Beint í efni

Systu megin

Systu megin
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Guðrún Steinþórsdóttir

Steinunn Sigurðardóttir er einn af okkar fremstu og virtustu höfundum en rithöfundarferill hennar spannar yfir hálfa öld. Á ferlinum hefur hún hlotið fjölda verðlauna auk þess sem verkin hennar hafa verið þýdd á mörg tungumál. Steinunn er einkar afkastamikil og fjölhæf en það er eftirtektarvert hversu auðveldlega hún hefur flakkað á milli ólíkra bókmenntagreina í gegnum tíðina og leikið sér að því að blanda saman mismunandi formum þeirra. Hún hóf ferilinn sem ljóðskáld og ljóðrænan setur jafnan mark sitt á frásagnir hennar sem stundum eiga það til að hverfast í ljóð en Tímaþjófurinn (1986) er líklega skýrasta dæmið um það. Þessi yfirlitsgrein tekur upp þráðinn frá grein Úlfhildar Dagsdóttur sem fjallar um verk Steinunnar frá upphafi fram til ársins 1999. Árið 2011 sendu bókmenntafræðingarnir Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson frá sér bókina Hef ég verið hér áður sem fjallar um skáldskap Steinunnar en hún er stórgóður vegvísir fyrir lesendur um skáldaða heima rithöfundarins; bæði ljóð og frásagnir.  

I

Verk Steinunnar vitna um að hún hefur djúpa innsýn í mannlegt eðli og býr yfir leiftrandi frásagnargáfu. Hún leikur sér gjarnan með tungumálið, býr óspart til ný orð, dregur upp óvæntar og nýstárlegar myndir og beitir íróníu og húmor með glæsibrag. Meðal algengra viðfangsefna Steinunnar, jafnt í frásögnum og ljóðum, eru forgengileiki tímans, ástin, dauðinn, þráhyggjan og samspil manns og náttúru. Í sjöttu ljóðabók hennar, Hugástum (1999), finnast öll þessi þemu. Bókin skiptist í fimm hluta þar sem ljóð raðast saman og mynda áhrifaríka heild. Fyrsti hlutinn nefnist „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“ og inniheldur fjögur ljóð sem mynda saman ljóðabálk en öll fjalla þau um ævina og dauðann. Strax í fyrsta ljóðinu er tóninn sleginn: „Allt sem skiptir máli kemur ekki / jafnt og þétt, ekki smátt og smátt. // Allt sem skiptir máli kemur nefnilega í hviðum“ og á það jafnt við um timburmenn, ástríðuna, ergelsið, hláturinn og hugástina. „Ævin […] gengur fram í hviðum“ segir ljóðmælandi og dauðinn getur hvenær sem er gert „árás sem er bæði sú fyrsta og síðasta“. Með markvissri notkun á endurtekningum, upptalningum og andstæðum í bland við óvæntar líkingar byggir Steinunn upp einkar sterkt og magnað ljóð sem dregur lesandann inn í verkið.

Í fyrsta hlutanum vinnur Steinunn með dauðann í tengslum við tímann og minnið sem og trega yfir því sem einu sinni var en er nú horfið á braut og mun aldrei aftur verða; efnistök sem raunar má greina víðar í verkum skáldsins. Í ljóðabálknum birtist einnig sú hugmynd að þegar einstaklingur deyr fari með honum heill alheimur einsog kemur glögglega fram í þriðja ljóðinu þar sem upptalning og endurtekning eru listilega nýtt til að draga fram sérstöðu hvers og eins:  

Þegar fólk deyr þá deyr ekki bara fólk

með því deyr alheimur

af háttalagi, vinnulagi, raddblæ, visku, fávisku.

Sérstakur hlátur deyr og bros á sérstökum hraða.

[…]

Þegar manneskjan deyr þá deyr með henni heil hárgreiðsla

 

og ef það er gömul kona sem dó þá deyr líka kvenveski lúið

og handtökin við að opna veskið og róta í því.

Í fjórða ljóðinu er sett fram sú forvitnilega og íróníska tilgáta að lífið gangi út á að ná sér eftir „nætursvefn […] fæðinguna, upphafsöskrið [...] óhamingjusama æsku [...] göngutúr, magapest, dauðsföll, húsbyggingu, kelirí, kvef, símtal, uppvask, geðveiki, vinnudag, fullnægingu [...] ástarsorg“ þangað til lífið endar „[l]öngu áður en maðurinn nær sér / eftir símtalið, fullnægingu, kvef.“ Eins og Guðni Elísson hefur bent á snýr Steinunn hugmyndum fyrsta hlutans á haus. „Í stað þess að leggja áherslu á það hvernig dauðinn bindur enda á allt sem tilheyrir því að vera á lífi, gengur lífið út á að ná sér“ eftir látlaus verkefni. „Manneskjan á fullt í fangi með að vinna úr öllum þeim litlu áreitum sem einkenna tilveru hennar, allt þar til jafnvægi er náð í dauðanum.“[1]

Annar hluti ber sama heiti og bókin; „Hugástir“. Þar eiga ljóðin sameiginlegt að fjalla um ástina eða nánar tiltekið hugsanir ljóðmælanda um ást sem einu sinni var, eftirsjá eftir hinum elskaða og ímyndanir um sameiningu elskenda sem þó er ekki skapað nema að skilja og geta því ekki hist nema í ímynduðum heimi ljóðmælanda. Í ljóðunum ávarpar ljóðmælandi hinn elskaða sem honum reynist erfitt að gleyma og þótt hann geti á daginn haldið dagdraumunum í skefjum smjúga „draumarnir […] viðstöðulaust í gegn, í skjóli nætur.“ Á fínlegan og næman hátt yrkir Steinunn um ástina og hvernig þankar um hana lifa áfram þótt ástarsambandinu sé lokið.  

Þriðji hlutinn nefnist „Ljóð utan af landi“ en einsog nafnið bendir til er náttúran þar í brennidepli. Ljóðin sem þar birtast eiga það sameiginlegt að vera margræð og búa yfir frjóum líkingum líkt og t.d. ljóðið „Til sendibílstjórans“ vitnar um, einkum lokaerindi þess: „Sæktu mér margar gagnsæjar stjörnur / nýkviknaðar á þunnum himni / og kyntu undir með brennisteinslykt úr skuggafjalli.“

Steinunn gerir íslenska náttúru gjarnan að yrkisefni sínu en í sumum tilvikum beitir hún framandgervingu og ýtir þannig við skynjun lesandans. Guðni Elísson hefur nefnt að tilteknum ljóðum Steinunnar sé þannig „ætlað að endurheimta tilfinningu lesandans fyrir lífi og náttúru, að vinna gegn vélrænu hversdagslegra athafna og hjálpa honum að upplifa nánasta umhverfi sitt á nýjan leik“.[2] „Hekla I“ er gott dæmi um slíkt ljóð en það birtist í fjórða hluta Hugásta; „Tvennum“:

Hekla framanverð er meyprinsessa

spengileg, grimm, á köflum banvæn.

 

Þessa hlið þekki það

dauðlegt fólk sem skröltir á hringvegi.

 

Önnur Hekla blasir við görpum

sem hætta sér inn á hálendistómið:

 

Óþekkjanleg stútungskerling

breið og brussuleg aftanfyrir.

 

Verðlaun ofurhugans, segja hringvegsmenn.

Ljóðið vitnar ekki eingöngu um framandgervingu heldur einnig um blússandi íróníu sem raunar má finna víðar í ljóðabókinni.

Manneskjan sem birtist í ljóðum Steinunnar er oft tímaferðalangur sem metur atburði í ljósi þess sem var, er og verður en það kemur glögglega fram í lokahluta Hugásta; „Brotnar borgir“. Í níu ljóðum yrkir Steinunn þar bæði um erlendar og nafnlausar borgir. Sagan, umhverfið, líf mannanna, fortíðin, ástin og treginn blandast saman í ljóðunum á margræðan hátt sem og raunveruleiki og ímyndun. Hugarborgirnar sem ort er um má túlka sem líkingu fyrir gömul sambönd og fortíð ljóðmælandans.

II

Tveimur árum eftir að Hugástir kom út sendi Steinunn frá sér hina bráðskemmtilegu skáldsögu Jöklaleikhúsið (2001). Sögusviðið er Papeyri, vinabær rússneska skáldsins Antons Tsjekhovs, staðsett fyrir austan þar sem stórkostleg náttúra er allt um kring og jöklasýnin dásamleg. Leikfélag staðarins ákveður að setja upp Þrjár systur eftir Tsjekhov með karlmenn í öllum hlutverkum. Leikritavalið breytist að vísu þegar bæjarhöfðinginn Vatnar Jökull kemst í spilið, hann hefur peningavöldin og vill frekar sjá Kirsuberjagarðinn vakna á fjölunum. Vatnar Jökull ákveður að reisa Jöklaleikhús á eigin kostnað til að heiðra Tsjekhov og upphefja sjálfan sig um leið. Sagan fjallar síðan um ástir og örlög fólksins í bænum, kynusla og kostulegar uppákomur.

Jöklaleikhúsið hefur stærra og fjölbreytilegra persónugallerí en margar aðrar sögur Steinunnar og markast það kannski einkum af því að verkið fjallar einum þræði um leikrit og minnir í mörgu á þá bókmenntagrein jafnt með tilliti til byggingar, persóna og söguþráðs. Þannig má segja að í verkinu blandist saman skáldsaga og leikrit enda setja persónur sig sífellt í ákveðnar stellingar rétt eins og þær séu staddar í miðri leiksýningu. Frásögnin er þess utan farsakennd með harmrænu ívafi. Vitundarmiðja sögunnar er hvíslarinn Beatrís sem fylgist vel með því sem gerist í kringum hana þótt hún sé sjaldnast beinn þátttakandi í atburðum. Eftir því sem sögunni vindur fram kemur þó saga hennar sjálfrar betur í ljós. Hún er alin upp af áfengissjúkri móður sem beitir hana sálrænu ofbeldi og líkt og ýmsar aðrar persónur Steinunnar leggur hún ofurást á mann sem endurgeldur ekki ástina.

Óendurgoldnar ástir eru einnig til umfjöllunar í nóvellunni Hundrað dyr í golunni (2002). Þar segir frá Brynhildi sem dvelur í París í stuttu fríi. Hún er gift jarðfræðingnum Bárði Stephensen og á með honum tvær uppkomnar dætur. Það stoppar hana þó ekki í þeirri ákvörðun að fá sér elskhuga. Sagan flakkar fram og aftur í tíma því veran í borginni vekur upp minningar hjá Brynhildi um námsárin í Sorbonne þegar hún kolféll fyrir manninum sem kenndi henni grísku og var helmingi eldri en hún. Í þremur köflum er fyrst sagt frá ástarævintýri Brynhildar, því næst frá ást hennar á prófessornum aldarfjórðungi fyrr og að lokum lífinu á Íslandi með eiginmanninum Bárði. Í verkinu finnast mörg af helstu höfundareinkennum Steinunnar s.s. ástin, þráhyggjan, dauðinn og tíminn.

Endurtekningin skipar stóran sess í mörgum verka Steinunnar og tengist hún þá ekki síst þráhyggjunni og þeirri staðreynd að sögupersónur hjakka gjarnan í sama farinu, hugsa um ástina og það sem gæti hafa orðið en aldrei átti sér stað. Slíkt á vel við um ýmsar persónur Hundrað dyr í golunni sem eiga það sameiginlegt að vera gagnteknar af ást á einstaklingi sem endurgeldur ekki ástina. Kemur það skýrast fram hjá aðalsöguhetjunni Brynhildi en grískuprófessorinn vildi hana ekki. Í miðkafla sögunnar, „Dauðaleitinni“, er sagt frá ástarþráhyggju Brynhildar þegar hún var í námi en þá fór hún endurtekið í gönguferðir í þeirri von um að rekast á grískuprófessorinn. Hún var þó ekki sú eina sem var föst í dauðaleitinni að ástinni því samtímis voru bæði prófessorinn og Bárður að leita að henni. Elskendunum – Brynhildi og prófessornum – var þó ekki skapað nema að skilja. Rétt eins og tíðkast í svo mörgum sögum Steinunnar ná elskendurnir ekki saman og kvenhetjan verður að sætta sig við eiginmann sem hún ekki elskar.[3]

Hjónin Brynhildur og Bárður eiga það sameiginlegt að lifa í sjálfsblekkingu. Hún ímyndar sér gjarnan hvernig samband hennar og prófessorsins hefði orðið hefðu þau náð saman og gifst. Hugmyndirnar eru upphafnar og orka því sem fjarstæðukenndir draumórar. Þegar Bárður og Brynhildur byrja saman er hún í djúpri ástarsorg en í endurminningu beggja eru fyrstu dagar sambandsins dásamlegir sbr. orð Bárðar: „Þetta voru dýrðardagar“ sem Brynhildur tekur síðar undir. Á sama hátt og Brynhildur er föst í hugmyndum sínum um ástina sem aldrei varð er Bárður fastur í endalausum eltingarleik eftir Brynhildi sem hann fær og þó ekki. Hún pínir sjálfa sig til að vera með honum og tekur glöð að sér að vera fyllibyttumamma því hún sakar sjálfa sig um að eiginmaðurinn skuli sífellt hneygast í átt að meiri drykkju vegna vangoldinnar ástar.[4] Hundrað dyr í golunni fjallar þó ekki aðeins um ást og þráhyggju heldur er þar einnig umfjöllun um umhverfismál og ádeila á virkjanir á landinu.

III

Meistaraverkið Sólskinshestur kom út árið 2005 og var tekið fagnandi af lesendum. Í skáldsögunni blandast listavel saman mörg af þeim þemum sem Steinunn er þekkt fyrir að skrifa um s.s. ástin, þráin, dauðinn og tíminn. Á fyrstu blaðsíðu bókarinnar er minnst á ljóð Davíðs Stefánssonar, „Til eru fræ“, en ljóðið er frásagnarspegill enda rúmast í því kjarninn í allri sögu Steinunnar: vanræksla á börnum og áhrif hennar. Sagan er sögð frá sjónarhóli Lillu og spannar sögu hennar frá því að hún er lítil stúlka og þar til hún deyr rúmlega fertug. Lilla elst upp í stóru einbýlishúsi við Sjafnargötuna ásamt bróður sínum, Mumma. Foreldrarnir, Ragnhildur og Haraldur, eru læknar, afar upptekin í vinnu og hafa lítinn sem engan áhuga á að sinna börnum sínum. Eina fullorðna manneskjan sem það gerir er þýska húshjálpin Magda. Þegar hún er óvænt látin fara hverfur kjölfestan í lífi systkinanna og Lilla sér sig knúna til að taka við starfi Mögdu, þrífa húsið, þvo þvottinn og hugsa um bæði sjálfa sig og ungan bróður sinn.  

Fjarlægðin á milli barnanna og foreldra þeirra er mikil en með fráhvarfi húshjálparinnar verður hún enn meiri og áhugaleysi Ragnhildar og Haraldar enn augljósara. Það undirstrika einnig nöfn persónanna og eins hvernig þau vísa hvers til annars. Foreldrarnir gefa dóttur sinni ekki nafn heldur er hún alltaf kölluð Lilla. Þá kalla systkinin foreldra sína ekki mömmu og pabba heldur Ragnhildi og Harald, stundum Hralla og Röllu eða bara hjónin. Sýni foreldrarnir börnunum athygli er hún iðulega neikvæð. Sem dæmi um það má nefna að Haraldur lætur klippa flétturnar af Lillu án hennar vilja. Í kjölfarið er barnið í uppnámi en í stað þess að móðir hennar reyni að róa hana með orðum sprautar hún hana með róandi. Vantraust Lillu til móðurinnar er algjört því hún telur að Ragnhildur vilji hana feiga. Foreldrarnir misstu bæði æskuást sína og svo virðist vera sem þau hafi aðeins tekið saman og eignast börn til að fylgja eftir samfélagslegum viðmiðum; fyrir það líða börn þeirra.[5]  

Vanræksla foreldrana er sýnd á ýmsan máta en skýrast birtist hún í þrá Lillu eftir ást og athygli. Eftir að Magda hverfur úr lífi hennar sækir hún í ógæfukonuna Nellý sem býr í hreysi. Nellý á dóttur sem hefur verið tekin af henni en sagan um þær mæðgur er einskonar spegilsaga af sögu Lillu og hennar fjölskyldu. Lilla fær ekki þá ást og alúð sem hún þráir frá foreldrum sínum en hún ímyndar sér að Nellý sé hin fullkomna móðir og dóttir hennar Dór(a) lánsamasta stúlkan í heiminum. Lilla þráir því ást Nellýar. Eftir dauða Nellýjar verður Dór ímyndaður vinur Lillu sem hún skrifar bréf til, hugsar um og ímyndar sér hvað sé að gera og hvernig lífið leiki við hana. Það er einkar dapurlegt að þegar Lilla og Dór(a) hittast fullorðnar konur kemur í ljós að Dóra hefur náð sér eftir áföll lífsins en ekki Lilla.  

Sagan um Nellý er ekki eina spegilsagan í sögunni. Samband Lillu og góða menntaskólakærastans speglar sumpart sögu Haralds, Ragnhildar og hinar glötuðu ástir þeirra. Lilla sækist bæði í ást og umhyggju í þeim ástarsamböndum sem hún á í en eins og einkennir gjarnan þrána fær hún ekki það sem hún vill. Það er átakanlegt hversu lík Lilla verður móður sinni eftir því sem hún eldist. Hún giftist ekki æskuástinni heldur manni sem hún elskar ekki en eignast þó með tvær dætur. Lilla vill vera góð móðir en fjarvera hennar er augljós; hún er sífellt með hugann við æskuástina, manninn sem gaf henni nafn og bar umhyggju fyrir henni. Inn í þessar spegilsögur fléttast sagan af samkynhneigð Mumma og rammasagan sem bókin hefst og endar á; þ.e. sagan um Lillu og æskukærastann á fullorðinsárum. Allar sögurnar búa yfir eymd og óhugnaði, óuppfylltri þrá auk þess sem dauðinn er sjaldan fjarlægur en í sögulok deyr Lilla áður en hún nær að sameinast æskukærastanum.

Feta má í spor Úlfhildar Dagsdóttur og túlka Sólskinshest sem gotneska skáldsögu.[6] Gotnesk hugsun snýst „öðrum þræði um fallvaltleika tilverunnar, um forgengileika og missi, um hætturnar sem leynast við hvert fótmál gætum við ekki að okkur.“[7] Dauðinn, forgengileikinn og missirinn eru nálæg á heimili systkinanna; þar eru reglulega haldnir miðilsfundir, foreldrarnir bera myndir af látnum elskhugum eins og blæti og systkinin leika sér í dauðaleikjum á háaloftinu til að takast á við erfiðar aðstæður. Fjölskylduhúsið er auk þess stórt og drungalegt og minnir í mörgu á hús hryllingssagna en með árunum vex þar mygla í herbergjunum. Þegar Lilla flyst þangað aftur á fullorðinsárum gerir hún allt húsið upp í skrefum. Framkvæmdirnar eru táknrænar fyrir hvernig Lilla tekst á við fortíðina; bernskuherbergið geymir hún þar til síðast enda erfiðast að takast á við trámað sem er tengt bernskunni og þeirri vanrækslu sem henni fylgdi.

Í sögunni sýnir Steinunn vel hversu fantagóð tök hún hefur á formi og stíl. Ekki er nóg með að söguefnið sé sterkt heldur á framsetning sögunnar mikilvægan þátt í áhrifum hennar. Frásögnin er melankólísk en húmorinn er þó skammt undan einsog ýmis samtöl persóna og gjörðir vitna vel um. Ljóðrænan einkennir textann sem stundum hverfist í ljóð og magnar það áhrif sögunnar; ekki síst er hin ljóðræna lýsing á dauðdaga Lillu áhrifamikil en hún kallast skemmtilega á við fyrrnefndan ljóðabálk „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“.

IV

Ástarljóð af landi (2007) er ákaflega heildstæð og velheppnuð ljóðabók þar sem ástin og náttúran eru í brennidepli þótt ýmis önnur þekkt leiðarstef skáldsins láti einnig á sér kræla. Í fyrsta ljóðinu, „Upphafsljóð fyrir eilífa byrjendur“, er ort um hverfulleika ástarinnar og forgengileika tímans; endalok ástarsambands er syrgt frá upphafi eins og eftirfarandi brot ljóðsins vitnar um:

Sorgbitin strax fyrir byrjun

í vissunni um að það yrði byrjun,

í vissunni um að byrjunin hættir

í vissunni um að endirinn yrði endalaus.

Í upphafinu sjálfu er nýtt upphaf.

[…]

Það óbærilega er tilhugsunin um að allt upphaf tekur

enda og að endalok kossins er undanfari lífsins

                                                                            án kossa.

Í ljóðinu þurrkar tíminn „allt út að lokum, ekki aðeins minningar fortíðar, heldur einnig samtíð og mögulega framtíð“ eins og Guðni Elísson hefur bent á. Írónía ljóðsins er nátengd tímanum því  ljóðmælandi syrgir það sem enn á eftir að gerast.[8]

Ástin og tíminn eru oft samofin í ljóðum skáldsins eins og sést t.d. í ljóðabálknum „Ljóð fyrir lengra komna“ en þar blasir írónían einnig við. Einsog kemur fram í ljóðinu „Ástin á tímum ástarjátninga“ geta ástarjátningar látið á sér standa í áratugi en þegar þær „fara loksins að koma / er það gefið að bara ein hittir í mark, / frá þeim mest-elskaða, auðvitað.“ En biðin markar þann sem elskar og bíður. Ástarjátningin „[s]vo lengi óendurgoldin að hún er hætt að vera / langþráð. Sama hvað hún er kærkomin.“ Staðreyndin er nefnilega sú að „síðbúin ástarjátning er í rauninni / ekki játning um ást, heldur tíma. / Staðfesting á því að glataður tími er til bak við / furutrén.“ Mannfólkið þráir einatt tiltekna ást en eins og einkennir gjarnan persónur Steinunnar í skáldsögum hennar reynist erfitt að uppfylla óskina. Í ljóðabálknum er víða komið við t.d. er þar ort um ástir miðaldra fólks, syndaspekina og letina.

Þótt ástin sé miðlæg í Ástarljóð af landi eru ljóðmælendur ekki eins örvæntingarfullir og ýmsar skáldsagnapersónur Steinunnar sem haldnar eru ástarþráhyggju. Það er því freistandi að taka undir með Guðna Elíssyni sem veltir fyrir sér hvort ljóðmælendur séu orðnir „reynslunni ríkari og því ekki eins ákafir að gefa sig ástríðunni á hönd“.[9] Ástarljóð Steinunnar í bókinni sýna í það minnsta hvernig henni tekst sífellt að draga fram ólíkar birtingarmyndir ástarinnar og koma lesendum sínum á óvart.

Tveir síðustu hlutar bókarinnar – „Framlengdur sumardans fyrir austan fjall“ og „Einu-sinni-var-landið“ – eru ástaróður til lands og náttúru. Frumgerðin að fyrstu þremur hlutunum í lokahluta bókarinnar birtist fyrst í tveimur ljóðum í Lesbók Morgunblaðsins á árunum 2003 og 2004 en þá var kýrskýrt að þau voru hörð gagnrýni á virkjunarstefnu stjórnvalda og eyðileggingu náttúrunnar. Í ljóðunum segir frá fyrsta Íslendingnum, írskum einsetumanni, sem kemur til landsins löngu á undan Ingólfi og hans fólki. Við landnám telur hann sig hafa fundið paradís, fyrirheitna landið. Hann leggur sig um aldir, hefur ískyggilegar draumfarir og vaknar síðan upp í gjörbreyttum heimi árið 2006. Paradísin hefur umturnast í eyðiland; brennimerkt land. Náttúruspjöllum mannanna er lýst með ákaflega sterku myndmáli eins og sést í eftirfarandi ljóðlínum: „Jörð lifandi manna: hamflett deyjandi dýr“; „Fjöllin afbökuð, húðflett. Fossar í fjötrum. Gyfjur og / skurðir. Eyðilagt land. // Engin brennandi plága. Heldur tröllahendur höfðu / tætt það sundur. Stór-Vandalar? Kýklópar? […]“ Undir lokin teflir Steinunn húmornum gegn heimsósómanum og alvarleika ljóðsins því með tímanum verða einsetumenn léttlyndir, hvar sem þeir eru og „biðja saman bæninina: UM BROTTREKSTUR VÍKINGA / ÚR PARADÍS“.[10] Ljóðabálkurinn kallast einum þræði á við fyrri skrif Steinunnar um náttúruvernd í Hundrað dyr í golunni en hann minnir lesendur á mikilvægi þess að hlúa að náttúrunni og berjast gegn stóriðju.

Í skáldsögunni Góði elskhuginn (2009) koma fyrir ýmis kunnugleg stef úr smiðju Steinunnar; s.s. ástin, þráhyggjan, tíminn og dauðinn; sem hún vinnur þó með á annan og nýjan hátt en áður. Sagan fjallar einkum um ástina og ástleysi, samband sonar og móður. Í verkinu segir frá Karli Ástusyni, 37 ára gömlum forríkum viðskiptamanni. Hann er heimsborgari og fagurkeri sem á hús á Long Island og í Suður-Frakklandi. Karl er mikill kvennamaður en hann hefur sofið hjá 102 konum. Hann tengist þeim þó ekki tilfinningaböndum því hann vill ekki svíkja tryggð við æskukærustuna Unu og móður sína, sem lést þegar hann var ungur maður. Ástkonurnar uppfylla því aldrei þrá karlhetjunnar. Í upphafi sögu kemur Karl til Íslands og eftir að hafa ráðfært sig við Doreen Ash, gamla ástkonu, geðlækni og sálgreini, hefur hann samband við Unu. Saman flýja þau á vit ævintýranna en í sögulok eru þau enn saman og Una orðin ófrísk af stúlkubarni.

Fjögur sambönd persóna eru fyrirferðamest í verkinu; þ.e. sambönd Karls við móður sína Ástu, Unu, aðstoðarkonuna Lottu og Doreen Ash. Þótt móðir Karls hafi verið látin í mörg ár býr hún enn í minningum hans sem hin fullkomna móðir og í sögulok heiðrar hann nafn hennar með því að ákveða að ófædd dóttir hans muni heita Ásta. Eftir dauða móðurinnar gat enginn komið Karli til að hlægja þar til að Una birtist honum en eftir að þau hættu saman lifði hann í hláturslausum heimi. Þegar þau hittast að nýju ná þau saman þótt tíminn hafi breytt þeim að einhverju leyti. Una hefur aldrei vikið úr huga Karls og er honum meira að segja svo náin að heimili hans eru innréttuð með hennar stíl í huga. Eins og Úlfhildur Dagsdóttir hefur bent á „nær Una aldrei að verða annað en skuggi af persónu“ og „er í raun draumsýn Karls, spegilmynd hans sem þjónar aðeins því hlutverki að staðfesta hugmyndir hans um sjálfan sig, ást sína og réttu ástkonuna.“[11] Una tekur því við hlutverki ýmissa karlkyns-ástarviðfanga úr fyrri sögum Steinunnar en ólíkt mörgum öðrum ástarsamböndum sem hún hefur skrifað um ná elskendurnir saman að lokum.

Doreen Ash er bæði skýrari persóna en Una og mun forvitnilegri. Hún og Karl áttu saman eina nótt og þótt honum hafi mislíkað æri margt í fari hennar heyrast þau í síma þremur árum síðar þegar hún ráðleggur honum að hafa samband við Unu. Greinilegt er að kynni þeirra hafa haft áhrif á þau bæði en þó líklega meiri á Doreen sem skrifar bókina Góði elskhuginn um Karl þar sem hún greinir frá fundi þeirra og sálgreinir hann. Hún kallar Karl móðurson vegna náinna tengsla hans við móður sína og erfiðra tengsla við aðrar konur. Samkvæmt Doreen neitar Karl sér um fullnægingu vegna þess að „sáðlát myndi fullkomna sifjaspellið og auka hættuna „á því að geta barn með móður sinni““[12] eins og Guðni Elísson hefur komist að orði. Guðni telur reyndar Doreen vera á villigötum því sifjaspellshugleiðingarnar í bókinni snúist ekki um móðurina heldur frekar um systraígildin þrjú, Unu, Lottu og Doreen.[13]  

Eins og Guðni hefur bent á má greina fjölda sjálfssögulegra einkenna í Góða elskhuganum. Skýrust eru þau í raunveruleikaskáldsögu Doreen, Góða elskhuganum, sem fjallar um Karl Ástuson og rætt er um í samnefndri skáldsögu Steinunnar en þannig vísar skáldskapurinn á skemmtilegan hátt til sjálfs sín. Guðni nefnir einnig að Karl reyni að skilgreina samband sitt og Unu í ljósi mikilla bókmenntaásta og að Liina Minuti, ástkona Doreen, lýsi endurfundum parsins sem efni úr sérstakri skáldsögu. Þá flétti Steinunn líka kenningar fræðimanna um fyrri verk hennar saman við söguþráð Góða elskhugans með því að nýta sér kenningar sálgreiningarinnar í skáldskapnum en eins og Guðni hefur réttilega bent á hafa margir sótt í þá fræðigrein í bókmenntagreiningu á skáldskap Steinunnar.[14]

Í Góða elskhuganum leikur Steinunn sér enn á ný með ástarsöguformið og endurnýjar það á snjallan máta. Ástin skiptir máli í samböndum nútímans en spyrja má eins og Úlfhildur Dagsdóttir gerir í ritdómi um bókina; „hvað er ást?“ og „[e]lskar Karl Unu eða Doreen Ash?“[15] Doreen fremur sjálfsmorð og því stendur Karl ekki frammi fyrir raunverulegu vali á milli kvennanna sem hann elskar. Hann gengst sjálfviljugur inn í hefðbundið samband með litlausri konu þar sem allt er fullkomið en órökvísin og hið ófyrirsjáanlega, sem gjarnan tengist ástinni, er víðsfjarri. Ástarsagan um Karl og Unu hefur vissulega hinn góða endi en spurningin sem ómar í höfði lesanda af lestri loknum er þessi: munu þau lifa hamingjusöm til æviloka eða mun alltaf skorta spennu í sambandið?

V

Systursögurnar Jójó (2011) og Fyrir Lísu (2012) eiga það sameiginlegt með Sólskinshesti að fjalla um hrjáðar persónur sem hafa verið sviknar af sínum nánustu í uppvextinum. Umfjöllunarefnið er kynferðislegt ofbeldi í bernsku og áhrif þess á sjálfsmynd og líf þolenda. Jójó er fyrsta skáldsaga Steinunnar sem gerist alfarið annars staðar en á Íslandi. Sögusviðið er Berlín en sagan segir frá Martin Montag, krabbameinslækni á fertugsaldri. Líf hans virðist vera gott og í nokkuð föstum skorðum; hann er farsæll í starfi, nýtur þess að gera vel við sig í mat og drykk, hleypur daglega um borgina og elskar kærustuna sína Petru af öllu hjarta.

Dag einn kemur sjúklingur, eldri karlmaður, í viðtal til Martins og öll hans tilvera fer á hvolf. Sjúklingurinn hefur óþægilega nærveru og er kunnuglegur þótt Martin komi honum ekki strax fyrir sig. Á röntgenmynd minnir æxli mannsins Martin á „oggulítið jójó. Rautt jójó. Eldrautt jójó.“ Í kjölfarið vakna upp minningabrot um tráma sem læknirinn hefur reynt að þagga niður. Fyrst eru brotin einangruð og tengd ákveðinni skynjun en smám saman raðast þau upp í heildarmynd; minningu um sársaukafullan atburð úr bernsku: Martin var átta ára á leiðinni heim úr skólanum þegar hann hitti sjúklinginn fyrrnefnda í almenningsgarði. Sá lofaði að gefa honum eldrautt jójó og lokkaði hann þannig inn í bílskúr þar sem hann nauðgaði honum.

Fram kemur að Martin hafi sagt foreldrum sínum frá glæpnum um leið og hann kom heim en þrátt fyrir sönnunargögn; blóð í nærbuxum og rautt jójó; trúði honum enginn. Vegna þess að foreldrar hans bregðast honum sver hann að segja aldrei frá reynslu sinni og lokar um leið á fjölskyldu sína. Fyrir vikið hefur honum ekki gefist almennilegur kostur á að vinna úr fortíðinni og horfast í augu við þær erfiðu tilfinningar sem fylgja kynferðisofbeldi. Í sögunni er gerð góð grein fyrir sársaukanum, sektarkenndinni og skömminni sem þolandi upplifir vegna nauðgunar og viðbragða annarra við glæpnum. Eins kemur vel fram hvernig tráma getur snúið aftur hvenær sem er og ásótt einstakling einsog draugur með óvelkomnum endurlitum og hugsunum. Með minningum um trámað er frásögnin reglulega brotin upp og endurspeglar hún því vel hvernig trámaminni virkar.[16]

Til að takast á við sársaukann sem barn beitir Martin ímyndunaraflinu öðru fremur og fer í þykjustuleiki. Hann ímyndar sér að Herr Sommer og Frau Luft, látnir einstaklingar, sem eru grafin hlið við hlið og voru einhleyp í jarðlífinu séu orðin hjón í eftirlífinu. Í hugarheimi hans taka „hjónin“ hann að sér, trúa honum þegar hann segir frá ofbeldinu og veita honum þá umhyggju sem hann þarfnast. Martin sækir ekki aðeins í ímyndaða vini heldur einnig í tyrkneska fjölskyldu Mikka vinar síns sem hann þráir að tilheyra. Eftir að vinurinn deyr barnungur heldur Martin áfram að heimsækja fjölskylduna og ímyndar sér um leið að hann sé Mikki og hafi þar með aldrei hitt „loðkrumlukarl með jójó“.  

Á fullorðinsárum má einnig greina áhrif afbrotsins á líf Martins. Í námi gat hann ekki hugsað sér að umgangast börn og fékk því vottorð um að hann þyrfti ekki að vinna á barnadeildinni eins og öllum læknanemum var gert til að útskrifast. Þá er hann staðráðinn í að eignast ekki börn því hann er hræddur um að geta ekki verndað þau fyrir barnaníðingum. Mestu máli skiptir þó að fullur af sektarkennd upplifir hann sig aðeins sem hálfan mann eins og er margendurtekið í sögunni. Enginn veit um fortíð hans og hann hefur hvorki verið ærlegur við sjálfan sig né Petru. Hlaup Martins um borgina eru því táknræn fyrir hvernig hann hefur ætíð reynt að hlaupa frá fortíðinni. Sagan er sögð í fyrstu persónu út frá Martin en frásagnaraðferðin undirstrikar klofninginn í persónu hans því fyrir kemur að hann talar um sig í þriðju persónu: „Það fer í taugarnar á mér að koma honum ekki fyrir mig. Hvað er nú orðið um stálminnið hans Martins Montag?“

Sagan er einum þræði saga tvífara því einn af fáum sem Martin hefur getað myndað raunveruleg tengsl við er fyrrum sjúklingur hans, nafni og jafnaldri Martin Martinetti. Vinirnir eru bæði andstæður og hliðstæður. Martin Martinetti er franskur róni sem var reglulega nauðgað af föður sínum í æsku. Báðir hafa vinirnir þjáðst af sjálfsmorðshugsunum vegna ofbeldis en ólíkt lækninum sem hefur brugðist við trámanu með kulda og staðfestu í vinnu hefur sá hinn franski misnotað vímuefni og búið á götum úti. Hvorugur hefur getað fyrirgefið mæðrum sínum og öðrum sem kusu að blekkja sjálfa sig og horfa framhjá ofbeldinu. Vinirnir eru eins og tveir helmingar sem mynda eina heild; hjá hvor öðrum finna þeir styrk og skilning.

Inn í sögu Martins blandast einnig saga Lísu; dóttur sjúklingsins með jójó-krabbameinið. Martin minnist þess að hafa kynnst henni þegar hann var læknanemi á geðdeild sjúkrahússins en þá hélt hún því fram að faðir hennar hefði bæði nauðgað sér og bróður hennar sem stytti sér aldur. Við lestur á sjúkraskrá Lísu verður Martini ljóst hvernig markvisst hefur verið dregið úr sannleiksgildi sögu hennar og hún talin ótrúverðug; greind með geðhvarfasýki og með ranghugmyndir um kynferðislega misnotkun. M.a. er haldið gegn henni að faðirinn sé „vel metinn embættismaður“. Í framhaldsbókinni, Fyrir Lísu, leitar Martin Lísu uppi til að gera upp fortíðina og berjast fyrir réttlætinu. Á meðan að Jójó er innhverf saga þar sem fylgst er með sálarraunum Martins er Fyrir Lísu úthverf saga þar sem leyndarmálið um ofbeldið er opinberað.[17] Báðar kalla sögurnar á flóknar vangaveltur um vald og ábyrgð. Hvernig beita barnaníðingar valdi sínu til að koma fram vilja sínum og hver er ábyrgð þeirra sem næst standa börnum og gerendum? Getur verið að mæður viti ekki af ofbeldi sem makar beita börn þeirra? Og ef þær vita af ofbeldinu hvers vegna taka þær þá oftast afstöðu með gerandanum?

Í Fyrir Lísu kemur einnig vel fram mikilvægi þess að fólk fái tækifæri til að tala um eigið tráma og að hlustað sé af athygli á það og reynsla þess viðurkennd. Martin á í löngum samræðum um fortíðina við ýmsar persónur. Frásögnin orkar frelsandi; Martin þarf ekki lengur að burðast einn með leyndarmálið. Eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir hefur bent á í ritdómi um bókina er ábyrgð hlustandans þó mikil því ekki er sama hver hlýðir á trámatíska frásögn. Það hjálpar þolanda ef hlustað er gaumgæfilega á hann og honum er trúað en sé hvorki hlustað né lagður trúnaður á sögu af sársaukafullum atburði getur trámað orðið tvöfalt.[18] Slíka raun hafa Martin og Lísa mátt þola í bernsku og því enn mikilvægara að loksins sé á þau hlustað og réttlætið nái fram að ganga.

Sögur Steinunnar um Martin og Lísu komu fram þegar byrjað var að ræða kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum á mun opinskárri hátt en áður en engu að síður voru þær og eru þörf áminning um áhrif ömurlegs ofbeldis og mikilvægi þess að vernda og virða börn. Þótt Jójó, Fyrir Lísu og Sólskinshestur fjalli um vanrækslu barna og áhrif alvarlegra áfalla skína höfundareinkenni Steinunnar – húmor og írónía – skært í öllum textunum; kómískar lýsingar, glettnisfull samtöl og skrautlegar persónur vinna gegn því að sögurnar séu eingöngu sorgarsögur ólíkt eymdarkláminu sem birtist gjarnan í fjölmiðlum.

VI

Það er léttari tónn í skáldsögunni Gæðakonum (2014) en í bókunum um Martin og Lísu. Ástin er til umfjöllunar en þó eru það ekki gagnkynhneigðar ástir sem eru í brennidepli heldur ástir og erótík kvenna. Aðalsöguhetjan er María Hólm eldfjallafræðingur sem er „[e]kki bara sjarmerandi og stórgáfuð heldur líka vísindamanneskja á heimsmælikvarða – séní“. Hún stendur á tímamótum í lífi sínu, er fráskilin og syrgir ást sem einu sinni var. Í París kynnist hún hinni ítölsku Gemmu, forvitnilegri persónu sem hefur veitt henni eftirför. Gemma hefur sterkar skoðanir en hún sér fyrr sér nýja heimsmynd þar sem konur ráða ríkjum. Hún lítur svo á að ófarir heimsins séu körlum að kenna og talar um þá sem nauðgara og eyðileggjendur. Að hennar mati er heillavænlegra að konur séu saman sem ástkonur en að þær séu með körlum. Gemma er svo sannfærandi að María veltir fyrir sér um tíma hvernig væri að búa með konu en þegar á reynir gengur það ekki upp. Í tengslum við Gemmu og hugmyndir hennar birtast heilmiklar ástarflækjur og kynusli. Umfjöllunin um samskipti kynjanna er einkar forvitnileg og ýfir upp allskyns pælingar um jafnrétti, stöðluð kynhlutverk og samskipti kvenna á milli.

Gæðakonur fjallar líka einum þræði um ástir vina; en það er kannski sú ást sem er gegnheilust í bókinni. Ragna vinkona Maríu er alltaf til staðar þegar á þarf að halda og samstarfsfélaginn Bárður Stephensen er henni einnig traustur vinur. Bárð þekkja lesendur úr Hundrað dyr í golunni og er gaman að sjá hvernig Steinunn endurnýtir persónuna. Samband Bárðar og eiginkonunnar, Brynhildar, stendur enn tæpt og hann hefur snúið sér æ meira að flöskunni með árunum. Sem fyrr er hann þó bjargvættur því fyrir Maríu vill hann allt gera. Tengsl Maríu við náttúruna er líklega eitt mikilvægasta sambandið í lífi hennar en sagan er einum þræði óður til íslenskrar náttúru sem bæði gefur og tekur. María tengist landinu sterkum böndum í gegnum starf sitt auk þess sem hún ber landið í nafni sínu. Í sögunni er sagt frá eldsumbrotum í Vatnajökli, nánar tiltekið í Bárðarbungu sem María er sérfræðingur í. Það er því afar skemmtileg tilviljun (eða forspá!) að sama ár og Gæðakonur kom út fór Bárðarbunga einmitt að gera vart við sig í þeim heimi sem við köllum raunverulegan.

Gæðakonur er stórbrotið verk, uppfullt af túlkunarmöguleikum. Þótt tekist sé á við ýmis heimspekileg málefni eru galsi og sprúðlandi írónía einkennandi fyrir texta Steinunnar sem flæðir óhindrað áfram eins og hraunstraumur (svo notuð sé líking í anda bókarinnar). Skírskotanir í heimssöguna, menningu og bókmenntir gefa verkinu enn meiri dýpt en ella og leikur að nöfnum persóna sömuleiðis.  

VII

Sem fyrr segir er náttúran Steinunni afar hugleikin en um hana fjallar hún jafnt í ljóðum, skáldsögum og ævisögum. Oft dregur hún upp óvæntar og nýstárlega myndir af náttúrunni og vekur þannig lesendur til umhugsunar. Steinunn er náttúruverndarsinni en náttúruverndarsjónarmið hennar koma m.a. fram í sannsögunni Heiða – fjallabóndi (2016). Þar er sagt frá því hvernig stórfyrirtæki ágirnist landsvæði til að nota undir virkjun og hvernig Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi reynir að bregðast við því. Steinunn leikur sér skemmtilega með ævisöguformið í skrifunum um Heiðu en t.d. leggur hún ríka áherslu á lýsingu smáatriða og veitir lesendum þar með enn betri skilning á aðstæðum fjallabóndans en ella.

Ljóðabókin Af ljóði ertu komin kom út sama ár og bókin um Heiðu. Titill ljóðabókarinnar vísar einum þræði til Steinunnar sjálfrar því eins og kunnugt er hóf hún rithöfundarferilinn sem ljóðskáld og hefur alla tíð haldið tryggð við ljóðið þótt stundum hafi liðið mörg ár á milli ljóðabóka hennar; t.a.m. máttu lesendur bíða í níu ár eftir Af ljóði ertu komin. Biðin eftir næstu ljóðabók var styttri því 2018 kom Að ljóði munt þú verða. Ferskur blær einkennir báðar bækurnar þótt umfjöllunarefni þeirra séu kunnugleg en í báðum verkum birtist hverfulleikinn í ýmsum myndum auk þess sem tíminn, ástin og dauðinn eru miðlæg yrkisefni.  

Af ljóði ertu komin skiptist í nokkra kafla sem innihalda m.a. siglingaljóð, ljóð um hinstu rök og tiltekna staði í Reykjavík. Ljóðið „Siglandi“ er úr fyrsta hlutanum en þar beitir skáldið upptalningu og snjöllum líkingum um tilfinningar til að draga upp nýstárlega mynd af lífinu og hvað það hefur upp á að bjóða eins og hér sést:  

Allt kemur það siglandi til mín:


Síðbúna Ástin á manndrápsfleyi.
 

Kæruleysispramminn.

Óstöðvandi gufuskipið Sorg.

Dauðinn á tundurspillinum.

Kemur Vonin höktandi á laskaða sanddæluskipinu.

Og Unaðurinn á flotholtinu samsíða.

Víðar í verkinu eru tilfinningar persónugerðar. Í kaflanum „Hinstu rök“ er t.a.m. dregin upp forvitnileg mynd af dauðanum en þar er hann t.d. sagður vera prakkari, fyrirsjáanlegur gaur og andskotans túramaður. Dauðinn í ljóðum Steinunnar er sem fyrr samofinn tímahugtakinu en í kaflanum „Um allt og ekkert þvert“ dregur hún á frumlegan og írónískan hátt fram hvernig allt lífið er undirbúningur fyrir lokastundina. Í stað þess að lífið gangi út á að ná sér, eins og kom svo eftirminnilega fram í ljóðabálknum „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“, er allt við lífið orðið fyrirhöfn jafnt „að klína marmelaði á brothætt tekex, tjónka við rugludalla, / búa sig á ballið, skreppa á klóið enn eina ferðina,“ og „mála vegginn ófaglærður.“ Maðurinn er því „stanslaust þreyttur; // eilíflega á leiðinni að leggja sig.“ En þegar kemur að lokum lífsins „heldur hann dauðahaldi í líftóruna. / Neitar að leggjast út af. // Það er mesta fyrirhöfnin þegar verst stendur á. // Því þá er maðurinn alverst í stakk búinn til að standa / í stórræðum / þegar deyja skal. // Loksins / eftir lífsins óbilandi fyrirhöfn og málningarbras.“ Ljóð Steinunnar minna lesendur á að í hita leiksins gleymir mannfólkið iðulega að staldra við og njóta líðandi stundar kannski „[a]f því að ekkert gerist um leið og það gerist“ enda „lífið samsett úr andartökum sem við misstum af“ og því er það ekki fyrr en í „Endurminningunni“ sem stundirnar verða stórar og við áttum okkur loksins á gildi þeirra.  

Einn kafli bókarinnar er helgaður dánum vinum en þar yrkir skáldið þó ekki um nafngreinda einstaklinga, eins og einkennir jafnan hefðbundin tregaljóð, heldur um áframhaldandi vináttu eftir dauðann; nánar tiltekið hvernig manneskjan lifir áfram í huga þeirra sem eftir standa. Á kostulegan og írónískan hátt lýsir ljóðmælandi þátttöku hinna dauðu í lífinu sem hafa þó sjaldan eitthvað nýtt til málanna að leggja eins og segir m.a. í ljóðabálknum:

Dánir vinir láta eitt og annað út úr sér,

en það er yfirleitt eitthvað svipað og þeir sögðu meðan þeir

lifðu.

 

Þetta kemur mörgum á óvart, eða þeir sætta sig ekki við

það. Halda áfram að búast við kraftaverkinu: Segðu

eitthvað nýtt, gerðu það. Sannaðu að þú sért til, einhvers

staðar.

Þótt írónían og húmorinn, sem lesendur þekkja svo vel úr ranni Steinunnar, leyni sér ekki í verkinu er tónninn þar sumpart þyngri en oft áður; alvarleikinn er meiri.

Ljóðabókin Að ljóði munt þú verða hefst á inngangsljóði þar sem ljóðmælandi ávarpar goluna – skáldskaparæðina? – og biður hana um að syngja um Skuggann sem fylgir ljóðmælanda og upplýsa um leið hver það er. Í kjölfarið taka við vangaveltur ljóðmælandans um Skuggann þar sem þekkt stef Steinunnar eru persónugerð og dregin upp á pallborðið:

Er það Ástin mín, hún sem einu sinni var,

einu sinni var og ekki …

 

Er það Barnið mitt horfna, þú

sem gengur þó mér við hönd hvert fótmál hvert

            svefnmál …

 

Er það Sorgin mín, fylgikonan fáráða?

 

Eða Elskhuginn athyglissjúki, tíminn?

Í þessari stórgóðu ljóðabók kemur skáldið víða við. Bókin skiptist í sex kafla þar sem m.a. er ort um ferðalög, skáldkonur, sólina og vandræði þess að vera manneskja auk þess sem tíminn, ástin og dauðinn fá sitt rúm eins og inngangsljóðið gefur fyrirheit um. Hér er þó ekki fetað í troðnar slóðir heldur eru ljóðin fersk og ný; margræðni, andstæður, úthugsaðar líkingar og áhrifaríkar endurtekningar marka ljóðin og auka áhrif þeirra. Náttúran fær sinn sess og þrátt fyrir að sólin fái að skína og fagrar náttúrumyndir séu víða dregnar upp er lesandi einnig rækilega minntur á hversu illa maðurinn hefur farið með jörðina. Einkar beitt ádeila birtist t.a.m. í ljóðunum „Allt deyr“ og „Tjútt“ þar sem endurtekningar og magnað myndmál eru markvisst nýtt til að ýta við skynjun lesandans og minna hann á mikilvægi þess að hlúa að náttúrunni.

VIII

Á fimmtíu ára rithöfundarafmæli sínu sendi Steinunn frá sér ljóðabókina Dimmumót (2019); magnaðan og sterkan ljóðabálk um Vatnajökul. Bókin er allt í senn stórbrotinn óður til jökulsins og tregaljóð um eyðingu hans; skrif um veröld sem var og verður. Í ljóðum Steinunnar er jökullinn ekki lengur tákn eilífðar – einsog t.d. í skáldsögunni Hjartastað – heldur er hann orðinn að tákni forgengileika. Líkt og skáldið yrkir svo glæsilega um hefur hamfarahlýnun af mannavöldum sett mark sitt á jökulinn sem hverfur smám saman eða eins og segir í ljóðinu „Grjótfjallinu“:

Vatnajökull úr vatni kominn

 

Að vatni verður hann aftur

 

Eftir stendur lamað grjótfjall

 

í spriklandi jökulsins stað.  

Orðið „dimmumót“ ku vera skaftfellska og merkir ljósaskipti þegar byrjar að rökkva. Titill bókarinnar endurspeglast því í þeim breytingum sem eru að verða í heiminum vegna loftslagsbreytinga og sjást á hvarfi jöklanna; eða einsog kemur fram í ljóðinu hér að ofan; þegar hvíti ísinn bráðnar standa svartir klettarnir berir eftir; myrkrið tekur við af ljósinu.

Í fyrsta skipti á ferlinum bregður Steinunn út af vananum og fléttar eigið líf saman við skáldskapinn. Þannig fylgist lesandi með uppvexti skáldsins og kynnum þess af jöklinum og náttúrunni í fyrsta hluta bókarinnar; „Það kemur í ljós“. Þegar skáldið elst upp, gefur út ljóð og eftir að það eignast barn er jökullinn alltaf á sínum stað, „[s]em yrði þar alltaf, ekki spurning“ einsog segir í ljóðinu „Það byrjaði loksins“. Sú heimssýn er þó dregin niður strax í næsta ljóði; „Sjónarsviptur 1“. Jökullinn er ekki eilífur og það er mannanna sök sem vita vel af áhrifum hamfarahlýnunarinnar en gera ekkert til að sporna gegn henni eins og brot úr ljóðinu vitnar um:

 Við vitibornu skiljum þá hamfarahlýnun á jörðinni

en við látum ósköpin yfir ganga

 

börnin og barnabörnin. Krúttin á facebook.

Hvað verður um þeirra krútt og þeirra krúttkrútt?

 

Er okkur alveg sama?

Með því að leiða þanka lesenda sérstaklega að afkomendum og framtíð þeirra reynir ljóðmælandi að virkja kærleika lesenda í garð náttúrunnar og fá þá til að endurskoða afstöðu sína en umfram allt breyta fyrri hegðun sem er óásættanleg svo lengi sem náttúran líður fyrir hana. Ljóðin í Dimmumótum eru mörg hver þrungin trega yfir veröld sem var og breyttum aðstæðum. Í bókinni er það einkar áhrifaríkt hvernig Steinunn teflir sífellt saman hinu smáa og stóra til að sýna áhrif hnattrænar hlýnunar jafnt á einstaklinginn og mannkynið allt, Vatnajökul og jökla heimsins.

Oft hefur Steinunn ort ljóð um eyðileggingu náttúrunnar af mannavöldum en sjaldan hefur hún verið eins beinskeytt og harðorð og í Dimmumótum. Myrkt í máli undirstrikar skáldið skoðanir sínar á gjörðum mannanna með því að vísa til þeirra með orðum einsog „móðurmorðingjar“, „tortímendur með sleggju“ og „blóðsugurnar“. Það duga enda engin vettlingatök þegar líf náttúrunnar og heimsins alls er að veði; kominn er tími til þess að hirðuleysinu ljúki. Jöklinum blæðir út „eins og hverju öðru helsærðu dýri // og í því glæra blóði mun hálfur heimurinn hrekkjast / og drekkjast“ segir í ljóðinu „Afturábak og niður“ en víðar yrkir Steinunn um óhugnanleg áhrif bráðnun jöklana á mannkynið og lífríkið allt. Framtíðarmyndin er svört og það er ekki aðeins mannfólkið sem líður fyrir gjörðir sínar einsog kemur glögglega fram í bók Steinunnar; dýrategundirnar deyja smátt og smátt út og „[h]afið súrnar og plastvæðist“. Bölsýnin er óþægilega raunsæ og því ekki útilokað að lesendur taki undir með ljóðmælanda ljóðsins „Flæðiskers galdragal“ og óski þess að þeir kynnu að galdra jörðinni til bjargar:

Ef ég kynni að gala galdur

 

skyldi ég reisa við mergsogna móður

 

skyldi ég gala

hvíta litinn til baka inn í heiminn:

 

Tuttugu og fjögra karata ljóshjálminn upp úr Lómagnúp.

 

Skyldi ég gala

geimruslið úr heiminum.

 

Skyldi ég gala

hafið hreint og ósúrt

 

hrinda því til baka á haf út, þangað sem það átti heima.

 

Burt frá brothættum ströndum, stórborgum og fiskiþorpum.

 

Skyldi ég forða móðurjörðinni frá því að verða flæðisker.

Ljóðmælandi kann kannski ekki að galdra og þó? Skáldskapur er jafnan talinn hreyfa meira við lesendum en önnur gerð af texta og því má vona að bók Steinunnar hafi brýnt og komi til með að brýna lesendur til að takast á af alvöru við mikilvægasta málefni samtímans; hamfarahlýnun. Með ríkulegri umfjöllun um loftslagsbreytingar á heiminn allan sver ljóðabókin sig í ætt við loftslagsbókmenntir; bókmenntagrein sem hefur fest sig í sessi síðustu ár.

IX

Nýjasta bók Steinunnar er leiksagan Systu megin (2021). Titill bókarinnar er margræður; hann vísar til þess að sagan er sögð frá sjónarhóli Systu – sem er aðalpersóna verksins – og jafnframt að bókin fjalli um afl hennar. Systa er bláfátæk utangarðskona sem lifir í heimi fátæktar en hún leigir kjallaraíbúð, í miðbænum, með mjög lágri lofthæð og hefur eingöngu aðgang að kemísku klósetti. Hún dregur fram lífið með dósasöfnum en máttur hennar birtist í því hve úrræðagóð hún er. Sagan gerist um jólin þegar hinir fátæku finna hvað mest fyrir auraleysinu. Andstæður á milli ríkra og fátækra; nísku og örlætis eru skýrar í verkinu þó án þess að vera sýndar með klisjukenndum hætti.

Undirtitill bókarinnar er leiksaga en einsog orðið bendir til blandar Steinunn saman tveimur bókmenntagreinum: frásögn og leikriti; en þó á allt annan hátt en í Jöklaleikhúsinu. Þessi óvenjulega frásagnaraðferð í Systu megin er einkar velheppnuð en í krafti hennar tekst Steinunni bæði að gefa jaðarsettri konu rödd og ásýnd um leið og hún veitir lesendum innsýn í umhverfi fátæks fólks sem reynir að lifa af við afar bágbornar aðstæður. Í stuttum prósaköflum fá lesendur aðgang að innri rödd Systu sem lýsir nokkuð nákvæmlega lífi sínu og örbirgð, t.d. heimilisaðstæðum, mataræði, kaffidrykkju, striti og heilsuleysi auk þess sem hún ræðir uppvöxtinn og samskipti við föðurinn sáluga og nískupúkann móðurina. Frásögnin er laus við beiskju en meinhæðin er hún. Samræður – eða leiktexti – mynda síðan burðarstólpa verksins og framvindu en þar gefst lesendum kostur á að öðlast betri sýn á Systu, aðstæður hennar og fólkið sem hún umgengst. Þótt frásagnaraðferðirnar dragi saman upp nokkuð glöggva mynd af Systu er nóg eftir af eyðum fyrir lesendur að fylla inn í; t.d. kemur aldrei nákvæmlega fram hvað ami að Systu eða hvers vegna hún varð fátæktinni að bráð.   

Rétt eins og í Sólskinshesti kemur Steinunn inn á vanrækslu barna í Systu megin en líkt og Lilla og Mummi hafa Systa og Brósi bróðir hennar mátt þola afskiptaleysi og vanrækslu móður í uppvextinum. Þótt viðfangsefnið sé einum þræði það sama í báðum sögum eru efnistökin gagnólík. Faðir Systu og Brósa var sjómaður og þegar hann var í landi var hann verndari sem lét sér annt um börnin, sá til þess að þau fengju nóg að borða, las fyrir þau bókmenntir og gaf þeim gjafir á jólunum. Hann lést þegar Systa var 14 ára en Brósi 12 ára. Fráfall hans var þeim harmdauði því ólíkt honum var móðir þeirra nísk og skelfileg, illfygli sem Systa kallar mammfreksju. Þegar börnin voru að alast upp sá hún á eftir hverjum bita ofan í þau þrátt fyrir að eiga nóg á milli handanna. Þegar sagan gerist býr hún á Fjólugötu, þar sem börnin ólust upp, og á tugi milljóna inn á bankabók en sér þó ekki sóma sinn í að styrkja dóttur sína. Freistandi er að túlka nísku móðurina sem tákn fyrir yfirvald samfélags sem hefur peningavöld en kýs að nýta auranna í eitthvað annað en að hjálpa þeim sem helst þurfa á því að halda. Þannig felst í bókinni hörð gagnrýni á íslenskt samfélag sem leyfir fátækt að viðgangast þótt hér ættu allir að geta lifað mannsæmandi lífi.

Vanræksla móðurinnar hefur sett mark sitt á systkinin en bæði eiga þau erfitt með náin tengsl við aðra. Systa þráir barn en hefur aldrei verið við karlmann kennd ólíkt Brósa sem hefur átt marga kærasta og er sjaldnast einhleypur. Þegar sagan gerist er hann í ofbeldissambandi en maki hans gengur bæði í skrokk á honum og heldur framhjá. Systkinin finna að einhverju leyti styrk hvort hjá öðru en Brósi er þó ekki góður systur sinni. Hann fyrirlítur fátækt hennar og líferni; kallar hana tunnurottu, gagnrýnir aðstæður hennar og lúber hana í bræði sinni. Kristján Jóhann Jónsson sagði í ritdómi um bókina að kalla mætti sögu Systu hetjusögu og undir það má taka.[19] Systa tekst á við lífið með seiglu og án biturðar auk þess sem hún umgengst erfiða ættingja sem þó koma illa fram við hana, sýna henni illsku og reyna aldrei að leggja henni lið svo heitið geti.

Í Systu megin er staða jaðarsetts fólks í brennidepli en auk Systu fá lesendur að kynnast aðstæðum Lólóar, einfættri útangaskonu sem er alkóhólisti. Sú er heimilislaus en er í raun eini stuðningsmaður Systu. Í sögunni er einnig komið inn á vinnuþrælkun og mansal. Þótt viðfangsefnin séu alvarleg kemur Steinunn í veg fyrir að frásögnin verði eingöngu harmræn með því að tefla reglulega fram írónískum lýsingum og sprellfyndnum samræðum auk þess sem hún glæðir textann lífi með ótal frumlegum og snjöllum nýyrðum eins og hennar er von og vísa.  

X

„Bókmenntir geta gefið þögninni merkingu og raddlausum rödd“ eru orð ættuð frá rithöfundinum Elif Shafak. Ummæli hennar má heimfæra á mörg verk Steinunnar sem segja frá einstaklingum sem aldrei hefðu getað sagt sögu sína án hjálpar. Á það t.a.m. við um utangarðskonuna Systu, vanrækta barnið Lillu og þolendurna Martin, Martin og Lísu. Þá er ónefnd náttúran en máli hennar hefur Steinunn talað allt frá því hún hóf feril sinn. Með skáldskap sínum hefur Steinunn því verið einkar öflug við að beina sjónum lesenda að fjölbreytileika mannlífsins og mikilvægi þess að vernda náttúruna um leið og hún hefur markvisst stungið á ýmis alvarleg samfélagskýli.

Sagna- og ljóðasjóður Steinunnar er stór og dýrmætur. Hér hefur eingöngu verið tæpt á ýmsu en af nógu er að taka. Verk Steinunnar eru margslungin og vitna m.a. um stórkostlegt hugmyndaríki og einstök tök á íslenskri tungu; spennandi söguheima og áhugaverðar persónur. Þótt ákveðin þemu – t.a.m. tíminn, ástin, dauðinn, þráhyggjan og náttúran – liggi eins og rauðir þræðir um höfundarverk Steinunnar tekst henni sífellt að koma lesendum sínum á óvart með ferskleika í hugsun og óvæntum sjónarhornum enda óhrædd við að feta nýjar slóðir og taka áhættu jafnt í efnistökum og frásagnaraðferðum.  
 

Guðrún Steinþórsdóttir, 2021

 

[1] Guðni Elísson, „Hef ég verið hér áður? Nokkur stef í ljóðagerð Steinunnar Sigurðardóttur“, Steinunn Sigurðardóttir, Ljóðasafn frá Sífellum til Hugásta, Reykjavík: Mál og menning, 2004, bls. VII–XXXII, hér bls. XXIII.

[2] Sama heimild, bls. X-XI.

[3] Í greininni „„Á tímum varanlegra ástarsorga“. Ástin, dauðinn og lesandinn í þremur skáldsögum eftir Steinunni Sigurðardóttur“ greinir Alda Björk Valdimarsdóttir söguna nákvæmlega m.a. með hliðsjón af kenningum um ástarsögur og kenningum Freuds um endurtekningaráráttuna og um vensl lífs- og dauðahvata.

[4] Sama heimild, bls. 152, 156-157.

[5] Sama heimild, bls. 160. Tekið skal fram að Alda Björk Valdimarsdóttir greinir Sólskinshest vandlega í grein sinni.

[6] Úlfhildur Dagsdóttir, „Heimilislegur dauði: eða ósýnilegir leikir á háalofti“, Lesbók Morgunblaðsins, 29. júlí 2006: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1095147/?item_num=0&searchid=47551be4af301126cc99076d934217e67b6e7169 

[7] Guðni Elísson, „Dauðinn á forsíðunni. DV og gotnesk heimsýn“, Skírnir, haust/2006, bls. 313-356, hér bls. 325.

[8] Guðni Elísson, „Að hnýsast í kringum kjarnann. Stef í ljóðum Steinunnar Sigurðardóttur“, Hef ég verið hér áður. Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur, Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun, Háskólaútgáfan, 2011, bls. 15-43, hér bls. 34.

[9] Sama heimild, bls. 34-35.

[10] Sama heimild, bls. 39-41.

[11] Úlfhildur Dagsdóttir, „Brúðuheimili“, Tímarit Máls og menningar 2/2010, bls. 129-136, hér bls. 132.

[12] Guðni Elísson, „Skortsali ástarinnar: Höfundur, lesandi og bókmenntagrein“, Hef ég verið hér áður, bls. 165-185, hér bls. 168.

[13] Sama heimild, bls. 169.

[14] Sama heimild, bls. 158-162. Úlfhildur kemur einnig inná tengsl sálgreiningarinnar og verka Steinunnar í ritdómi sínum; „Brúðuheimili“, bls. 132

[15] Úlfhildur Dagsdóttir, „Brúðuheimili“, bls. 133.

[16] Í greininni „Barnaleikur“ fjallar Dagný Kristjánsdóttir gaumgæfilega um tráma, minni og gleymsku í Jójó.

[17] Silja Hauksdóttir, „„Ég þakka fyrir að ég er manneskja til að skrifa um þetta““, Morgunblaðið, 30. nóvember 2012, bls. 55.

[18] Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Fyrir Lísu“, Bókmenntaborgin, nóvember 2012, https://bokmenntir.is/umfjollun/fyrir-lisu

[19] Kristján Jóhann Jónsson, „Grunuð um orðagræsku“, Fréttablaðið 4. nóvember 2021: https://www.frettabladid.is/lifid/grunu-um-oragrsku/