Beint í efni

Skessukatlar

Skessukatlar
Höfundur
Þorsteinn frá Hamri
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Í sumum ljóðanna í nýjustu bók sinni Skessukötlum er Þorsteinn frá Hamri einu sinni sem oftar á slóðum forfeðranna, nánar tiltekið á slóðum sagna þeirra og kvæða. Hann vitnar til þeirra og finnur þeim stað í sjálfum sér, enda segir ljóðmælandi á einum stað „Ég er gata sem þau gengu“. Fortíðin er því áberandi í þessari bók, bæði hin sögulega fortíð og svo fortíð ljóðmælanda sem einatt lítur til baka, veltir fyrir sér horfnum húsum („Mér verður hússins dæmi“), fræðum („Fræði“) og orðum. Ljóðið er líka einstaklega gott tæki til slíks, því eins og segir í upphafslínum ljóðsins „Landkönnuðir“: „Að hörfa til baka // er huganum einum fært“. Tónninn í þessum ljóðum er þó ekki nostalgískur, hér er ekki beinlínis tregaður horfinn heimur, heldur mætti kalla þetta vangaveltur og staðfestingu á einhverju sem áður var.

Hér er líka fjallað um tungumálið, eins og í ljóðinu „Rof“, þar sem spurt er um merkingar myndlíkinga:

Vetrarkvöldin, voru það kvöld, eða sögur? Ský og byljir, voru það ský og byljir eða myrk örlög manna? [...] Svo splundraðist eitthvað í mönnum og veðrum, mönnum og orðum ... Mörgum orðum.

Og vangaveltur um líkingar koma fyrir víðar eins og í ljóðinu „Himintugl“ þar sem spurt er „hvort maður geti í fullri samvizkusátt // leyft sér að kenna ljósblik augna við stjörnur“. Orð eru mikilvæg, jafnvel hættuleg, og þögnin ekkert annað en falið óp eins og segir í ljóðinu „Bannhelgi“: „Þögn // sem er einskonar óp“. Orð klæða heiminn, ýkja upp aðstæður og atburði „líkt og verða vill // um sumt það sem klætt er // í áþreifanleg orð“, eins og segir í ljóðinu „Skálabúi“.

Í nokkrum ljóðanna veltir ljóðmælandi fyrir sér samskiptum  og það er vakin tilfinning fyrir innileika, því „að hollt gæti reynzt að vera einhverjum eitthvað“ eins og lokalínan  í ljóðinu „Heimsundur“ segir. Margt er hér óskaplega vel gert, vekur stemmningu, allt að því áþreifanlegt andrúmsloft, tilfinningu, skynjun. Formið er nokkuð keimlíkt í öllum ljóðunum; þau eru flest stutt, með svipaðri hrynjandi og myndmáli. Formið minnir á ákveðinn hátt á sonnettuna, ekki í línuskipan eða rími, heldur í því að oft bregður lokalína ljóðanna öðruvísi birtu á inntak þess. Þetta er ekki jafn pólitísk bók og síðasta bók Þorsteins, en hér er margt að hugsa um og þennan fallega grip er gott að hafa í hendi, skoða aftur og leita uppi línur og hugsun.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2013