Beint í efni

Svartur á leik

Svartur á leik
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er kannski best að byrja á því að afhjúpa hvað ég er mikill smáborgari og lýsa því yfir að svona almennt séð hef ég óttalega lítinn áhuga á veröld undirheima og eiturlyfja, handrukkara og dílera. Mér hefur alltaf þótt þetta fremur óspennandi og almennt leiðst meira með eiturlyfjum en án þeirra. Það var því ekki með neinni sérstakri tilhlökkun sem ég hóf lestur á þykkri bók Stefáns Mána, Svartur á leik, en hún fjallar einmitt um undirheima, eiturlyf og hverskyns glæpi og ofbeldi þar í kring. Á hinn bóginn met ég Stefán Mána mikils sem rithöfund og ætlast til mikils af honum og vonaðist því eftir að að hann gerði mér þennan lestur einhvers virði. Í stuttu máli sagt gekk það síðarnefnda eftir, færni Stefáns Mána varð yfirsterkari áhugaleysi mínu á viðfangsefninu og ég át mig í gegnum doðrantinn.

Sagan segir frá sveitadrengnum Stefáni Kormáki Jónssyni sem vinnur á Blúsbarnum í Reykjavík og kemst þar í kynni við undirheima Reykjavíkurborgar, en eigandi barsins, Jói Faraó, og framkvæmdastjórinn (og dyravörðurinn) Tóti, takast á um að ríkja yfir eiturlyfjasölu í bænum. Áður en af veit er Stefán, sem Tóti kallar Stebba psycho, orðinn flæktur í þessi mál, en hér er sumsé í gangi valdabarátta milli kynslóða, Jói Faraó er fulltrúi hinna gömlu traustu glæpamanna sem mögulega er búinn að koma sér upp samböndum í Fíknó til að halda öðrum dílerum niðri, en Tóti og félagar eru fulltrúar nýrrar kynslóðar. Og síðan fáum við sögur af uppruna klíku Tóta – sem Stefán verður hluti af – og þróun þeirra á glæpabrautinni. Sérstaklega er sjónum beint að Tóta sjálfum og Dagnýju, sem er einskonar allragagn þarna í klíkunni, en öðrum persónum eru einnig gerð nokkur skil.

Miðað við umfjöllunarefnið er því hér komin umfjöllun um málefni sem snerta samtímann, en undanfarið hefur verið mikið fjölmiðlaumræða um vaxandi vandamál af völdum ofbeldis og eiturlyfja á Íslandi. Fyrir þá sem hafa gleypt í sig fréttir af handrukkurum ætti þessi bók að vera himnasending! Ætla mætti að hér væri á ferðinni fremur klassískt plott; sagan af hinum saklausa ferðalangi sem heldur á vit ævintýranna og endar sem breyttur maður. En Stefán Máni býður ekki uppá svo einfaldar formúlur, ekki frekar en fyrr. Lokin gefa lesandanum nýja sýn á þetta alltsaman, svo að ég fann mig næstum knúna til að byrja uppá nýtt! Sérlega vel heppnaður lokasprettur hjá höfundi sem hefur sérhæft sig í vel heppnuðum lendingum verka sinna. Að vanda eru það nákvæmar lýsingar á persónum og umhverfi sem draga lesandann inn og lama hann næstum, þó ekki geti ég beint sagt að ég hafi upplifað þetta sem spennusögu, hafi það verið ætlunin. Á stundum fannst mér skotið yfir markið, lýsingar á atburðum urðu of langdregnar, eða bara atburðirnir of margir, en þó aldrei svo að verulegur skaði hlytist af.

Stíll Stefáns er smart og svalur og laus við tilgerð og rembing. Höfundur heldur ákveðnu hlutleysi sem virkar vel, en undirróður hverskonar hefði átt illa hér heima. Þetta þýðir ekki að í sögunni sé verið að upphefja þetta líf undirheimanna, en það er heldur ekki fordæmt – á áberandi hátt allavega – og alls ekki sett fram í einhverjum æsingastíl. Þetta fannst mér mikill lúxus – því vissulega býður efnið upp á ''sensationalisma'' einsog fjölmiðlaskrif votta um, en það sem kannski gladdi mig mest var að upplifa alvöru töffaraskap í íslenskum skrifum, hér er komin bók í anda töffarakvikmynda Tarantinos, hæfilega blóðug og hæfilega fyndin, en umfram allt: Töff.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004