Æviágrip
Vigdís Grímsdóttir fæddist í Reykjavík þann 15. ágúst 1953. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, BA prófi í íslensku og bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands 1978 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands 1982. Hún stundaði kandidatsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1984 – 1985. Vigdís starfaði sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði til 1990 en hefur síðan nær eingöngu fengist við ritstörf.
Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu kom út árið 1983 og síðan hefur hún sent frá sér ljóðabækur, annað smásagnasafn og skáldsögur, þar af eina barnabók. Vigdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál. Hún hefur þrívegis fengið menningarverðlaun DV og árið 2017 hlaut hún verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Leikgerðir við tvær skáldsagna hennar hafa verið settar upp á Íslandi og í Svíþjóð. Á nýársdag 2004 var kvikmynd Hilmars Oddssonar Kaldaljós frumsýnd, en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Vigdísar frá 1987.
Vigdís Grímsdóttir á tvö uppkomin börn. Hún býr í Reykjavík.
Forlag: JPV útgáfa.
Ritþing um Vigdísi Grímsdóttur í Gerðubergi 5. nóvember 2011
Frá höfundi
Pistill frá Vigdísi Grímsdóttur
Ég held að ég vilji ekki vita hvers vegna ég skrifa.
Ég veit það samt.
En ég er feimin við að segja frá því.
Samt læt ég mig hafa það af því að innst inni er ég auðvitað töffari einsog allt vinnandi fólk.
Sumt gerir maður bara, býr um rúm, þvær upp, tekur úr vél, les fyrir krakka, snýtir gamalli ömmu sinni, gefur vitlaust til baka í búð, verður óglatt þegar maður setur hreinan góm upp í frænku sína, setur gamlan og útþvældan miða í samloku elskhuga síns, svindlar sér inn í bíó í hléi, grætur í jarðarför manns sem maður þekkir ekki neitt af því að músíkin er svo falleg, lemur í fingurinn á sér þegar maður rekur nagla í vegg, bölvar smáskrítlegu fólki sem svindlar á manni, hatar þá sem bíta mann, fær sér vinnu á nóttinni til að geta farið til útlanda og séð píramída, elskar þá sem gefa manni blóm ... og skrifar bækur.
Já, sumt gerir maður bara og þarf sem betur fer sjaldnast að skilgreina hvers vegna. Maður gerir það ósjálfrátt en samt af fullu viti og af tilfinningu.
Og ekki eftir nótum. Svoleiðis vinnur sæmilegur maður vinnuna sína.
Ég held að ég sé sæmilegur maður.
Ég gæti auðvitað leikið sjálfa mig svo grátt að skoða gáfulegar og heimspekilegar kenningar um bókmenntir, mátað mig við hverja og eina, fundið sitt lítið af hverju passa, vitandi þó allan tímann að ég er að falsa, út af því að ég er viss um að leyndarmálið mitt er heimskulegt, óvinsælt og banalt; ég skrifa nefnilega bækur vegna þess að ég kann ekkert betur, ég get ekkert betur, hef enga sterkari löngun, næ ekki samhljómi við sjálfa mig í neinu öðru og aldrei betri tengslum við annað fólk.
Ég veit líka að ég get aldrei breytt heiminum vegna þess að ég er svo óstjórnlega laus við að hafa ódauðleikagenið.
Mig langar heldur ekki til að breyta heiminum vegna þess að ég ætlast til að heimurinn slípi mig, fægi, pússi, berji, lemji, elski, hnoði, hamist á mér og breyti mér.
Kannski helst þetta í hendur. Það kynni þó ekki að vera.
Leyndarmál mitt í tíma og rúmi, samtíð, nútíð og fortíð er að ég er umfram flest kelin og óstýrilát manneskja með allt of mikla snertiþörf og ég veit ekkert betra en orðið, setningarnar, málsgreinarnar, merkinguna, jólakúlurnar og bókstafina til að nálgast þann alheim og þá alheimsvitund sem ég er að meira eða minna leyti hluti af.
Og ég er svo heppin að hafa fundið leið í kaosinu.
Ég er líka heppin að sjá kaosið.
Vegna þess að ég er kaos.
Amma mín sagði við mig þegar ég var fimmtán ára að ég skyldi ekki byrja að sofa hjá því þá gæti ég ekki hætt. Sama hvernig ég reyndi. Ég sagði við hana að ég gæti ekki lofað því vegna þess að vísast mundi ég svíkja hana.
Þá talaði hún um áráttu, það var í fyrsta skipti sem ég heyrði orðið.
Svo talaði hún um svínarí.
Og ég gat ekki annað en tengt þetta saman í huganum.
En svo svaf ég hjá og gat ég ekki hætt.
Þú ert bara búin að venja þig á þetta, sagði hún.
Stuttu seinna sá ég að það var eins með sögurnar, ljóðin og allt þetta sem ég var alltaf að skrifa.
Ég byrjaði og gat ekki hætt.
Og það gilti einu hvaða stellingu ég notaði, hvort hún var inn í dag en át á morgun, ég skrifaði af áráttu og gat ekki hætt. Einfaldlega vegna þess að það er svo gott að skrifa og svo gaman og líka vegna þess að án þess væri líf mitt lítils virði.
Kannski er það svínarí.
Ég hvet alla til að finna sitt svínarí og halda sig við það.
Vigdís Grímsdóttir, 2000.
Um höfund
Hér að neðan eru tvær greinar um skáldskap Vigdísar Grímsdóttur. Sú fyrri er eftir Maríu Bjarkadóttur en sú síðari Kristínu Viðarsdóttur og hana má finna hér að neðan.
Sannleikur og sjálfsblekking:umfjöllun um verk Vigdísar Grímsdóttur
Skáldsögur Vigdísar Grímsdóttur vekja jafnan sterk viðbrögð. Verk hennar eru ögrandi og umfjöllunarefnin tabú, oft óþægileg og jafnvel stuðandi á köflum. Vigdís hefur sent frá sér fjölda skáldverka á rithöfundarferli sem spannar nú tæpa fjóra áratugi og hlotið fjölda viðurkenninga og tilnefninga. Í greininni „Skáldvera: um verk Vigdísar Grímsdóttur“ sem birtist hér á Bókmenntavefnum árið 2000 fjallar Kristín Viðarsdóttir um verk Vigdísar. Síðan greinin var rituð hafa komið út átta verk til viðbótar og því ekki úr vegi að halda áfram og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Vigdís tekur nokkuð nýja stefnu í skrifum sínum upp úr aldamótunum og skrifar bæði inn í hefðir töfraraunsæis og dystópískra bókmennta, auk þess að kanna möguleika ævisagnarsagnarformsins. Í skáldaævisögunni Dísu saga - konan með gulu töskuna, sem kom út árið 2013, rökræða tvær hliðar á klofnu sjálfi höfundar um innblásturinn að skáldskapnum:
- Viltu ekki kannast við að bækurnar þínar hafi fjallað meira og minna um okkur tvær, um kúgarann og hinn kúgaða, um lífið og óttann, um raddirnar í höfðinu? segi ég.
- Ansi held ég að það sé mikil einföldun, Dísa mín, segir hún og mér er í raun sama hvað hún vill viðurkenna bæði fyrir sjálfri sér og öðrum. (Bls. 131-132)
Þó að þetta sé reyndar kannski einföldun má segja að í svo til öllum verkum Vigdísar séu þessi atriði til staðar í einni eða annarri mynd. Þegar verkin eru skoðuð í samhengi má glögglega sjá að barnæskan og barnið eru höfundi einnig hugleikin. Í Dísu sögu setur höfundur fram eftirfarandi kenningu:
Ég er nefnilega sannfærð um að bernska sérhvers manns, allra manna, ekki bara þeirra sem skrifa um hana bækur, fjalla um hana í nefndum eða tjá sig um hana á öðrum vígstöðvum, sé mesti áhrifavaldur lífs hans. Ég segi fullum fetum að allt sem við reynum glúpni í samanburði við reynslu bernskuáranna, að í bernskunni sé bæði falið fall okkar og uppreisn, allt vakni þar til góðs eða ills, að hið góða og hið illa vegi þar sífellt sitt erfiða salt. (Bls. 104)
Þessi orð lýsa í raun kjarnanum í allmörgum verkum Vigdísar þar sem samspil og átök barna og fullorðinna, valds og valdaleysis, samfélagsins og einstaklingsins eru oftar en ekki í forgrunni og rannsökuð ofan í kjölinn.
Annað einkenni á verkum Vigdísar er tengsl listarinnar og lífsins. Listir eru áberandi í mörgum verkanna, líf persóna og líðan speglast í listinni og listin hefur áhrif á þær. Hún leiðir þær áfram í gegnum lífið og veitir þeim styrk og innblástur. Í Þögninni (2000) hlusta aðalpersónur á tónlist Tchaikovskys og tónlistin hefur bæði mikil áhrif á tilfinningalíf þeirra og framvindu sögunnar. Í þríleiknum Frá ljósi til ljóss (2001), Hjarta, tungl og bláir fuglar (2002) og Þegar stjarna hrapar (2003) er það ekki aðeins listin sem leikur eftir lífinu heldur fer lífið að leika eftir listinni. Þar er myndlist áberandi í gegnum söguna, sem er túlkuð jafnóðum í gegnum málverk listakonunnar Lúnu. Í framtíðarsýninni Trúir þú á töfra (2011) er það skáldskapurinn, og þá fyrst og fremst ljóð, sem leiða söguna áfram og styrkja aðalpersónuna Nínu Björk í afstöðu sinni til lífsins. Hún er auk þess sjálf listakona sem túlkar atburði, minningar og fólk í gegnum myndlist.
Raddirnar í höfðinu
Í Þögninni sem kom út árið 2000 er í forgrunni náið og afar sérstakt samband aðalpersónunnar Lindu við ömmu sína og nöfnu. Þegar sagan hefst er Linda um tvítugt og situr við dánarbeð ömmu sinnar. Linda hin eldri er ekki eins og fólk er flest. Hún er með kjörþögli og hefur auk þess kosið að lifa í einangrun frá öllum nema sínum allra nánustu. Hún er afar dul en lifir samt sem áður innihaldsríku lífi með vinkonu sinni Anastasiu Posokhovu, sem er amma hins fræga tónskálds Tchaikovsky. Þó að Anastasia þessi sé eingöngu til í hugarheimi ömmu Lindu hefur hún mikil völd og áhrif, ekki síst í lífi nafnanna tveggja.
Amman telur Lindu vera útvalda og hún fær þess vegna ein inngöngu í þennan sérstæða heim þeirra vinkvennanna, þar sem gilda strangar og oft siðferðilega vafasamar reglur. Linda þarf að sanna sig og sýna að hún sé verðug þess að fá að taka þátt í lífi ömmunnar og það sem er öllu mikilvægara, að verða trúnaðarkona hennar og arftaki. Amman býr yfir ógnvekjandi leyndarmálum úr fortíðinni sem ekki mega komast upp á yfirborðið og Linda þarf að standa vörð um þau eftir hennar dag.
Foreldrar Lindu eru haldin einkennilegri blindu á hegðun ömmunnar og þannig hafa Anastasia og amman í sameiningu mikil völd yfir Lindu. Verkefnin sem þær leggja fyrir hana fara oft yfir strikið og Linda leggur mikið á sig til að þóknast ömmu sinni og fá að eiga hlut í heimi hennar áfram. Linda á sjálf vin líkt og amman, en í hvert sinn sem hún hlustar á tónskáldið Tchaikovsky birtist hann henni ljóslifandi. Samband þeirra er innihaldsríkt á ýmsa vegu og þau verða afar náin. Linda telur sig samt sem áður vita að hann sé ekkert nema hugarburður, ólíkt ömmunni sem álítur Anastasiu raunverulega. Eftir því sem á líður rofnar veruleikatenging Lindu og mörk hennar verða æ óljósari.
Sagan er stúdía í ýmiskonar valdaójafnvægi, blekkingum, meðvirkni og flóknum samskiptum fjölskyldna. Áleitnum spurningum er velt upp um hvar mörkin liggja, hverjum á að treysta og hversu langt má ganga og svörin eru sjaldan þægileg.
Lygavefir
Eftir Þögnina má segja að verði ákveðin þáttaskil í skáldskap Vigdísar. Fram að þessu hafa skáldsögurnar ekki tengst innbyrðis en næstu þrjár bækur, Frá ljósi til ljóss, Hjarta tungl og bláir fuglar og Þegar stjarna hrapar, eru þríleikur og komu út hver á sínu árinu. Bækurnar þrjár voru síðar endurútgefnar í einu bindi undir titlinum Þrenningin (2005). Sögurnar tengjast allar og segja frá þremur ættliðum sömu fjölskyldu. Frásögnin hverfist að mestu um Rósu og son hennar Lenna, en líf þeirra beggja mótast af blekkingum frá upphafi til enda. Bæði eru þau fædd inn í lygavef sem setur mark sitt á líf þeirra og hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir alla framtíð þeirra beggja.
Sögusvið Þrenningarinnar er í fyrstu bókinni nokkuð á huldu en virðist langt frá fyrri verkum Vigdísar sem eru oft bundin tilgreindum stöðum, götum og jafnvel húsum. Þegar líður að lokum þessa fyrsta kafla frásagnarinnar taka málin þó að skýrast og í Hjarta, tungl og bláir fuglar er sviðsetningin á hreinu frá upphafi, lítill bær í Nýju-Mexíkó. Lokahlutinn Þegar stjarna hrapar, gerist svo að mestu í Reykjavík. Fyrri bækurnar tvær sækja innblástur í suður-amerískt töfraraunsæi. Lýsingar á umhverfi, atburðum og persónum kalla fram í hugann myndir sem eiga fátt skylt við íslenskan hversdagsleika og einhverskonar óræður óraunveruleiki hvílir yfir öllu. Þegar stjarna hrapar er frábrugðin fyrri bókunum tveimur á ýmsan hátt. Umhverfið er hráslagalegur vetur í Reykjavík og skáldsagnaformið líkara glæpasögu. Þó að enn eimi eftir af ákveðnum einkennum hins óræða er hið draumkennda andrúmsloft fyrri bókanna nánast horfið.
Í Frá ljósi til ljóss segir frá hinni móðurlausu Rósu. Hún er tíu ára þegar sagan hefst og afar náin föður sínum, draumóramanninum Lenna. Lenni ákveður snemma í sögunni að leggja upp í ferðalag, til að freista þess að finna Rósu Cordovu, konuna sem hann hefur dreymt um í áraraðir en sem hann hefur hingað til aðeins séð á mynd. Rósa fer í fóstur til vinafólks og elst þar upp í góðu yfirlæti. Þrátt fyrir að vera hamingjusöm saknar hún föður síns og finnur sig aldrei alveg á heimilinu en hún á góða vinkonu og kærasta og lifir sæmilega hefðbundnu lífi framanaf. Margt er þó óljóst í hennar huga og hún er leitandi líkt og faðir hennar. Sterkar tilfinningar taka að bæra á sér gagnvart manni sem er bæði mun eldri en hún og giftur, en sambandið við hann umturnar ekki bara lífi þeirra tveggja heldur líka fjölskyldna þeirra og vina. Þegar eru liðin tíu ár frá því að Lenni hélt af stað í ferðalag sitt ákveður Rósa að hafa uppi á honum. Hún heldur út í heim með nýfæddan son sinn, en ferðin verður ekki sú sem hún hafði búist við. Fótunum er skyndilega kippt undan henni þegar hún kemst að lygavefnum sem spunninn hefur verið um líf hennar allt frá fæðingu og sem hefur ófyrirséðar afleiðingar á framtíð hennar og sonar hennar.
Í Hjarta, tungli og bláum fuglum er sagt frá syni Rósu, Lenna yngri, sem elst upp hjá móður sinni, afa og stjúpömmu í smábæ í Nýju-Mexíkó. Lenni segir sjálfur söguna og virðist lifa nokkuð áhyggjulausu lífi. Hann leikur sér og uppgötvar heiminn með vinkonu sinni og sálufélaga, hinni skapstyggu og dómhörðu Edítu en hún er nánast eins og hliðarsjálf hins ljúfa og blíða Lenna. Móðir Lenna hefur ekki náð sér eftir áfallið sem varð til þess að hún ákvað að vera um kyrrt hjá föður sínum í Nýju Mexíkó og Lenni veltir fyrir sér fortíð hennar og sínum eigin föður á Íslandi. Lenni virðist hamingjusamur, hann hefur hreina og barnslega sýn á lífið, viðhorf sem virðist ekkert breytast þó hann eldist. Raunar þroskast hann furðu lítið og virðist staðnaður í fegurð sinni og hreinleika. Þegar hann fær aldur til ákveður hann að láta draum sinn um að hitta föður sinn rætast, og leggur upp í för til Íslands. Lenni veit lítið um fortíðina en er staðráðinn í að kynnast bæði fjölskyldu sinni á Íslandi og þeim fjarlæga heimi sem móðir hans yfirgaf skömmu eftir að hann fæddist. Eftir því sem líður á söguna verður ljóst að eitthvað er bogið við frásögnina, það er eitthvað við Lenna og líf hans sem stemmir ekki og þó að erfitt sé að átta sig á því eru ýmsar vísbendingar um að sagan sé ekki öll sögð.
Þriðja sagan, Þegar stjarna hrapar er sem fyrr segir glæpasaga, í það minnsta á yfirborðinu. Sjórekið lík finnst í annarlegri stellingu í fjöru í Reykjavík og rannsóknarlögreglumaður fær það verkefni að komast til botns í málinu. Á sama tíma verður ljóst að Lenni er horfinn og Rósa neyðist til að snúa heim til Íslands til að finna son sinn. Hún þarf að takast á við lífið sem hún fór frá 20 árum fyrr og þó að margt sé við það sama er ýmislegt breytt. Lygar fortíðarinnar halda áfram að hafa afleiðingar og áhrif á líf allra en flókin sambönd taka smám saman að skýrast og sannleikurinn leitar í dagsljósið.
Þrenningin er á köflum draumkennd og jafnvel súrrealísk. Persónur upplifa drauma og sýnir sem hafa áhrif á líf þeirra og myndlist Lúnu vinkonu Rósu veitir oft annað sjónarhorn á atburði og afleiðingar þeirra. Fléttan tekur reglulega óvænta beygju þegar upp kemst um leyndarmál sem eiga að vera grafin. Það sem virðist sjálfgefið reynist oft eitthvað allt annað og lesandinn þarf að endurskoða alla afstöðu sína til persóna, reynslu þeirra og söguþráðarins í heild. Persónur sögunnar eru margar leitandi, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Lenni eldri leitar að Rósu Cordovu, Rósa leitar að föður sínum og Lenni yngri sömuleiðis að föður sínum, og þó að forsendur þeirra séu vissulega ólíkar eiga þau margt sameiginlegt. Öll leita þau eftir og þrá hamingjuna, ást og viðurkenningu en blekkingar og lygar reynast ekki vænleg undirstaða til að byggja á.
Listin að lifa frjáls
Í Trúir þú á töfra er sett fram önnur sýn á vald og valdaleysi, eða samband kúgarans og þess kúgaða. Sagan fjallar um hina tíu ára gömlu Nínu Björk sem býr í afskekktu og einangruðu þorpi einhverstaðar á Íslandi í óræðri framtíð. Yfir þorpinu er glerkúpull sem heldur óviðkomandi fólki úti og lokar íbúana inni. Þegar þorpið var byggt var fólk ginnt þangað með loforðum um betra líf og þeir sem þangað fóru sjálfviljugir báru von í brjósti um bjarta framtíð. Ekkert var hins vegar eins og það átti að vera. Fólkinu var uppálagt að setja á svið leikrit og var skipað í hlutverk, sem þau hafa verið neydd til að leika allar götur síðan. Leikritið sjálft fær hins vegar enginn að vita neitt um; handritið verður til jafnóðum og ekki allskostar ljóst hvort leikritið sé nú þegar hafið.
Nína Björk kom í þorpið sem kornabarn og var skilin eftir við hliðið að glerkúplinum. Hún er eina barnið í þorpinu og sú eina sem þekkir ekki lífið utan þess. Foreldrarnir sem hún býr með voru valin til að gegna hlutverki foreldra hennar, þau þekktust ekki áður en þau komu í þorpið og eiga ekkert sameiginlegt, enda er samlífið stirt. Þótt hún telji sig ekkert hafa fram að færa kennir móðir Nínu Bjarkar henni að lesa ljóð nöfnu hennar, ljóðskáldsins Nínu Bjarkar Árnadóttur, en í ljóðalestrinum er fólgin uppreisn gegn valdhöfum þorpsins sem líta alla menningu og listir hornauga. Nína Björk fær leyfi til að lesa upp ljóðin fyrir aðra þorpsbúa en hættan á að andóf hennar uppgötvist vofir stöðugt yfir. Þeir sem andmæla yfirvöldum, leikritinu eða lífinu undir glerkúplinum eiga það til að hverfa eða vera dregnir öskrandi í dauðann.
Nína Björk er von þorpsbúa þó að enginn viti hvert hlutverk hennar sé í raun. Hún veit það ekki frekar en aðrir en hún les faldar bækur á bókasafninu, ljóð nöfnu sinnar og lætur sig dreyma um framtíð utan glerkúpulsins þar sem hún er frjáls. Ljóðin verða eins konar leiðarvísir fyrir Nínu Björk og með þeim reynir hún að stappa stálinu í fólkið, koma til þeirra skilaboðum um að halda í vonina um að þau sleppi á endanum út. Hvorki Nína Björk né aðrir þorpsbúar vita hvernig heiminum utan þorpsins er ástatt. Stjórnandinn er sá eini sem hefur upplýsingar og þannig getur hann haldið öllum í þorpinu í heljargreipum, því enginn veit hvað bíður utan þorpsins og hvaða afleiðingar uppreisn hefur.
Andóf Nínu Bjarkar birtist ekki aðeins í ljóðlestri heldur einnig í myndlist. Hún fær leyfi til að mála á veggi glerkúpulsins og greiðir fyrir það dýru verði með því að veita aðgang að líkama sínum. En vald yfir líkama er ekki það sama og vald yfir hugsunum og með myndlist sinni tekst henni að festa í minninu fólk og atburði. Hún málar rauða ketti af ýmsum gerðum og myndirnar verða duldar skírskotanir í líf fólksins og drauma. Undir lokin fær Nína Björk hið langþráða frelsi, en það er ekki alveg ljóst hvort það sé raunverulegt frelsi eða hvort hún sé horfin inn í hugarheim sinn líkt og fleiri persónur Vigdísar hafa gert, á flótta undan sjálfum sér og umheiminum.
Ævisögur og skáldævisögur
Auk skáldævisögunnar hefur Vigdís skráð tvær ævisögur, Söguna um Bíbí Ólafsdóttur (2007) og Elsku Drauma mín (2016) um Sigríði Halldórsdóttur. Frásagnirnar eru ólíkar bæði hvað varðar efnistök og frásagnaraðferð og veita hvor um sig áhugaverða innsýn í takmarkanir og möguleika ævisagnarformsins.
Í Sögunni um Bíbí Ólafsdóttur er frásögnin byggð upp á samtölum og ítarlegum lýsingum á atburðum sem hafa mótað hana og haft áhrif á líf hennar. Hún segir frá ofbeldi og drykkju, miklum átökum bæði í æsku og á fullorðinsárunum en einnig sinni eigin innri baráttu. Bíbí elst upp við harðræði móður sinnar og mikla fátækt. Hæfileikar hennar til að sjá og tengjast öðrum víddum valda henni hugarangri og koma henni í vandræði heima fyrir þar sem þeir eru illa séðir af móðurinni. Frásögnin er línuleg, farið er frá æsku til fullorðinsára og sagt frá góðum stundum og slæmum. Líf hennar litast af ofbeldisfullum ástarsamböndum en á sama tíma lærir hún smám saman að lifa með hæfileikum sínum og nýta þá. Frásögnin er ekki aðeins ævisaga heldur einnig heimild um lífið í Múlakampi og þróun borgarinnar, um aðstæður fátækra í Reykjavik á árunum eftir stríð og ekki síst aðstæður fátækra barna.
Í Elsku Drauma mín segir Sigríður Halldórsdóttir frá ævi sinni, meðal annars frá uppvexti sínum á Gljúfrasteini, fjölskyldulífinu bæði í æsku og á fullorðinsárum, atburðum og áhrifavöldum í lífi sínu. Frásögnin er í léttum dúr og einkennist af íhugun og endurskoðun. Atburðir eru ekki endilega í tímaröð eins og í sögu Bíbíar heldur er flakkað fram og aftur í tíma þar sem ein minning kallar fram aðra og svo enn aðra. Inn í hennar eigin hugrenningar og endurminningar fléttast svo frásagnir annarra af henni og af fólkinu hennar. Tilvitnanir í ýmis ritverk um föður hennar Halldór Laxness og kaflar úr Ósjálfrátt, sem er skáldævisaga dóttur hennar Auðar Jónsdóttur, eru notaðar til að varpa ljósi á líf hennar sjálfrar.
Ýmsum pælingum um ævisögur og endurminningar er velt upp í frásögninni, um vandann við að segja frá eftir minni og um það hverju er sagt frá og hverju er sleppt,
„Síðan gerist ótalmargt sem ekki verður sagt frá neins staðar. Þannig eru ævibækur, þær bera ekki lífssögu manna, bara brot af henni. Það er stóra blekkingin, sjónhverfingin.“ Bls. 79.
Skáldævisagan Dísu saga - konan með gulu töskuna er ekki hefðbundin ævisaga. Sagan er skrifuð vetur einn á kaffihúsinu á Norðurfirði og skriftirnar sjálfar eru nokkuð veigamikill hluti af frásögninni. Klofið sjálf höfundar, sem ávallt hefur verið dulið, opinberar sig hér að eigin sögn í fyrsta sinn fyrir umheiminum. Gríms, sem setið hefur undir stýri í líkama Vigdísar Grímsdóttur undanfarin 50 ár eða svo, stígur til hliðar og leyfir loksins hinum helmingnum, Dísu Gríms frá Kleppsvegi, að segja sögu þeirra beggja. Dísa og Gríms hafa tekist á um stjórnvölinn í lífi Vigdísar frá því Dísu var nauðgað tíu ára gamalli. Gríms kom henni til bjargar og hjálpaði henni að komast í gegnum árásina og lífið eftir hana, með hörkuna og grimmdina gagnvart sjálfri sér að leiðarljósi.
Dísa fær sem sagt orðið og ákveður að skrifa bréf til gamals elskhuga sem hafði sagt skilið við þær óvænt og óviðbúið mörgum árum fyrr. Fyrir elskhuganum rekur Dísa sögu sína og Gríms, segir frá æsku sinni áður en Gríms kom til sögunnar og lífinu eftir nauðgunina þegar henni sjálfri var ýtt ofan í holu og Gríms tók yfir. Elskhuginn er aldrei ávarpaður öðruvísi en „kisi“ og ekkert er gefið upp um raunverulegt nafn, en sambandi þeirra og samskiptum er samt sem áður lýst náið og ítarlega. Kannski skiptir raunverulegt nafn kisa engu máli, sé hann þá yfirleitt til, enda eru persónur sem aðeins eru til í huga annarra persóna eins og fram hefur komið ekki óþekkt fyrirbæri í verkum Vigdísar. Ýmislegt bendir reyndar til þess að þessi hviklyndi og lausgirti elskhugi sé persónugerving lesandans. Frásagnir af ástarfundum, hvernig hún veltir sér upp úr skoðunum hans, eltir hann á röndum, er í raun algerlega háð honum og lætur undan öllum hans duttlungum, virðast á köflum vísun í samband höfundar og lesanda.
Dísu saga er ekki uppvaxtarsaga nema að takmörkuðu leyti. Hún er öllu heldur uppgjör höfundarins við sjálfa sig, skáldskapinn, lesendur og við feril sinn sem skáld. Eins og fram hefur komið eru Dísa og Gríms ósammála um flest, þær hafa mismunandi sýn á atburði í lífi sínu og kjósa ólíka hluti til að draga fram og leggja áherslu á. Þær takast á um hvað er satt og hvað eru ýkjur eða skrumskæling á sannleikanum og þannig undirstrika þær vandann við ævisagnaskrif þar sem ritstýring og sjálfsritskoðun hafa mikið að segja.
Samband þeirra tveggja hefur í gegnum tíðina verið átakamikið, Gríms hefur barið Dísu niður og ríghaldið í taumana, til að eiga ekki á hættu að Dísa segi frá því sem kom fyrir þær í æsku. Hættan á því að vera lokuð inni komi hið sanna tvískipta eðli þeirra í ljós vofir stöðugt yfir.
Dísa kallar söguna höfuðlausn sína, leið til að losna úr prísundinni og viðjum fortíðar. Þó að frásögnin sé einlæg á köflum er stundum eins og mörkin milli skáldskapar og veruleika renni saman.
Og allt í einu get ég ekki annað en hlegið því mér finnst einsog ég sé stödd inni í miðri bók eftir Gríms eð einhverja viðlíka kellingu en ekki í lífinu sjálfu, að ég sé stödd í einhverjum undarlegum andskotans skáldskap. (Bls. 381-382)
Alveg fram á síðustu síðu eru Dísa og Gríms ósammála, um hvað sé skáldskapur í frásögninni og hvað sé sannleikur, eða hvar mörkin þar á milli liggja.
Að lokum
Hér er hefur aðeins verið farið á yfirborðskenndan hátt yfir þau verk Vigdísar sem hafa komið út á síðustu tæpu tveimur áratugum. Verkin eru margslungin og flókin eins og fyrri verk hennar. Persónurnar standa margar á jaðri samfélagsins eða jafnvel utan þess og leita að leið til að annað hvort taka þátt eða yfirgefa það alveg. Þrá eftir ást, viðurkenningu og hamingju leika stórt hlutverk sem fyrr, sem gerir verkin manneskjuleg á sama tíma og þau ögra lesandanum og stöðluðum hugmyndum um lífið og hvað má skrifa skáldskap um.
María Bjarkadóttir, 2019
Skáldvera: Um verk Vigdísar Grímsdóttur
Vigdís skrifar fyrir fullorðna í börnum og börn í fullorðnum og víst er að velflestar bækur hennar fjalla að meira eða minna leyti um börn þótt eingöngu ein þeirra hafi verið kölluð barnabók.
Með þessum orðum lýsir Vigdís Grímsdóttir skáldskap sínum í kynningarbæklingi sem fylgir norskri sýningu á íslenskum barnabókum síðustu 10 ára (1). Þarna beinir hún athyglinni að tengslum bernsku og fullorðinsára eða óljósum mörkum og samslætti þessara skeiða í lífi einstaklingsins, þar sem börn búa í fullorðnum og fullorðnir í börnum, en slík riðlun er einnig mjög áberandi í verkum hennar. Persónur eru þar margar hverjar bernskar þótt þær eigi að teljast fullorðnar og að sama skapi lenda börn oft í hlutverkum sem á engan hátt tilheyra aldri þeirra og verður sjónarhornið því oft í senn bernskt og fullorðinslegt óháð því á hvaða aldri sögumaður eða vitundarmiðja textans er.
Strax í fyrstu bók Vigdísar, Tíu myndum úr lífi þínu (1983) sem er safn stuttra sagna og ljóða, er bernskan áberandi þráður en hún verður síðan ráðandi stef í skáldsögunum Kaldaljósi (1987), Ég heiti Ísbjörg ég er ljón (1990) og Grandavegi 7 (1994) auk barnabókarinnar Gauti vinur minn (1996). Loks má nefna ljóðabókina Minningabók (1990) sem Vigdís skrifar í minningu föður síns og tileinkar móður sinni en þar eru bernskuminningar ljóðmælanda í forgrunni. Í öðrum verkum Vigdísar eru börn ekki í aðalhlutverki eða koma jafnvel hvergi við sögu, en samt má í sumum þeirra finna sjónarhorn sem kenna má við bernsku. Þetta á sérstaklega við þann myndríka heim sem aðalpersóna skáldsögunnar Stúlkan í skóginum smíðar sér og dvelur í, skóglendi hugans, sem á raunar miklu meira skylt við það áhyggjuleysi, ævintýri og fegurð sem mönnum er tamt að tengja við heim barnsins en sá harði heimur sem börnin í flestum fyrrgreindum sögum búa við.
Í verkum Vigdísar er heimur barnsins nefnilega alls ekki heimur sakleysis og ævintýra heldur miklu frekar ógnar og jafnvel hryllings og sögur hennar fjalla gjarnan um örvæntingarfullar tilraunir barna til að halda heimi sínum og fjölskyldu sinnar saman, eða þá að persónurnar geta ekki skilið sig frá bernsku sinni þótt þær séu komnar á fullorðinsaldur. Sögurnar eru því fæstar þroskasögur í hefðbundnum skilningi, í mörgum tilfellum eiga persónur afar erfitt með að takast á við þann veruleika sem blasir við þeim en leita þess í stað inn á við og loka sig af í skálduðum heimi sem þær telja sig hafa á valdi sínu. Það má þó sjá vissa þróun í verkum Vigdísar hvað þetta varðar því í seinni sögum hennar reyna persónur að nýta sér innri reynslu sína til að tengjast heiminum fyrir utan þótt sá samruni eða samband við aðra sem þær þrá að öðlast verði ekki alltaf að veruleika. En hvort sem persónurnar stefna alfarið burt frá veruleikanum (og farist þannig í leitinni að sjálfum sér og merkingunni), eða nýti sér innri reynslu sína til að taka stefnuna út á við, er slík „yfirtaka“ innra lífs manneskjunnar, hugsana hennar og drauma, eitt af sterkustu einkennunum á skáldskap Vigdísar. Mörk veruleika og fantasíu eru oft afar óljós og í samræmi við það eru textarnir ljóðrænir, hvort sem um er að ræða ljóð eða prósa, og má raunar segja að Vigdís sameini þessi form í öllum verkum sínum á einhvern hátt.
Í fyrstu tveimur bókum hennar skiptast á stuttar sögur og ljóð. Vigdís hefur síðan að mestu fengist við skáldsagnaskrif, ef undan eru taldar ljóðabækurnar Minningabók og Lendar elskhugans, sem er samfelldur ljóðabálkur, en báðar þessar bækur segja sögu eða varpa upp myndum og myndbrotum sem vart verða lesin nema sem ein heild. Að sama skapi bera skáldsögur hennar ljóðræna eiginleika þar sem hljómfalli, endurtekningum og ýmist hröðum og knöppum eða flæðandi stíl er beitt á mjög meðvitaðan hátt. Stíllinn er myndrænn og tengist það oftar en ekki því bernska sjónarhorni sem minnst var á hér að framan, orð umbreytast í myndir og persónur umbreyta hlutum í skynjun sinni eins og þegar flöktandi logar minna Guðrúnu í Stúlkunni í skóginum á „leggjalanga stráka í fjöru með tærnar í löðri“ (16).
Grímur í Kaldaljósi, fyrstu skáldsögu Vigdísar, sem er barn í fyrri hluta bókarinnar en fullorðinn í þeim síðari, skynjar heiminn á þennan myndræna hátt og það gerir Ísbjörg, titilpersóna Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón, einnig. Hún lifir þó og hrærist enn frekar í sögum sem faðir hennar segir henni þegar hún er barn og það svo mjög að hún losnar aldrei undan því ægivaldi sem hann hefur yfir henni. Jafnvel ekki þótt hann fyrirfari sér þegar hún er átta ára gömul eftir að hafa stjórnað lífi hennar og móður hennar og misþyrmt þeim andlega og líkamlega árum saman. Ísbjörg segir sögu sína í fangaklefa á meðan hún bíður réttarhalda vegna morðs á viðskiptavini sínum (sem vændiskona) og í frásögn hennar kemur smám saman í ljós hvernig hún „skáldar“ sjálfa sig inn í texta sem faðir hennar hefur skrifað fyrir hana. Hún segist sjálf hafa hætt að eldast átta ára gömul og er þannig barn í fullorðnum líkama án þess að hafa fengið að vera barn í friði. Þessi mótsögn birtist svo ef til vill í fantasíu hennar um stúlkuna á ströndinni, Ísbjörg klýfur sjálfa sig bókstaflega í tvennt og skapar sér annað sjálf sem hún sameinast í lok sögunnar. Ísbjörgu tekst ekki fremur en Grími í Kaldaljósi að vinna úr bernsku sinni, bæði flýja þau að lokum inn í skáldaða en örugga tilveru (einhvers konar dauða) þar sem þau standa í bókarlok og veifa til lesandans.
Brúðugerðarkonan Hildur í næstu skáldsögu Vigdísar, Stúlkan í skóginum, er andlega skyld föður Ísbjargar. Lýsingin á henni í upphafi textans minnir raunar á sambland af slöngu og blóðsugu sem er tekin að þyrsta í nýtt og endurlífgandi blóð. Eyru hennar minna fórnarlamb hennar og sögumann bókarinnar, Guðrúnu, einnig á sögu af álfkonu og þannig renna saman Biblíumyndir, vísanir í þjóðsögur og loks hrollvekjur í bókmenntum og kvikmyndum. Enda sýgur hún lífið úr Guðrúnu, leggst yfir hana og allt að því étur hana í bókstaflegum skilningi þegar hún hefur hamskipti við hana og leggur þannig undir sig líkama hennar í lok sögunnar.
Í verkum Vigdísar er slíkt sugu- eða átmyndmál afar algengt. Fólk er étið, gleypt, andað er á það, lagst yfir það, aðrir sjúga það eða galdra það til sín, stinga það með augunum eða smjúga inn um augu þess svo eitthvað sé nefnt. Þessu myndmáli tengjast jafnan spurningar um vald og valdleysi þar sem fólk reynir annað hvort að stjórna öðrum eða slá eign sinni á þá leynt og ljóst eða þá að það verður öðrum að bráð. Þetta á við um samband Ísbjargar við föður sinn í hennar sögu, um Hildi og Guðrúnu í Stúlkunni í skóginum, um föður Fríðu og fjölskyldu hans í Grandavegi 7 og einnig að nokkru leyti um samband elskendanna Önnu og Z í Z: ástarsögu. Þessu tengist svo hræðsla persónanna við að hleypa öðrum inn á sig, að leyfa einhverjum að ganga inn í það „hús“ sem systirin í Minningabók segir hverja manneskju vera:
Og einn liðlangan dag kemur hún til mín, systirin
og segir að ekki aðeins séu sumir dagar hús,
fólk sé líka hús, og það ráði hverjum það hleypi
inn, hverjum það bjóði til sængur, hverjum það
leyfi að vera. Og hún er hugsi þegar hún segir
að þess vegna verði fólk líka að gæta sín.
(Minningabók, s. 34)
Þessu gætir Guðrún í Stúlkunni í skóginum sín ekki á og segja má að ótti manneskjunnar við það að einhver ráðist inn í heim hennar og breyti gangi himintungla þar, eins og Ísbjörg lýsir fyrir verjanda sínum í sinni sögu, verði að veruleika í sögu Guðrúnar þegar Hildur gengur inn í „skóg“ hennar og sundrar smám saman einingu hans. Hildur hyggst nota Guðrúnu sem efnivið í listaverk í bókstaflegum skilningi og er sagan, sem að mínu mati er eitt það besta sem Vigdís hefur skrifað, hrollvekjandi krufning á því hve langt er hægt að ganga í nafni listarinnar (sem síðan má yfirfæra á hvaða „æðri tilgang“ sem vera skal) séu siðferðilegar spurningar látnar lönd og leið. Svörin eru þó ekki einhlít því þótt Guðrún sé öðrum þræði saklaust fórnarlamb, lítil fullorðin stúlka sem gengur grunlaus í gin óvættarins, neitar hún að takast á við nokkuð það í lífi sínu sem getur valdið henni sársauka og virðist þannig til dæmis staðna í þroska um það leyti sem hún er að komast á kynþroskaaldur.
Unglingsstúlkan Fríða, aðalpersóna og sögumaður Grandavegs 7, reynir hins vegar að laga sig að heimi fullorðinna án þess að hafa að fullu sagt skilið við heim bernskunnar. Hún stendur raunar á mörkum tveggja heima í öðrum skilningi því hún er skyggn og þarf stöðugt að hlusta á sögur framliðinna íbúa hússins á Grandaveginum þótt hún kæri sig ekki alltaf um það. Draugarnir trufla sífellt hugsanir hennar og athafnir, grípa fram í fyrir henni og leiða hana af beinni braut einradda hugsunar, línulegs tíma og afmarkaðs rúms, þannig að hún ferðast milli tímaplana og staða, eða er á mörgum í senn.
Það má allt eins kalla skyggni hennar margröddun, því Fríða er miðill ólíkra og oft andstæðra radda sem kallast á. Þótt raddirnar fari allar í gegnum Fríðu og hún sé í þeim skilningi vitundarmiðja textans, er fyrstu persónu frásögnin víkkuð út þannig að rödd Fríðu er aðeins ein þeirra radda sem birtast í textanum. Það má því segja að miðjustaða hennar sé í senn undirstrikuð og leyst upp, hún verður að henda reiður á öllum þessum röddum, en einnig að finna sína eigin og þannig skapa sjálfa sig, og henni virðist takast það ólíkt þeim persónum sem hér hafa mest verið til umræðu. Vofurnar eða raddirnar sem fylgja henni geta einnig vísað til þeirrar stöðu sjálfsverunnar að vera okkar sé alltaf háð öðrum röddum, öðrum tíma og öðru rúmi og því séum við aldrei bara hér og nú, hvert eitt sjálf heilt og óskipt og skýrt afmarkað frá öðrum.
Vigdís nýtir sér einnig þetta útvíkkaða fyrstu persónu form í næstu bók sinni, barnabókinni Gauti vinur minn sem kom út sama ár og skáldsagan Z: ástarsaga. Í Gauta kynnumst við 5 ára gömlum strák í gegnum fullorðinn sögumann, Beggu vinkonu hans, en saman fara þau í ferðalög sem reynast vera sameiginlegir draumar þeirra beggja. Í draumaferðunum læra þau sitthvað um sjálf sig og aðra og Gauta tekst meðal annars að vinna bug á ótta sínum við að missa mömmu sína. Gauti er enn eitt barnið í sögum Vigdísar sem misst hefur foreldri sitt, hann er einmana og óöruggur eins og flest önnur börn í verkum hennar, enda fær hann ekki fremur en þau það öryggi heima hjá sér sem hann þarf á að halda. Því hefur verið slegið fram að Vigdís hafi skrifað þessa barnabók sem nokkurs konar „tryggingu“ um leið og hún sendi frá sér sögu um samkynhneigðar ástir, en ég held að barnabókin sé alls ekki neitt hliðarspor eða öryggisventill í höfundarverki hennar heldur miklu frekar rökrétt framhald þess bernska sjónarhorns sem alla tíð hefur mátt sjá í verkum hennar.
Í nýjustu bók Vigdísar, skáldsögunni Nætursöngvum, er skrefið inn á við svo stigið til fulls. Sagan gerist öll í draumi söguhetjunnar og lesandinn fær nær ekkert að vita um líf hennar og aðstæður utan draumanna. Sagan lýsir draumförum söguhetjunnar sem nú er ekki barn eins og Gauti heldur kona, eiginkona og móðir ungrar dóttur. Sagan er í formi eins konar skýrslu með formála og eftirmála og í henni rifjar nafnlaus konan upp draumfarir sínar í níu nætur í fylgd mannsins með hrafnshöfuðið, nokkrum árum eftir að þessi einkennilegi draumamaður hefur yfirgefið hana. Skýrsluformið nær þó ekki lengra því tungumál og inntak frásagnarinnar tilheyra heimi skáldskaparins og fantasíunnar. Draumarnir eru eins konar framhaldssaga með skýrri framvindu þótt þeir virðist óræðir, en þeir snúast fyrst og fremst um sjálfsleit konunnar og þörf hennar fyrir að finna frið og jafnvægi í lífi sínu. Draumarnir eru konunni allt, þeir taka yfir líf hennar og það svo mjög að dagarnir verða aðeins óhjákvæmileg bið eftir næsta kafla draumsins. Hún „vaknar inn í drauminn“ og þannig er látið að því liggja að „raunverulegt“ líf hennar fari fram í svefni, líkt og prinsessanna í ævintýrunum sem eiga sér sjálfstæða næturtilveru sem tekur vökulífi þeirra langt fram.
Draumheimar konunnar eru framandi heimar, en þó ekki, því eins og annars staðar hjá Vigdísi kannast lesandinn þar við margt úr heimi ævintýra, þjóðsagna og goðsagna. Undirtitill bókarinnar, skáldsaga, vísar ef til vill í þessa átt, lönd draumanna eru að vissu leyti lönd skáldskaparins og þar við bætist að konan þarf að færa þessa innri reynslu í vökuheim sinn. Hér er stefnan því þveröfug við það sem gerist í sögu Ísbjargar og Gríms, því þótt draumar konunnar séu svo að segja einráðir í textanum miða þeir að því að kenna henni eitthvað um lífið og gera henni í senn kleift að sætta sig við takmörk sín og þenja þau út. Lokahnykkurinn á því ferli er að segja söguna níu árum síðar, til þess að skilja „eigið líf betur og um leið líf annars fólks“ (136). Slík „endurvinnsla“ er sterkur þáttur í flestum verkum Vigdísar, persónur færa reynslu sína í búning sögu og nota þannig meðöl skáldskaparins til að gefa lífi sínu merkingu.
Þetta tengist öðru áberandi þema í skáldskap Vigdísar, en það er umræða um list og listsköpun. Athyglinni er víða beint að mörkum skáldskapar og veruleika og textar hennar einkennast flestir af mikilli meðvitund um tilurð sína, þeir eru sjálfsvísandi og að því leyti póstmódernískir. Þetta á þó síst við um skáldsöguna Z : ástarsögu (1996), sem er ástarsaga tveggja kvenna og að mörgu leyti ólík öðrum bókum höfundar. Í Z er textinn brotinn upp með öðrum hætti, samband aðalpersónanna, Önnu og Z, fer að mestu fram í texta þar sem önnur yrkir til hinnar sem á móti tjáir sig í bréfaformi, auk þess sem samband systur Önnu og manns hennar myndar nokkurs konar hliðarsögu sem bæði speglar og gengur gegn sögu Önnu og Z.
Sjálf hefur Vigdís sagt að þegar hún hafi ákveðið að skrifa sögu um ástina hafi hún ákveðið að „yfir henni mætti ekki vera nein slikja“ því það henti ekki þessu nærgöngula efni. Hún segist vilja „láta persónurnar stíga fram grímulausar og tala við lesandann og þær vilja að hann takist á við að leita svaranna.“ (2). Þetta er þó síður en svo fyrsta bók Vigdísar sem fjallar um ástina, það gera allar bækur hennar að meira eða minna leyti, en Z er hins vegar sú fyrsta þar sem lesbískar ástir eru beinlínis í forgrunni, ef undan er skilinn ljóðabálkurinn Lendar elskhugans (1991). Það er því ef til vill þetta tiltekna form ástarinnar sem hún telur að þurfi að koma „umbúðalaust“ til skila til lesandans, en Z er meðal örfárra íslenskra skáldverka sem hefur samkynhneigð að meginviðfangsefni, efni sem hefur fram til þess verið allt að því feimnismál í íslenskri bókmenntaumræðu. (3).
Þótt ljóðabálkurinn sé mun brotakenndari og óræðari en Z fjallar hann að sumu leyti um svipað efni, þar koma saman raddir nokkurra kvenna sem allar virðast vera að leita að einhverju(m) sem þær hafa misst eða sakna í lífi sínu (eða dauða), en ljóðmælandi reikar um í turni efans sem er nokkurs konar leiðarstef í textanum og markar bæði upphaf og endi hans. Það má ef til vill líta á þessa ljóðsögu sem enn einn drauminn í verkum Vigdísar, draum ljóðmælandans sem yfirgefur sofandi börn sín og elskhuga og heldur upp í ferð þar sem hún hittir fyrir ástríðufullar konur sem virðast hafa upp á mun meira að bjóða en sofandi elskhuginn.
Hér hefur mjög verið stiklað á stóru en reynt að benda á innbyrðis tengsl í höfundarverki Vigdísar: svo ólíkar sem bækur hennar annars eru má þar sjá sömu stef og minni aftur og aftur og textarnir „tala“ hver við annan og takast á með ýmsum hætti. Eftir útkomu Nætursöngva sagði Vigdís í blaðaviðtali að nú væri hún „búin með draumana“, að hún væri „búin með flesta möguleika á hinni draumkenndu frásögn“, en bætir þó við að slíkt viti maður samt aldrei. (4). Lesendur geta því beðið spenntir eftir næsta verki hennar, en víst er að erfitt er að hugsa sér texta frá hennar hendi þar sem ekki er rík áhersla lögð á þann innri heim sem er að minnsta kosti jafn stór hluti af veruleika okkar allra og sá ytri sem við erum vön að kenna við raunsæi.
Kristín Viðarsdóttir, 2000.
Tilvísanir
1. Kristín Birgisdóttir (ritstj.): Niste på veien (Veganesti). Osló: Det kongelige Kulturdepartment, 1999
2. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir: „Saumað að sálinni“. Vera, 15. árg. 6. tbl., 1996, s. 9
3. Sjá ítarlega umræðu Geirs Svanssonar í „Ósegjanleg ást. Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi. Skírnir, 172. árg. haust 1998
4. „Draumurinn afgreiddur.“ Dagur, 4. desember, 1998
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Nóg pláss á skáldabekknum“ (viðtal)
Spássían, 2. árg. (vetur), 2011, s. 19-25
Dagný Kristjánsdóttir: „Den døde kvinde lever“, „Løve eller lam“, „Kærligheden og døden“
På jorden 1960-1990, Nordisk kvinndelitteraturhistorie, bind iv, ritstj. Elisabeth Møller Jensen og fl. København, Rosinante 1997, s. 455-460
Elín Bára Magnúsdóttir: „Maður veit kannski frekar hvað er ekki frelsi“
Mímir, 25. árg., 2. tbl. 1986, s. 11-15
Gauti Kristmannsson: „Hvaðan kemur íslenskt dulsæi?“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg„ 4. tbl. 2004, s. 94-99
Hólmfríður Garðarsdóttir: „Dulmagn Vigdísar: Latneskt-amerískt töfraraunsæi eða alíslenskt dulsæi í verkum Vigdísar Grímsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 26-36
Kristín Ómarsdóttir: Maður er bara svona egg, svona frjógvað egg“ (viðtal)
Stína, 8. árg., 2. tbl. 2013, s. 34-47
Kristín Viðarsdóttir: „Saumað að sálinni: rætt við Vigdísi Grímsdóttur“
Vera, 15. árg., 6. tbl. 1996, s. 8-10
Kristín Viðarsdóttir: Stúlkur í innheimum. Um sagnaskáldskap Vigdísar Grímsdóttur
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1997.
Pétur Blöndal: „Og ég varð ein af skrítna fólkinu“
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 92-115
Um einstök verk
Bíbí: sagan af Bíbí Ólafsdóttur
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Bókalíf: um nýleg íslensk æviskrif“ (ritdómar)
Skírnir 2008, 182. árg., haust, bls. 501-7.
Dísusaga: konan með gulu töskuna
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2014, 9. árg., 1. tbl. bls. 162-7.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Að skrifa til að bjarga lífi sínu“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Maríann Clara Lúthersdóttir: „Heyrirðu í mér?“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 2. tbl. bls. 138-43.
Eldur og regn
Páll Valsson: „Enn leynist líf í orðum“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 4. tbl. 1986, s. 525-529
Védís Skarphéðinsdóttir: „Eldur og regn“
Vera, 5. árg., 2. tbl. 1986, s. 39-40
Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón
Friðrika Benónýsdóttir: „Ég heiti Ísbjörg. Ég er ljón“
19. júní 1990, s. 61
Hrund Ólafsdóttir: „Úr listalífinu. Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón.“
Vera, 9. árg., 1. tbl. 1990, s. 35-36
Silja Aðalsteinsdóttir: „En þú Ísbjörg, hafðir þú ástæðu?“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 4. tbl. 1990, s. 106-108
Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón. Leikgerð
Ingibjörg Stefánsdóttir: „Gleðileikur í fjórum þáttum?“
Vera, 11. árg., 2. tbl. 1992, s.
Frá ljósi til ljóss
Guðrún Steinþórsdóttir: „eins og ævintýri“ eða „glansmynd af horror“
Ritið, 17. árg., 2. tbl. 2017, s. 117-143
Gauti vinur minn
Edda Kjartansdóttir: „Gauti vinur minn“
Vera, 15. árg., 6. tbl. 1996, s. 42
Kristín Viðarsdóttir: „Inn í drauminn“
Börn og menning, 12. árg., 2. tbl. 1997, s. 19-20
Grandavegur 7
Kristján B. Jónasson: „Lím í sprungurnar“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 3. tbl. 1995, s. 119-123
Ragnhildur Richter: „Grandavegur 7“
Vera, 13. árg., 6. tbl. 1994, s. 31
Sigríður Albertsdóttir: „Töfraraunsæi í íslenskum samtímaskáldsögum“
Tímarit Máls og menningar 2000, 61. árg., 1. tbl. bls. 81-100.
Kaldaljós
Baldur Gunnarsson: „Þegar orð trufla“
Skírnir, 163. árg., 1989, s. 210-220
Guðrún Jónsdóttir: „Kenna má fyrr en klipið er til beins“ : nýjungar í bókmenntakennslu“
Skíma 2003, 26. árg., 1. tbl. bls. 32-3.
Silja Aðalsteinsdóttir: „Einkennilegt hvað allt gerist aftur“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 4. tbl. 1988, s. 496-500
Unnur Úlfarsdóttir: „Kaldaljós“
19. júní, 38. árg., 1988, s. 79
Lendar elskhugans
Álfrún G. Guðrúnardóttir: „Orðin mátturinn orðin mátturinn…“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 2. tbl. 1992, s. 96-99
Halldóra Tómasdóttir: „Lendar elskhugans“
Vera, 11. árg., 1. tbl. 1992, s. 33
Stúlkan í skóginum
Dagný Kristjánsdóttir: „Í skóginum. Um nýja strauma og stefnur í bókmenntafræði“
Dagný Kristjánsdóttir: Undirstraumar : greinar og fyrirlestrar, s. 263-289. Reykjavík : Háskólaútgáfan, 1999
Soffía Auður Birgisdóttir: „Og ég þjónaði hugmynd minni um fullkomleika listar minnar með höndina á kafi í rusli“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 3. tbl. 1993, s. 99-103
Tíu myndir úr lífi þínu
Rannveig Ágústsdóttir: „Sögur um mig og þig“
19. júní, 34. árg., 1984, s. 80
Trúir þú á töfra?
Sigríður Albertsdóttir: „Viska kattarins“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 4. tbl. bls. 140-2.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Leikhús alræðisins“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Z: ástarsaga
Geir Svansson: „Ósegjanleg ást.Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“
Skírnir, 172. árg., haust 1998, s. 476-512
Sigurrós Erlingsdóttir: „Z ástarsaga“
Vera, 15. árg., 6. tbl. 1996, s. 36
Soffía Auður Birgisdóttir: „Þeim var ekki skapað nema skilja“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 2. tbl. 1997, s. 107-111
Þegar stjarna hrapar
Kristín Viðarsdóttir: „Af glæpum“
Bókmenntavefurinn, umsagnir um bækur, sjá hér
Þögnin
Dagný Kristjánsdóttir: „Út úr þögninni“
Ástráður Eysteinsson (ritstj.): Heimur skáldsögunnar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun H.Í., s. 103-117
Ingibjörg Rúnarsdóttir „Hinsegin tónar Tchaikovskys : um tónlist Tchaikovskys og samkynhneigð í Þögninni eftir Vigdísi Grímsdóttur“
Mímir, 46. árg., 2016, s. 67-87
Úlfhildur Dagsdóttir: „Felst vald kvenna í þögn?“
Vera, 19. árg., 5. – 6. tbl., s. 65-66
Myndbönd
Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir: Nærmynd : Vigdís Grímsdóttir rithöfundur
Reykjavík: Ríkisútvarpið, sjónvarp, 1997
Hrefna Haraldsdóttir, Viðar Garðarsson: Skáldatími : Vigdís Grímsdóttir
Reykjavík: Hugsjón, 1998
Brot úr greinum
Úr „Ósegjanleg ást“
Sagan um Z er fyrst og fremst saga um samkynhneigð og þær skorður sem ástarsambandi tveggja kvenna eru settar. Það kemur ekki að sök þó að einblínt sé á ástina, í háleitum skilningi; lesandinn kemst ekki undan „kynvillunni“ í ástarsögunni. Z er umsnúningur á hefðbundnum ástarsögum. Soffía Auður Birgisdóttir bendir á að Vigdís „færi ástir tveggja kvenna í búning [...] eilífra elskenda“ og nefnir sögur Tristans og Ísoldar, Werthers og Lottu, Rómeó og Júlíu; sögur elskenda „sem var ekki skapað nema skilja“. Forboðin og dauðadæmd ást þessara ástarpara er þó ólík ást Z og Önnu að því leyti að hún er ekki forboðin í augum „hins almenna“ lesanda heldur samrýmist hugmyndum hans um Ástina og staðfestir hana. Ástarsaga Z og Önnu gengur þvert gegn þessum hugmyndum og er ætlað að kollvarpa þeim. Dauðinn sem hangir yfir sambandi þeirra er táknmynd fyrir það bann sem þjóðfélagið, hið gagnkynhneigða forræði, leggur á það. (s. 504)
Sjá Geir Svansson: „Ósegjanleg ást: Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi.“
Úr „Orðin mátturinn orðin mátturinn“
Máttur konunnar liggur ekki í heimi dagsins. Þeim heimi tilheyra húsið, börnin, elskhuginn, skyldustörfin og hin daglega lífsbarátta. Það er í heimi næturinnar, hins forboðna, sem sköpunarmátturinn flæðir. Þar eru orðin veidd, konur elskaðar, þar geisla lendarnar stinnu. Konan virkjar þar mátt sinn með erótískum krafti „komdu / finndu blossann / í líkama þeirra / í líkama mínum / blossann sem geymist / í andartakinu / alltaf“. Blossinn tengist frjósemi lendanna – þar á sköpunarmáttur kvennanna upptök sín. Frjósemin er hluti af náttúruhringrásinni og um leið hluti af þeim krafti sem liggur allri sköpun að baki.
Ástin er það afl sem leysir sköpunarmáttinn úr læðingi. Þessi ást sem ákallar, krefst fórna og sjálfsleitar, er ást milli kvenna. Elskhugarnir eru hinsvegar andlitslausir og eru ýmist farnir eða sofandi. Þeir ríkja í heimi dagsins og standa því mjög líklega fyrir afl dauðans – doðann sem heldur sköpuninni niðri.
Sjá: Álfrún G. Guðrúnardóttir: „Orðin mátturinn orðin mátturinn…“
Úr „Og ég þjónaði hugmynd minni um fullkomleika listar minnar með höndina á kafi í rusli.“
Í skáldsögunni Ég heiti Ísbjörg. Ég er ljón sem kom út 1989 kannar Vigdís Grímsdóttir innviði hugtaka á borð við sekt og sakleysi, réttlæti og ábyrgð, orsök og afleiðingu, gott og illt. Sú könnun var beitt og óvægin og reyndist ganga nærri mörgum lesendum sögunnar. Þær spurningar sem leynast á milli lína í bókinni um Ísbjörgu eru flestar siðfræðilegs eðlis settar í félagslegt samhengi, m.ö.o. af texta Vigdísar hljóta meðal annars að spretta hugleiðingar um ábyrgð okkar á náunganum; um ábyrgð samfélagsins á einstaklingum; um forsendur réttlætishugmynda okkar og um uppbyggingu réttarkerfisins. Í skáldsögunni Stúlkan í skóginum sem kom út í fyrra heldur Vigdís Grímsdóttir áfram sinni siðfræðilegu íhugun, en nú snýr hún spjótunum inn, beinir þeim að sjálfri sér – að listamanninum. Þetta gerir hún á hugrakkan og heiðarlegan hátt með beinni sjálfsvísun í textanum. Þær spurningar sem hér svífa yfir síðum varða ábyrgð listamannsins, spyrja um rétt hans og skyldu gagnvart gáfu sinni og viðfangi. Einnig er spurt um gildismat og stöðu listarinnar í samfélagi okkar.
.../...
Ef Vigdís Grímsdóttir er í þessari skáldsögu sinni að benda okkur á brotalamir í gildismati okkar og umgengni við listina, þá er hún ekki síður að benda listamönnum á að týna ekki sál sinni í eftirsókn eftir vindi; að gleyma ekki tilgangi listarinnar sem hlýtur að vera í ætt við að nálgast kjarna tilverunnar án þess að missa sjónar af hinum mannlega þætti. Vigdís varar listamanninn (sjálfa sig) við að fara ekki offari, taka sér ekki (al)vald skaparans – að viðurkenna takmörk sín. Sá sem seilist of hátt má eiga á hættu að falla lágt. Hildur svífst einskis í þágu listarinnar, hún notar manneskjur og hyggur á morð, hún þjónar hugmynd sinni um fullkomleika listar sinnar með höndina á kafi í rusli eins og segir í sögunni (bls. 245).
Sjá Soffía Auður Birgisdóttir: „Og ég þjónaði hugmynd minni um fullkomleika listar minnar með höndina á kafi í rusli“
Verðlaun
2017 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
2012 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Trúir þú á töfra?
2007 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Sagan um Bíbí Ólafsdóttur (sem besta ævisaga ársins)
2001 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Þögnin 1994 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Grandavegur 7
1993 – Davíðspenninn: Stúlkan í skóginum
1992 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1990 – Menningarverðlaun DV: Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón
Tilnefningar
2013 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Dísusaga: konan með gulu töskuna
2013 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Dísusaga: konan með gulu töskuna
2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fræðibækur og bækur almenns efnis): Sagan um Bíbí Ólafsdóttur
1997 – Norrænu barnabókaverðlaunin: Gauti vinur minn
1996 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fagurbókmenntir): Z : ástarsaga
1996 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Grandavegur 7
1994 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Stúlkan í skóginum
Ævintýrið
Lesa meiraÞað liggur reyndar í augum uppi að þegar bestu vinir hittast í fyrsta skipti springa þeir næstum úr hlátri. Þannig er það með vini í vinaljóma sínum.Systa: Bernskunnar vegna
Lesa meiraElsku Drauma mín
Lesa meiraDísusaga: konan með gulu töskuna
Lesa meiraTrúir þú á töfra?
Lesa meiraTrúir þú á töfra?
Lesa meiraDie Geschichte der Bíbí Ólafsdóttir – Biographie – Ein Frauenleben auf Island
Lesa meiraLjóð í Moord liederen
Lesa meiraSagan um Bíbí Ólafsdóttur
Lesa meira