Beint í efni

Það er að hefjast gleðskapur

Það er að hefjast gleðskapur
Höfundur
Óskar Árni Óskarsson
Útgefandi
Smekkleysa
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í örsögunni „Bærast hár” segir frá flugu sem suðar í eldhúsglugga og flýgur svo burt án þess að gefa ljóðmælanda gaum. „Sneri hún aftur í saggasamt greni sitt og orti ljóð - Risinn í eldhúsinu - sem hún fór með fyrir vini sína, með röddu svo þýðri að hún mundi ekki bæra hár á handarbaki mínu” (21). Sýn af þessu tagi, á hið örsmáa og hversdagslega í lífinu sem getur svo auðveldlega tekið á sig furðumyndir er lýsandi fyrir örsögur eða prósa Ivors Cutler, en hún er líka nokkuð lýsandi fyrir sýn þýðandans, Óskars Árna Óskarssonar. Hér höfum við húmor, en líka dálitla heimspeki, og svo að lokum undurfallega líkamlega nánd.

Aftan á bókinni kemur fram að þessi skoski höfundur var þekktur fyrir flutning ljóða sinna og merki þess er einnig að finna í flugu-sögunni, því þar er gert ráð fyrir flutningi flugunnar á ljóði sínu um risann í eldhúsinu.

Safnið Það er að hefjast gleðskapur geymir margt skrýtið og skemmtilegt. Fyrsti prósinn, „Kortabók”, minnir skemmtilega á fræga sögu Jorge Luis Borgesar á landakorti, nema hér er sagt frá skorti á kortum, í staðinn eru til kortabækur. Vandinn felst svo í að halda öllum síðunum til haga, því „ef maður týndi einni blaðsíðu, til dæmis Belgíu, þurfti maður að fara um Holland, og það gat orðið margra klukkustunda krókur” (5) Í annari sögu, „Brotinn kjálki”, er því lýst hvernig allt hreyfist hægar þegar rafmagnið fer og ljósin fjara út og svo er það „Frábær skemmtun” að fylgjast með fólki sem er fullt af beinum: „Olnbogar og fingur, mjaðmir, rifbein eins og búr” (23).

Þó það sé ekki hægt að segja að hér séu einhver tímamót á ferðinni þá er það aldeilis dágóð skemmtun að glugga í þetta litla og fallega hver og týnast um stund í undarlegum augnablikum, eða bara legga „vangann að veggnum” og hlusta, því „það er að hefjast gleðskapur þarna inni” („Gleðskapur” 38).

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2007

Á þessari síðu má heyra Cutler flytja eigin ljóð: http://www.ivorcutler.org/