Beint í efni

Trúir þú á töfra?

Trúir þú á töfra?
Höfundur
Vigdís Grímsdóttir
Útgefandi
Skynjun
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Listin er viðfangsefni þriggja nýrra skáldsagna eftir konur: Bónusstelpunnar eftir Rögnu Sigurðardóttur, Allt með kossi vekur eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Trúir þú á töfra? eftir Vigdísi Grímsdóttur. Það er athyglisvert að sjá hvernig þessar ólíku skáldkonur fjalla á ólíkan hátt um listina, en eiga það samt sameiginlegt að líta til listarinnar sem afls skilnings og vakningar.

Bókmenntirnar eru hvað fyrirferðarmestar í sögu Vigdísar Grímsdóttur, Trúir þú á töfra? en þar er mikið fjallað um ljóð og skáld og sagan inniheldur fjölmargar tilvitnanir í íslensk skáldverk, auk þess sem Vilhjálmur Shakespeare fær að fljóta með. Trúir þú á töfra? er framtíðarsaga sem gerist í óljósri framtíð, mögulega árið 2020, en fram kemur að tólf ár eru liðin frá því að forsætisráðherrann bað guð að blessa landið. Hér má vel greina tilvísun til kreppunnar og þar með að velta fyrir sér að hversu miklu leyti sagan, sem fjallar um alræði sem leikhús einhverskonar fáránleika, sé að kanna hlutverk listarinnar í þeirri hugmyndalegu þeytivindu sem einkennt hefur undanfarinn áratug.

Sagan er sögð í fyrstu persónu af stúlku sem elst upp í þorpi sem er afgirt af múr og ennfremur lokað undir glerkúpli. Þorpinu er stjórnað af óþekktum aðilum sem eru að gera tilraun með fólkið í þorpinu – það eru þeir sem stjórna leikritinu og úthluta hlutverkum. Af þessum aðilum stafar nokkurri ógn. Þorpsbúar verða að leika sín hlutverk og þorpið er í raun einskonar leikhús. Stúlkan sem heitir Nína Björk eins og skáldkonan heitin er von þorpsins, hún er ljósgeislinn í lífinu og hún er elskar skáldskap og málar myndir á múrinn sem umlykur þorpið, kattamyndirnar sem eru leiktjöldin – og urðu Vigdísi innblástur að sögunni. Og það er ljóst að stúlkan á að vera táknmynd listarinnar og skáldskaparins sem getur frelsað fólkið.

Sagan er ákaflega ljóðræn og stíllinn oft mjög fallegur, og sagan er mjög í anda verka Vigdísar, mikil áhersla lögð á persónusköpun og tilfinningaríkar persónur og dálitla dramatík. Umfram allt fjallar sagan um skáldskap og list, og í raun má segja að heimur sögunnar sé heimur skáldskaparins og ljóðsins, en eins og fram hefur komið er mikið vitnað í skáldskap, aðallega Nínu Bjarkar, en einnig önnur skáld og svo ýtir leikhústengingin enn undir þá tilfinningu að hér sé verið að kanna einskonar skáldlegan heim þarsem ímyndunaraflið ræður ríkjum. En hverjir eru þá þeir sem stjórna þorpinu? Trúir þú á töfra? er ekki einföld táknsaga eða dæmisaga og stundum fannst mér sem lesanda að ég væri dálítið ráðvillt í mínu hlutverki í þessu leikhúsi. Það er ekki auðvelt að átta sig á hvert Vigdís er að fara með sögunni og þó að ég ætlist ekki til að fá vandlega innpakkaðar skýringar í lokin þá fannst mér á stundum að það væru of margir þræðir sem röknuðu upp í stað þess að bindast saman. Hverjir eru þeir sem ráða? Hvaða ógn stafar í raun af þeim? Hvers eðlis er þessi tilraun? Hvert er hlutverk kattamyndlíkinganna og –leiktjaldanna? Spurningarnar hrannast upp og þeim er ekki svarað, en kannski er það málið, að færa lesandann inn í heim sem býður ekki upp á neinar lausnir né útskýringar: heim sem er að því leyti eins og okkar heimur.

Því að mörgu leyti minnir sagan líka á venjulega þorpssögu, þar sem lesandi er kynntur fyrir þorpsbúum og fær að heyra sögu þeirra. Þessar sögur tengjast allar sögu stúlkunnar að einhverju leyti og þannig er dregin upp nokkuð hefðbundinn heimur smáþorps. Þessi hlið verksins gefur til kynna að í raun megi einnig skoða bókina sem hversdagslega sögu um líf í föstum skorðum, þar sem allir eiga sér sín hlutverk sem þeir finna sig knúna til að fylgja, burtséð frá eigin löngunum og þrám, og enn á ný er það hlutverk listarinnar að skapa gleði, fjölbreytni og liti í tilveruna.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2011.