Fjölskyldusögur, sagði eitt sinn vinkona mín og bókmenntagagnrýnandi, þetta eru alltsaman fjölskyldusögur, stærstur hluti íslenskra skáldsagna eru fjölskyldusögur. Svosem ekki nýr sannleikur en ágæt áminning, því oft hættir okkur gagnrýnendum til að hætta að sjá skóginn fyrir trjánum. Saga Jóns Kalmans Stefánssonar, Snarkið í stjörnunum, er einmitt fjölskyldusaga, saga sem lýsir því hvernig rithöfundur sem nálgast fertugt er að reyna að ná utanum fjölskyldusögu sína, jafnframt því sem hann rifjar upp æsku sína, en hann missti móður sína ungur, varla 7 ára gamall, og eignaðist stjúpu í kjölfarið. Þannig rifjar hann upp og rekur sögu nokkurra kynslóða, segir mikið frá langafa sínum og langömmu, minna um afa sinn og ömmu en þónokkuð um foreldra sína. Amman er móðuramma, en langafinn faðir afans.
Það er óneitanlega margt í þessari sögu sem minnir á sterkar fjölskyldusögur undanfarinna ára og koma þar fyrst upp í hugann skáldsögur Einars Más Guðmundssonar, Fótspor á himnum, Draumar á jörðu og Nafnlausir vegir. Líkt og þær sögur gerist saga Jóns mikið til í Reykjavík og lýsir uppvaxtarárum borgarinnar, en annarsvegar sjáum við langafann spranga um og stunda fasteignabrask á suðurlandi og hinsvegar fylgjumst við með drengnum alast upp í því sem þá var eitt af nýju hverfum borgarinnar, Safamýrinni. Sömuleiðis minnir saga Jóns á fjölskyldusögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Söguna af sjóreknu píanóunum, sem einnig lýsti þremur ættliðum.
Allar þessar bækur eru sérlega vel heppnaðar og eftirminnilegar ættarsögur, sem hlutu mikla og verðskuldaða athygli, en því miður kemur Jón ekki nægilega vel út úr samanburðinum, sem er óhjákvæmilegur. Stíll hans er sem fyrr ljóðrænn og andinn sem svífur yfir bókinni rómantískur, en þetta upphafna málfar verður á tíðum uppskrúfað, myndmálið ofhlaðið og tónninn tilgerðarlegur. Þetta kemur strax fram í upphafi sögunnar, en þar er lýst hinu gamalkunna skilti Vogue búðanna, ljósaskærunum. Upplegg sögunnar eru þessi skæri sem koma minningarflóðinu af stað: „risaskærin klippa djúpt inni í þoku tímans.“ Myndin er vissulega sjónræn, en ákaflega eitthvað klaufaleg og uppskrúfuð. Þetta er bagalegt, því Jón er fær penni og skrifar liðlegan texta, hann hefur gott vald á máli og stíl og sömuleiðis er sagan fallega upp byggð, skiptin milli sviða vel heppnuð og atburðarásin í sjálfu sér sjarmerandi og býður upp á margt. Því þrátt fyrir allar þær klisjur sem ganga aftur í fjölskyldusögunum, þá hef ég nefnilega mjög gaman af þeim! Helsta vandamálið við sögu Jóns er kannski það að það vantar allan húmor í textann, og, því miður, hlýju, sem er nauðsynleg til að svona saga gangi. Þannig veldur hið ofurupphafna málfar því að það myndast aldrei tengsl við persónur og skelfilegar minningar eins og þær sem tengjast dauða móðurinnar verða ekki nægilega áhrifamiklar, þó vissulega séu þær minnistæðar og greinilegt að sársauki barnsins er mikill. En það er alltaf einhver fjarlægð í textanum, einhver tilgerð sem gerir það að verkum að sagan greip mig ekki.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003