinn deila með fyrri hetjum Einars vissu óöryggi með sjálfa sig í samfélaginu:
„Á ég að tala“ gat ég með naumindum stunið upp úr mér, og spurði aftur nokkrum sinnum. „Á ég að tala?“ og sortnaði fyrir augum af tilhugsuninni um að þurfa að taka til máls og líka af því að það fauk í mig yfir því að bræður mínir gætu ráðskast svona með mig, en ég gat samt ekkert annað sagt en „á ég að tala?“ Því mér hefur aldrei verið sérlega lagið að tala, og svo fór ég …
Óvinafagnaður, bls. 56.
Það sem eyðileggur fyrir manni jólin er þegar allir þurfa að kyssast klukkan sex. Ég veit að það kvíður fleirum fyrir þessu en mér, sem kvíður fyrir þessu allt árið. Ég verð kaldur á höndunum, og finn hrollinn koma í mig þegar klukkan er að verða, svo talar enginn saman síðustu tíu mínúturnar og svo slær klukkan í útvarpinu og það er ekkert sem maður getur gert nema harka af sér.
Gulleyjan, bls. 27.
II
Það líða sjö ár milli fyrstu bókar í flokknum og þeirrar næstu. Í millitíðinni kemur út ein af veigameiri skáldsögum Einars, Stormur (2003), en annars eru ritverk Einars á þessu tímabili ákaflega fjölbreytt. Tvær ævisögur: Þangað sem vindurinn blæs (2002) um tónlistarmanninn Kristján Kristjánsson (KK) og Jónsbók um athafnamanninn Jón Ólafsson, en einnig sjálfsævisögulegt efni í ferðasögunum Hvar frómur flækist (2004) og Úti að aka (2006). Þá kemur smásagnasafnið Endurfundir út 2007. Þar er einnig að finna frásagnir sem vel má ímynda sér að séu í grunninn sannsögulegar, einkum bráðskemmtileg frásögn af samskiptum sögumanns (sem virðist vel geta verið Einar Kárason) við Jónas Árnason, leikrita- og söngtextaskáld.
Síðan tekur Einar aftur til við Sturlungaöldina og 2008 kemur Ofsi út. Þar er aðdragandi Flugumýrarbrennu tekinn hliðstæðum tökum og Flóabardagi fékk í Óvinafagnaði. Í Ofsa er aðalpersónan einnig utanveltu og engar vonir við hana bundnar, en bæði er Eyjólfur ofsi mun myrkari maður en hinn lánlausi gleðimaður Þórður kakali og atburðurinn, sem allt hverfist um, er eitt mesta fólskuverk Íslandssögunnar, en ekki orrusta sem lýkur með fræknum sigri aðalpersónunnar yfir ofurefli. Í báðum eru lýsingar á ólánlegum liðssafnaði kaldranalega hlægilegar og er hetjuljóminn í lágmarki, nema i huga þeirra sem lifa í hugmyndinni um hetjuskap. Hvatningarfundur brennumanna í Skeljungsskála í Blönduhlíð er gott dæmi þess. En þótt garparnir séu gerðir skoplegir setja hin þekktu leikslok ólánsfarar Eyjólfs Þorsteinssonar svip sinn á alla frásögnina auk ónotakenndar þeirra sem ýmist finna á sér að eitthvað sé í vændum, eða hafa fengið njósn af fyrirhuguðum óhæfuverkunum. Almennt er afstaða sagnanna til garpsskapar og sæmdar tvíbent, og á köflum talsvert nær því að gangast við gildismati aldarinnar en ætla mætti. Þar ræður vafalaust miklu hin augljósa ást og virðing höfundarins á heimildum sínum, Sturlungabálkinum, og fyrirferðarmesta höfundi hans, Sturlu Þórðarsyni.
III
Afstaða Einars til sögupersóna sinna skín sterkt í gegnum textann í þriðju bók Sturlungabálksins, Skáld, sem kemur út fjórum árum á eftir Ofsa. Skáld (2012) hefur allnokkra sérstöðu í sagnabálknum. Þar bindur enginn einn lykilatburður borgarastyrjaldarinnar frásögnina saman, heldur er öll ævi aðalpersónunnar undir. Sturla Þórðarson rifjar upp tímann frá dvöl sinni við fótskör frænda síns í Reykholti, hvernig hinar ýmsu róstur og togstreita aldarinnar hafa áhrif á hann sem unir sér best utan skarkalans, umkringdur bókum sínum og fróðum drykkjufélögum. Sagan fylgir honum síðan ævina á enda, rekur atburðarásina frá því hann siglir á fund Noregskonungs með langri viðkomu í Færeyjum þar til hann finnur sitt áhyggjulausa ævikvöld í Fagurey á Breiðafirði.
Stærsti munurinn á Skáldi og öðrum bókum þríleiksins er sá að þar víkur Einar umtalsvert frá frásagnarforminu sem hann hefur þegar þarna kemur sögu beitt og þróað í tveimur fyrri Sturlungubókunum, en einnig í Stormi (2003). Þessar sögur eru alfarið sagðar með stuttum „eintölum“ persónanna sem rekja atburði sögunnar, tjá viðhorf sín til þeirra og skoðanir á öðrum persónum. Með þessari aðferð fæst tilfinning fyrir ólíkum hliðum atburðanna, hvaða afleiðingar þeir hafa fyrir fólk úr mismunandi „liðum“, hvaða afstöðu fólk með ólíkar hugmyndir um siðferði, sæmd og tilgang hefur til þess sem gerist og hvaða áhrif atburðir úr fortíðinni hafa.
Einn af helstu kostum einræðuformsins er sá að það bætir vídd við frásögnina sem er einmitt það sem erfiðast er að sækja í Sturlungu sjálfa eða aðrar frásagnir úr miðaldabókmenntum okkar: Að skyggnast í hug persónanna og sjá þær einnig með augum hverrar annarrar. Þannig er t.d. ekkert í sjálfsmynd Þórðar kakala sem styður minningar Guðnýjar Sturludóttur úr skipsförinni til Íslands um ofvirka æringjann og barnakarlinn. ADHD-ið sem aðrir lýsa birtist ekki í eintölum Þórðar. Sama má segja um Eyjólf ofsa. Hann er gjarnan þunglyndur í sínum mónólógum, en oflætinu – hinni hlið geðhvarfasýkinnar sem virðist hafa hrjáð hann – er aðeins lýst af öðrum.
Síðast en ekki síst gefst Einari með þessu ákjósanlegt færi á að hlýða á raddir og skoða sjónarmið hinna lægra settu og undirokuðu. Að gefa þrælum, smábændum og konum af öllum stigum orðið. Þessi valdefling alþýðunnar í textanum vegur þungt í huga lesandans og er oft talað um hana sem einn af lyklunum í velgengni bálksins, þótt „hausatalning“ segi okkur að valdalítið fólk af lágum stigum hafi ekki ýkja oft orðið. Reyndar leiðir talning á röddum í ljós að þótt talsverður hluti Skálds sé hefðbundin frásögn alviturs sögumanns, eða þar sem Sturla Þórðarson hefur orðið í anda hefðbundinna ævisagna, þá er fjöldi persóna sem fá orðið þar sá sami og í Óvinafagnaði (16) og einum fleiri en í Ofsa (15).
IV
Umtalsvert fleiri persónur taka til máls í Skálmöld, lokabindi bálksins, sem kom út 2014, tveimur árum á eftir Skáldi. Tuttugu raddir segja okkur frá uppvexti Sturlu Sighvatssonar og rekja aðdraganda Örlygsstaðabardaga. Að forminu til er Skálmöld afturhvarf til Ofsa og Óvinafagnaðar þar sem eintöl eru allsráðandi, þótt ein röddin sé reyndar rödd Einars sjálfs. Á hinn bóginn minnir Skálmöld meira á Skáld að því leyti að þar er allt lífshlaup aðalpersónunnar til umfjöllunar, en ekki einungis samfelld atburðarás sem leiðir til sögulegs stórviðburðar.
Einar vinnur ekki mikið eða áberandi með ólík málsnið fyrir persónur sínar í þessum bálki. Kirkjunnar menn eru örlítið hátíðlegri en aðrir, en flestar persónunar tjá sig á tiltölulega óformlegu, jafnvel óbóklegu, 20. aldar máli. Margar þeirra nota „maður“ um sig sjálfar, konur ekki síður en karlar, og algengt er að skyldleiki sé tíundaður með orðasamböndum á borð við „Sturla frændi“ eða „Tumi bróðir“. Stundum tala þessir miðaldahöfðingjar um að „vinna í sínum málum“ eða taka til máls á svipaðan hátt. Allt hjálpar þetta til við að gera persónurnar nákomnari nútímalesendum og atburðarásina skiljanlegri.
Nútímablærinn yfir persónusköpuninni á örugglega sinn þátt í vinsældum bálksins sem hófst á aðdraganda Flóabardaga en spannaði þegar upp var staðið alla meginatburði Sturlungaaldar. Einar vísar lesendum leiðina „inn“ í atburðarásina, skapar áhuga á afdrifum fólksins og auðveldar skilning á ákvörðunum sem margar hverjar eru með öllu óskiljanlegar séu þær einungis skoðaðar út frá hlutlægu sjónarhorni sagnaritara þrettándu aldar. Fjórleikur Einars Kárasonar um Sturlungaöldina hefur fært þessa stórbrotnu atburði í aðgengilegan búning, aukið skilning á þeim og opnað leið fjölda fólks inn í þennan heim.
V
Þótt Einar hafi ekki haft uppi nein áform um að skrifa fjórar bækur um atburði og hetjur Sturlungaaldar eftir að hafa lokið við Óvinafagnað þá var sú frásagnaraðferð mónólógsins sem þar varð til greinilega eitthvað sem hann vildi vinna frekar með. Í Stormi sem kom út 2003 er söguefnið nokkurn veginn eins langt frá hinum ættstóru görpum þjóðveldistímans og komist verður. Eyvindur „Stormur“ er skilgetið afkvæmi reykvísks nútíma, útsjónarsamur og sérgóður maður af lágum stigum sem hvorki rís sérlega hátt, né fer á kaf. Garpsskapur hans birtist helst í því hvað hann kemst af með litla áreynslu í lífsbaráttunni.
Sú barátta er mikið til háð með persónutöfrum og markmið hennar er aldrei að hljóta sæmd heldur miklu fremur sem þægilegast líf með lágmarksáreynslu; hvort sem það er á vegum danskra félagsmálayfirvalda eða ættingja í Ameríku, á vegum gróðafíkinna íslenskra bókaútgefenda, misgreiðvikinna kunningja eða Stefaníu, hinnar þolgóðu og seinþreyttu eiginkonu.
Í Stormi koma í ljós eiginleikar eintalanna sem ekki blöstu eins við í hinum viðburðaríku Sturlungabókum. Einn þeirra er hversu vel þessi frásagnaraðferð hentar til að draga upp mynd af nútímalífsháttum og tíðaranda. Hversdagsleg smáatriði í daglega lífinu sem lesandinn þekkir, eða tengir við, bæta ótal litum á spjald höfundarins og auðvelda honum að gefa ólíkum röddum persónuleika og gera sögusviðið og samfélag trúverðugt og skýrt. Þar hjálpar líka frelsi frá „sögulegum“ heimildum. Atburðarásin er hluti sköpunarinnar en ekki aðfenginn efniviður, allavega ekki í sama mæli og í hinum „sannsögulega“ Sturlungabálki.
Líkt og þar verður aðalpersónan stærri við það að lýsingar annarra á henni samræmast ekki nema að litlu leyti því sem hún segir um sjálfa sig. Náðarvald Eyvindar birtist í játningum samferðamannanna, sem langflestir leiðast til að bera hann á höndum sér, jafnvel þótt þeir sjái sumir að einhverju leyti í gegnum hann. Sjálfur er Eyvindur fyrst og fremst í því að koma upp um sinn lítilmótlega karakter með varnarræðum sínum fyrir eigin lífshætti og framkomu. Það er líka athyglisvert að þótt öllum beri saman um að Eyvindur sé skemmtilegasti maður sem þau þekkja fáum við eiginlega engin dæmi um slíkt. Sama er reyndar uppi á teningnum í Sturlungabálkinum, þar sem nokkrum persónum er lýst sem manna skemmtilegustum, leiftrandi orðheppnum og stórkostlegum sögumönnum eins og Sturlu Þórðarsyni. Lesandanum gefst hinsvegar sjaldnast tækifæri til að leggja mat á þessa dóma. Engu að síður er Stormur auðvitað bráðskemmtileg bók og að mati þess sem hér skrifar ein sú áhrifaríkasta á ferli Einars, en hún treystir ekki á sögumannshæfileika eða eftirhermusnilld Eyvindar Storms til að ná þeim áhrifum, heldur er fyndnin einmitt einatt á hans kostnað, og þar með óumdeilanlega á vegum Einars Kárasonar.
Óumdeilanlega? Það er nú það. Einn þáttur í gangverki Storms er áreiðanleiki sögumanna og ráðstöfunarréttur fólks yfir eigin sögu. Glíma eins bókaforlags við Eyvind eftir að sú hugmynd kviknar að nota hann sem nokkurskonar „staðgönguhöfund“ bókar eftir starfsfólk forlagsins er kostulegur hápunktur þessarar miklu sögu. Þetta persónugallerí verður enn fyrirferðarmeira í síðari bók Einars um Eyvind Storm.
Í Passíusálmunum (2016) er staða höfundar gagnvart persónu sinni, og áreiðanleiki hinna ýmsu sögumanna eitt helsta umfjöllunarefnið. Bókin hefst á uppreisn Eyvindar gegn Einari Kárasyni og meintri afbökun hans á ævisögu Eyvindar í Stormi. Nú rekja þeir Eyvindur og Einar nokkuð ólíkar minningar um hvernig samskiptum þeirra var háttað og hvernig „hreinn“ skáldskapur og æviminningar Eyvindar og samferðamanna hans hafa verið steyptar saman við annað efni í Stormi. Framan af er þetta stríð um yfirráð yfir fortíðinni í algleymingi, en um miðbik bókarinnar fjarar það að mestu út og við tekur kostuleg „hliðarsaga“ við atburði í Stormi. Hafi Eyvindur viljað hreinsa mannorð sitt með því að hefja þetta þras við höfund sinn þá er óhætt að segja að framferði hans í þessari endurskoðuðu gerð er honum síst til sóma. Og aftur sýnir eintalaformið, og vald Einars á því, kosti sína sem afhjúpandi frásagnarháttur. Vopn tungumálsins snúast stöðugt í höndum Eyvindar. Þegar hann heldur sig vera að verja ákvarðanir sínar eða bæta hlut sinn hefur textinn einatt þveröfug áhrif. Málstaður Eyvindar Storms er líka sjaldnast góður og honum er um megn að leyna því, þrátt fyrir rómaða frásagnarsnilld og persónutöfra.
VI
Eftir sex skáldsögur á fimmtán árum víkur Einar eintalsforminu til hliðar til að segja sögu af sjávarháska við Nýfundnaland 1959. Í nóvellunni Stormfuglum (2018) kynnumst við skipverjunum á síðutogaranum Mávinum og baráttu þeirra við óveður og ísingu sem allt eins er líklegt að ljúki á hafsbotni. Frásögnin er í þriðju persónu, en undir lokin sviptir sögumaður af sér hulunni og reynist vera aðalpersónan sjálf, hinn ungi Lárus, sem þarna fer í sinn fyrsta og síðasta túr sem markar hann fyrir lífstíð, svo hann „... fór strax að búa [sig] undir að skrifa um þetta þó það hafi ekki tekist fyrr en löngu seinna“ (122).
Kaldhæðin og efagjörn afstaða til hetjuskapar og áhugi á andhetjum með ranghugmyndir um stöðu sína í heiminum, með hörmulegum afleiðingum fyrir sig og aðra, er hér líka víðsfjarri. Það er sérlega forvitnilegt að bera saman persónu bátsmannsins við fyrri andhetjur Einars. Þessi harmræni, drykkfelldi og skáldmælti beljaki hefði sómt sér vel í stórkallalegum sagnaheimum Eyjabókanna, Killianstvíleiksins, Sturlungabálksins eða við hirð Eyvindar Storms. En í heimi Stormfugla er ekkert svigrúm fyrir ýkjur eða sögumannsleg tilþrif á kostnað persónanna. Og það kemur í ljós að þær takmarkanir í efnistökum sem knappt nóvelluformið heimtar hafa engin áhrif á möguleika Einars Kárasonar til að miðla áhrifaríkri sögu, nema síður sé. Það kveður við annan tón í Stormfuglum sem varpar nýju og forvitnilegu ljósi á allt sem á undan er ritað.
© Þorgeir Tryggvason, 2018
Greinar
Almenn umfjöllun
Guðmundur Andri Thorsson: „Þar sem sögueyjan rís : hjólað í Einar Kárason“
Teningur, 1. árg., 1, tbl. 1985, s. 36-54
Guðni Elísson: „Eiginlega aðhyllist ég ekki þetta aðlögunarhugtak“ : rætt við Einar Kárason um bækur og kvikmyndir“
Ritið; 2001, 1. tbl., s. 149-155
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Einar Kárason (1955- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 48-54
Hrefna Haraldsdóttir: „Skáldatími: Einar Kárason“
Reykjavík : Hugsjón, 1998. [Myndband]
Páll Skúlason: „Lífsviðhorf fyrr og nú“
Skjöldur; 2015, 24. árg., 2. tbl., s. 22-23
Pétur Blöndal: „Mér þætti fínt að skrifa á brautarstöð
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 66-91
Silja Aðalsteinsdóttir: „Að standa af sér slaginn : Einar Kárason segir frá reyfarakenndu lífi rithöfundar“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 8-23
Renate Klett: „Einar Kárason ist der große isländische Erzähler der Gegenwart – und steht mit beiden Beinen fest in der Erzähltradition seines Landes. Ein Besuch“
Literaturen. Das Journal Für Bucher Und Themen, 12 / 2007, s. 72-76
Um einstök verk
Gulleyjan
Páll Valsson: „Gulleyjan“
Skírnir, 160. árg., 1986, s. 330-5
Endurfundir
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2008, 3. árg., 2. tbl. bls. 123-34.
Fyrirheitna landið
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir: „Rústir liðins tíma“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 1. tbl. 1990, s. 104-7
Heimskra manna ráð
Anna Orrling Welander: „Einar Kárason. Dumma mäns goda råd“ (ritdómur)
Gardar, 26. árg. 1995, s. 34-35
Kristján B. Jónasson: „Í ráðleysinu miðju“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 1. tbl. 1993, s. 93-8
Jón Yngvi Jónannsson: „Að loknu gullæði: Um þrjár íslenskar karlasögur“
Skírnir, 171. árg., vor 1997, s. 214-36
Kvikasilfur
Anna Orrling Welander: „Einar Kárason, Kvicksilver“ (ritdómur)
Gardar, 27. árg. 1996, s. 68-69
Kristján B. Jónasson: „Ár stöðugleikans : um nokkrar skáldsögur sem komu út á árinu“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 4. tbl. 1995, s. 107-121
Kristján B. Jónasson: „Flugeldum lokið“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 2. tbl. 1995, s. 111-16
Jón Yngvi Jónannsson: „Að loknu gullæði: Um þrjár íslenskar karlasögur“
Skírnir, 171. árg., vor 1997, s. 214-36
Norðurljós
Einar Már Jónsson: „Úr Surtshelli í Landsbókasafn“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg., 3. tbl. 1999, s. 115-19
Ofsi
Dagný Kristjánsdóttir: „Hættulegar smásálir“ (ritdómur)
Skírnir 2009, 183. árg., vor, bls. 234-9.
Guðrún Nordal: „Sturlunga Einars Kárasonar“
Tímarit Máls og menningar, 70. árg., 2. tbl. 2009, s. 110-114
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Ofsi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2009, 4. árg., 1. tbl. bls. 85-98.
Óvinafagnaður
Árni Óskarsson: „Agaleysi, upplausn og taumlaus gleði : Um Óvinafagnað eftir Einar Kárason“
TMM, 63. árg., 2. tbl. 2002, s. 14-17
Torfi H. Tulinius: „Snorri og hans slægt i moderne nordisk litteratur“
Ordenes slotte, s. 31-38
Þorleifur Hauksson: „Om tre nordiske historiske romaner : nye billeder af Snorri Sturluson = Three Nordic historical novels : new portraits of Snorri Sturluson“
Nordisk litteratur; 2003, s. 148-153
Poppkorn
Aðalsteinn Ingólfsson: „Speglar og gluggar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 2. tbl. bls. 139-43.
Skáld
Kolfinna Jónatansdóttir: „Skáld á skálmöld“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 8.
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómar)
Stína 2013, 8. árg., 1. tbl. bls. 164-72.
Soffía Auður Birgisdóttir: „Af hinum fáheyrðu göldrum skáldskaparins“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 1. tbl. bls. 134-8.
Skálmöld
Ingvi Þór Sæmundsson: „Viðeigandi lokahnykkur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Stormur
Dagný Kristjánsdóttir: „Í auga Stormsins“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 111-113
Stormfuglar
Úlfhildur Dagsdóttir: „Klakabönd - fárviðri, fuglar og djúpin grá“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Söngur villiandarinnar
Vésteinn Ólason: „Skoplegar sorgarsögur“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 4. tbl. 1988, s. 510-12
Þar sem djöflaeyjan rís
Heimir Pálsson: „Brot úr þjóðarsögu“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 4. tbl. 1984, s. 456-51
Kristján B. Jónasson: „Á mér þá alltaf að líða illa?“ : Þar sem djöflaeyjan rís og endalok nýraunsæis“
Ársrit Torfhildar, 4, 1990, s. 67-84
Dagný Kristjánsdóttir: „Karólínska“ heimsveldið hrynur“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 1. tbl. 1987, s. 123-6
Eggert Þór Bernharðsson: „Djöflaeyjan – vekur allt liðið úr Thulekampinum upp til nýs líf -“
Ritið; 2001, 1. tbl., s. 57-76
Heimir Pálsson: „Brot úr þjóðarsögu“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 4. tbl. 1984, s. 456-461
Þetta eru asnar, Guðjón
Jóhanna Sveinsdóttir: „Farir Guðjóns holóttar“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 2. tbl. 1982, s. 240-3
Þættir af einkennilegum mönnum
Eiríkur Guðmundsson: „Það var mikið hlegið að þessu“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 3. tbl. 1997, s. 114-19
Verðlaun
2020 - Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Menningarhúss og Borgarleikhúss Stokkhólms (Kulturhuset Stadsteatern): Stormfuglar
2008 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Ofsi (sem besta skáldsaga ársins)
2004 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Stormur
2003 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1986 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Gulleyjan Tilnefningar:
2008 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ofsi
2004 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Stormur
2003 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Stormur
1996 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Heimskra manna ráð og Kvikasilfur
994 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Kvikasilfur
1989 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fyrirheitna landið
1987 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Gulleyjan
Heimsmeistari
Lesa meiraÍ miðju köldu stríði öttu fulltrúar austurs og vesturs kappi við skákborðið í smáborginni Reykjavík. Heimsmeistaratitill var í veði og vestrið vann. Sigurvegarinn ungi var sérvitur og óbilgjarn en heimafólk hafði samúð með honum og gleymdi ekki afreki hans.. . Mörgum árum síðar hefur þessi hornótti einfari komið sér í meiri háttar ónáð hjá stjórnvöldum heimalands síns og situr í japönsku fangelsi, einmana og smáður. Þá grípa velunnarar frá eyjunni í norðri til sinna ráða og sækja heimsmeistarann yfir hálfan hnöttinn – en flóttinn til Íslands er dýru verði keyptur.Opið haf
Lesa meiraOpið haf er skáldsaga byggð á sönnum atburði eins og tvö seinustu skáldverk hans, Stormfuglar og Þung ský.Złota wyspa
Lesa meiraStorm Birds
Lesa meiraMeð sigg á sálinni
Lesa meiraStormfåglar
Lesa meiraSztormowe ptaki
Lesa meiraPtáci bouŕe
Lesa meira