Beint í efni

Sólin sest að morgni

Sólin sest að morgni
Höfundur
Kristín Steinsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Bók Kristínar Steinsdóttur, Sólin sest að morgni, er samsett úr minningabrotum, myndum og hughrifum úr fortíð og nútíð og hér er ákaflega vel farið með viðkvæmt efni. Brotin mynda smám saman skýra heild og rauður þráður missis og saknaðar er einstaklega fínlega fléttaður við myndir úr æsku. Bernskuminningarnar eru heillandi en ekki endilega sveipaðar rósrauðum bjarma nostalgíunnar, ótti og óþol eru aldrei fjarri og dekkja og dýpka myndina af bernskunni sem dregin er upp.

Hér er margvíslegum aðferðum beitt til að rifja upp fortíðina, stundum er sagt frá einstökum atvikum, stundum brugðið upp mynd af almennara ástandi – svona voru hlutirnir – svo lesandanum birtist hversdagur fjölskyldunnar og smábæjarins. Barnsvitundin ræður í mörgum myndum, en samtímavitund kemur líka fyrir og bregður öðru ljósi á atburði. Stundum er eins og lesandi verði vitni að innra samtali, þar sem sögumaður yfirheyrir minni sitt og viðhorf til fortíðar. Ljósmyndirnar staðsetja okkur svo frekar í tíma og rúmi með því að segja "svona litu þau út", "þarna bjuggu þau", en um leið minna þær okkur á aðrar fjölskyldur geymdar í öðrum albúmum.

Minni tekur til margra skynfæra, ekki síst bragðs og lyktar, sérstaklega sú tegund minnis sem Marcel Proust nefndi ósjálfrátt minni í verki sínu Í leit að glötuðum tíma. Ósjálfrátt minni kallar hann það þegar minningar kvikna í huga manns, gjarnan útfrá skilningarvitum, en alls óháð hugsun eða röklegri tengingu. Það á vel við að madeleinkaka Proust sem kallaði fram hans fortíð verður hér að kleinuilmi í draumi, því þegar rifjaðar eru upp minningar á þann hátt að hugurinn beinlínis hverfi til fortíðar, er það ekki ósvipað draumkenndu ástandi. Þegar svo vel tekst til eins og hér er raunin að ná fram andrúmslofti minninga og ekki síst tilfinningum sem upprifjunin vekur, þá er ekki einungis brugðið upp sterkri mynd úr fortíð heldur kveikir upprifjunin einnig minningar hjá lesanda.

Það er skemmtilegt hvernig myndun sjálfsmyndar er lýst sem átökum stúlkunnar sem á í stöðugum útistöðum við heiminn en geymir innra með sér stillta og prúða útgáfu af sjálfri sér; innri veröld, sem að einhverju leyti er óskiljanleg og hún á í baráttu við. En þetta er líka bók um að eiga einhvers staðar heima, tilheyra einhverju og einhverjum og þar vakir mynd móðurinnar yfir verkinu.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2004