Beint í efni

Tregðulögmálið

Tregðulögmálið
Höfundur
Yrsa Þöll Gylfadóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Björn Unnar Valsson

Tregðulögmálið eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur gerist á haustmánuðum. Söguhetjan og sögumaðurinn Úlfhildur er á frumstigi þess að skrifa B.A.-ritgerð í bókmenntafræðum og stefnir framan af á útskrift um áramót. Hún er í vonlausu sambandi með fyrrum aktívista sem er yfir allt og alla hafinn, foreldrar hennar eru ferkantaðir og rífast við sjónvarpið, og henni gengur illa að læra. Sagan gerist að mestum hluta í höfðinu á Úlfhildi, hún hugsar eitt og annað um hitt og þetta og kemst stundum vel að orði. Það er fátt annað að segja um söguþráðinn, sagan byggist upp á samtölum og pælingum frekar en einhverskonar fléttu, enda stendur sagan og fellur með rödd Úlfhildar og frásagnarmáta.

Nú eigum við Úlfhildur nokkuð sameiginlegt. Ég kannast við það að vera súr bókmenntafræðinemi, orðinn alltof seinn með lokaritgerð og vita ekki í hvorn fótinn á að stíga, að vera á væflingi um 101 og hugsa til náms í útlandinu, en með nagandi grun um það að námið og fræðin og bókmenntirnar skipti engu máli í einhverju víðara samhengi. Af frásögninni á blaðsíðu 140-1 að dæma þá sátum við meira að segja sama námskeiðið vorið 2003. En kunnugleikinn er tvíbent myndlíking: Annars vegar gefur Tregðulögmálið sannferðugt sýnishorn af þeirri hugtakasúpu sem hrærist innan í þriðja árs bókmenntafræðinema á borð við Úlfhildi. Á hinn bóginn er öll umræða um þennan þátt í lífi hennar á mjög almennum nótum og lítið kjöt á beinunum þótt hún skreyti með spurningum um höfundarætlun og innblástur frá náttúru eða borg, sletti panoptíkon og mímesis og merki við Freud, Proust, Coetzee, Kundera, Deleuze, Foucault, Hardt og Negri.

Verra er að í veröld Tregðulögmálsins eru samræður þessu tengdar, og nánast allar samræður bókarinnar, settar fram sem innihaldslaust karp og þras. Nær undantekningalaust skipta sjálf umræðuefni Úlfhildar og viðmælenda hennar þau ekki nokkru máli, heldur eru hugtökin og tengingarnar vopn í höndum kverúlanta sem vilja sigra leikinn án þess að nokkuð annað liggi undir. Úlfhildur tekur eftir þessu í fari annarra og ergir sig dálítið á því, en hún er síst skárri. Hún rífst við foreldra sína og tekur sérstaklega fram að henni þyki þeir hafa brugðist kynslóð Úlfhildar með því að segja skilið við róttækni sinna eigin unglingsára, líkt og hún geti ekki hugsað sér að gera uppreisn gegn kynslóð sem er ekki sammála henni. Hún skammast í systur sinni fyrir að segjast vilja breyta kerfinu innanfrá, fyrir að vilja ekki taka þátt í „byltingu“ sem Úlfhildur hefur þangað til ekki sýnt nokkurn áhuga. Og hún skammast í kærastanum Binna, sem er sama um allt og alla, þar með talið hana, vegna þess að hún orkar ekki að kyngja því og segja skilið við hann. Hér er engin meining í gangi, bara ræða.

Aftur á móti er þessi ræða nokkuð vel unnin. Bókin er fljótlesin og þrátt fyrir einstaka hnökra er gott rennsli á henni, textinn er hófsamur og verkinu vel fallinn. Vinir og vandamenn Úlfhildar eru týpískar týpur en trúverðugar þrátt fyrir það. Það má líta svo á að sigur bókarinnar felist í persónu Úlfhildar, þessum vælukjóa sem röflar og skammast og pirrast út í allt og alla á tæpum tvöhundruð síðum svo manni verður beinlínis illt: viðbrögðin sem hún vekur eru áþreifanleg og það er vissulega ekki á allra færi að framkalla svo óviðfelldin karakter. Á einum stað minnist hún á Holden Caulfield, leiðindapésann úr Bjargvættinum í grasinu, líkt og til að gefa í skyn að bakvið vaðalinn leynist eitthvað stærra og meira, en það er ekki að sjá. Úlfhildur tekur jú stundum eftir einhverju áhugaverðu í kringum sig og henni detta stundum í hug skemmtilegar tengingar, en hún grefur það allt jafnóðum í kaf. Sem dæmi situr hún undir lok sögunnar á slysamóttöku og verður hugsað til þess hvenær ókeypis kaffi er gott og hvenær ekki, og kemst að því að það hafi með væntingar og tilætlun að gera. Kaffi eins og það sem hún fær á slysamóttökunni er gott ókeypis kaffi, ekki vegna þess eða þrátt fyrir það að það er ókeypis heldur vegna þess að hún bjóst ekki við því. Þetta er ósköp skýr hugleiðing um hversdagslegt atriði sem vísar samt óbeint til ástandsins á henni um það leyti. En svo leiðir hún hugann að vatninu:

Rétt í þessu koma ungir læknanemar og fá sér vatn úr vatnsvélinni. Mikið er vatn annars fáránlega ofmetinn drykkur. … Þegar fólk fær sér vatn þá er líka eins og það sé svo stolt af því, hellir sér í glasið og skálar út í loftið og segir hvað þetta sé hressandi og hollt fyrir mann. Einn læknaneminn segir einmitt við hinn að það sé víst hollara fyrir mann að drekka stofuhitavatnið. Annar maldar eitthvað í móinn og báðir labba í burtu sammála samt sem áður um að kalda vatnið sé andskoti frískandi, kremja svo glösin og hitta ekki ofan í ruslatunnuna. Það er samt allt í lagi, það er einhver þakklát pólsk kona vís til að hirða þetta upp eftir þá, hljóta þeir að hugsa. (bls. 152)

Rétt eins og kærastinn ómögulegi er Úlfhildur yfir alla hafin. Allt sem fólkið í kringum hana segir er heimskulegt og klisjukennt, allt sem það gerir er tilgerðarlegt og misheppnað og sennilega eru allir rasistar líka. En það er eins gott að heimurinn er svona ómögulegur, vegna þess að annars væru hugsanir hennar ekki eins merkilegar, eins og hún segir sjálf: „Þegar maður er hryggur er eins og maður hugsi meira. Og hugsanirnar eru svo miklu háleitari, dýpri og merkilegri en gleðilegar hugsanir.“ (bls. 160)

Titill Tregðulögmálsins vísar til fyrsta lögmáls Newtons, sem einnig er forskrift bókarinnar: „Sérhver hlutur heldur áfram að vera í kyrrstöðu, eða á jafnri hreyfingu eftir beinni línu, nema kraftar sem á hann verka þvingi hann til að breyta því ástandi.“ Ef forskriftin er heimfærð á sjálfa bókina má segja að lesandinn fylgist með Úlfhildi þar sem hún situr í kyrrstöðu, skrifar niður það sem hún hugsar og bíður eftir að einhverjir kraftar þvingi hana af stað. Svo líður og bíður og ekkert gerist. Úlfhildur situr sem fastast, jafn pirruð og hneyksluð í lok bókar eins og í byrjun. Þeir kraftar sem gætu á hana verkað eru örugglega allir hálfvitar hvort eð er, af hverju ætli enginn bjóði henni í kaffi?

Björn Unnar Valsson, desember 2010.