Beint í efni

Söngur Guðsfuglsins: Sagan af unganum sem vissi ekki til hvers fuglar voru

Söngur Guðsfuglsins: Sagan af unganum sem vissi ekki til hvers fuglar voru
Höfundur
Ísak Harðarson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Helga Birgisdóttir

Söngur Guðsfuglsins er fyrsta barnabók Ísaks Harðarsonar, skrifuð árið 1992, útgefin 2011. Ísak er eflaust best þekktur sem ljóðskáld en það eru 30 ár síðan hans fyrsta ljóðabók, Þriggja orða nafn, kom út. Síðan þá hefur hann sent frá sér fjölda ljóðabóka auk þess að skrifa skáldsögu, tvö smásagnasöfn og hið ævisögulega verk Þú sem ert á himnum, þú ert hér! (1996).

Söngur Guðsfuglsins fjallar, eins og undirtitillinn segir, um þrastarunga sem „vissi ekki til hvers fuglar voru“. Þetta er saga um leitina að tilgangi lífsins, ætluð börnum og er fagurlega myndskreytt af Helga Þorgils Friðjónssyni. Sögð er saga þriggja kynslóða þrasta í Hljómskálagarðinum og það er gaman hvernig styttur úr þessum sama garði eru notaðar við myndskreytingarnar en myndirnar eru á hægri síðu og ná allar yfir heila síðu, alla jafna með þykkan ramma utan um sjálft myndefnið sem sýnir fuglana við leik og störf. Ýmsum aðferðum er beitt við myndlýsingarnar, myndir eru málaðar og teiknaðar, klipptar inn og ljósmyndir eru einnig notaðar.

Tilgangur lífsins eða leitin að þessum tilgangi er umfjöllunarefni sem Ísaki er hugleikið eins og Andri Snær Magnason bendir á í umfjöllun sinni um verk skáldsins hér á Bókmenntavefnum. Þar vísar Andri til dæmis til Þú sem ert á himnum, þú ert hér! þegar drengurinn Ísak hugsar um það hvers vegna við erum til og hlustar á söng þrastanna sem honum finnst vera hjáróma, merkingarlaus og falskur.

Þrátt fyrir að fást við alvarleg málefni er sagan afskaplega fyndin. Litið er á heiminn frá sjónarhorni þrastanna og ungarnir eru mjög forvitnir um lífið og tilveruna eins og við sjáum í upphafi bókar þegar „næststærsti unginn“ spyr:

„Er þetta hreiðrið okkar, mamma og pabbi? Bjugguð þið það til? Af hverju bjugguð þið það til? Hvað er fyrir utan það? Hvað er þetta græna og þetta brúna? En þetta bláa og skrítna? Af hverjum erum við hérna? Hvað erum við?“ (bls. 8)

Málfarið er aðlagað að fuglum, fuglarnir tala ekki heldur tísta og hlusta á „dásamleg spekitískið“ sem hrýtur af „góða goggnum hans pabba“ (bls 8), það sem við myndum kalla barnalegt er í sögunni „ungalegt“, herramannsmatur verður „herrafuglsmatur“, Guð verður „Guðsfugl“ og svo mætti lengi telja. Þessi orðaleikur tekst afskaplega vel en öll framsetning textans er mjög skemmtileg og bókin vel skrifuð.

Ungarnir sem klekjast úr eggjum eru fjórir talsins. Þeir vaxa og þroskast og einn af öðrum átta þeir sig á því til hvers fuglar eru og allir fá þeir nafn: Goggur, Vængur og Birkinefur. Yngsti fuglinn fær þó ekkert nafn og skilur ekki til hvers fuglar eru. Sorg og dauði sækja ekki aðeins mennina heim heldur einnig fuglana og um miðja bók, þegar nafnlausi fuglinn er fullorðinn og kominn í hjónaband, lendir hann í miklu áfalli og verður í kjölfarið þunglyndur og dettur einna helst í hug að fuglar séu „til þess að deyja“ og lýsir því yfir Guðsfuglinn sé hreinlega „geirfuglinn – sem drapst auðvitað á undan öllu öðru!“ (bls. 32). Fjölskylda og vinir reyna eins og þeir geta að fá nafnlausa fuglinn til að sjá ljósið og hann þarf að skoða bæði sál sína og hjarta áður en birtir til og hann veit til hvers fuglar eru.

Söngur guðsfuglsins er einstaklega falleg barnabók sem fjallar um málefni sem öll börn velta einhvern tíma fyrir sér, og við fullorðna fólkið líka. Svarið við því til hvers fuglar eru (og þá væntanlega líka menn) er að finna í Guðsfuglinum, til hans þurfum við að tísta „innsta tísti hjartans“. Trúarþörfin er áberandi í þessari sögu eins og svo mörgum verkum Ísaks. Sá boðskapur að við þurfum að leita að tilgangi lífsins og að hann sé að finna innra með okkur, í kærleikanum, er fallegur og góður og öllum hollt að hlusta á. Ég er hins vegar efins umtrúaráróður eins og þann sem birtist í þessari barnabók. Kærleikurinn virðist samofinn Guðsfuglinum, en hvað með þá sem ekki trúa á hann. Eiga þeir sér enga von? Ungir lesendur hljóta að spyrja sig þeirrar spurningar.

Helga Birgisdóttir, janúar 2011