„Þess er meðal annars vænst af hinum deyjandi að hann sé véfrétt“ (102) segir í skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, Sólskinshestur. Sá sem er deyjandi er faðir söguhetjunnar, Lillu eða Lí, en hann hefur hún alltaf kallað með nafni, Harald, því hann var henni og bróður hennar aldrei sem faðir. En þegar dauðinn nálgast kemur hann henni í uppnám með því að kalla hana skyndilega „barnið mitt“, og sviftir hana þarmeð tveimur lífum, því sem hún aldrei átti sem barn hans og því sem hún hafði búið sér til sem eitthvað annað. Þó er varla hægt að segja að það sé líf, því líkt og Anne Lennox söng, þá er Lilla dauðhrædd við lífið og forðast það á allan hátt, gengur meira að segja svo langt að hafna ástinni til að vera viss um að lífið komi hvergi við hana.
Já, bók Steinunnar, Sólskinshestur, er einskonar stúdía í dauða; líkamlegum, persónulegum, andlegum, allskonar tegundum útþurrkunar og höfnunar á lífi. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hinn gamalkunni húmor skáldkonunnar sé til staðar, þó vissulega sé hann ekki eins bullandi og í öðrum verkum hennar. Áferð Sólskinshestsins minnir nokkuð á Tímaþjófinn, að því leyti að hluti textans hreinlega tekur á sig form ljóðsins, en lengra nær samanburðurinn tæplega. Það er meiri saga í Sólskinshestinum, eða kannski fleiri sögur. Þetta þýðir þó ekki að bókin sé mikil um sig, en hér er farin allt önnur leið en til dæmis í Hjartastað, sem var þrútin af lýsingum og hugleiðingum. Hér hefur textinn verið skorinn við nögl, svo að hann er orðinn næsta útskorinn, fágaður, tálgaður og tilhogginn. Þetta gerir það að verkum að fyrstu kaflar sögunnar gera miklar kröfur til lesandans - hanga með í beygjunum, hugsaði ég oft með mér þegar ég fletti aftur á bak og byrjaði einhvern kaflann upp á nýtt. Allt er þetta fyllilega þess virði því Sólskinshesturinn er frábærlega falleg bók, áhrifarík og býður lesanda upp á háskalega og heillandi tilfinningalega rússibanaferð. Hér er kallað á tár og hlátur, undrun og undirdjúp, sorg og líka einskonar könnun, því samhliða öllum átökunum er kyrrlát skoðun á þessum mörgu hliðum dauða og doða.
Sagan hefst á heimkomu sem virðist gefa góðar vonir um upphaf á nýju lífi. Eftir stuttan inngangskafla um fæðingu sögukonunnar sem olli því að leysa varð upp mandólínhljómsveit móðurinnar, Ragnhildar, hittum við sögukonuna fyrir fullorðna þarsem hún hugsar um gamlan kærasta sem henni er greinilega enn kært til. Þetta stef ógleymdra ásta er kunnuglegt úr verkum Steinunnar, en hér tekur það á sig nýtt form í krafti hinnar eilífu nærveru dauðans: Ragnhildur trallar „Til eru fræ“, lag sem fjallar um dauðann, og segir við dóttur sína að hún sé glær til augnanna eftir næturvaktina. Ekki að furða: „Það dóu tveir“ (9). Úr þessum dauðatóni ferðumst við aftur í tíma á vit barnæsku Lillu, sem kærastinn kallar hinu exótíska nafni Lí. Hún elst upp í stóru húsi á Sjafnargötu með bróður sínum og foreldrum, Ragnhildi og Haraldi. Það verður fljótlega ljóst að samband foreldra og barna er eitthvað undarlegt, en foreldrarnir eru bæði önnum kafnir læknar og eru svo upptekin af deyjandi fólki í sínu starfi að þau gefa sér ekki tíma til að sinna eigin börnum. Í staðinn upplifa börnin tengslaleysi og þögn, persónudauða, sem kallast síðan á við öll deyjandi börnin sem Ragnhildur greinir, „díagnósar“, og missir mörg, þó vissulega bjargist mörg einnig. Eftir að þýska fóstran fer frá heimilinu sinnir enginn börnunum, nema Lilla tekur sig til og gengur í störf hennar, hirðir heimilið eftir bestu getu með hjálp litla bróður. Þarna eru kostulegar lýsingar, foreldrarnir eru stöðugt utan við sig, þau týna öllum sköpuðum og ósköpuðum hlutum, læsa sig úti og lesandinn fær mynd af þeim ráfandi um húsið eins og draugum, sem hvorki sjá né heyra börnin sem flækjast þögul og athugul fyrir fótum þeirra. Þessi draugsmynd er ítrekuð því Ragnhildur er spíritisti í ofanálag og heldur miðilsfundi. Ég upplifði á stundum svipaða tilfinningu ókenndar og í kvikmyndinni The Others, sem fjallar einmitt um óljós mörk lífs og dauða í stóru húsi.
Lilla þurrkar eigin persónuleika út, hún á ekkert líf og því finnur hún sér líf annarsstaðar, í hinni ímynduðu vinkonu Dór. Dór - (a) - er dóttir óhamingjukonu sem Lilla kemst í kynni við, en dóttirin var tekin af konunni vegna drykkjuskapar hennar og fátæktar. En Nellí er Lillu góð og Lillu dreymir um að vera dóttir hennar, og samsamar sig henni, ímyndar sér að hún eigi gullfiska í skál og allt það annað sem hana langar til að eiga. Enn er einsemd barnsins dregin fram í þessum senum sem sýna þörfina fyrir einhverskonar tengsl, auk þess að draga stéttamuninn fram á snarpan og hressandi pólitískan hátt.
Útþurrkun persónuleika Lillu birtist í litleysinu sem hún lýsir sjálfri sér með, hún gengur alltaf í litlausum húðlituðum fötum, nema þegar kærastinn velur á hana blágráa úlpu, sem verður til þess að hún tekur á sig rögg og kaupir sér túrkisbláan sundbol með gullfiskum á. Gullfiskarnir birtast svo á bókarkápunni, á svörtum grunni, og endurskapa í einfaldri hönnun tilfinningaróf sögunnar. Og auðvitað verður þessi kona, sem aldrei átti neitt líf, að hjúkrunarkonu dauðans, hún sérhæfir sig í líknarhjúkrun, starfar við það að sinna þeim deyjandi.
Ástin og dauðinn eru klassískt bókmenntatema, allt frá Oscar Wilde til Nick Cave, með viðkomu hjá Jorge Amado, og hér birtist enn einn dauðinn í ástarsorginni, báðir foreldrarnir burðast með ástarsorgir og Lilla líkt og finnur sig knúna til að flýja ástina, segja upp kærastanum sem var sá eini sem sá hana sem persónu: „það varst þú sem gerðir mig að mér í minni mynd.“ Við tekur svo Lífið: „Lífið Sjálft hvolfdist yfir mig með vaktavinnu á Deildum deyjandi fólks og Heimilinu með dætrum og fleiru“ (61). Nema við sjáum fljótt að þetta er ekki alvöru líf, heldur gervilíf, líkt og hún upplifði á heimili foreldra sinna. Enda yfirgefur hún það líf, allavega Heimilishlutann, og hverfur aftur á æskuslóðirnar og hittir þar fyrir gamla kærastann.
Í viðtali útskýrir Steinunn fyrirbærið ‘sólskinshest’, en það mun vera sparihross sem aldrei er sett út nema sólin skíni. Kona nokkur segir við Lillu að hún sé nú enginn sólskinshestur og stúlkan veltir þessu dálítið fyrir sér, án þess að skilja það vel. Skáldsagan sem ber þetta nafn, Sólskinshestur, nær í raun yfir báðar þessar tilvísanir orðsins, annarsvegar er hún enginn sérstakur sólskinshestur, að því leyti að viðfangsefnið er þetta sorglegt, en hinsvegar má líka segja að sagan sé einmitt sólskinshestur - því fer fjarri að hér sé einhver þunglyndisbók á ferðinni. Þannig er skáldsaga Steinunnar vissulega einskonar sólskinshestur í íslensku jólabókaflóði, sparibók sem veitir lesandanum ósvikna ánægju, jafnt í rigningu sem sólskini.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005.